11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Senn líður að þingslitum. Alþ. hefur setið að störfum í fulla 7 mánuði. Þingstörfin hafa einkennzt af aðgerðaleysi og óvissu, og ég hygg, að fá eða engin dæmi séu um það, að gangur þingmála hafi orðið með slíkum hætti og á þessum vetri. Þingmál, sem lögð voru fram í byrjun þings, í októbermánuði s.l., eru sum ekki komin til nefndar enn þá. Mörg dæmi eru þess, að mál hafi legið 5–6 mán. í n. án afgreiðslu og að mál hafi ekki komizt til 1. umr. fyrr en 3–4 mán. eftir að þau voru lögð fram á þingi.

Þingstörfin fyrir áramót einkenndust að mestu af ástandinu í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Svo að segja allir kaupgjaldssamningar verkalýðsfélaga gengu úr gildi um miðjan október. Ríkisstj. vissi ekki sitt rjúkandi ráð og bað um frest á frest ofan. Síðan flutti hún sitt fræga þvingunarlagafrv. og ætlaði að binda allt kaup með lögum. Á því máli heyktist stj. að lokum og tók upp samninga við verkalýðsfélögin að nýju. Þingstörfin eftir áramót hafa síðan einkennzt af því, að ríkisstj. hefur verið önnum kafin við þá iðju að koma fram verðhækkunum á öllum mögulegum sviðum til þess að ná til baka þeim kjarabótum, sem samið var um í desembermánuði. Engu hefur verið líkara en ríkisstj. væri í kapphlaupi við tímann um að verða örugglega búin að koma fram svo miklum verðhækkunum, áður en kaupsamningarnir renna út í sumar, að dýrtíðin væri búin að eyða allri kauphækkuninni frá í desember. Þetta hefur ríkisstj. tekizt, eins og allir vita.

Sú var tíðin, að núv. hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, átti ekki nógu stór orð um seinagang og aðgerðaleysi á Alþ. Það var á fyrsta þingi vinstri stj., þegar 3 flokkar allósamstæðir í mörgum málum voru að mynda stefnu sína. En nú, þegar Sjálfstfl, og Alþfl. hafa staðið saman um ríkisstj. í samfleytt 5 ár og Alþ. er þó haldið hálfaðgerðarlausu í 7 mán., en ríkisstj. undir forsæti Bjarna Benediktssonar hrökklast stjórnlaust undan vandamálunum, þá heyrist ekki mikið frá honum um seinagang mála á Alþ. og úrræðaleysi ríkisstj.

Á dögum vinstri stj. hneykslaðist Bjarni Benediktsson mjög á því, að ríkisstj. skyldi leyfa sér að ræða við utanþingsaðila um lausn efnahagsmálenna. En hvað er að gerast nú þessa dagana? Hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, skyldi þó ekki vera að ræða við utanþingsaðila um lausn efnahagsmála? Hann, sem lýst hafði því yfir, að viðreisnarstj. mundi ekki skipta sér af kaupgjaldssamningum, slík mál væru úrlausnarefni atvinnurekenda og launafólks, hann skyldi þó ekki vera að tala um kaupgjaldssamninga við verkalýðsfélögin? Og það skyldi þó ekki vera, að sá sami Bjarni Benediktsson, sem lýsti því yfir í upphafi viðreisnarinnar, að vísitölugreiðslur á kaupgjald væru stórhættulegar fyrir efnahagskerfið, sé nú að ræða um samninga við utanþingsaðila um að taka á ný upp vísitölutryggingu á kaupi? Reynslan beygir stundum hinar þrjózkustu sálir og kennir þeim að taka tillit til staðreynda.

Viðreisnarstefna núv. ríkisstj. hefur verið reynd í rúm 4 ár. Fullur reynslutími er því fenginn á þessari efnahagsmálastefnu. Viðreisnin skilur eftir sig glögg spor víða í þjóðlífinu. Lítum á nokkur dæmi.

