11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þetta eru fyrstu almennu stjórnmálaumr., sem útvarpað er frá Alþingi, síðan alþingiskosningar fóru fram síðast. Í þeim kosningum fengu stjórnarflokkarnir 56% greiddra atkv. Í kosningunum næst á undan fengu þeir 55% greiddra atkv. Þeir bættu því við sig atkv. frá því, er þeir komu til valda. Þjóðin lýsti tvímælalausu fylgi við stjórnarstefnuna og vottaði stjórnarflokkunum afdráttarlaust traust. Engu að síður er nær allur málflutningur stjórnarandstöðuflokkanna fólginn í því að pexa um það, sem þeir telja ríkisstj. hafa gert rangt á undanförnum árum. En þjóðin er þegar búin að fella dóm sinn um það. Sá dómur var ríkisstj. og stjórnarflokkunum í vil. Þess vegna ákváðu stjórnarflokkarnir að halda áfram samstarfi sínu. Þeir hafa til þess ótvírætt umboð meiri hl. þjóðarinnar.

Nú er það auðvitað framtíðin, sem máli skiptir, en ekki fortíðin. Nýtt kjörtímabil er fram undan. Leggja þarf grundvöll að nýjum framförum, bættum lífskjörum, auknu réttlæti, vaxandi menningu. Með hverjum hætti verður þetta bezt gert? Það á að vera aðalumræðuefni okkar nú í upphafi kjörtímabils, en ekki þrotlaust stagl um þessa eða hina ráðstöfunina á liðnum árum.

Þau orð, sem ég segi hér í kvöld, mun ég því ekki nota til þess að deila við stjórnarandstöðuflokkana um það, hvort stjórnarstefnan hafi verið rétt eða röng undanfarin ár, enda er það þrautrætt mál. Ég mun nota tímann til þess að ræða við ykkur, hlustendur góðir, þau vandamál, sem nú blasa við, og þá stefnu, sem ég tel heillavænlegast að fylgja nú og á næstu árum. Ég vona, að skynsamir og ábyrgir menn, hvar í flokki sem þeir standa, séu mér sammála um, að það sé gagnlegra en rifrildið um fortíðina.

Öll hljótum við að vera sammála um, að æskilegast sé, að framleiðslan aukist sem mest frá ári til árs. Aukning hennar er sumpart komin undir árferði og aflabrögðum, sem við ráðum ekki við, sumpart er hún komin undir því, hversu mikið við vinnum, og sumpart er hún komin undir því, sem kallað hefur verið framleiðni atvinnuveganna, en með því er átt við það, hversu afraksturinn er mikill af notkun tiltekinna framleiðsluafla. Er það t.d. talin aukin framleiðni vinnunnar, ef nýjar vinnuaðferðir, bætt skipulag, nýjar vélar eða nýtt launakerfi veldur því, að kostnaður á vinnustund minnkar, þannig að t.d. færra fólk þarf en áður til þess að taka eina smálest af þorski, hægt er að sauma fleiri föt á dag en áður í fatnaðarverksmiðju, slá stærra tún en áður á sama tíma, mála hús á skemmri tíma en áður o.s.frv.

Við getum auðvitað ráðið því sjálf, hversu mikið við vinnum. En ef við aukum þjóðarframleiðsluna aðeins með því að vinna meira, erum við ekki á framfaraleið. Markmiðið á að vera að auka þjóðarframleiðsluna án þess að vinna meira og meira að segja helzt samfara því, að við vinnum meira. Það er hægt með aukinni framleiðni í atvinnuvegunum. Til viðbótar þessu er þess að geta, að hjá þjóð, sem er jafnháð utanríkisviðskiptum og Íslendingar, eru lífskjör ekki aðeins komin undir því, hver þjóðarframleiðslan er, heldur einnig undir verðlagi útfluttrar vöru. Ef verðlag útfluttrar vöru lækkar eða verð innfluttrar vöru hækkar, getur hagur þjóðarinnar versnað, þótt þjóðarframleiðslan aukist. Á sama hátt getur þjóðarhagurinn batnað, þótt þjóðarframleiðslan minnki, ef verðlag útflutnings hækkar eða innflutnings lækkar. En slíkum breytingum ráðum við ekki fremur en árferði eða aflabrögðum. Það, sem er á okkar valdi af því, sem raunverulega ræður afkomu okkar og kjörum, er annars vegar, hversu mikið við vinnum, og hins vegar, hver er framleiðni atvinnuveganna. Og ef við gerum ráð fyrir því, að ekki sé æskilegt, að þjóðin vinni meira en hún gerir nú, heldur þvert á móti, að vinnudagarnir styttist, samfara því að þjóðarframleiðslan aukist, þá er til þess aðeins eitt ráð, sem er á okkar valdi, og það er, að framleiðni atvinnuveganna aukist. Aukin framleiðni er því, þegar öllu er á botninn hvolft, mál málanna í íslenzkum efnahagsmálum. Aukin framleiðni er forsenda þess, að kjör okkar geti batnað, án þess að um utanaðkomandi höpp sé að ræða. Aukin framleiðni er eina örugga leiðin til varanlegra bóta á lífskjörum þjóðarinnar.

