12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í umr. í gærkvöld kom það greinilega fram eins og oft áður, að stjórnarandstaðan er algerlega málefnalaus og hefur ekkert jákvætt fram að bera. Stjórnarandstæðingar eru með svipað nöldur og áður og telja svo þrengt að almenningi, að lífskjörin hafi aldrei verið lakari en nú. Það er vitanlega neikvætt að halda slíku fram, þar sem allir, sem á hlýða, vita, að áróður af þessu tagi stangast á við staðreyndirnar. Enda þótt dýrtíð hafi vaxið, hafa tekjur alls almennings og atvinnumöguleikar aukizt það mikið, að lífskjör þjóðarinnar hafa aldrei verið betri en nú.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar miðar að því að telja öllum almenningi og ekki sízt unga fólkinu trú um, að lífsbaráttan hér á landi sé svo erfið, að lítil von sé til að sigra í þeirri baráttu. Þetta er þjóðhættuleg kenning og háskaleg, ef einhver legði trúnað á hana. Framsóknarmenn tala oft um erfiðleika bænda og að þeir séu tekjulægsta stéttin. Sannleikurinn er sá, að margir bændur hafa allt of lítil bú og af þeim ástæðum ekki lífvænlegar tekjur. Það er þess vegna, að meðaltekjur bændastéttarinnar eru mjög lágar. Það þarf að stækka litlu búin og vinna að auknum framförum í landbúnaðinum, svo að fólksflutningar utan úr sveitunum hætti.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum seint á árinu 1959, var það fyrsta verkefni hennar að leysa verðlagsmál landbúnaðarins og rétta hlut bændastéttarinnar. Lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins var breytt, eins og kunnugt er, og með því gefin trygging fyrir fullu verði á landbúnaðarframleiðslunni. Framsóknarmenn reyndu ekki að bæta bændum tugmilljónatap, sem þeir árlega tóku á sig vegna útflutnings landbúnaðarvara. Á þessu ári mun útflutningstryggingin nema allt að 25 þús. kr. á hvern bónda að meðaltali. Verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins hefur verið leiðréttur mikið síðustu árin. Er hann nú miklu nær því að vera réttur heldur en hann var 1958, síðasta árið sem framsóknarmenn voru í ríkisstj. 1958 var kaup bóndans í grundvellinum 67257 kr., en 1963 119121 kr. Hækkunin nemur 78%. Við þetta bætist, að bændur fá nú fullt grundvallarverð, sem þeir fengu ekki áður. Að vísu hefur það skeð nú, sem fáir skilja og verður að fá skýringu á siðar, að Mjólkurbú Flóamanna vantar að þessu sinni 81/2 eyri á lítra, þegar Mjólkursamlag KEA skilar 3 aurum yfir grundvallarverði og mörg önnur mjólkurbú ná grundvallarverðinu að fullu. Verðgrundvöllurinn er auk þess eftir þær leiðréttingar, sem á honum hafa verið gerðar, raunhæfari en áður, þar sem gjöld búsins eru tekin mun betur til greina en áður var. Þannig má telja, að viðhald fasteigna hefur verið hækkað síðan 1958 um 158%. Viðgerðarkostnaður véla hefur verið hækkaður í grundvellinum um 175%. Fyrning á vélum hefur verið hækkuð í grundvellinum um 246%. Vextir hafa verið hækkaðir í grundvellinum um 281%, enda fengu bændur 1958 enga vexti af eigin fé, sem bundið er í búi, húsum, jörð og tækjum, en 1963 eru bændum reiknaðar 23880 kr. í vexti af eigin fé. Erlent kjarnfóður hefur hækkað í grundvellinum um 8890, tilbúinn áburður um 83%. Þegar þetta er athugað, verður ljóst, að miklar lagfæringar hafa verið gerðar á útgjaldahlið grundvallarins, þótt enn megi benda á ýmislegt, sem þörf er á að breyta. Mjólk hefur hækkað síðan 1958 um 67%. Afurðir af sauðfé hafa hækkað um 90%.

Það er ekki tími til að hafa fleiri orð um verðlagsmál landbúnaðarafurða að þessu sinni, enda er öllum ljóst, sem um málin hugsa og kynna sér þau, að hlutur landbúnaðarins hefur ekki verið fyrir borð borinn á valdatíma núv. ríkisstj.