Skattheimta ríkisins hefur tekið stórkostlegum breytingum. Árið 1958 voru heildartekjur ríkissjóðs um 914 millj. kr. Á þessu ári verða heildartekjur ríkissjóðs skv. áætlun um 3000 millj. kr. eða hafa hækkað á þessum tíma um 2000 millj., um 2 milljarða króna. Hér er engin smábreyting á ferðinni. Árið 1958 námu allir tollar og söluskattar ríkisins um 550 millj. kr. Nú verður hliðstæð innheimta um 2100 millj. kr. Þannig hafa tollar og söluskattar á almennum varningi margfaldazt. Á þessum árum hafa tollar á lúxusvörum verið lækkaðir, en hins vegar hafa tollar og söluskattar stóraukizt á daglegum lífsnauðsynjum. Beinn tekjuskattur félaga, sem hafa með höndum verzlun eða atvinnurekstur, hefur verið lækkaður, sömuleiðis skattar á hæstu tekjum. En tekjuskattur á miðlungstekjum hefur hækkað með hækkandi verðlagi.

Vísitala vöru og þjónustu hefur á 4 viðreisnarárum hækkað um 84%, og þó eiga enn eftir að koma inn í vísitöluna 9 vísitölustig vegna verðhækkana og skattahækkana, sem orðnar eru. Þegar sú hækkun vísitölu verður komin fram, hefur meðaltalshækkun á öllum vörum og. þjónustu hækkað í tíð viðreisnarstj. um 93%. Það þarf langt að leita til þess að finna hliðstæða dýrtíðarhækkun í nokkru landi. Vísitala matvöru hefur þó hækkað enn þá meira en meðalhækkun vöruverðs, og sýnir það út af fyrir sig, að hverju ríkisstj. hefur stefnt.

Spor viðreisnarinnar í húsaæðismálum sýna ekki síður glögga mynd af stefnu þeirra viðreisnarmanna. Fyrstu ár viðreisnarinnar drógust íbúðabyggingar verulega saman. Húsnæðisvandræði hafa því aukizt og braskarar hækkað íbúðaverðið til viðbótar við sífellt hækkandi byggingarkostnað. Meðalstór íbúð, um 350 m2, hefur hækkað í verði, frá því að viðreisnin hófst, um 238 þús. kr., miðað við byggingarvísitölu hagstofunnar. Hækkun byggingarkostnaðarins er því miklu meiri en sem nemur hámarkslánum húsnæðismálastjórnar. Þannig er viðreisnin í húsnæðismálunum.

Viðreisnarstj. boðaði verzlunarfrelsi. Það hefur komið fram í því, að fjöldamargar vörutegundir, sem áður voru háðar verðlagsákvæðum, hafa nú verið undanþegnar slíkum ákvæðum og álagning á þær gefin frjáls. Og álagningin hefur að sjálfsögðu stórhækkað. Áhrif verzlunarfrelsisins birtast svo í verzlunarstórhýsunum, sem sprottið hafa upp við Laugaveginn í Reykjavík og á ýmsum öðrum stöðum.

Í peningamálum hefur viðreisnarstefnan skapað lánsfjárkreppu með innilokun sparifjár í Seðlabankanum og sívaxandi verðbólgu. Hún hefur sveigt fjármagn bankakerfisins í vaxandi mæli til verzlunarinnar, en frá sjávarútvegi og landbúnaði. Skýrslur Seðlabankans sýna, að á s.l. 4 árum hefur útlánaaukning bankakerfisins orðið til sjávarútvegs og landbúnaðar samanlagt um 338.4 millj. kr., en á sama tíma varð útlánaaukningin til verzlunarinnar um 587.9 millj. kr.

Spor viðreisnarinnar segja víða til sín. Þau eru flest í sömu átt. Þau bera vitni um ákveðna stefnu, stefnu, sem miðar að því að auka frjálsræði og gróðamöguleika milliliða og hinna efnameiri í þjóðfélaginu, en færa byrðarnar í auknum mæli yfir á herðar almennings. Og nú eftir 4 ára viðreisn er svo komið, að ríkisstj. stynur undan aðsteðjandi erfiðleikum í efnahagsmálum landsins, eins og það er orðað.