En hvernig er hægt að tryggja, að framleiðni í atvinnuvegunum vaxi? Í hagkerfi okkar Íslendinga er framleiðslan í höndum fyrirtækja, sem eru ýmist einkafyrirtæki, samvinnufyrirtæki eða opinber fyrirtæki. Auk þess hafa opinberir aðilar, þ.e.a.s. ríki og sveitarfélög, miklar framkvæmdir með höndum, svo sem byggingu hafna, vega, skóla, sjúkrahúsa o.s.frv. Það er því undir mörgum og margs konar aðilum komið, hvort gerðar eru skynsamlegar ráðstafanir til þess að auka framleiðni við framleiðslustörf í viðskiptum eða við alls konar framkvæmdir. Slíkar ráðstafanir verður yfirleitt alltaf að gera með samstarfi stjórnenda fyrirtækjanna eða framkvæmdanna og þeirra, sem við þau eða þær vinna. Frumskilyrði þess, að gerðar séu ráðstafanir til þess að auka framleiðni, er auðvitað, að báðir aðilar hafi hag af því, eigendur fyrirtækjanna og þeir, sem við þau vinna.

Það, sem fyrst og fremst gerir langvarandi og mikla verðbólguþróun varhugaverða, er, að hún dregur stórlega úr áhuga bæði eigenda fyrirtækja og starfsmanna á því að gera ráðstafanir til aukinnar framleiðni. Þegar verðlag og kaupgjald er alltaf að hækka á víxl, verðgildi peninga smám saman að minnka, en verð fasteigna og vörubirgða að hækka, samtímis því sem skuldabyrði verður léttari, geta atvinnurekendur hagnazt með mörgu öðru mótí en því að auka framleiðni í fyrirtækjum sínum. Og áhugi starfsmannanna beinist að því að reyna að hækka laun sín sem mest, í stað þess að athuga skilyrði til bættra starfshátta, sem leitt gætu til raunverulegs tekjuauka.

Verðbólga er því alvarlegur þrándur í götu framleiðniaukningar. Margföld reynsla er fyrir því, að á verðbólgutímum verði framleiðniaukning yfirleitt minni eða hægari en þegar verðlag er stöðugt eða nokkurn veginn stöðugt. Ef við Íslendingar viljum nú leggja megináherzlu á að auka framleiðni í atvinnuvegum okkar, er það frumskilyrði þess, að góður árangur náist, að okkur takist að stöðva verðbólguþróunina. Án þess er vonlítið, að okkur takist að auka framleiðnina í jafnríkum mæli og nauðsynlegt er og unnt ætti að vera. Ég held, að skilningur á þessum atriðum sé mjög að vaxa með þjóðinni.

