11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

Almennar stjórnmálaumræður

Eysteinn Jónsson:

Gott kvöld. Örskammt er síðan utanríkismál voru ýtarlega rædd á Alþingi í útvarp. Ég get því verið fáorðari en ella um þau efni.

Það er ekki ágreiningur af okkar hendi við stjórnarflokkana um að byggja stefnuna á vestrænni samvinnu og þátttöku í NATO. Okkur greinir á hinn bóginn á við þá um, hvernig framkvæma skuli vestræna samvinnu og hvernig vinna skuli að utanríkismálum.

Stjórnarflokkarnir hafa slitið svo rækilega friðnum og samstarfinu um utanríkismál innanlands, að þeir hafa ekki einu sinni um margra ára skeið ætlað Framsfl., næststærsta flokki landsins, fulltrúa á þingi Sameinuðu þjóðanna í liði Íslands þar, og mun slíkt fátítt með öðrum þjóðum.

Varðandi framkvæmd utanríkismálastefnu vestrænnar samvinnu hefur ríkisstj. kirfilega fyrirgirt allt samstarf og vill í því sambandi enga rödd heyra nema sína eigin, ekki á aðra hlusta.

Ávöxt þessara samstarfsslita um utanríkismálin, sem fáar hliðstæður munu eiga sér meðal lýðræðisþjóða í Evrópu, hvað þá á Norðurlöndum, má m.a. sjá í þrennu. Búið er að semja af okkur réttinn til einhliða útfærslu íslenzkrar landhelgi, en hvað það þýðir, má marka af því, að án þess að nota slíkan einhliða rétt, sem við áttum áður, hefðum alls ekki getað búið núna við 12 mílna fiskiveiðalandhelgi. Erlent hermannasjónvarp var látið flæða hér yfir sjónvarpslaust land og með því skapað stórfellt vandamál varðandi framkvæmd vestrænnar samvinnu. En hefði samráð verið haft um þessi mál, stóðu vonir til, að þessu hefði orðið afstýrt. Loks sýnist búið að leyfa nýjar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði, sem einfalt var að standa gegn sem áður, ekki sízt við batnandi friðarhorfur í heiminum, og er þar enn aukinn vandinn að ófyrirsynju. Því miður geta þessar þrívörður orðið óbrotgjarnar, því að það er hægara að semja svona á sig en losna við það. Hafa nú þeir mestar áhyggjur af framkvæmd íslenzkrar utanríkisstefnu, sem einlægastan hafa áhugann fyrir heilbrigðri framkvæmd vestrænnar samvinnu. Fjölgar þeim daglega, sem taka undir þá kröfu, að breytt sé um framkvæmdina og m.a. teknir upp þeir starfshættir um samstarf í utanríkismálum, sem tíðkast hjá lýðræðisþjóðum, og taka menn nú eftir síðustu atburði ekki lengur sem góða og gilda vöru að æpa: kommúnismi, í hvert sinn, sem skynsamleg ráð eru gefin varðandi þessi mál eða eðlileg gagnrýni flutt. Þeim fjölgar óðum, sem vilja íslenzka utanríkismálastefnu byggða á vestrænni samvinnu.

Ríkisstj. hafnar nú á þessu Alþingi till. Framsfl. um samstarf að athugun stórvirkjunar- og stóriðjumála, en þar er um stærstu og vandamestu mál að tefla, sem varða alla framtíð þjóðarinnar, og alger ný,mæli í þjóðarbúskap okkar. Sú afstaða ríkisstj, að hafna samstarfi um þessi mál boðar ekki gott, mælist illa fyrir og er raunar í algeru ósamræmi við óskir meginþorra manna um það, hvernig flokkar og stjórnmálamenn skuli vinna að þjóðmálum, hvað sem stjórn eða stjórnarandstöðu liður.