Enn er talað um efnahagsvandamál, um erfiðleika og hættur í efnahagsmálunum, og ríkisstj. verður jafnvel að útvega sér lagaheimild til að fresta nauðsynlegustu framkvæmdum ríkisins vegna hins alvarlega ástands í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hvaða erfiðleikar eru þetta? Hver er þessi mikli vandi eftir alla viðreisnina? Hefur árferðið undanfarin ár ekki verið með ágætum? Hefur þjóðarframleiðslan ekki stóraukizt? Er það ekki staðreynd, að framleiðsla landbúnaðarins hefur farið stórum vaxandi á ári hverju nú um skeið þrátt fyrir fækkun þeirra, sem að landbúnaði starfa? Hefur iðnaðurinn ekki skilað árlegri framleiðsluaukningu? Og hefur sjávaraflinn ekki orðið meiri en nokkru sinni fyrr? árið 1961 varð metafli við sjóinn. Aflinn óx um 23.6% frá árinu áður. Árið 1962 óx sjávaraflinn enn um 21%„. Í dag er lokadagur vetrarvertíðar, 11. maí. Nú er að ljúka einni fengsælustu vertíð, sem menn muna. Öll eldri aflamet hafa verið slegin, og þá má fyllilega búast við, að þessi nýju met standi ekki nema þetta ár. Og það er ekki aðeins framleiðslan, sem hefur aukizt. Markaðir fyrir útfluttar vörur hafa verið góðir, og útflutningsverðið hefur hækkað á hverju ári síðan 1960. Þjóðartekjurnar hafa sem sagt vaxið stórlega. Hvað er eiginlega að í okkar efnahagsmálum? Hvers vegna er ríkisstj. í þessum mikla vanda? Hvers vegna er viðreisnarstefnan komin í mát? Hjá öðrum þjóðum eru efnahagsvandamál tengd við stöðnun í framleiðslu eða minnkandi framleiðslu. Þar veldur illt árferði erfiðleikum, t.d. uppskerubrestur af völdum óhagstæðrar baráttu. Sums staðar hafa markaðir brugðizt eða verðlag á útflutningsvörum fallið. Hér snýr þetta allt þveröfugt við. Hér virðist árferðið vera of gott, markaðir of góðir og þó sérstaklega framleiðslan allt of mikil. Okkar efnahagskerfi virðist blátt áfram ekkí þola þetta meðlæti.

En í hverju eru okkar efnahagserfiðleikar þá fólgnir? Þeir eru fólgnir í deilu um skiptingu þjóðarteknanna. Viðreisnarstjórnin hefur í full 4 ár stritazt við að minnka hlut launastéttanna í þjóðartekjunum þrátt fyrir vaxandi framleiðslu. Núv. stjórnarfl. hófu þennan leik strax í ársbyrjun 1959. Þá lækkuðu þeir allt umsamið kaup með lögum. Síðan skelltu þeir á gengislækkuninni miklu í febrúar 1960. Fram á mitt árið 1961 eða í 21/2 ár tókst stjórnarflokkunum aðallega með hækkandi verðlagi að lækka kaupmátt launa um 23%. Þegar verkalýðshreyfingin knúði fram 11–12% kauphækkun í júnímánuði 1961 til þess að vega nokkuð upp á móti verðhækkunarstefnu ríkisstj., þá brá viðreisnarstjórnin hart við og lækkaði gengi krónunnar enn á ný og skellti yfir landsmenn nýju dýrtíðarfióði. Síðan hafa launþegasamtökin nokkrum sínum reynt að rétta hlut sinn með kauphækkunum, en ríkisstj. hefur jafnan verið snör í snúningum í slíkum tilfellum og séð um, að verðlagið hækkaði alltaf nokkru meira en kauphækkunum nam. Þannig hefur viðreisnarstj. tekizt á s.l. 4 árum með tveimur gengislækkunum, með vaxtahækkun, með stórhækkun söluskatts, með álagningarhækkunum og ýmsum nýjum álögum að hækka vöruverð og þjónustu í landinu skv. vísitölu um 93%, á sama tíma sem almennt kaupgjald verkamanna hefur aðeins hækkað urra 55%. Það er þetta verðhækkunarstríð ríkisstj., sem skapað hefur þann vanda, sem við er að glíma í dag í efnahagsmálum þjóðarinnar. Sú ríkisstj., sem fyrir 4 árum ætlaði að bjarga efnahagsmálum þjóðarinnar með gengislækkunum, talar nú um, að forða verði þjóðinni framvegis frá slíkum bjargráðum. Sú stjórn, sem fyrir 4 árum neitaði með hroka öllu samstarfi við launþega landsins, verður nú að taka upp samninga við þá. Sú stjórn sem ætlaði að breyta tekjuskiptingunni í landinu með banni á vísitölugreiðslu á kaup og sífelldum verðhækkunum síðan, stendur nú ráðþrota frammi fyrir sinni eigin dýrtíðar- og verðbólgustefnu. Dýrtíðin á Íslandi er ekkert óskiljanlegt undur. Hún hefur orðið til samkv. ákvörðun ríkisstj. sjálfrar og sérfræðinga hennar í efnahagsmálum. Dýrtíðinni hefur verið beitt af ríkisstj. sem vopni í deilunni um skiptingu þjóðarteknanna. Og nú er þetta vopn að snúast í hendi ríkisstj. og verður líklega hennar banabiti.