Með hliðsjón af þessum atriðum eru viðræður þær, sem einmitt nú fara fram milli fulltrúa frá verkalýðshreyfingunni, vinnuveitendum og ríkisstj., mjög mikilvægar. Æ fleiri launþegar gera sér áreiðanlega ljóst, að leiðin til raunverulegra kjarabóta liggur ekki um hækkaða kauptaxta, heldur raunverulegan tekjuauka samfara stöðugu verðlagi og styttri vinnutíma. Allir góðviljaðir menn óska þess áreiðanlega af alhug, að viðræður þær, sem nú eiga sér stað, leiði til víðtæks samkomulags, sem tryggi stöðugt verðlag á næstu árum, jafnframt því sem launþegar fái hlutdeild í vaxandi þjóðarframleiðslu í kjölfar bættra vinnubragða, betri skipulagningar, nýrra launakerfa eða m.ö.o. vegna aukinnar framleiðni. Það er í raun og veru fyrst og fremst hagsmunamál launþeganna sjálfra, að nú takist víðtækt samkomulag milli samtaka þeirra, vinnuveitenda og ríkisvaldsins. Launþegarnir geta sem heild aldrei annað en skaðazt á sífelldum víxlhækkunum verðlags og kaupgjalds. Atvinnurekendur og eignamenn og þó einkum skuldarar geta hagnazt á slíkri þróun, og gera það margir hverjir. En launþegarnir hljóta alltaf að tapa á henni, bæði vegna þess, að hún rýrir þá eign, sem launþegar fyrst og fremst safna sér, þ.e.a.s. spariféð, en þó einkum vegna hins, að hún dregur úr framleiðniaukningunni og veldur því þannig, að raunveruleg lífskjarabót verður minni en ella hefði orðið.

En hver eru þá raunveruleg skilyrði til framleiðniaukningar í íslenzku atvinnulífi nú í dag, og hvernig getur ríkisvaldið stuðlað að henni? Ríkisvaldið sjálft er auðvitað ekki nema að litlu leyti beinn aðili að atvinnurekstri og framkvæmdum. En ákvarðanir um þær ráðstafanir, sem leiða eiga til framleiðniaukningar, verða fyrst og fremst atvinnurekendur og launþegar að taka. Engu að síður getur ríkisvaldið stuðlað að framleiðniaukningu á margvíslegan hátt. Eins og ég gat um áðan, er það frumskilyrði þess, að um stöðuga framleiðniaukningu sé að ræða, að jafnvægi haldist í efnahagsmálum. Þá er það og mikilvægt, að smám saman sé dregið úr hvers konar óeðlilegri vernd atvinnugreina, því að í fyrirtækjum, sem njóta óeðlilegrar verndar, er framleiðnin venjulega lítil. Mjög mikilvægt er að stuðla að heilbrigðri lánastarfsemi til atvinnuveganna, því að það bætir skilyrði til framleiðniaukningar. Ríkisvaldið getur og látið atvinnuvegunum í té ýmiss konar gagnlega þjónustu, svo sem tækniaðstoð við aukna vinnuhagræðingu. Og það getur með lagasetningu komið í veg fyrir óeðlilegar fyrirtækjasamsteypur og hringamyndun, sem oft dregur beinlínis úr framleiðni í hlutaðeigandi atvinnugreinum. Enginn vafi er á því, að af íslenzkum atvinnuvegum er framleiðni nú mest í sjávarútvegi. Engu að síður er unnt að auka hana enn mjög verulega á ýmsum sviðum hans, einkum og sér í lagi í fiskiðnaði. Þar þarf að auka vinnuhagræðingu á sjálfum vinnustöðunum, og enn fremur þarf að taka skipulagsmál fiskiðnaðarins til endurskoðunar, fyrst og fremst í því skyni að sameina framleiðsluna í ríkara mæli en nú á sér stað í stór fyrirtæki, sem búin eru fullkomnum tækjum og beita nákvæmri skipulagningu.

Í íslenzkum iðnaði er og um mörg verkefni að ræða á þessu sviði. Of mörg íslenzk iðnfyrirtæki eru enn of lítil og ekki búin nægilega góðum vélakosti, auk þess sem enn má gera mikið til þess að bæta skipulag og taka upp hagkvæm ákvæðislaunakerfi í ýmsum greinum verksmiðjuiðnaðarins.

Um byggingariðnaðinn er það kunnara en frá þurfi að segja, að heildarskipulag hans má án efa bæta verulega frá því, sem nú tí sér stað. Bygging húsa og raunar hvers konar mannvirkja tekur nú miklu lengri tíma en æskilegt og hagkvæmt er, ekki aðeins vegna takmarkaðra fjárráða, eins og oft virðist talið, heldur beinlínis vegna þess, að byggingarstarfsemin eða framkvæmdirnar eru ekki nægilega vandlega undirbúnar og sjálf framkvæmd verksins ekki nógu rækilega skipulögð. Með aukinni stöðlun eða „standardiseringu“ má og án efa lækka kostnað við byggingar og raunar hvers konar framkvæmdir mjög verulega.

