12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

Almennar stjórnmálaumræður

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég ætla að byrja á að taka það fram, að ummæli hv. þm. Benedikts Gröndals í gærkvöld varðandi brtt. þriggja framsóknarmanna við vinnulöggjöfina fyrir nokkrum árum eru byggð á misskilningi eða rangtúlkun á því, sem þar var um að ræða. Ekki er tími til að ræða það mál nánar nú.

Um þetta leyti fyrir 5 árum stóð mikið til hér á hinu háa Alþingi. Hv. þm. þriggja flokka voru þá að breyta stjórnarskráimi, og til þess þurfti tvennar kosningar. Gömlu kjördæmin öll utan Reykjavíkur urðu þá að láta af hendi það takmarkaða sjálfstæði, sem þeim hafði verið fengið við endurreisn Alþingis. Það verk er fyrir hendi að byggja upp nýja brjóstvörn fyrir landsbyggðina, hvort sem það verður gert á grundvelli fjórðunganna fornu eða á annan hátt.

Liðið er nú langt á fimmta ár, síðan þingmeirihl., sem kjördæmabyltingin skóp, tók við stjórn í landinu. Þegar gengið er á sjónarhól, blasa við augum tvö aðaleinkenni þessa tímabils í þjóðarbúskap Íslendinga: óvenjulegt góðæri, a.m.k. lengst af, í miklum hluta landsins og á miðunum, og óvenjulegur vöxtur dýrtíðar. Dýrtíðin er af mannavöldum, um það eru víst allir sammála, þótt deilt sé um sök og sýknu. Um annað eru líka margir sammála um þessar mundir, að ríkisstj. ráði ekkert við þessa dýrtíð og sé ekki líkleg til að ráða við hana. Í lok þessa þings býr þjóðin við veika stjórn og reikula í ráði, en sú stjórn styðst við þingmeirihl. og getur því haldið áfram að fara með ráðherraumboð, þó að stjórnarstefnan sé óljós eða engin, eins og nú er komið.

Það er til marks um dýrtíðina, að vísitalan fyrir vörur og þjónustu hefur hækkað um 84% og sögð fyrirsjáanleg hækkun á næstunni um 9 stig. En húsnæðisvísitala er í rauninni engin til. Umsetning fjárl. hefur meira en þrefaldazt síðan 1958. Skuldir þjóðarinnar við útlönd að frádregnum inneignum voru um síðustu áramót svipuð upphæð, taldar í erlendum gjaldeyri, og þær voru, þegar vinstri stjórnin hætti störfum, en þá voru þessar skuldir taldar aðalröksemdin fyrir nauðsyn hinnar umdeildu og áhættusömu viðreisnar, sem nú er strönduð. Um þessi efni hafa aðrir rætt og munu ræða.

En samtímis því sem dýrtíðin vex og stéttir og einstaklingar takast á um skiptingu þjóðarteknanna, dregur á loft bliku yfir Íslandi, sem getur ráðið úrslitum um örlög þjóðarinnar, ef ekki er ráð í tíma tekið. Ég á hér við hina ískyggilegu þróun landsbyggðar á síðustu áratugum, hina vaxandi röskun jafnvægis í byggð landsins. Þessi jafnvægisröskun er nú komin á það stig, að jafnvel hér í höfuðborginni eru ungir og áhugasamir hagfræðingar farnir að gefa henni gaum og vara beint eða óbeint við ofvexti höfuðborgarinnar á kostnað landsbyggðar. Þær raddir gerast á þessu ári fleiri en fyrr, sem taka undir þá skoðun, að þ~að sé frumskylda þjóðarinnar og lífsnauðsyn að byggja land sitt, og ef henni tekst ekki að halda því áfram, ef byggðarlög hverfa eða heilir landshlutar til sjávar og sveita verúa ekki nema svipur hjá sjón, þá mun þessari þjóð ekki heldur takast að varðveita menningu sina og sjálfstæði til frambúðar, — að hér sé um. að ræða þjóðarvanda, sem fari vaxandi og gnæfi yfir hin tímabundnu viðfangsefni, — mál málanna á komandi árum. Það eru ekki bara sveitirnar, sem eiga í vök að verjast, heldur heilir landshlutar, bæði dreifbýli og þéttbýli. Því verður mér nú á eldhúsdegi undir þinglok ríkast í huga það tómlæti og sú þverúð, sem hæstv. ríkisstj. og þeir, sem að henni standa, hafa sýnt á þessu þingi í sambandi við hið mikla alvörumál, sem hér er á ferðum.