Dæmið um það, sem gerðist í þessum málum í vetur, eftir að samið hafði verið um 15% launahækkun verkafólki til handa, sýnir ljóslega, hvernig ríkisstj. hefur beitt dýrtíðarvopninu. Fyrsta verk ríkisstj. eftir áramótin var að leggja á nýjan söluskatt, sem áætlað er að nemi um 360 millj. kr. á ári. Um þennan söluskatt sagði forsrh., Bjarni Benediktsson, að nauðsynlegt væri að leyfa afleiðingum kauphækkunarinnar að koma sem skýrast fram, svo að almenningur lærði af reynslunni, hvað kauphækkanirnar þýddu. Tilgangurinn með skattinum var augljós. Söluskatturinn hlaut að leiða af sér almenna verðlagshækkun, því að hann var lagður jafnt á brýnustu lífsnauðsynjar sem óþarfavarning. Aðeins hluti af þessum söluskatti átti að renna til útflutningsatvinnuveganna, en mikill hluti hans átti að fara í greiðslur, sem ríkissjóður hafði áður borið. Engin þörf var að leggja á þennan skatt, þar sem afkoma ríkissjóðs var mjög hagstæð. Næst á eftir söluskattinum ákvað svo ríkisstj. að leyfa almenna, stórfellda hækkun á verzlunarálagningu. Sú álagningarhækkun nam 4–14% verðlagshækkunum og mun sennilega valda um 600–700 millj. kr. verðhækkun, þegar öll kurl eru komin til grafar. Þetta gerði ríkisstj., eftir að hún hafði gefið öll flutningsgjöld skinafélaga frjáls og þar með heimilað stórfellda hækkun á frögtum. Síðan dundu yfir hvers konar verðhækkanir, á rafmagni, hita, fargjöldum, sjúkrasamlagsgjöldum, o.fl. Afleiðingarnar létu ekki standa á sér. Vísitala vöru og þjónustu var 166 stig í desembermánuði, áður en kaupið er hækkað um 15%. En nú er sama vísitala 184 stig og hefur hækkað um 18 stig, og upplýst er, að 9 stig eigi enn eftir að koma fram, og nemur þá hækkun vísitölunnar, þegar allt er fram komið, 27 stigum. Þannig virðist ríkisstj. munu ná settu marki um það að hafa komið fram meiri hækkun verðlags en sem nemur 15% kauphækkuninni og það áður en næstu samningar verða gerðir. Ríkisstj. og málgögn hennar hafa svo margsinnis tekið það fram, að þegar allar verðhækkanirnar væru komnar fram, þegar, eins og Morgunblaðið og Vísir hafa orðað það, búið væri að fara hringinn, þá væri fyrst kominn tími til að semja um stöðvun á öllum kauphækkunum. Þannig hefur dýrtíðin verið notuð sem vopn gegn launþegum landsins.