Framleiðni í íslenzkum landbúnaði er eflaust minni en í sjávarútvegi og iðnaði, þótt hún hafi hins vegar aukizt mjög verulega á siðari árum og vafalaust ekki minna en í hinum aðalatvinnuvegum þjóðarinnar: Ég vakti athygli á þessari staðreynd í ræðu hér á Alþingi fyrir nokkrum mánuðum. Þessi ræða hefur orðið tilefni mikilla skrifa og mikilla umr, um málefni landbúnaðarins. Í ýmsum af þessum skrifum hafa skoðanir mínar á málefnum landbúnaðarins verið rangtúlkaðar svo herfilega, að ég tel rétt að gera þessi mál stuttlega að umtalsefni hér, enda snerta þau aðalumræðuefni mitt.

Það hefur verið sagt ótal sinnum, að ég hafi ráðizt á bændastéttina og sýnt landbúnaðinum fjandskap. Sannleikurinn er sá, að í umr. um það, hversu líklegt væri, að árlegur hagvöxtur yrði mikill hér á landi á næstu árum, en hann hefur verið áætlaður 4%, benti ég á, að framleiðni í landbúnaðinum væri minni en í sjávarútvegi og iðnaði og væri það eitt brýnasta verkefni íslenzkra efnahagsmála að auka framleiðni landbúnaðarins sem mest, einmitt til þess að tryggja aukinn hagvöxt þjóðarbúsins í heild. Það er auðvitað ekki árás á íslenzka bændur og enn síður fjandskapur við landbúnað, þótt á það sé bent, að framleiðni íslenzks landbúnaðar sé minni en t.d. íslenzks sjávarútvegs. Í allri Evrópu er framleiðni landbúnaðar minni en t.d. þess iðnaðar, sem er ávöxtur tæknibyltingar nútímans. En vegna þess, að framleiðni í landbúnaði hefur ekki getað orðið eins mikil og í iðnaði, og vegna hins, að neyzla landbúnaðarafurða hefur ekki vaxið í réttu hlutfalli við auknar tekjur, heldur hvarvetna minnkað hlutfallslega, hefur alls staðar í Evrópu þurft að styðja landbúnaðinn með margvíslegum hætti. Þetta hefur líka þurft að gera hér á landi og hefur verið gert. Það er ómótmælanleg staðreynd, að íslenzkur landbúnaður nýtur mjög verulegs stuðnings frá samfélaginu. En slíkt á sér stað í öllum nálægum löndum. Engum hefur komið til hugar að fella þennan stuðning niður, hvorki hér né annars staðar. Í öðrum löndum er hins vegar einmitt nú mjög um það rætt, hvaða form á þessum nauðsynlega stuðningi sé skynsamlegast og hagkvæmast út frá því sjónarmiði, að stuðlað sé að því að lækka framleiðslukostnað afurðanna og auka tekjur bændanna. Flestir virðast vera þeirrar skoðunar, að það, sem fyrst og fremst hái landbúnaðinum í Evrópu, sé, að of mörg býlanna séu of lítil, stuðningurinn við landbúnaðinn eigi því að vera með þeim hætti, að hann stuðli smám saman að stækkun býla og fækkun smábýla. Ég er þeirrar skoðunar, að grundvallarvandamál íslenzks landbúnaðar sé alveg hið sama, þ.e. að hér séu of mörg lítil býli. Býlin verða að stækka, stóru býlunum verður að fjölga, en litlu býlunum að fækka. Stuðningur sá, sem samfélagið veitir íslenzkum landbúnaði, er í of litlum mæli við það miðaður að stuðla að slíkri þróun. En hér er um mikið og vaxandi vandamál að ræða. Munurinn á framleiðslukostnaði íslenzkra landbúnaðarafurða og verðlagi erlendis er vaxandi, og kemur það m.a. fram í nauðsyn á hækkun bóta þeirra, sem samkv. gildandi lögum ber að greiða á útfluttar landbúnaðarafurðir. Í ár er gert ráð fyrir, að þessar bótagreiðslur muni sennilega nema yfir 150 millj. kr. Útflutningsverðið á landbúnaðarafurðunum er áætlað að meðaltali 42% af heildsöluverðinu innanlands. Útflutningsverð á smjöri, sem nú er rætt um að flytja í verulegum mæli á erlendan markað, er t.d. ekki nema um þriðjungur af innanlandsverðinu. Af þessu er ljóst, að hér er um mikið vandamál að ræða og nauðsynlegt, að mörkuð sé sem hagkvæmust og skynsamlegust framtíðarstefna í málefnum landbúnaðarins. Engum er gerður greiði með því að láta eins og þetta vandamál sé ekki til, allra sízt bændunum sjálfum, sem áreiðanlega er þetta vandamál ljósara en ýmsum öðrum. Landbúnaður hefur verið og hlýtur ávallt að verða einn af höfuðatvinnuvegum íslenzkrar þjóðar. Iðnþróunin hefur hér á landi eins og annars staðar fært landbúnaðinum vanda að höndum. Samfélagið á hér eins og annars staðar að styðja landbúnaðinn í baráttunni við þennan vanda. En það skiptir miklu máli, með hverjum hætti sá stuðningur er. Það er á því máli, sem ég hef viljað vekja athygli.