Nálega nákvæmlega 4 ár eru nú, síðan ríkisstj. tók að framkvæma þá stefnu, sem hún kallaði viðreisn, en enginn nefnir nú lengur því nafni nema í háði. Þá var blaðinu snúið við í íslenzkum þjóðmálum. Allt var grundvallað á því áróðursbragði, að íslenzka þjóðin lifði um efni fram, almenningur hefði of mikla peninga handa á milli, lánsfé væri of dýrt og aðgangur að lánsfé of auðveldur. Á réttan kjöl skyldi komizt með því að minnka kaupgetuna, þ.e.a.s. dýrtiðin yrði að vaxa meira en kaupgjald og tekjur almennings. Lánsfé yrði að gera dýrara en áður með hækkuðum vöxtum, og draga yrði úr framkvæmdum með því að minnka lán, en láta stofnkostnað bygginga og annarra framkvæmda vaxa.

Með þessu var dýrtíðin gerð að hagstjórnartæki, eins og ráðh. kalla nú aðgerðir sínar síðustu vikurnar, og er það skýringin á því, með hvílíkri þrákelkni er haldið dauðahaldi í þá stefnu, að hvert inn sem almenningur reynir að rétta hlut sinn, séu jafnharðan beinlínis gerðar ráðstafanir til, að dýrtíðin aukist meira en kaupgjaldshækkun nam, sbr. gengislækkunina 1961, í mesta uppgangsári, sem Íslendingar höfðu lifað fram að þeim tíma, og svo söluskattshækkunina í vetur, sem ekki var vegna þess, að ríkissjóð vantaði peninga, því að hann hafði hundruð millj. í afgang, heldur hagstjórnaraðgerð, og sýndi, að ríkisstj. hafði ekkert lært af dýrkeyptri reynslu.

Þetta hefur átt að draga úr verðbólgu og stefna að stöðugu verðlagi eftir fyrstu dýrtíðarbylgjurnar. En niðurstaðan hefur orðið óðaverðbólga og fjórfalt — ég sagði fjórfalt hraðari dýrtíðarvöxtur en var á árunum 1947–1959.

Áður þóttu þær ríkisstj. fallnar á verkum sínum og tóku afleiðingum þess, sem ekki gátu haldið dýrtiðinni innan hóflegra takmarka, miðað við kaupgjald og aðrar ástæður. En nú stritast ríkisstj. við að sitja, þótt hún hafi aldrei ráðið við neitt í mestu góðærum og dýrtíð hafi á þessum árum, þ.e.a.s. vörur og þjónusta, hækkað um 84%, en tímakaup aðeins um 55%. En árin áður en þessi stjórn tók við hækkaði kaupgjald og tekjur bænda árlega nokkru meira en dýrtíðin, þ.e. á vinstristjórnarárunum.

Öngþveitið, sem orðið er, afleiðingin af þessu, sést e.t.v. bezt á því, að verkamannakaup er 77 þús. kr. á ári fyrir 8 stunda vinnu hvern virkan dag allt árið, en lítil íbúð kostar a.m.k. 600 þús. kr., og viðreisnarvextirnir einir út af fyrir sig af slíkri íbúð eru yfir 50 þús. kr. Samt er talið, að ýmis atvinnurekstur eigi erfitt með að borga þetta kaup, sem rétt nægir þó unga fólkinu ríflega í húsnæðiskostnaðinn einan. Húsaleigan hækkar svo dag frá degi, og húsnæðisskorturinn er orðinn óbærilegur.

Dýrtíðar-, lánasamdráttar- og vaxtaokurstefna ríkisstj., sem enn er ekkert lát á, síður en svo, hefur komið þyngst niður á undirstöðuframleiðslunni til lands og sjávar og unga fólkinu, því að það eru þessir aðilar, sem nota þurfa lánsféð fyrst og fremst, bæði rekstrarfé og gífurlegt stofnfé við uppbyggingu atvinnurekstrar og nýrra heimila. Fjármagnskostnaðurinn hefur vaxið risaskrefum, og nýju vextirnir vefja sig nú inn í efnahagskerfið með ofsahraða, eins og sést á dæminu um unga fólkið og íbúðaverðið. Og hvað halda menn svo, að þetta fólk þurfi að hafa í kaup, um það er lýkur, ef svona á að halda áfram, og fá í kaup, því að tilraunir til að leysa þetta mál eins og í vetur með því að lögfesta þessa fjarstæðu hljóta að mistakast, bera dauðann í sér. Og kaup unga fólksins, sem það neyðist til að skrúfa upp í nauðvörn sinni, verður líka kaup hinna eldri í landinu, þótt okkar aðstaða, hinna eldri, sé betri, sem eignuðumst þó þak yfir höfuðið, áður en þessi endaleysa hófst.

