12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

Almennar stjórnmálaumræður

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Hvernig er búið að ungu fólki, sem hugsar til þess að stofna heimili eða á annan hátt að búa sig undir lífið og framtíðina? Þetta er eitt af því, sem hvað mestu veldur um þá einkunn, sem gefa verður stjórnarfari þjóðarinnar hverju sinni. Ævinlega og alls staðar hefur þurft mikið átak til að eignast eigið húsnæði. Svo mun löngum verða. En misjafnlega erfitt er þó þetta, m.a. eftir því, hvernig stjórnarvöld haga skipan mála. Ég mun á þeim fáu mínútum, sem mér eru ætlaðar hér í kvöld, leitast við að gera grein fyrir því, hvernig nú er umhorfs í þessum málum hér á landi.

Vegna legu landsins og aldarháttarins, ef svo mætti segja, er það staðreynd, sem erfitt verður að breyta, að fólk hér gerir talsvert miklar kröfur til húsnæðis. Íbúðirnar munu almennt vandaðri en gerist í grannríkjum okkar og einnig nokkru stærri en þar tíðkast, enda þótt þróunin sé í stækkunarátt, a.m.k. á Norðurlöndum. Þótt viðurkennt sé, að hér þurfi að byggja vandað og rúmgott húsnæði af eðlilegum ástæðum, er samt augljóst, að yfirleitt er byggt of dýrt og mun dýrara en vera þyrfti, ef skipulag væri nægilega gott. Meðalstærð íbúða mun vera um 375 teningsmetrar. Samkv. tölum hagstofunnar um byggingarkostnað kostaði íbúð af þeirri stærð 725 þús. kr. hinn 1. febr. s.l. Síðan hefur byggingarkostnaður hækkað, m.a. vegna aukins söluskatts, og mun ekki of hátt að reikna kostnaðinn 2100 kr. á teningsmetra, og er þá verð umræddrar meðalíbúðar komið upp í 787500 kr. Fyrirgreiðsla hins opinbera er lán að upphæð 150 þús. kr., afgreitt, þegar bezt lætur, þegar byggingin er langt á veg komin, og annað ekki. Þær 637 þús. kr., sem þá vantar, verða að fást annars staðar. Árið 1957 var tekinn upp skyldusparnaður ungs fólks. Sú tilhögun hefur hjálpað mörgum til þess að eignast eigin húsnæði og orðið nokkuð vínsæl. Gleggsti vitnisburður þess er, að hæstv. ríkisstj. hefur nú beitt sér fyrir auknum skyldusparnaði, en eins og kunnugt er, voru sjálfstæðismenn þessu fyrirkomulagi mjög andvígir í upphafi. Samkv. hinum nýju ákvæðum er skyldusparnaður nú 15% af launatekjum. Auðvitað er það ákaflega misjafnt, hversu háum upphæðum skyldusparnaður hvers og eins getur numið. Sumir vinna allt tímabilið, en aðrir eru við nám á þessu aldursskeiði, og margt fleira kemur til. Hér er því ekki unnt að nefna nokkra meðaltalsupphæð. En þótt reiknað sé með 150 þús. kr. skyldusparnaði hjónaefna, sem tæplega mun vanreiknað, vantar samt 487 þús. kr. til að koma upp meðalíbúð. Lánastofnanir hafa mjög takmarkaða getu til að liðsinna í þessu efni, eins og nú er að þeim búið, og þótt þar kunni að takast að fá einhverja fyrirgreiðslu, er hún yfirleitt í formi stuttra víxillána, sem hanga eins og hárbeitt sverð yfir höfði lántaka. Fasteignaveðlán til lengri tíma fást yfirleitt ekki, m.a. vegna þess, að forráðamenn lánastofnana óttast að binda fjármagnið til langs tíma í því ótrygga efnahagsástandi, sem hér ríkir. Lífeyrissjóðirnir veita nokkra hjálp, en aðeins þeim, sem þar eru félagar, en það er auðvitað lítið brot af þeim fjölda, sem byggir.

Í þessu sambandi minni ég á, að á Alþingi 1956 fluttu framsóknarmenn till. um athugun á því, hvort tiltækilegt væri að stofna lífeyrissjóð fyrir þá, sem ekki njóta lífeyristrygginga hjá sérstökum lífeyrissjóðum. Þessi ályktun var samþykkt, og árið 1958 var 5 manna nefnd skipuð í málið. N. skilaði áliti til ríkisstj. í nóv. 1960, þar sem gert var ráð fyrir almennum lífeyrissjóði. Í þessu máli mun ríkisstj. ekkert hafa gert. Hafa því flm. till. frá 1956 séð sig til neydda að flytja till. á ný um sama efni. Áhugi ríkisstj. á málinu hefur ekki verið meiri en svo, að sennilega sofnar þessi till. svefninum langa á þessu þingi. Þar kemur því sannarlega úr hörðustu átt, að hæstv. viðskmrh. skyldi í gær tala um almennan lífeyrissjóð sem einhvers konar nýuppfundið bjargráð, sem hæstv. ríkisstj. mundi beita sér fyrir að framkvæma. Annars var ræða þessa hæstv. ráðh. einkennileg fyrir fleiri hluta sakir. Hann mæltist undan því, að störf stjórnarinnar á liðnum tíma væru gerð að umtalsefni, og hann talaði eins og hann væri byrjandi í stjórnarráðinu og ætti allt ógert enn þá. En hann er þó búinn að sitja í þessari ríkisstj. á fimmta ár.

