12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Skaftason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Gylfi Þ. Gíslason sneri sér undan í umr, í gærkvöld að ræða um hina misheppnuðu fortíð stjórnarinnar, hjalaði rómantískt um óorðna hluti og bað bændastéttina í leiðinni afsökunar á sjálfum sér frá í vetur. Hann hefði átt hreinskilinslega að biðja þjóðina fyrirgefningar á verkum stjórnarinnar í heild. Öll var ræða hans með einkennum vondrar samvizku.

Hæstv. landbrh. varaði áðan við fölskum loforðum stjórnarandstæðinga. Til upplýsingar fyrir þá, sem ekki þekkja til, vil ég upplýsa, að þetta er sami ráðh., sem hafði í frammi þau einstöku strákapör á kosningafundi norður á Siglufirði á s.l. ári að lofa, að Strákaveginum yrði lokið í ágústmánuði 1965 í síðasta lagi. Nú játar þessi sami ráðh., að sérfræðilegum undirbúningi fyrir verkið sé hvergi nærri lokið og vonlaust sé, að vegagerðinni verði lokið á tilsettum tíma.

Þorvaldur Garðar ræddi um haftakerfið undir stjórn Framsóknar. Veit þm. virkilega ekki, að alla tíð frá 1939 hefur Sjálfstfl. verið aðili að einhvers konar haftakerfi?erfi? Á dögum fjárhagsráðs, þegar höftin og skömmtunin var hvað hörðust, fór ráðh. úr Sjálfstfl. með þau mál innan ríkisstj. og einn af þm. Sjálfstfl. var formaður ráðsins. Yfirleitt má segja, að hóft undanfarandi 20 ára hafi meira verið á vegum Sjálfstfl. en Framsfl. Þorvaldur gerðist kátlega valdamannslegur í niðurlagi ræðu sinnar. Hingað og ekki lengra, niðurrifsmenn í stjórnarandstöðunni, sagði kappinn. Mér finnst það jaðra við drottinssvik hjá Þorvaldi að láta niðurrifsmennina leika svo lengi lausum hala, úr því að hann situr inni með pottþétt úrræði til að stöðva þá.

Fyrir skömmu ræddi ég við einn af þm. brezka Verkamannaflokksins um kosningahorfur í komandi þingkosningum á Bretlandi. Þm. spáði stjórnarflokknum, Íhaldsflokkum, miklum ósigri.

Er ég innti eftir ástæðum, nefndi hann m.a. hiklaust, að stjórnin væri búin að missa allt frumkvæði úr höndum sér og stjórnarskútan hrektist stjórnlaust fyrir veðrum og vindi. Mér varð hugsað heim til hæstv. ríkisstj., er orð þessi voru sögð. Mikið hittu þau vel í mark. Þeir, sem fylgjast af áhuga með íslenzkum stjórnmálum, hafa veitt sérstaka athygli þeirri miklu breytingu, sem orðin er á afstöðu stjórnarinnar á valdatímabilinu. Er viðreisnartill. voru lagðar fram í febr. 1960, voru ráðh. fullir sjálfstrausts og boðuðu stefnu sína skýrt og ákveðið. Ríkisstj. ber að stjórna málefnum þjóðarinnar, sögðu þeir. Til þess er hún kjörin af þjóðinni og henni ber að falla eða standa með stefnu sinni. En hæstv. ríkisstj. var stefnu þessari ekki lengi trú. Eftir tæp tvö ár byrjaði undanhaldið, sem ágerzt hefur því meir sem lengra hefur liðið á stjórnartímabilið, og má nú heita, að vandfundið sé það stefnuskráratriði í hinni upphaflegu, miklu viðreisnaráætlun, eins og Morgunblaðið nefndi hana, sem reynt er að standa á. Mig langar til þess að sýna fram á þetta með nokkrum dæmum, því að ég hygg, að margir séu mér sammála um, að ríkisstj. án stefnu sé allsendis ófær um að veita þjóðinni forustu, svo að vel sé.