Hvernig halda menn svo, að atvinnurekstrinum gangi að rísa undir því kaupgjaldi, sem viðreisnarástandið krefst, um það er lýkur, að óbreyttri húsnæðis-, verðlags- vaxta- og lánapólitík, þ.e.a.s. að óbreyttri þjóðmálastefnu.

Sannleikurinn er sá, að með okurvöxtum, gegndarlausum nýjum álögum í ótrúlegustu myndum, sölusköttum, tollum, þjónustugjöldum, útflutningsgjöldum, framleiðslugjöldum, lánasjóðsgjöldum, stórfelldum hækkunum á framkvæmdakostnaði samfara minnkuðum rekstrarlánum og rekstrarfjárskorti, hefur verið þjarmað svo að framleiðslunni sjálfri, að ýmsar greinar eiga beint í vök að verjast þrátt fyrir bætt verzlunarárferði út á við svo að segja árlega, óhemju uppgrip og tafarlausa sölu afurða með hagstæðara verði en oftast áður. Og eiga ýmsar greinar fullt í fangi með að greiða óbreytt kaupgjald, hvað þá það, sem hver heilvita maður sér að fram undan bíður að óbreyttri efnahagsmálastefnu.

Landbúnaðurinn er þannig settur, að verðlagsbyltingin hefur grafið grunninn undan verðlagningunni, því að nýi stofnkostnaðurinn og vaxtakostnaðurinn fæst ekki inn í verðlagið. En það ástand m.a. dregur kaupgjald bændanna síðan enn lengra niður samanborið við kostnað nokkurra annarra manna. Samfara þessu hefur verið dregið úr beinum stuðningi við landbúnaðinn, en reynt að draga athyglina frá því með því að hækka aðeins stuðning í einstökum liðum. Stofnkostnaðurinn nýi í búskapnum lítur út eins og fjarstæða samanborið við tekjuvonir, jafnvel enn meiri fjarstæða en húsnæðiskostnaðurinn og kaupið við sjávarsíðuna, og er þá langt jafnað.

Allir vita, að þetta eru staðreyndir, sem óhugsandi er að mæla í móti, þótt ófagrar séu. En þá er hitt, framleiðslan fer vaxandi, uppgripin meiri en nokkru sinni, en verzlunarárferðið út á við batnar. Hvað verður þá af þeim óhemjuverðmætum, sem að hafa borizt jafnt og þétt undanfarin ár og berast enn, og hvers vegna er þetta allt svona ódrjúgt?

Ýmsir ná til sín góðum tekjum á flótta undan verðbólgudraugnum með því að leggja nótt með degi og það svo, að helzt minnir á sögur þær, sem aldamótakynslóðinni voru sagðar í bernsku af vinnulagi fyrri kynslóða til þess að hafa í sig og á.

En fjármagnskostnaður í landinu hefur vaxið gífurlega með nýrri vaxtapólitík, og því meira sem fjármagnið fær, því minna fær vinnan. Hefur þetta þó ekki runnið til sparifjáreigenda vegna verðbólgunnar, hún hefur séð um það, verðbólgan, heldur annarra fjármagnseigenda.

Þetta ástand verður fyrst og fremst vatn á myllu þeirra, sem mest hafa haft og hafa peningaráðin. Þeir leggja net sín í verðbólguhaf og dýrtíðarsjó ríkisstj., og fá sumir gæðingar stjórnarinnar veiðarfæri sín í þennan hafsjó að láni. Þótt haldið sé fast í lánin til almennings og framleiðslunnar til lands og sjávar, þá fá gæðingarnir sumir lánin. En fengurinn er nú slíkur á þessum verðbólgumiðum, að allt bliknar, sem áður hefur þekkzt í þeim efnum.