Eins og ég hef nú lýst, er það mjög undir hælinn lagt, hvernig til tekst um öflun þess gífurlega fjármagns, sem þarf til þess að byggja meðalstóra íbúð, og allt of oft mun gripið til örþrifaráða í þessu sambandi. Afleiðing fjármagnsskortsins er sú m.a., að húsin verða óhæfilega lengi í smíðum og einnig á þann hátt dýrari en vera þyrfti, ef hægt væri að halda eðlilegum byggingarhraða. Með þessu er þó sagan hvergi nærri öll sögð. Þótt tekizt hefði að afla nauðsynlegs lánsfjár til þess að ljúka byggingu meðalíbúðar fyrir umræddar 787500 kr., þá er vandamálið engan veginn fullleyst fyrir því. Eftir er að standa straum af vöxtum og afborgunum lánanna. Hér verður ekki gerð tilraun til að reikna það dæmi á enda, hvað það kostar að búa í nýrri meðalíbúð. Þó má benda á, að vextirnir einir af áðurgreindri fjárhæð eru 70 þús. kr. Með því að reikna lægri vexti af húsnæðisláninu og enga vexti af eigin framlagi lækkar auðvitað þessi upphæð, en eftir sem áður hljóta útlagðir vextir að nema tugum þúsunda hjá svo að segja hverjum einasta manni. Þá eru eftir afborganirnar, auk viðhaldskostnaðar, ljóss og hita.

Ekki eru leigjendur betur settir. Algeng húsaleiga fyrir meðalstórar íbúðir mun vera nálægt 5 þús. kr. á mánuði, en þó munu vera dæmi um enn hærri leigu. Annars er húsnæðisskorturinn, a.m.k. hér í Reykjavík, svo mikill, að hartnær ómögulegt er að fá leiguhúsnæði, þótt háar fjárhæðir séu í boði. Þessi gífurlegi húsnæðiskostnaður leiðir vitanlega til þess, að sífellt verður að gera auknar kaupkröfur, því að lágmarkslaun hljóta ávallt að miðast við það, hvað það kostar að lífa. Fólk getur ekki hætt að búa í húsum og verður þar af leiðandi að krefjast þeirra launa, sem standa undir kostnaðinum. Ein meginorsök verðbólgunnar er því ófremdarástandið í húsnæðismálunum. Laun verkamanna fyrir 8 stunda vinnudag alla virka daga ársins eru nú rúmar 77 þús. kr. samkv. taxta. Með gegndarlausri yfirvinnu og þrældómi langt umfram það, sem annars staðar er talið mannsæmandi, hefur mönnum þó tekizt að auka tekjur sínar, svo að dugi fyrir óhjákvæmilegum útgjöldum heimilanna, en þar er húsnæðiskostnaðurinn hjá flestum stærsti gjaldaliðurinn.

Þannig er þá sú mynd, sem blasir við augum unga fólksins í dag, þegar það skoðar þessi mál, og það stjórnarfar, sem þetta ástand hefur skapað, getur ekki gert sér vonir um háa einkunn fyrir frammistöðuna. Það er fjarri mér að halda því fram, að hér sé um auðvelt verkefni að ræða. Ég veit og viðurkenni, að hér þarf stórátak til að koma. En ég fullyrði, að því átaki sé ekki lengur hægt að fresta. Andvaraleysi og röng stefna í þessum málum leiða til óbætanlegs þjóðfélagstjóns. Hér þarf gagnger stefnubreyting til að koma. Þm. Framsfl. hafa borið fram till. þess efnis, að kosin verði sérstök nefnd til að rannsaka þessi mál og gera till. að nýrri heildarlöggjöf, er hafi m.a. að markmiði þetta: 1) Að auka lánveitingar til bygginga nýrra íbúða, svo að unnt verði að lána til hverrar íbúðar af hóflegri stærð 2/3 hluta af byggingarkostnaði. 2) Að jafna aðstöðu manna til lánsfjár þannig, að heildarlán geti orðið svipuð til hvers manns miðað við sömu stærð íbúðar, hver sem hann er og hvar sem hann býr. 3) Að greiða fyrir lánveitingum til að endurbæta íbúðir, svo og að kaupa íbúðir til eigin nota. 4) Að lækka byggingarkostnaðinn í landinu.