Viðreisnarstefnan hefur engan þátt átt í hinu hagstæða framleiðsluárferði. Hún hefur þvert á móti verið andstæð framleiðsluatvinnuvegunum. Höfundar viðreisnarinnar hafa beinlínis sett upp hundshaus gegn vaxandi framleiðslu og talað um, að vaxandi framleiðsla raskaði jafnvæginu í efnahagsmálunum. Höfundar viðreisnarinnar voru ekki sérlega hrifnir, þegar grundvöllurinn var lagður í tíð vinstri stjórnarinnar að stóraukinni framleiðslu sjávarútvegsins. Þá voru fyrstu stálfiskibátarnir keyptir frá Noregi og fiskibátaflotinn færður upp á hærra framleiðslustig. Þá voru gerðar fyrstu umtalsverðu tilraunirnar til þess að veiða Suðurlandssíldina í hringnót með kraftblökk. Hinum nýju og stækkuðu fiskiskipum tóku viðreisnarforkólfarnir þannig, að þeir sáu ekki annað en hækkandi erlendar skuldir, sem stöfuðu af öllum þessum bátakaupum, og þeir töluðu um, að allar þessar skuldir stefndu afkomu þjóðarinnar í beinan voða. Og til þess að kóróna víðsýni sína og trú á íslenzkum sjávarútvegi létu þeir viðreisnarmenn Davíð Ólafsson fiskimálastjóra og nokkra aðra íhaldsþm. flytja till. á Alþingi um það, að hinir nýkeyptu 150–250 rúml. fiskibátar yrðu sendir á tilraunaveiðar suður til Afríkustranda, þar sem fyrirsjáanlegt væri, að þessi dýru skip gætu ekki borið sig á veiðum hér við land, eins og það hét í grg. Þetta er ekki gamansaga. Þetta er heilagur sannleikur. Till. um þetta efni fluttu þessir viðreisnarþm. á Alþingi Íslendinga.

Grundvöllurinn að hinum nýja og stækkaða fiskibátaflota lagði vinstri stjórnin. Hinar miklu veiðar árin 1961 og 1962 brutu síðan niður allar hömlur viðreisnarinnar og ruddu brautina fyrir áframhaldandi stækkun bátaflotans. Og hvernig var með stækkun landhelginnar 1958, hið þýðingarmesta spor, sem stigið hefur verið til aukningar í sjávarútvegi landsins? Hvar stóðu þeir viðreisnarmenn þá? Foringjar Sjálfstfl. voru á móti stækkuninni. Núv. formaður Sjálfstfl., hæstv. forsrh. Bjarni Benediktsson, beitti öllu afli sínu til þess að koma í veg fyrir útfærsluna 1958. Hann lagði til í blaði sínu, Morgunblaðinu, nokkrum dögum áður en stækkun átti að taka gildi, að horfið yrði frá útfærslunni og samningar teknir upp við NATO um málið, þó að fyrir lægi, að NATO vildi einungis semja um réttindi Vestur-Evrópulanda til áframhaldandi fiskveiða í íslenzkri landhelgi. Og allir muna, að Alþfl.-ráðh. voru nauðugir dregnir með, þegar stækkunin var gerð. Og svo ætla þeir menn, sem nauðugir voru dregnir með eða stóðu eins og staðir hestar, þegar stækkunin fór fram, að telja Íslendingum trú um, að það hafi verið þeir, sem leystu landhelgismálið. Svo langt ganga þessir menn, að þeir ætla sér þá dul að telja landsmánnum trú um, að það hafi verið, þegar þeir gerðu undansláttarsamninginn við Breta og heimiluðu þeim veiðar í íslenzkri fiskveiðilandhelgi í 3 ár og sömdu jafnframt um það, að Íslendingar mættu aldrei framar breyta fiskveiðilandhelgi sinni nema með leyfi Breta eða erlends dómstóls, — að það hafi verið þá, sem Íslendingar unnu sigur í landhelgismálinu. Sigur Íslands í landhelgismálinu var fólginn í stækkun landhelginnar, en ekki í undanþágum eða frambúðar réttindaafsali. Það er 12 mílna landhelgin frá 1958, frá vinstristjórnartímabilinu, sem nú í dag er einn megingrundvöllurinn undir vaxandi fiskveiðum og stórvaxandi þjóðarframleiðslu.