Framsóknarmenn ræða oft um lánamál landbúnaðarins. Þeir minnast ekki á, að þegar þeir yfirgáfu valdastólana, voru búnaðarsjóðirnir gjaldþrota. Í stað þess að viðurkenna það uppbyggingarstarf, sem unnið hefur verið með endurreisn stofnlánadeildar landbúnaðarins, hafa framsóknarmenn reynt að torvelda það með því að vekja tortryggni og stofna til æsinga í sambandi við þetta mikilsverða hagsmunamál bændastéttarinnar. Komandi tímar og reynslan mun tala máli stofnlánadeildarinnar, og því fjölyrði ég ekki meira um það mál. Framsóknarmenn ræða oft um veðdeild Búnaðarbankans og nauðsyn þess að útvega fé til hennar. En þeir nefna ekki, að 1958 lánaði veðdeild aðeins 646 þús. kr. til bænda. Deildin hafði ekkert fé þá frekar en áður. Framsóknarmenn gerðu sig ánægða með það, en nú vantar ekki kröfurnar á hendur ríkisstj. um að leysa allan vanda á örstuttum tíma. Lánað var til landbúnaðarins árið 1963 úr búnaðarsjóðunum um 109 millj. kr. Ef framsóknarmenn væru við völd, mundu þeir vissulega miklast af því, en flestir munu telja, að svo mikil lán hefðu ekki fengizt, ef þeir hefðu átt að útvega fé til sjóðanna.

Framsóknarmenn tala nú oft um afurðalánin og segja, að rekstrarlán landbúnaðarins, eins og afurðalánin eru oftast nefnd, hafi staðið óbreytt í krónutölu síðan 1958. Þetta er vitanlega ekki rétt. Afurðalán landbúnaðarins urðu hæst haustið 1958 263 millj. kr., en haustið 1963 380 millj. kr. Hækkunin nemur 117 millj. kr. eða 44.5%. Afurðalán til sjávarútvegs urðu hæst 1958 411 millj. kr., en 1963 590 millj. kr. Hækkunin nemur 179 millj. eða 43.5%. Hækkun afurðalána til landbúnaðarins og sjávarútvegsins er mjög lík, en þó 1% hærri til landbúnaðar. Framleiðsla landbúnaðar- og sjávarafurða hefur aukizt mikið síðan 1958 og því eðlilegt, að afurðalánin hafi hækkað. Rekstrarlán hafa auðvitað aukizt miklu meira en það, sem hækkun afurðalánanna nemur. Viðskiptabankarnir hafa aukið og bætt við rekstrarlán þessara höfuðatvinnuvega þjóðarinnar, eins og sjálfsagt og nauðsynlegt er að gera.

Framleiðsla landbúnaðarins hefur vaxið mikið síðustu árin og aldrei meira en í tíð núv. ríkisstj. Framleiðslan vex talsvert meira en neyzluþörf þjóðarinnar vegna fólksfjölgunarinnar. Það, sem ýtt hefur undir framleiðsluaukninguna, er batnandi verðlag afurðanna og sölutryggingin, sem landbúnaðurinn býr við. Ræktunin vex árlega um nærri 4 þús. ha., og bithagar hafa verið bættir með því að dreifa áburði yfir þá úr flugvél. Unnið er að uppgræðslu lands, eins og vera ber, og er ástæða til þess að auka þá starfsemi.

Framsóknarmenn tala oft eins og sveitirnar séu að fara í auðn. Jarðir fara í eyði, segja framsóknarmenn, og bændunum fækkar. Þeir minnast þess ekki, að fólksflótti úr sveitunum hefur verið mestur þau árin, sem þeir voru í ríkisstj. Framsóknarmenn viðurkenna ekki þá staðreynd, að fólksflótti úr sveitunum og fækkun bænda hefur verið minni síðustu 4 árin en oft áður. Tala byggðra jarða 1958 var 6089, en 1963 5929. Þetta er nokkur breyting, en þegar þess er gætt, að litlar jarðir hafa verið sameinaðar og gert eitt býli byggilegt úr 2–3 litlum jörðum, verður sú þróun að teljast eðlileg og hagkvæm. Landið er notað, þótt ein jörð sé lögð undir aðra.