Í þessum ofboðslega verðbólgugróða er fyrst og fremst að finna það, sem á vantar, til þess að hægt sé að koma saman dæminu um atvinnureksturinn, kaupgjaldið og afurðaverðið til bænda, svo að nokkrir liðir séu nefndir, og þessi óhemju verðbólgugróði stendur undir nýrri og nýrri eyðslu og nýjum og nýjum verðbólguframkvæmdum, sem allt fær að leika lausum hala samkv. stjórnarstefnunni, en dregur vinnuaflið og fjármagnið frá undirstöðuframleiðslunni og þeirri fjárfestingu, sem þjóðinni ríður mest á, þ.e.a.s. þeirri fjárfestingu, sem eykur framleiðnina mest, afköstin og bætir úr brýnustu þörfinni, svo sem byggingu dýrra íbúða af hæfilegri stærð og annarra þess konar framkvæmda.

Stjórnarstefnan er beinlínis byggð á því, að þessar verðbólguframkvæmdir og eyðslu megi ekki hefta. Þetta heitir frelsi, og til þess að þetta frelsi geti haldið áfram, á enn að auka lánsfjárhöftin, sem fyrst og fremst bitna á almenningi og framleiðslunni, draga úr opinberum framkvæmdum eins og skólum og öðrum slíkum byggingum, halda okurvöxtunum og tollunum og jafnvel gera aðra tilraun til þess að lögfesta kaupið.

En handahófið og eyðslan í fjárfestingunni á að halda áfram hér. Við eigum að hafa ráð á því, þótt aðrar þjóðir á Norðurlöndum hafi ekki ráð á slíku handahófi. Ríkisstj. hefur gefizt upp við að bera á móti öngþveitinu, en hyggst með daglegum heilaþvotti dagblaða sinna fá menn til að trúa því, að þetta sé allt því að kenna, að almenna kaupgjaldið hafi verið spennt upp um of og það rekið áfram dýrtíð og orsakað verðbólgu, og forsrh. er oddviti þessarar kenningar og flutti hana hér áðan.

En allt rekst þetta á staðreyndir, því að kaupgjaldshækkanir hafa allan tímann verið langt á eftir verðhækkunum, og hef ég fyrir mér nú síðast vitnisburð og orðsendingu þeirra Guðjóns Sigurðssonar í Iðju og Óskars Hallgrímssonar og félaga þeirra 1. maí, og er það öruggt, að þessir menn halla ekki á húsbændur sína.

Farið er að prédika í Morgunblaðinu, að menn verði að bíta á jaxlinn og duga, þótt syrti í álinn, en ekki útskýrt að sama skapi, hvers vegna syrtir í álinn hjá mönnum í mestu uppgripaárum í sögu þjóðarinnar.

Ekki hef ég trú á því, að sá áróður, að öngþveiti síðustu 4 ára stafi af frekju almennings á þeim tíma í launasamningum og svo af skemmdarverkum stjórnarandstöðunnar, sé mjög árangursríkur, enda sýnist mér, að alveg eins mætti reyna að taka sér fyrir hendur að telja mönnum trú um, að þeir stæðu á höfði, en ekki fótunum. En tvennt er merkilegt við þennan áróður samt: Annars vegar, að tveir stjórnmálaflokkar í landinu skuli telja út í það leggjandi í lýðfrjálsu landi að halda þessu að mönnum, og geta menn getið sér til um afleiðingarnar, ef hægt reynist að gera það sér að skaðlausu pólitískt. Hins vegar, að þessi látlausi áróður gæti bent til þess, að ríkisstj. dytti enn í hug, að hægt væri að leysa vandann með því að lögbinda kaupgjald og afurðaverð til bænda. Það gæti einnig bent í sömu átt, að ríkisstj. hefur ekkert aðhafzt, síðan síðast var samið, annað en að hækka söluskattinn, ekki breytt stefnunni í neinu og ekkert frumkvæði átt að samningum um lausn vandans.

Svo er nú komið á hinn bóginn, að nálega hvert mannsbarn utan ráðherraherbergjanna sér nauðsyn gagngerðrar stefnubreytingar, og þeim fjölgar óðum, sem gera sér jafnframt grein fyrir því, að þessi ríkisstj. hefur ekki skilyrði til þess að framkvæma hana.

Ég tel mér skylt að rifja enn einu sinni upp nokkur meginatriði þeirrar stefnu, sem að okkar dómi verður að taka.