Það breytir engu um þessar staðreyndir, þó að Davíð Ólafsson hafi verið sendur í seinustu útvarpsumr. til þess að flytja þann boðskap, að ég hafi í rauninni aldrei kært mig um stækkun landhelginnar, heldur hafi aðeins vakað fyrir mér að ná mér niðri á NATO? Þennan boðskap, sem reyndar er sá sami, sem Bjarni Benediktsson hefur endurtekið nokkrum sinnum í Morgunblaðinu að undanförnu, er svo reynt að gera sennilegri með því að vitna í amerískan blaðasnáp, sem á hafa talað við mig í Genf 1960 og gefið hefur út bók um landhelgismálið. Bók þessa Ameríkumanns er furðuleg á marga vegu. Meginefni bókarinnar á að sýna það, að almenningur á Íslandi hafi ekkert kært sig um stækkun landhelginnar, heldur hafi stækkunin einvörðungu verið sprottin af áhuga pólitíkusa. Fullyrðing þessa Ameríkumanns um viðtalið við mig er álíka mikill sannleikur og þessi kenning um áhugaleysi almennings fyrir stækkun landhelginnar. Svo ómerkileg eru ummæli þessa Ameríkumanns, sem þeir Bjarni Benediktsson og Davíð Ólafsson reyna að nota til árása á mig, að í annarri setningunni, sem hann hefur eftir mér, segir hann, að ég hafi miðað till. mínar um stækkun landhelginnar við það að skaða NATO, en í hinni segir hann, að Alþb. hafi ekki lagt til 12 mílur til þess að skaða NATO, en það hafi glatt Alþb., að stækkunin skyldi leiða slíkt af sér. Þeir Bjarni Benediktsson og Davíð Ólafsson vita vel, að ég átti á sínum tíma viðtöl við tugi erlendra blaðamanna og útvarpsmanna um landhelgismálið. Þeir vita líka vel, m.a. vegna þess að mörg þeirra viðtala birtust einnig í Morgunblaðinu, að ég taldi alltaf fjarstæðu að blanda saman nauðsynlegri stækkun íslenzku fiskveiðilandhelginnar og afstöðunni til NATO. Þetta kemur líka fram í bók þessa Ameríkumanns. Fyrir mér og okkur Alþb.-mönnum var stækkun landhelginnar aðalatriði þessa máls. Við trúðum á framtíðarmöguleika íslenzkra fiskveiða, ef fiskimiðin yrðu okkar einna. Við trúðum á tækni og framfarir og á það, að fiskimiðin við landið væru dýrmætustu efnahagsfjársjóðir þjóðarinnar.

Sjónarmið þeirra viðreisnarmanna hefur verið algerlega andstætt sjónarmiðum okkar. Þeir hafa gefið upp trúna á okkar aðalatvinnuvegi. Ég skal nefna hér dæmi úr ummælum þriggja forustumanna viðreisnarinnar, sem sanna þetta.

Í ræðu, sem Jónas Haralz flutti á ráðstefnu verkfræðinga, komst hann m.a. þannig að orði, orðrétt: „Vegna þeirra aðstæðna, sem ég hef hér nefnt, má ekki gera ráð fyrir, að framleiðsla sjávarútvegsins, fiskveiða og fiskvinnslu, aukist samanlagt meira en 4.5% árlega að meðaltali á næstu árum.“ Um landbúnaðinn sagði Jónas: „Í allra hæsta lagi má gera ráð fyrir, að landbúnaðarframleiðslan aukist á næstu árum um 3% árlega.“ Og ályktunarorð Jónasar Haralz voru síðan þessi orðrétt: „Ég hef reynt að sýna fram á, að þær atvinnugreinar, sem hingað til hafa verið meginstoðir þjóðarbúskaparins, landbúnaður, sjávarútvegur og framleiðsla iðnaðarvöru fyrir innlendan markað, veiti ekki á næstu árum nægilegt svigrúm til þess vaxtar þjóðarframleiðslu, sem æskilegur er. Til þess að sá vöxtur geti átt sér stað, verður að fara nýjar leiðir.“

Jóhannes Nordal bankastjóri sagði í viðtali við blaðið Börsen í Kaupmannahöfn 23. marz 1962 um ráðgerðar stóriðjuframkvæmdir Íslendinga: „Ein aðalástæðan fyrir þessum ráðagerðum er sú, að íslenzkur sjávarútvegur er ekki talinn geta aukið útflutningstekjur sínar nema um 5% í hæsta lagi á ári næstu ár, og slik tekjuaukning hjá aðalatvinnuvegi landsmanna nægir ekki til að tryggja með góðu móti bætt lífskjör og velmegun í landinu. Íslendingar verða því að leita annarra möguleika til að auka útflutningstekjur sínar.“

Og nú á þessu ári sagði Bjarni Benediktsson forsrh. við setningu þings ungra sjálfstæðismanna samkv. frásögn stjórnarblaðsins Vísis, orðrétt tekið upp: „Með stóriðju skapast traust og festa í efnahagslífinu. Ráðh. kvaðst efast um, að nokkurt annað sjálfstætt ríki byggi velgengi sína á jafnótraustum grundvelli og fiski, sem syndir um hafdjúpin.“

Þessi og önnur ummæli viðreisnarmanna sýna vel ótrú þeirra á sjávarútvegi og landbúnaði og uppgjöf þeirra á að fást við efnahagsvandamálin á raunhæfum grundvelli. Þeir vilja flýja á náðir þess, sem þeir þekkja ekki, og helzt af öllu fá útlendingum í hendur atvinnulíf landsins.