Á fyrstu dögum þessa þings fluttum við framsóknarmenn frv. til nýrrar löggjafar um skipulagðar ráðstafanir í byggðajafnvægismálinu. Þeir, sem fylgzt hafa með þingfréttum, þekkja efni þessa frv. Þar er mælt fyrir um raunhæfar aðgerðir, framlag fjármuna, sem máli skipta, og grundvöll að skapandi starfi á komandi tímum. Gert er ráð fyrir að leggja fram árlega. í þessu skyni tiltekinn hundraðshluta af ríkistekjunum og koma á fót sérstakri þjóðfélagsstofnun, sem fylgist með byggðaþróuninni og láti til sín taka með fjármunum og vaxandi fyrirhyggju þau verkefni, sem brýnust eru á hverjum tíma, til þess að viðhalda og efla byggð um land allt. Hér er m.a. byggt á reynslu og framtaki frænda vorra Norðmanna, sem í meira en áratug hafa á svipaðan hátt unnið að jafnvægi í byggð Noregs og fyrir 3 árum fengu jafnvægissjóði sínum þúsundir milljóna til umráða í þessu skyni. Við höfum flutt þetta mál áður. Við fluttum það einnig í fyrra. Þá var því vísað frá með þeim rökstuðningi, að það væri óþarft. Nú í vetur var það látið liggja 5 mánuði í nefnd, og eftir þessa 5 mánuði lagði stjórnarmeirihl. í n. til, að því yrði enn vísað frá og með sama rökstuðningi og í fyrra, að það væri óþarft. Hinn 15. apríl voru nál. tekin til umr., fundi slitið í miðri ræðu og málið ekki aftur tekið á dagskrá.

Í fyrra vitnuðu hv. stjórnarþm. í svonefndan atvinnubótasjóð. Hann ætti að nægja, sögðu þeir þá. En atvinnubótasjóðurinn er engin nýlunda. Þar er aðeins um að ræða hið svonefnda atvinnuaukningarfé, sem lengi hefur verið veitt á fjárl. ár hvert og var 15 millj. fyrir 7 árum, þegar fjárlagaupphæðin var um 800 millj., en er 10 millj. nú, þegar fjárlagaupphæðin er um 3000 millj. Bróðurparturinn af atvinnubótasjóðnum í fyrra fór í lánveitingar í Reykjavík og öðrum byggðum við Faxaflóa. Hér er því um allt annað mál að ræða, þótt gagnlegt sé á sinn hátt. Einn af þm. Sjálfstfl, á Vestfjörðum hefur líka játað það opinberlega, að svo sé. Hann hefur nú stungið upp á því, að reynt verði að fá fjárhagsaðstoð hjá flóttamannasjóði Vestur-Evrópu til að gera það, sem atvinnubótasjóður átti að vera einfær um í fyrra. Ekki er sú hugmynd stór í sniðum, en þó athugunarverð og hefur gildi sem vitnisburður. En bezt er að gera sér það strax ljóst, að aðrar þjóðir eða alþjóðastofnanir munu ekki telja það sitt hlutverk fyrst og fremst að hafa forgöngu um að tryggja það, að íslendingar byggi land sitt og glati því ekki í hendur framandi fólki, sem býr við landþrengsli og komið hefur auga á framtíðarmöguleikana í okkar ágæta landi, sbr. erlend blaðaskrif nýlega um þau mál.