Gera þarf sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að brjóta niður launþega- eða bændasamtökin með lögþvingunaraðferðum. Um það fékkst skýr reynsla í velur. Það kemur ekki til mála að binda almenning á höndum og fótum, til þess að fjármagnið geti leikíð lausum hala, eins og það gerir nú, verðbólgufjármagnið, á kostnað almennings og framleiðslunnar sjálfrar.

Semja ber við almannasamtökin um að taka upp þá stefnu á ný í kjaramálum, sem fylgt var á vinstristjórnarárunum, þ.e.a.s. að kaupgjald til sjós og lands og nettótekjur bænda geti hækkað nokkru meira árlega en dýrtíð almennt hækkar og lífskjör því farið batnandi og endurgjald fyrir venjulegan vinnudag geti, áður en allt of langt líður, veitt mannsæmandi lífskjör. Þetta þýðir að innleiða á ný verðtryggingu á kaupi, en afnám verðtryggingar á kaupi hefur verið misnotað herfilega til þess að gera sjálfa dýrtíðina að hagstjórnartæki.

Menn verða á hinn bóginn að gera sér ljóst, að þetta verður að gerast í áföngum, og því síður er hægt að komast í einu stökki út úr vandanum. Pennastrikskenningin hefur alltaf verið álíka haldgóð og fleira þvílíkt úr herbúðum sjálfstæðismanna.

Til þess að gera þessa nýju leið færa, verður að gerbreyta stefnunni einnig að öðru leyti, ráðast á stofnkostnaðinn við byggingar og vélvæðingu og lánsfjárkostnaðinn og lækka hvort tveggja, þveröfugt við þá stefnu, sem hefur verið fylgt og er sú að leita jafnvægis með því að hækka þennan kostnað.

Verði húsnæðismálastefnunni ekki alveg gerbreytt, verða þessi mál áfram óleysanleg með öllu og kaupgjaldið óbærilegt framleiðslunni. Hækka þarf húsnæðislánin, lækka vextina, lækka tolla eða endurgreiða þá að einhverju leyti á hentugum íbúðum, bæta skipulag og vinnuhagræðingu í byggingum, beina fjármagninu og vinnuaflinu að íbúðabyggingum og skapa framboð á ódýrara húsnæði. Verði þetta ekki gert, verður öngþveitið aldrei leyst. Flestar þjóðir nema við reyna að gera þessi mál viðráðanleg, kaupgjaldsmálin og kjaramálin, með lúgum vöxtum og ódýru húsnæði, en hér er það beinlínis hafður einn liður í stjórnarstefnunni að skapa jafnvægi með því að láta byggingarkostnaðinn hækka og spenna upp vextina og draga úr lánunum.

Þetta er að vísu ekkert nýtt, sem ég er að segja. Þetta er bara það, sem við framsóknarmenn höfum sagt, síðan ríkisstj. byrjaði á óheillastefnu sinni. En nú hjálpar reynslan okkur til an knýja fram stefnubreytinguna, og hún kemur, þótt þeir streitist enn eitthvað á móti.

Húsnæðismálin eru ekki aðeins málefni einstaklinga, heldur einnig framleiðslunnar og þjóðarinnar allrar.

En í sérmálum framleiðslunnar verður einnig að breyta stefnu, byrja að létta á fargi hinna nýju álaga, auka rekstrarlán og draga úr ógnarbyrði vaxtanna, fjármagnskostnaðinum, sem nú hvílir þyngra á íslenzkri framleiðslu en nokkurs staðar annars staðar þekkist á nálægu, byggðu bóli. Breyta þarf vaxtapólitíkinni, sem ekki hefur notazt sparifjáreigendum til ávinnings vegna óðadýrtíðarinnar, því að engin framleiðsla fær staðizt háu vextina, sem raunar áttu að standa aðeins skamma hríð, að sagt var, en standa enn og fléttast nú alls staðar inn í fjárhagslífið með óbærilegum afleiðingum.