Lítils háttar hefur verið rætt um vegalögin og vegáætlunina, sem samþykkt var á Alþingi fyrir fáum dögum. Er það fagnaðarefni, að grundvöllur er lagður að auknum vegaframkvæmdum og bættum samgöngum víðs vegar um landið. Það eru hjáróma raddir og marklausar, sem halda því fram, að framkvæmdir í vegamálum aukist lítið með tilkomu nýju vegal. Rafvæðing landsins er vel á veg komin. Tíu ára áætlun er að ljúka. Framhaldsáætlun til 5 ára er nærri lokið að semja, og miðast hún við, að landsmenn allir hafi fengið rafmagn að þeim tíma loknum. Er það í samræmi við þjóðfélagshætti Íslendinga, að samfélagið taki á sig verulegan hluta af þeim kostnaði, sem af því leiðir að veita þeim, sem erfiðasta aðstöðu hafa, möguleika til að njóta þeirra þæginda, sem raforkan veitir. Það er nú einn þáttur í því að gera fólk ánægt með hlutskipti í strjálbýlinu.

En það er ekki nóg að leggja rafmagnslínur til bæja og kauptúna. Það verður einnig og ekki síður að tryggja nægilega raforku með því að virkja eitthvað af því mikla vatnsafli, sem fyrir hendi er. Undanfarið hafa farið fram víðtækar virkjunarrannsóknir, og hefur aldrei verið varið jafnmiklu fé til slíkra athugana og s.l. 3 ár. Virkjunarrannsóknir hafa verið gerðar í Jökulsá, Þjórsá við Búrfell, Hveragerði, Hvítá, Laxá í Þingeyjarsýslu, Lagarfossi, Svartá í Skagafirði, á Vestfjörðum og víðar. Orkuskortur verður víða um land eftir fá ár. Því verður að hefjast handa um virkjunarframkvæmdir strax næsta ár. Rannsóknirnar miða að því að gera sér grein fyrir, hvar ódýrast og heppilegast er að virkja, og ekki síður, á hvern hátt mætti tryggja öllum landsmönnum sem öruggast og ódýrast rafmagn. Vitað er, að stórvirkjanir eru á margan hátt hagkvæmari og tiltölulega ódýrari en smærri virkjanir. Því er það í athugun, hvort heppilegt er að gera stórvirkjun, landsvirkjun, t.d. við Búrfell, og leggja línur frá þeirri virkjun víðs vegar um landið, í stað þess að gera margar smærri virkjanir. Rannsóknum í þessum málum er enn ekki að fullu lokið, þótt sérfræðingar hafi unnið að þeim undanfarið, en lokastig rannsóknanna nálgast, og mun grg. af hendi sérfræðinga verða lögð fram fyrir haustið. Verður því frv. um virkjunarframkvæmdir lagt fram á haustþinginu og þarf að fást lögfest fyrir n.k. áramót. Til að annast lokarannsókn þessara mála hefur ríkisstj. óskað eftir því, að Sogsvirkjunarstjórn og Laxárvirkjunarstjórn skipi einn mann hvor í þriggja manna tækninefnd, og verður Eiríkur Briem rafmagnsveitustjóri formaður nefndarinnar. N. þessi mun yfirfara þær rannsóknarskýrslur, sem fyrir liggja, og gera samanburð á hinum ýmsu möguleikum, sem fyrir hendi eru. Að lokum mun n. gera till. til ríkisstj. um, með hverjum hætti raforkumál þjóðarinnar verði bezt leyst til frambúðar. Þá er einnig fyrirhugað að skipa n. til þess að gera athugun á því, hvort heppilegt þyki að stofna til samvinnu milli ríkísins, Sogsvirkjunar og Laxárvirkjunar um virkjunarframkvæmdir, og ef svo sýnist vera, semja þá um eignarhlutföli og stjórn þeirrar stofnunar.

Það er mikill misskilningur, sem Eysteinn Jónsson sagði í gærkvöld, að ríkisstj. vilji ekki hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna um virkjunarmál. Eins og áður er getið, hefur rannsókn og undirbúningur málsins verið í höndum sérfræðinga. Þegar rannsóknum er lokið, er fyrst tími til þess kominn að leggja niðurstöðurnar fyrir og taka ákvarðanir um framhaldið.

Það er ekki aðeins í virkjunarmálum, sem stórverkefni liggja fyrir. Möguleikar þjóðarinnar til uppbyggingar nýrra atvinnugreina eru hvarvetna fyrir hendi. Mikið er ógert í hafnarmálum víðs vegar um landið. Verksmiðju þarf að byggja til þess að vinna úr afurðum landhúnaðarins og sjávarútvegsins í ríkari mæli en verið hefur. Vinna þarf að fiskirækt og auka þannig tekjur þjóðarbúsins og fjölbreytni í atvinnulífinu. Vinna þarf að því að fá nýja og betri markaði fyrir íslenzkar vörur. Með vaxandi framleiðslu og mikilli vinnu, sem almenningur leggur fram, skapast ótæmandi möguleikar til þess að tryggja þjóðinni efnahagslegt öryggi og bætta lífsafkomu.