Auðvitað þarf ekki að taka það fram, að útreikningar þeirra Jónasar Haralz og Jóhannesar Nordals um framleiðslumöguleika sjávarútvegs og landbúnaðar hafa gersamlega hrunið til grunna fyrir staðreyndum reynslunnar. Á fyrsta ári, eftir að útreikningarnir voru gerðir um 4.5%–5% hámarksaukningu sjávaraflans, jókst aflinn um 23.6% og á næsta ári á eftir um 21%, og auk þessa hækkaði svo útflutningsverð vörunnar; og enn eykst aflinn og verðmæti hans.

Vandamál íslenzkra efnahagsmála er ekki fólgið í því, að atvinnuvegir okkar séu úreltir eða ófullnægjandi. Þau eru ekki fólgin í því, að þjóðartekjur okkar á mann séu lágar. Þvert á móti munu þjóðartekjur okkar á hvert höfuð vera með þeim hæstu í Evrópu. Vandamál okkar efnahagsmála er að rekja til rangrar efnahagsmálastefnu, til stefnu, sem óhjákvæmilega leiðir af sér innanlandsdýrtíð og síðan verkföll og framleiðslustöðvanir. Ríkisstj. landsins verður að hætta hernaði sínum á hendur vinnandi fólki í landinu. Það þarf að taka upp nýja stefnu í efnahagsmálum. Það, sem nú þarf að gera og mest er aðkallandi, er þetta: 1) Gera þarf samkomulag við launastéttirnar um réttlátar kjarabætur vegna dýrtíðarinnar, kjarabætur, sem fá að standa án nýrra verðhækkana. 2) Semja á um verðtryggingu á kaupi og kauphækkun í áföngum og tryggja þannig kaupgjaldssamninga til lengri tíma, helzt ekki minna en tveggja ára. 3) Reynt sé að ná samkomulagi milli ríkisvalds, atvinnurekenda og launþega um stöðvun verðbólgunnar. 4) Samið verði um framkvæmd á styttingu vinnudagsins með óskertu kaupi. 5) Tekin verði upp heildarstjórn á þjóðarbúskapnum í stað stjórnleysis, sem nú ríkir á fjárfestingu, á innflutningi og á útflutningi. 6) Ráðstafanir séu gerðar til lækkunar vöruverðs og þjónustu, m.a. með lækkun tolla og afnámi söluskatts á nauðsynlegustu vörum. Jafnframt verði tekið upp öflugt verðlagseftirlit í stað þess, sem lagt hefur verið niður að mestu. 7) Gert verði stórátak í húsnæðismálum almennings með lækkun vaxta á íbúðarlánum, lengingu lánstíma, stuðningi við byggingar á félagslegum grundvelli og verulegri fjáröflun til húsnæðismálalána. 8) Gerðar verði ráðstafanir til stuðnings atvinnuveganum, til þess m.a. að gera þeim kleift að standa undir óhjákvæmilegum kauphækkunum. Þannig verði vextir lækkaðir, stofnlánakjör bætt, útflutningsgjald lækkað og dregið úr milliliðakostnaði, með því m.a., að ríkið taki í sínar hendur vátryggingarstarfsemi og olíuverzlun. Í landbúnaðarmálum verði gert stórátak af hálfu ríkisins til þess að leysa vandamál smábúanna með óafturkræfu fjárframlagi. Jafnframt verði skipulega unnið að auknum félagsbúskap með hærri stofnlánum og styrkjum til slíks búrekstrar. 9) Lögð verði megináherzla á að treysta sem bezt aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg, landbúnað og iðnað, og þess jafnan gætt, að atvinnutæki landsins séu í eigu landsmanna einna.

Um þessi atriði þarf að skapast víðtæk samstaða, — samstaða, sem grundvölluð er á samstarfi við launastéttirnar, burðarásinn í íslenzku þjóðfélagi.