Í verzlun og viðskiptum nú og án efa auka framleiðni verulega frá því, sem nú Á sér stað. Í bæði smásölu og heildsölu er um of mörg smáfyrirtæki að ræða. Nýtízku dreifingaraðferðir í verzlun hafa að vísu verið að ryðja sér hér til rúms. En betur má, ef duga skal, eigi hvort tveggja að geta gerzt samtímis, að dreifingarkostnaðurinn lækki og þjónusta við neytendur batni. Og síðast, en ekki sízt, er þörf stóraukinnar framleiðni í opinberum rekstri.

Vinnubrögð á skrifstofum hins opinbera, bæði ríkis, sveitarfélaga og ýmiss konar opinberra stofnana, þurfa mjög að batna og taka þarf nýtízku vinnuaðferðir og vinnuvélar í vaxandi mæli í notkun. Opinber þjónusta er áreiðanlega dýrari hér á landi en vera þyrfti. Það er eðlileg krafa af hálfu skattgreiðenda, að farið sé með fé þeirra af fyllstu ráðdeild.

Í þeim orðum, sem ég hef sagt fram að þessu, hef ég viljað leggja áherzlu á þá skoðun, að það, sem nú og á næstu árum skiptir mestu máli í baráttunni fyrir bættum hag og batnandi lífskjörum, sé skipulögð viðleitni til þess að auka framleiðni á öllum sviðum íslenzks atvinnulífs og framkvæmda. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að vekja athygli á, að það er allt of útbreiddur misskilningur, að aukin fjárfesting sé vísastur vegur til aukinnar framleiðni. Á undanförnum firatugum hefur fjárfesting verið hlutfallslega meiri hér á landi en í flestum nágrannalandanna. Vöxtur framleiðni hefur hins vegar ekki verið meiri hér en þar, heldur minni. Hlutfallslega mikil fjárfesting hér á landi hefur ekki tryggt hlutfallslega mikla framleiðniaukningu. Auðvitað getur aukning hagkvæmrar fjárfestingar orðið undirstaða framleiðniaukningar. En það, sem menn þurfa að gera sér ljóst, er, að hún þarf ekki að vera það. Og þar eð fjárfesting hér á landi hefur verið og er einnig hlutfallslega mjög mikil, er víðhorfið hér án efa það, að fljótfarnasta og öruggasta leiðin til framleiðniaukningar er fólgin í margvíslegum ráðstöfunum til bætts skipulags, bættra vinnubragða, betri hagnýtingar tækja og aðstöðu, betra og réttlátara launakerfis og fleiri slíkra atriða.

