12.05.1964
Neðri deild: 97. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

229. mál, lán fyrir Flugfélag Íslands til flugvélakaupa

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Flugfélag Íslands hefur farið þess á leit, að ríkisstj. veiti ábyrgð allt að 80% af kaupverði flugvélar með fylgifé, sem Flugfélagið hugsar sér að kaupa. Er helzt rætt um gerðina, Fokker Friendship, og gert ráð fyrir, að hún kosti með fylgihlutum allt að 40 millj. kr. 80% af þeirri upphæð eru um 32 millj. kr., og er farið fram á það með frv. þessu, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir þeirri upphæð, en fái 1. veðrétt í vélinni og fylgifé og að öðru leyti þær tryggingar, sem ríkisstj. metur gildar.

Forstjóri Flugfélags Íslands telur nauðsynlegt, að þessi ábyrgð verði veitt, áður en þessu þingi slítur, og vil ég því mælast til þess við hæstv. forseta, að hann greiði fyrir þessu máli hér í hv. deild, ef það nýtur stuðnings hv. dm.

Ég vil leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr., og ef það fer í n., þá er það vitanlega hv. fjhn., en ég vildi nú mælast til þess, að það verði látið ganga áfram án þess að fara til nefndar.