Hér er ekki tími til að gera frekari grein fyrir þessum atriðum hverju fyrir sig. En ég held, að ekki sé ofsagt, að þau eru öll knýjandi nauðsyn og þeim verður ekki lengur á frest skotið. Þessa till. hafa stjórnarliðar í fjvn. ekki treyst sér til að samþykkja, heldur leggja til, að henni sé vísað til ríkisstj. með þeim rökstuðningi, að málið sé í athugun. Af þessari afgreiðslu hlýtur að verða að draga þá ályktun, að stjórnarliðar séu svo ánægðir með aðgerðirnar í húsnæðismálunum, að þeir telji breytinga ekki þörf. Samkv. þessari afgreiðslu er þá eflaust ætlazt til þess, að Alþingi taki því sem sjálfsögðum hlut, að ástandið í lánamálum húsnæðismálastjórnar sé með þeim hætti, sem fram kom hjá hæstv. félmrh. hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum, en sú lýsing var þannig, að ekki lægju fyrir tölur um það, hve háum fjárhæðum yrði hægt að úthluta úr byggingarsjóði nú, og úthlutun færi væntanlega fram innan skamms. Nú liggur óafgreiddur hjá húsnæðismálastjórn mikill fjöldi umsókna, og þeirri úthlutun, sem hæstv. ráðh. ræddi um, hefur verið lofað fyrir löngu. Vegna þess, hve úthlutun hefur dregizt, hafa margir lent í hreinum ógöngum, svo að við borð liggur, að menn missi húsin. En allt, sem hægt var að segja við þessa menn fyrir nokkrum dögum, var þetta: Úthlutun fer væntanlega fram innan skamms. — Sýnilega heldur áfram að síga á ógæfuhliðina einnig á þessu ári. óafgreiddar umsóknir hrúgast upp og lánsupphæðin verður minnkandi hluti byggingarkostnaðarins með hverjum mánuðinum sem liður. Samt sem áður telja stjórnarinnar í fjvn. ekki ástæðu til að samþykkja till. þá, er ég áðan greindi.

Í sambandi við meðferð frv. til I, um breyt. á tollskrá höfum við þm. Framsfl. reynt að koma fram þeirri lagfæringu, að ríkisstj. yrði heimilað að endurgreiða hluta aðflutningsgjalda af byggingarefni í íbúðarhús eftir stærð þeirra, er næmi 110 kr. á hvern rúmmetra íbúðar. Endurgreiðslan átti þó ekki að ná til þess hluta Íbúðar, sem er umfram 360 rúmmetra. Sú lagfæring, sem fengist á þennan hátt, nemur um 35 þús. kr. á hverja íbúð, og þannig hefði verið komið örlítið til móts við húsbyggjendur. Þessa till. nefndi hæstv. fjmrh. yfirboð og virtist hneykslaður á okkur að hreyfa slíku máll. Taldi hann, að ríkissjóður gæti með engu móti án þeirra tolltekna verið, sem innheimtar eru af byggingarefni til meðalstórrar íbúðar og þaðan af minni. Þegar þess er gætt, að skatt- og tollpíningur þessarar hæstv. ríkisstj. tekur öllu fram, sem hér hefur þekkzt, og hafa þó fyrr verið innheimtir háir skattar á Íslandi, og jafnframt haft í huga, að undanfarin ár hefur verið stórfelldur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði og útlit er fyrir, að svo verði einnig nú, þá er augljóst, að þessi ástæða er helber fyrirsláttur. Situr sízt á þeim mönnum, sem bera ábyrgð á ástandinu í húsnæðismálunum í dag, að tala með lítilsvirðingu um þær úrbætur, sem bent er á.

Nú eru fram undan örlagaríkar viðræður um kjaramálin. Sívaxandi dýrtíð ásamt þeirri staðreynd, að á undanförnum árum hefur verðlag alltaf hækkað meira en kaupgjald, gerir það óhjákvæmilegt fyrir launþega að krefjast stöðugt nýrra launahækkana, án þess að þeir hafi þó í rauninni nokkurn tíma við dýrtíðarskriðunni. Í þessu sambandi ber að hafa það vel í huga, að einn stærsti útgjaldaliður hvers heimilis er húsnæðiskostnaðurinn, og það er undirstaða efnalegs sjálfstæðis að eignast eigið húsnæði, auk þess sem það er heilbrigt metnaðarmál dugmikils æskufólks í landinu. Kaupgjaldsmálunum er því e.t.v. ekki hvað sízt hægt að þoka til réttrar áttar með myndarlegu átaki í húsnæðismálunum og koma á þann hátt fram raunhæfum kjarabótum. Svona stórfellt þjóðfélagsvandamál eru húsnæðismálin, þegar þau eru grandskoðuð, og svona mikið er undir lausn þeirra komið. Þess vegna verður að taka upp nýja stefnu í þessu málí, ekki „væntanlega innan skamms“, heldur strax.