11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Í sambandi við gagnrýni stjórnarandstöðunnar og ýmsar fullyrðingar hennar um ástand efnahagsmálanna held ég, að hyggilegt sé að staldra aðeins við og skoða þessi mál öll í ljósi þeirrar þróunar, sem hér hefur átt sér stað að undanförnu.

Ef litið er til baka, getur engum dulizt, að uppbyggingin hér á landi hefur verið miklum mun örari á undanförnum árum en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar og sennilega örari en svo, að hjá verðhækkunum og verðbólgu hefði verið komizt, hvaða hagskipulag sem hér hefði verið, því að allir þekkja afleiðingar þess, þegar það ástand skapast, að meiri eftirspurn er eftir vinnuafli en framboð. Verður að viðurkenna, að verðbólgan hefur náð meiri tökum á þjóðfélaginu en hollt er, og er brýnasta verkefnið, hvað sem ágreiningi manna líður, að snúast gegn henni. Má segja, að eftirtektarvert sé, hvað áunnizt hefur þrátt fyrir verðh3ekkanirnar.

Á tæpum 20 árum, eða síðan heimsstyrjöldinni lauk, síðan árið 1945, hafa Íslendingar endurbyggt og endurskipulagt atvinnuháttu sina og þjóðfélagið í heild. Fiskifloti landsmanna hefur verið endurnýjaður tvisvar eða jafnvel þrisvar á þessum árum. Fiskiðjuver og fiskvinnslustöðvar hafa risið af grunni allt umhverfis landið. Verzlunarfloti landsmanna hefur verið stóraukinn og endurnýjaður, og sigla nú skip undir íslenzkum fána um öll nálæg og reyndar einnig fjarlæg höf. Þá hafa landsmenn eignazt flugflota, sem fer stækkandi ár frá ári, og fullnægir hann ekki einasta þörfum okkar sjálfra, heldur byggir hann í æ ríkari mæli afkomu sína á flutningi erlendra manna landa og heimsálfa á milli. Er flugfloti íslendinga ekki síður en verzlunarflotinn góð og ómetanleg landkynning fyrir okkar litlu þjóð. Í landbúnaði okkar hefur einnig orðið gjörbylting. Þar hefur vélvæðingin haldið innreið sína ekki síður en við sjávarsíðuna og árangurinn orðið sá, að framleiðsla landbúnaðarafurða hefur aukizt ár frá ári þrátt fyrir fækkun fólks í sveitum landsins. Í húsnæðismálum hafa Íslendingar gert stórátak ekki síður en á öðrum sviðum, og stöndum við í dag síður en svo að baki nágrannaþjóðum okkar, bæði hvað húsnæði og allan búnað heimila snertir. Margt fleiri mætti benda á í sambandi við framþróunina hér á landi síðustu tvo áratugina, bæði rafvæðingu landsins, byggingu íþróttamannvirkja og skólahúsa. En ég læt hér staðar numið, en vil þó benda á, að þrátt fyrir allt það gífurlega fjármagn, sem til þessarar margþættu uppbyggingar hefur farið, hafa Íslendingar aldrei á þessu tímabili, fyrr en nú hin síðustu ár, átt gildan varasjóð í erlendum gjaldeyri.

Þegar á allt þetta er litið, verða margendurteknar staðhæfingar stjórnarandstöðunnar um, að allt sé að fara forgörðum hér á landi, harla fávísleg og óraunhæf rök. Þjóð, sem býr við góð og fengsæl fiskimið, á nýtízku atvinnutæki meira en hún með góðu móti hefur mannafla til að fullnýta og hefur enn ekki numið nema lítinn hluta af því vel ræktanlega landi, sem hún ræður yfir, þarf að mínum dómi engu að kvíða um framtíð sína. Sama má einnig segja um fullyrðingar stjórnarandstöðunnar um, að allar verðhækkanir séu núverandi ríkisstj. og stjórnarflokkum að kenna. Einnig það eru fávísleg og haldlaus rök, eða muna ekki kommúnistar og Framsókn, hvað varð vinstri stjórninni að falli í árslok 1958? Forsrh. þeirrar stjórnar, hv. 1. þm. Vestf., Hermann Jónasson, lýsti því yfir hér á Alþingi, eins og kunnugt er, að svo mikil verðbólga, óðaverðbólga, eins og hann orðaði það, væri skollin á, að stjórn hans sæi enga leið út úr þeim ógöngum og því bæðist hún lausnar. Það er því furðulegt, þegar stjórnarandstaðan er nú a? ofan í æ að staðhæfa það, að allar verðhækkanir, sem orðið hafa, séu núv. ríkisstj. að kenna. Má segja, að tal framsóknarmanna um móðuharðindi af manna völdum sé eins raunhæf skopmynd af Framsfl. í stjórnarandstöðu og móðuharðindin voru mikill vágestur á sínum tíma.