Lækkun vaxtanna verður að fylgja vaxandi verðtryggingu sparifjár. Nágrannaþjóðir okkar ráðgera slíka verðtryggingu í vaxandi mæli til að geta haldið vöxtunum niðri hjá sér, og er þar þó engin verðbólga á okkar mælikvarða séð og vextir þar miklu lægri en hér. Þetta sýnir, hvað þar er lagt upp úr vöxtunum, fjármagnskostnaðinum í framleiðslu og neyzlu, en hérna hafa jafnvel ráðh, gengið svo langt að halda því fram, að vextirnir, fjármagnskostnaðurinn, væru lítið atriði, og lagzt svo lágt að færa sem rök í því máli samanlagða vaxtafúlgu, sem borguð er inn í bankana, þykjast þá ekki fremur en strúturinn sjá, að vaxtakjör þeirra, sem þurfa að byggja á lánsfé í einkalífi og framleiðslu, sem er unga fólkið og framleiðendurnir, þessi vaxtakjör móta kaupgjaldsþörfina í landinu og kröfurnar á hendur framleiðslunni hjá öllum, líka þeim, sem ekki skulda. Þannig margfaldast áhrif vaxtanna í þjóðarbúskapnum.

Ríkisstj. hættir oft til að afsaka sig með því, að það séu ekki peningar fáanlegir til þessa eða hins, og það jafnvel þó að hún safni greiðsluafgöngum og sjóðum í hverju horni og liggi á hundruðum milljóna, eða þá hún segir, þegar á þetta er bent, að allt vinnuafl í landinu sé fullnotað, hvar eigi að taka vinnuafl til að byggja fleiri íbúðir, skóla, sjúkrahús o.s.frv. eða handa framleiðslunni. En það þýðir ekki að segja þeim, sem sjá hallir rísa fyrir augum sér, hvar sem litið er, og alla þá sóun á fjármunum og vinnuafli, sem á sér stað í sambandi við verðbólguhamfarir þeirra manna, sem mest uppáhald hafa á ríkisstj., að fé og vinnuafl skorti til að sjá fyrir frumnauðsynjum manna og vegna framleiðslunnar, ef skynsamlega er að farið.

Það þarf á hinn bóginn að hafa stjórn á fjárfestingunni, þótt ríkisstj. megi ekki heyra það nefnt. Ekki telja Norðurlandamenn sig hafa ráð á því að búa við svona öngþveiti í fjárfestingarmálum, þótt okkur sé þetta ætlað. Og þó tekur alveg steininn úr, þegar þetta öngþveiti í fjárfestingarmálum er kallað áætlunarbúskapur og sagt, að þetta sé gert eftir framkvæmdaáætlun.

Hér sitja verðbólguframkvæmdir og eyðsla fyrir því, sem mestu skiptir. Hér á að fresta því þýðingarmesta, hér á ekki að vera til fjármagn eða vinnuafl til að koma upp lífsnauðsynlegu íbúðarhúsnæði í bezta árferði, sem þjóðin hefur lifað, né bráðnauðsynlegum tækjum og vélum til framleiðslunnar. Þetta verður að hætta, og það verður ekki til lengdar þolað, að æpt sé á heilbrigða skynsemi og því svarað til, sem gert hefur verið stundum, að engin önnur stjórnarstefna sé til en sú, sem nú er fylgt, öll gagnrýni sé byggð á illum hvotum, lýðskrumi og jafnvel skemmdarhug.

Ég þykist hafa sýnt fram á sem fyrr, að stefnubreytingar er ekki aðeins þörf, heldur lífsnauðsyn, og bent á nokkur grundvallaratriði, sem snerta sjálfa undirstöðuna. Félagar mínir í þessum umr. munu ræða þessi mál nánar og gera fyllri skil ýmsum veigamestu þáttum, sem ég ýmist hef ekki fjallað um eða aðeins nefnt vegna tímaskorts. Má þar nefna stórvirkjunar- og stóriðjumálin, byggðaþróunina í landinu og nauðsynlegar ráðstafanir í því sambandi, landbúnaðarmálin, tolla- og skattamálin og ríkisbúskapinn yfirleitt, svo að dæmi séu nefnd.

Ég hef lýst því nokkuð, hvernig komið er, og þeirri stefnubreytingu, sem Framsfl. berst fyrir. En nú vil ég þessu næst í fáum orðum víkja að starfsháttum ríkisstj, nánar annars vegar og framsóknarmanna í stjórnarandstöðunni hins vegar.