En þótt ég hafi í þessum orðum mínum viljað undirstrika, að meginverkefni næstu ára hljóti að verða allsherjarátak til framleiðniaukningar, verður þó jafnframt að hafa í huga, að þótt sem mest aukning þjóðarframleiðslu hljóti ávallt að teljast höfuðverkefni heilbrigðrar stjórnarstefnu, verður einnig að sjá svo um, að þjóðartekjurnar skiptist sem réttlátast milli borgaranna. Það væri ekki góð eða réttlát stjórnarstefna, sem tryggði mikla aukningu þjóðarframleiðslunnar, ef öll aukningin lenti í höndum einhvers tiltekins hóps manna, en aðrir fengju ekki neitt í sinn hlut. Jafnhliða markvissri viðleitni til þess að auka þjóðarframleiðsluna þarf því jafnframt að gera ráðstafanir til þess að tryggja sem réttlátasta skiptingu þjóðarteknanna. Á næstu árum tel ég, að höfuðverkefnin að þessu leyti séu á þrem sviðum. Í fyrsta lagi verður að koma miklu betra skipulagi á innheimtu tekjuskatts og útsvara en hér hefur tíðkazt um margra áratuga skeið, þ.e. gera ráðstafanir til réttara framtals á tekjum en tíðkazt hefur og þar með réttlátart dreifingar á skattbyrðinni. Það hefur verið og er algerlega óviðunandi fyrir allan þann stóra hóp skattgreiðenda, sem telur fram allar tekjur sinar, að það skuli vera opinbert leyndarmál, að nokkur hluti skattgreiðendanna telur ekki fram nema hluta af tekjum sínum og lætur því aðra greiða gjöld sín fyrir sig. Þetta verður að breytast. Mér er ljóst, að það getur ekki orðið í einni svipan, eins og ástand þessara mála hefur verið hér á landi um áratugaskeið. En þessi breyting verður að koma, og hún þarf að grundvallast á algerri hugarfarsbreytingu varðandi samskipti skattborgarans og hins opinbera. Það ástand, sem hefur ríkt í þessum efnum, hefur falið í sér stórkostlegt félagslegt og fjárhagslegt misrétti, líklega mesta misréttið, sem um hefur verið að ræða í íslenzku þjóðfélagi á undanförnum áratugum. Þegar þetta misrétti hverfur og hlutdeild allra í skattbyrðinni verður sem jöfnust, hafa stór spor verið stigin í ,framfaraátt í íslenzku þjóðfélagi.

Það, sem ég vildi nefna í öðru lagi, að nauðsynlegt sé að gera til þess að auka félagslegt réttlæti og létta mönnum lífsbaráttuna, eru ráðstafanir til aukinnar og bættrar aðstoðar við, að menn geti eignazt eigið húsnæði. Fátt er heilbrigðari undirstaða trausts efnahags manna en það að búa í eigin íbúð. Þess vegna ber hinu opinbera að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum, að sem flestir eigi þess kost. Í því sambandi er auðvitað mikilvægt, að menn eigi völ á hæfilega miklu lánsfé til slíka framkvæmda með viðráðanlegum kjörum. En það skiptir þó sannarlega ekki minna máli, að byggingarkostnaður sé sem lægstur. Jafnframt. því sem ég tel, að það hljóti að verða eitt brýnasta viðfangsefni næstu ára að koma á fót allsherjarveðlánakerfi, sem allir húsbyggjendur geti átt öruggan aðgang að samkv: fyrir fram ákveðnum reglum, er bráðnauðsynlegt að gera af opinberri hálfu ráðstafanir til bætts skipulags í byggingariðnaðinum í því skyni að draga úr byggingarkostnaði.

Þriðja verkefnið, sem ég vildi nefna, að nauðsynlegt sé að vinna að á næstunni í því skyni að auka félagslegt réttlæti í landinu, er að koma á fót lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Almannatryggingakerfi þjóðarinnar hefur að vísu verið aukið mjög verulega undanfarin ár. Á s.l. 6 árum hafa bætur almannatrygginganna hvorki meira né minna en fjórfaldazt. En í þessum efnum má aldrei láta staðar numið. í kjölfar batnandi þjóðarhags og batnandi lífskjara verður ávallt að sigla aukinn jöfnubur í tekjuskiptingu. Og réttlátasta leiðin að því marki liggur tvímælalaust um almannatryggingakerfið. Næsta stórverkefni á því sviði á áreiðanlega að vera að tryggja öllum Íslendingum lífeyrisréttindi hliðstæð þeim, sem opinberir starfsmenn og ýmsar aðrar stéttir hafa notið lengi undanfarið. Svíar hafa þegar komið á fót slíku kerfi, Norðmenn eru að undirbúa það, og sama er að segja um fleiri þjóðir. Við Íslendingar höfum verið í hópi þeirra þjóða, sem hafa hvað viðtækastar almannatryggingar. Svo á að vera áfram og um alla framtíð.

