14.12.1963
Neðri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

95. mál, vegalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það hefur komið mjög skýrt fram í þessum umr., að góð samvinna hefur verið um þetta mál í nefndum nú á skömmum tíma, og skal ég því ekki tefja um of umr. nú á þessu stigi málsins. En ég vil hins vegar, að það komi fram, að mér sýnist, að ýmislegt hafi verið bent á hér í ræðu síðasta hv. ræðumanns og eins 1. þm. Reykn., sem gefi tilefni til, að þessi mál þurfi nánar að athuga, sem fjallað hefur verið um og fram kom aðallega í 30., 32. og 34. gr. Nú skal ég hreinlega viðurkenna, að ég hef haft dálítið annan skilning á þessu máli en ég fæ nú við nánari athugun á þessu, sem eingöngu stafar af því, að maður hefur ekki gert sér nógu mikið far um að setja sig nægjanlega inn í málið, og það kann að vera, að á þessu fáist betri skýringar, og kannske, eins og nú er komið, eðlilegast, að málið gangi til 3. umr, og verði þá athugað í nefnd. En það hefur alltaf staðið þannig fyrir mér, að sú breyting, sem nú er gerð með því, að bæjarfélögin fái vissan hluta af vegafénu og sveitarfélögin fengju það, að þetta ætti að vera þeim til mikilla hagsbóta og hagræðis frá því, sem verið hefur, og þannig hefur alltaf verið talað um þetta mál í því, sem ég hef hlustað á. En ég er ekki alveg viss um, að svo sé, ef ekki eru gerðar breytingar á frv. frá því, sem nú er í sambandi við þessar greinar, sem ég vitnaði í áðan. Og það gæti svo farið, að sveitarfélög hefðu hugsanlega, finnst mér, fljótt á litið óhagræði, miðað við það, sem áður hefur verið, af þessum breytingum, en til þess hefur áreiðanlega ekki verið ætlazt af neinum og þetta kann að byggjast á misskilningi af minni hálfu. En um þetta vil ég hafa fyrirvara, án þess að ég vilji frekar fara út í það á þessu stigi málsins eða fara að óska frestunar á þessari 2. umr. málsins, því að það ætti að gefast nægjanlegt tóm, svo mikið samráð sem um þetta mál hefur verið haft, að athuga málið milli umr. eða til 3. umr.

Ég vil svo þakka samgmn. fyrir brtt. í sambandi við 46. gr., sem ég orðaði við nm. og þeir góðfúslega tóku upp, að vegagerðin skyldi aðstoða í sambandi við gerð reiðvega, enda sé kostnaður greiddur af sérstakri fjárveitingu í fjárl.- eða á annan hátt. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 141, þar sem beinlínis er tekið fram: „enda sé kostnaður greiddur af sérstakri fjárveitingu í fjárl., samkv. vegáætlun eða á annan hátt.“ Ég skil það svo, að í þessu felist í raun og veru engin efnisbreyting frá því, sem er í greininni með brtt. frá samgmn., eftir þeim viðræðum, sem ég hef átt við nm., en hins vegar held ég, að það sé nauðsynlegt að taka þetta sérstaklega fram vegna þeirrar framkvæmdar, sem nú verður á þessum málum, að vegáætlun á að koma fyrir þingið síðar, og ef reiðvegir ættu að fá eitthvert framlag, eins og nú horfir á þessu ári, þá yrði það að koma einmitt inn í þessa vegáætlun. Ég veit, að nm. hafa álitið, að það gæti rúmazt í orðalaginu án þessarar breytingar, en þetta er aðeins til að kveða skýrar á um, og ég veit, að það muni ekki vera neinn ágreiningur um það.

Ég skal ekki lengja tímann, eins og nú er, með því að ræða frekar um þetta og geri ráð fyrir, að um það sé enginn ágreiningur. Þetta er líka sáralítið fjárhagsatriði miðað við þær miklu upphæðir, sem hér er um að ræða. Ég veit, að mönnum er ljóst, hversu mikilvægt málið hins vegar er nú að verða í kaupstöðum og kauptúnum landsins og reyndar víðar.