Engum dylst, að ríkisstj. hefur um lengri hríð látið flatreka í úrræðaleysi. Eigi að síður hafnaði ríkisstj. till. framsóknarmanna í vetur um að kjósa þingnefnd úr öllum flokkum til að íhuga efnahagsmálin frá rótum og leita leiða í stað þess að gera það eitt að leggja á 300 millj. í nýjum sölusköttum, sem ofan á annað hafa enn komið öllu í hnút.

Ríkisstj. hafnar nálega öllum frv., sem frá stjórnarandstöðunni koma, án tillits til efnisins, virðist heldur vilja taka upp í sín eigin frv., í vaxandi mæli að vísu, einstök atriði af málefnum stjórnarandstæðinga, heldur en láta standa sig að því beint, að hún geti í nokkra fallizt á þeirra till. eða frv. Stjórnin hafnar samstarfi um þýðingarmestu málefni, einnig um nýmæli, svo sem athuganir á stórvirkjum og stóriðju.

En ég spyr: Er það svona ofstæki, sem þjóðin raunverulega vill, og situr þetta á svo veikum reyr sem ríkisstj. er? Getur þetta leitt til góðs, eins og málefnum landsins er komið?

Framsóknarmenn hafa í stjórnarandstöðunni reynt að hafa annan hátt á, þótt ekki sé þægilegt, þegar þannig er rí málum haldið af stjórninni. Við reynum að meta hvert mál eftír efni þess, en ekki eftir því, frá hverjum það er komið. Þannig greiðum við atkv. með og greiðum á allan hátt fyrir mörgum málum frá stjórninni og viðurkennum þau, enda þótt við berjumst fast gegn þeim málum, sem að okkar dómi snerta hina röngu meginstefnu stjórnarinnar.

Við höfum meira að segja samþykkt nýjar álögur í vegalögunum nýju, enda var samninga leitað við okkur um það mál. Ekki vantaði þó fé í ríkissjóð, en við vissum, að öðruvísi var ekki hægt að fá meira fé í vegina. Við höfum samþykkt aukinn skyldusparnað vegna íbúðalánanna. Til samanburðar má svo geta hess, að sjálfstæðismenn efndu til benzínverkfalls í stjórnarandstöðu vegna 6 aura hækkunar á benzínskatti, og þeir voru í stjórnarandstöðu fyrir nokkrum árum á móti skyldusparnaðinum.

Við erum að leitast við að móta stjórnarandstöðu með nokkuð öðrum og að okkar dómi heppilegri hætti en oft hefur áður orðið, og þannig mun það nýmæli um nokkurra áratuga skeið, að stjórnarandstaðan hjálpi til að leggja á nýjar álögur, eins og við gerðum í vegal. og einnig með því að auka skyldusparnaðinn. Reynslan á eftir að sýna, hvort þessar starfsaðferðir geta orðið til þess að innleiða meiri samtök en áður á Alþingi um ýmis þýðingarmikil málefni, hvað sem líður stuðningi eða andstöðu við þær ríkisstj., sem sitja þá og þá, og meginstefnu þeir.

Við teljum, að í þessa átt ætti að vinna, og mundi það vera í samræmi við þá þróun, sem orðið hefur á Norðurlöndum og gefizt vel. Við teljum líka, að meginþorri manna í landinu líti svo á og mundi vilja, að málin þróuðust einmitt í þessa átt. Ég held, að það hafi ekki styrkt stjórnina eða aukið álit á henni, að hún hafnaði gersamlega í vetur hinum nýstárlegu till. framsóknarmanna um allra flokka þn. til að íhuga efnahagsmálin frá rótum. Og þegar litið er yfir ástandið og vinnuaðferðirnar, held ég, að það verði flestra sanngjarnra manna mál, að ríkisstj. ætti að spara við sig sem mest að tala um ábyrga framkomu sína, en ábyrgðarleysi framsóknarmanna í stjórnarandstöðunni.