Umr. um það, sein ég tel eiga að vera aðalverkefni ríkisstj. á næstu árum, væru þó ekki tæmandi, ef við það væri látið sitja að ræða um nauðsyn framleiðniaukningar og aukningu félagslegs réttlætis. Jafnvel þótt okkur tækist að auka þjóðarframleiðsluna verulega og bæta skiptingu þjóðarteknanna, væri auðvitað ekki með þessu fengið allt það, sem við eigum að keppa að. Þegar öllu er á botninn hvolft, hljótum við að sækjast eftír betri lífskjörum til þess að geta lifað fegurra menningarlífi. Bætt lífskjör eiga ekki að verða undirstaða aukins hóglífis, heldur fyllri lífsnautnar. Samfara allri baráttu fyrir aukinni þjóðarframleiðslu og auknu félagslegu réttlæti þarf því ávallt að vera barátta fyrir bættri menntun, eflingu vísinda og lista og aukinni hlutdeild alls almennings í þjóðlegum og alþjóðlegum menningarverðmætum. Að því er aukna menntun og eflingu vísinda snertir, er það raunar að segja, að nú á tímum er aukin menntun ekki aðeins leið til aukinnar farsældar og hamingju einstaklingsins, svo sem raunar hefur ávallt verið aðall sannrar menntunar, heldur er aukin menntun og efling vísinda nú beinlínis ein meginforsenda aukinna framfara. Nú á öld tækni og verkmenningar er þess vegna tvöföld ástæða til þess að leggja sérstaka áherzlu á bætta menntun og eflingu hvers konar vísinda. í öðrum löndum er nú í sívaxandi mæli litið á útgjöld til menntunar og vísinda sem einhverja arðbærustu fjárfestingu, sem völ sé á. Menntun og vísindi hafa nú stórkostlegt hagnýtt og fjárhagslegt gildi. En jafnframt heldur sönn einstaklingsmenntun áfram að vera öruggasta þroskaleiðin og þá um leið æðsta takmark mannlegrar viðleitni.

Af þessum sökum blasa við mikil verkefni og stór í íslenzkum skólamálum. Varðandi hinn hagnýta hluta þeirra tel ég mikilvægast að gera stórátak til þess að bæta tæknimenntun landsmanna, þ.e. með því að koma á fót tækniskóla og endurbæta iðnnám. Hvers konar rannsóknarstörf í þágu atvinnuveganna þarf þó að efla verulega. En skólakerfið yfirleitt þarf og ýmiss konar endurbóta, allt frá barnaskólum og upp í háskóla. Íslenzkir skólar hafa á undanförnum áratugum tekið minni breytingum en þjóðfélagið í heild. Þar bíða því mörg verkefni. Og það er ekki nóg, að skólarnir kenni um staðreyndir. Þeir verða einnig að stuðla að því, að nemendurnir kynnist öllum þáttum íslenzkrar menningar. Íslenzkar listir, hvort sem er á sviði bókmennta, tónlistar, myndlistar eða leiklistar, eiga ekki að vera einkamál þeirra, sem þær stunda, og einhvers fámenns hóps útvalinna, heldur sameign allrar þjóðarinnar. Í því skyni þarf bæði að efla listastarfsemina og auka skilning þjóðarinnar á henni.

Góðir áheyrendur. Ég hef í þessum orðum mínum rætt það, sem ég tel þá ríkisstj., sem vill leitast við að vera góð ríkisstj., eiga að einbeita sér að á næstu árum. Ég hef talið það nytsamlegra og skynsamlegra en að karpa við stjórnarandstæðinga um það, sem liðið er. Ég geri ráð fyrir því, að flestir stuðningsmenn núv, ríkisstj, séu mér sammála um, að öll þau verkefni, sem ég hef nefnt, séu mjög brýn og í raun og veru brýnustu verkefnin, sem vinna þurfi að. Og ekki kæmi mér á óvart, þótt margir þeirra, sem styðja stjórnarandstöðuflokkana, séu í raun og veru einnig sammála mér um, að þessi eigi stefnan að vera. Þess vegna mun ríkisstj. leggja sig alla fram um að ná sem beztum árangri í baráttu sinni fyrir því að auka þjóðarframleiðslu, efla félagslegt réttlæti og bæta menntun og menningu.