Fyrst ég er farinn að tala um gagnrýni stjórnarandstöðunnar, tel ég rétt að ræða af: stöðu hennar til eins máls, en það er lausn landhelgisdeilunnar við Breta, sem hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, var að ræða hér áðan. Kommúnistar og Framsókn hafa mjög haldið því á lofti, að þeir hafi átt hlut að máli, er landhelgin var færð út í 12 mílur sumarið 1958, og dettur að sjálfsögðu engum í hug að vefengja það. En kommúnistum tókst með stuðningi Framsfl. að halda svo á þessu máli, að þegar vinstri stjórnin lét af völdum í árslok 1958, 4 mánuðum eftir útfærslu landhelginnar, þá veiddu Bretar enn við strendur Íslands allt inn að 3 mílunum gömlu og jafnvel allt upp í landsteina, án þess að Íslendingar fengju nokkuð við það ráðið þrátt fyrir vasklega framgöngu landhelgisgæzlunnar. Hefði ekkert verið að gert, hefði án efa stórslys af hlotizt og við stæðum sennilega enn í dag í sömu sporunum og við stóðum í við árslok 1958. En kommúnistar voru kampagleiðir og sigri hrósandi. Þeir höfðu náð tilætluðum árangri. Fyrir þeim vakti fyrst og fremst að halda þannig á málum, að Íslendingar og Bretar lentu í harðvítugri deilu, og þóttust þeir þá þegar sjá hilla undir, að íslendingar mundu neyðast til að biðja Bandaríkin um hervernd gegn ágangi Breta, og hefði það án efa leitt af sér átök milli þessara tveggja hervelda, sem eru sterkustu aðilarnir í vestrænni samvinnu. Þótt óhugnanlegt sé til þess að vita, þá var þetta draumsýn kommúnista, sem ráðamenn Framsóknar aðhylltust mjög. Kommúnistar vissu þá ekki síður en nú, hvaða málstað þeir áttu að þjóna, og var það örugglega ekki málstaður Íslendinga. En sem betur fer kom núv. ríkisstj. í veg fyrir, að þessi draumur — þeirra rættist. Tókst ríkisstj. með festu, en þó einnig með mikilli lagni, að halda svo á málinu, að Bretar hættu allri mótspyrnu, en Íslendingar komust út úr deilunni með fullri sæmd og verulegum ávinningi.

Samþykkt Alþingis á lausn fiskiveiðideilunnar 9. marz 1961 er án efa einhver stærsti sigur, sem Íslendingar hafa unnið í samskiptum sínum við aðrar þjóðir. Ekki einasta fékkst þar með full og óafturkallanleg viðurkenning Breta á 12 mílna fiskveiðitakmörkunum, heldur einnig, sem ekki var síður mikils um vert, stækkaði landhelgi Íslendinga um rúmlega 5000 ferkm á þýðingarmestu veiðisvæðum vélbátaflotans. Eins og kunnugt er, stóðu kommúnistar og Framsókn eins og ein órjúfanleg heild gegn lausn deilunnar. Lýsti einn forustumaður Framsóknar því yfir hér á Alþingi hinn 7. marz 1961, að Framsfl. mundi nota fyrsta tækifæri, sem gæfist, til að segja upp samningnum við Breta og losa þjóðina við ok samningsins, eins og þm. orðaði það.

Nú, þegar kyrrð er aftur komin á málið, er rétt að athuga, hvernig þetta ok, sem Framsfl. var að tala um, hefur reynzt. Það hefur í stuttu máli reynzt þannig: Erlendum fiskiskipum fækkaði mjög við strendur Íslands, þegar eftir að samningurinn hafði tekið gildi, og eru þau nú að mestu horfin á svæðinu frá Dyrhólaey að Reykjanesi utan hinnar nýju, stórauknu landhelgi. Þessa dagana munu vera sárafáir erlendir togarar að veiðum á djúpmiðum kringum landið eða aðeins hverfandi brot af togaraflota Breta og Þjóðverja. Fyrir vélbátaflota Íslendinga er þetta alveg ómetanlegt, enda hefur fiskigengdin hér við suður- og suðvesturströndina aldrei verið meiri en nú í vetur. Ný veiðitækni á að sjálfsögðu sinn þátt í hinu mikla aflamagni, sem veiðzt hefur, en sjómönnum ber öllum saman um, að meiri fiskigengd hafi verið innan hinnar nýju landhelgi á þessu svæði en mörg undanfarin ár. Er það vafalaust að verulegu leyti því að þakka, að erlendir togarar eru að mestu leyti hættir veiðum á þessu svæði utan fiskveiðimarkanna, eftir að samningurinn var gerður.

Ég held, að það hafi verið gæfa þjóðarinnar, að núv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styðja, hopuðu hvergi og létu í engu undan síga í sambandi við lausn deilunnar þrátt fyrir linnulausan áróður kommúnista og Framsóknar fyrir því að halda deilunni við Breta áfram. Og við skulum trúa því og treysta, að samningurinn frá 1961, þar sem Íslendingar fengu 12 mílurnar óafturkallanlega viðurkenndar, eigi eftir að bera enn ríkari ávöxt en þegar er komið í ljós og ég hef hér rakið. — Góða nótt.