Síðari árin hefur tekjuskipting þjóðarinnar orðið jafnari en áður. Auknar almannatryggingar eiga að tryggja alla landsmenn gegn skorti. Þótt kjör manna séu eðlilega enn nokkuð misjöfn, má þó fullyrða, að engir líða skort hér, eins og oft á sér stað meðal annarra þjóða. Við sjáum ekki svöng eða illa klædd börn, en við sjáum stundum gamalt fólk með bogið bak og krepptar hendur, sem engan varasjóð á til að grípa til og hefur ekki annað til að lifa af en ellilaunin frá tryggingunum. Það er því rétt, sem á hefur verið minnzt, að lífeyrissjóð fyrir alla ber að stofna.

Aldrei hafa tryggingarnar, þ. á m. sjúkratryggingar og fjölskyldubætur, verið eins mikið auknar og á valdatímum núv. ríkisstj. 1958 voru ellilaun hjóna 11053 kr., en eru nú 43420 kr. eða 293% hærri. Þetta er mikil hækkun. En eigi að síður þarf að gera betur í þessu efni, til þess að gamla fólkið þurfi ekki að hafa áhyggjur fyrir morgundeginum. Fjölskyldubætur hjóna með 5 börn voru 1958 4287 kr., en nú 15 þús. kr., hækkun 295%. Þannig hefur ríkisstj. beitt sér fyrir tekjujöfnun og bættum hag þeirra, sem mesta þörf hafa fyrir stuðning frá samfélaginu.

Það er nauðsynlegt, að haldið verði áfram á þeirri braut, sem mörkuð hefur verið. Það verður því aðeins mögulegt, ef fjárhagslegt öryggi og jákvæð stjórnarstefna verða ráðandi í landinu eins og undanfarið. Því ber að vara alla við kenningum stjórnarandstöðunnar, sem leiða til hruns, og almennrar fátæktar. Stjórnarandstaðan hefur viðurkennt, að þegar vinstri stjórnin gafst upp í árslok 1958, hafi flestir sjóðir verið tómir og gjaldeyrisskuldir það miklar, að sjálfstæði þjóðarinnar var í hættu. Stjórnarandstæðingar segja, að þá hafi ekki verið mögulegt að veita hærri lán en gert var, vegna þess að fé hafi ekki verið fyrir hendi. Nú segja þeir, að viðhorfið sé allt annað, þar sem flestir sjóðir og bankar hafi mikil fjárráð vegna mikillar sparifjáraukningar undanfarin ár. Þeir tala um bundið fé í Seðlabankanum, sem beri að taka þaðan og nota til útlána. Það er þó vitað, að bundna féð er tryggingafé gjaldeyrisvarasjóðsins og með því að losa um það væri stefnt í sama öngþveitið í gjaldeyrismálunum og ráðandi var á dögum vinstri stjórnarinnar.

Stjórnarandstaðan, sem hefur ekkert lært síðan 1938 og enga stefnu hefur, sem til gagns má verða í íslenzku þjóðlífi, reynir nú að ginna allan almenning með fölskum loforðum. Loforðin eru þau að ausa út til aukinna lána þeim varasjóðum, sem safnazt hafa síðustu árin, og stefna þannig út í ófæruna, sem kommúnistar og framsóknarmenn höfðu áður leitt þjóðina út í. Ef stjórnarandstaðan fengi að ráða atvinnu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar í eitt ár eða svo, má öruggt telja, að allir þeir sjóðir, sem myndazt hafa í tíð núv. stjórnar, væru eyddir, gjaldeyrisforðinn væri genginn til þurrðar og skuldasöfnun erlendis kæmi að nýju. Öruggt má telja, að almenningur gerir sér grein fyrir því, sem hér er um að ræða.

Reynslan hefur sýnt, hvers má vænta af Framsfl. og kommúnistum, þegar þeir eru í stjórn. Því mun þjóðin styðja núv. ríkisstj. í viðleitni hennar til þess að skapa efnahagslegt jafnvægi, efnahagslegt öryggi og batnandi hag alþjóðar. — Góða nótt.