Landsbyggðin er landvörn okkar íslendinga. Af því að forfeður okkar byggðu landið allt, eigum við það nú. Af því að sjómenn okkar veiddu fisk við strendur þess, eigum við landhelgina. Jafnvel smáþjóðir verja 20% af ríkistekjum sínum til þess að vera við því búnar að verja land sitt með vopnum, ef til kæmi. Við Íslendingar erum lausir við slík útgjöld. Með tilliti til þess ætti okkur ekki að vaxa í augum, þótt við þyrftum að verja einhverjum hundraðshluta, jafnvel þótt hann væri hærri en við framsóknarmenn höfum nefnt, til þess að efla hér hina friðsamlegu landvörn byggðarinnar og skapa verðmæti.

Framkvæmd þjóðmála er nú á tímum skipt í sérgreinar, og ráðuneytum eða ríkisstofnunum falin yfirumsjón þeirra og ábyrgð. Meðal sérgreina þjóðfélagsstarfseminnar er t.d. dómgæzla og réttarfar, fræðslumál, póst- og símaþjánusta, útvarp, vega- og hafnargerð, málefni atvinnuveganna, félagsmál o.s.frv. Þegar ný viðfangsefni eða aðkallandi krefjast þess, bætist við ný sérgrein, ný aflstöð í ríkiskerfinu. Og nú vantar einmitt slíka aflstöð, sérstaka þjóðfélagsstofnun, sem hafi þá sérgrein til umsjónar og til að bera ábyrgð á, að landið okkar haldist í byggð og að landsbyggðin eflist. Að þessu á slík stofnun að vinna með aðstoð fjármuna og í samstarfi við hlutaðeigandi byggðarlög, þannig að frumkvæðisgeta þeirra njóti sín í því samstarfi. Hún á einnig að stuðla, að dreifingu opinberrar starfsemi um landið og hafa með höndum leiðbeiningar- og hvatningarstarfsemi.

Með ýmiss konar löggjöf hefur á þessari öld verið stuðlað að framkvæmdum í landinu. Þá löggjöf þarf að efla, t.d. þarf að auka ríkisframlag til hafna og vega víðs vegar um land, jarðræktarframlög og margs konar lánastarfsemi til almennrar uppbyggingar. Og ljúka þarf rafvæðingu dreifbýlisins sem fyrst. En þar sem almenn löggjöf eða almenn lánastarfsemi nægir ekki, þar sem herzlumuninn vantar, t.d. til þess að koma upp atvinnufyrirtæki eða framkvæmd, sem brýn þörf er á til að styðja æskilega byggðaþróun, eða til að koma í veg fyrir skyndihrun byggðarlagsins eða til að mynda nauðsynlegan þéttbýliskjarna, — þar sem þennan herzlumun vantar, þar þarf landsbyggðarstofnunin eða jafnvægissjóðurinn að koma til skjalanna. Það er mergur þessa máls hér, eins og í Noregi og víðar. Stórvirkjun vatnsafls og stóriðja byggð á innflutningi fjármagns er því aðeins tímabær nú, að með henni sé stuðlað að auknu jafnvægi milli landshlutanna.

Náttúran hefur gert allt þetta land byggilegt milli fjalls og fjöru. Lífsskilyrðin eru víða til sjós og lands, sjávaraflinn er nú lagður á land í rúmlega 60 fiskihöfnum fyrir norðan, austan, sunnan og vestan. Svo að segja í hverri sveit er gnægð ræktunarlands, vatnsorka og jarðhiti í öllum landshlutum. Svipað er að segja um byggingarefni og fleira, sem byggð krefst. En blind lögmál fjármagns og viðskipta, sem hafa nútímatæknina á valdi sínu, stefna landsbyggðinni í voða. Þessi lögmál eru ekki alltaf í samræmi við þjóðleg og félagsleg markmið. En manninum ber að vera herra fjármagnsins og herra tækninnar. Hann er það, ef hann vill, og að því ber nú að stefna, að hin þjóðlegu og félagslegu markmið ráði.