Stjórnarstefnan hefur reynzt þannig í framkvæmd, að hvorki framleiðendur né verkalýðssamtökin geta nú hugsað sér að ná saman kjarasamningum, án þess að stjórnarstefnunni sé breytt. Svo gersamlega hefur stjórnin reyrt þessi mál í hnút. Um þetta er enginn ágreiningur í samtökum atvinnurekenda né heldur í samtökum launþega. Allir eru sammála í þessum samtökum um, að þannig sé komið, bæði stjórnarstuðningsmenn og hinir. Við beztu hugsanleg skilyrði hefur ríkisstj. haldið svona á málum þjóðarinnar. Ríkisstj. hefur að vísu á sér öll einkenni þreytu og uppgjafar, og þinghaldið í vetur hefur dregið dám af því. En stjórnin hangir samt við sama heygarðshornið og vill enga grundvallarbreytingu samþykkja, en lætur blöð sín daglega hóta því, að þessa fjarstæðu alla, sem hér hefur verið rakin, verði að fastbinda með valdbeitingu, jafnvel með lögum, jafnvel með brbl., hvað sem hver segi.

Þannig ber ríkisstj. höfðinu við steininn, en ástandið fer dagversnandi. Ríkisstj. verður á hinn bóginn að gera sér grein fyrir því, að hún hefur tapað trausti og hefur ekki skilyrði til að ráða fram úr vandanum og allra sízt með óbreyttri stefnu og starfsaðferðum. Ríkisstj., sem við hagfelldustu skilyrði mistekst nálega allt, sem hún hefur ætlað sér og lýst yfir, að hún ætlaði að gera, hún hefur ekki traust.

Með stórfelldara skrumi og gyllingum en áður hafa þekkzt og með meiri fjáraustri og ófyrirleitnari loforðum en nokkur dæmi eru til áður á voru landi tókst ríkisstj. að komast yfir kosningarnar í vor sem leið án þess að tapa meiri hl., og hékk þó allt á bláþræði. En þá var það líka búið. Síðan hefur ríkisstj. nánast verið eins og fluga í flösku. Í sumar og haust hefur komið óðfluga fram og blasir nú við allra augum, hvernig málefnum landsins var og er raunverulega komið, og úrræðaleysi stjórnarinnar. Fleiri og fleiri koma auga á, að núv. ríkisstj. hefur ekki skilyrði til að leysa vandann né vill taka upp þær vinnuaðferðir, sem nokkru fá um þokað til frambúðar í rétta átt.

Það þýðir ekki fyrir ríkisstj. að ætla sér að leysa vandann með valdbeitingu á kostnað almennings, með því að segja almannasamtökunum í landinu enn á ný stríð á hendur, eins og gert var í vetur. Það yrði skammgóður vermir, þótt reynt yrði að leggja út í slíkt á ný. Ekki er heldur hægt að leysa höfuðvandann á kostnað framleiðendanna. Það er ekki hægt að leysa höfuðvandann á kostnað framleiðendanna eða framleiðslunnar, en fjármagnið og þeir, sem gera út á verðbólguhafið, haldi sínum hlut og leiki áfram lausum hala. Það er ekki hægt. Það þarf stefnubreytingu, og verður að taka upp nýjar starfsaðferðir í þá átt, sem framsóknarmenn beita sér fyrir og ég hef reynt eftir mætti á þessum fáu minútum að lýsa.

Við teljum þingmeirihluta þann, sem nú er og reynir að stjórna, en getur ekki, fenginn á fölskum forsendum. Sá þingmeirihluti hafnar samt því miður öllum skynsamlegum till. um sameiginlega athugun málanna. Þetta ástand er því beinlínis hættulegt, og þjóðin býr sem á glóðum elds, þangað til þeim nauma þingmeirihluta hefur verið hnekkt, sem þannig reynir að halda á málefnum landsins. Því var það krafa aðalfundar miðstjórnar Framsfl. í vetur og er till. framsóknarmanna enn um starfsaðferðir, að Alþingi verði rofið í vor og almennar alþingiskosningar fari fram, til þess að þjóðin eignist þess kost að losa málefni landsins úr þeirri sjálfheldu, sem þau eru nú í komin fyrir allra augum. Það má að okkar dómi ekki minna vera en að þjóðin fái nú að segja til um, hvort hún vili þetta áfram eða hugsar sér að breyta til. Dráttur á úrskurði þjóðarinnar í þessu efni missirum saman getur orðið dýr. — Góða nótt.