Í Morgunblaðinu 4. febr. 1960 er meginefni viðreisnartill. rakið, og fylgi ég þeirri uppsetningu hér á eftir. Þar segir í fyrsta lagi:

„Uppbótakerfið átti að afnema og breyta skráningu krónunnar þannig, að útflutningsframleiðslan yrði rekin hallalaust án bóta og styrkja.“

Er þáv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, fylgdi till. þessum úr hlaði, hafði hann m.a. þetta að segja um uppbótakerfið, með leyfi hæstv. forseta: „Uppbótakerfið hlýtur fyrr en varir að færa yfir þjóðina geigvænlegt atvinnuleysi.“ Og í Morgunblaðinu sama dag birtist heilsíðugrein undir yfirskriftinni: „Öngþveiti uppbótakerfisins“, þar sem göllum þess er lýst með sterkustu orðum tungunnar. Og hverjum stóð nær en einmitt þessum aðilum að gera þessa úttekt, því að það var einmitt nýsköpunarstjórnin undir forsæti Ólafs Thors, sem innleiddi þetta fyrirbæri í íslenzku efnahagslífi, er hún samþykkti ríkisábyrgð á öllu fiskverði í landinu? Nú er sú hæstv. ríkisstj., sem hvað harðast hefur fordæmt uppbótakerfið, búin að taka það upp á ný. Þann 30. jan. s.l. fékk hún samþ. frv. til l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl. Samkv, þeim l. er gert ráð fyrir að veita allt að 200 millj. kr. til stuðnings sjávarútveginum. Þannig var þá hag þess undirstöðuatvinnuvegar komið eftir nær 5 ára þrotlausa viðreisn, metaflabrögð og hækkandi verðlag á sjávarafurðum erlendis.

Í öðru lagi: Tekjuskatt átti að fella niður af almennum launatekjum með því að hækka persónufrádrátt verulega. Nýverið voru sam. þykktar breytingar á l. um tekju- og eignarskatt og persónufrádráttur aukinn um 30% frá því, sem hann var ákveðinn árið 1960, til að vega upp á móti vaxandi dýrtíð. Á sama tíma hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 55%. Þegar á þetta er litið, svo og breytingu þá, sem gerð var samtímis á gildandi skattstiga, sést, að hæstv. ríkisstj. er horfin frá því að undanþiggja almennar launatekjur tekjuskatti.

Í þriðja lagi: Gagngera endurskoðun átti að framkvæma á fjármálum ríkisins með það fyrir augum að gera rekstur þess hagkvæmari og ódýrari. Engin slík allsherjar endurskoðun hefur verið framkvæmd, og enginn stjórnarliði heyrist nú lengur tala um, að sparnaður hafi verið framkvæmdur í ríkisrekstrinum. Fjári., sem hafa meira en þrefaldazt síðan 1958, sýna þetta mætavel.

Í fjórða lagi: Gera átti víðtækar breytingar á skipan innflutnings- og gjaldeyrismála og gefa innflutninginn frjálsan. Breyting sú, sem framkvæmd hefur verið á skipan innflutningsog gjaldeyrismála, er nánast formbreyting. Í stað þess, að innflutningsskrifstofan úthlutaði áður innflutningsleyfum, hafa gjaldeyrisbankarnir nú komið á fót sameiginlegri skrifstofu að Laugavegi 77 með fjölmennu starfsliði, sem úthlutar gjaldeyrisleyfum. Nær takmarkalaus heimild til notkunar erlendra vörukaupalána hefur rýmkað um innflutning í bili. Hins vegar er nú aftur með margs kyns peningahöftum verið að þrengja um á þessu sviði.

Í fimmta lagi: Gera átti ráðstafanir til að koma á jafnvægi í peningamálunum innanlands. Það hefur tekizt þannig, að meiri lánsfjárskortur ríkir í landinu en oftast áður og bankarnir eru fjær því nú en nokkru sinni að geta fullnægt eftirspurn eftir lánsfé. Samkv. upplýsingum Fjármálatíðinda uxu spariinnlán og veltiinnlán samtals um 15.8% árið 1958, komust hæst í 26.5% aukningu árið 1961, en hrapaði aftur niður í 13.5% aukningu á s.l. ári. Útlán banka og sparisjóða jukust á árinu 1958 um 19.5%, á árinu 1919 um 18.9%, á árinu 1960 um 7.6%, á árinu 1961 um 8.9%, á árinu 1962 um 12.9% og á árinu 1963 um 14.7%.

Í sjötta lagi: Bannað var að vísitölutryggja laun, svo sem verið hafði, og átti það að fyrirbyggja áframhaldandi kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. Hins vegar skyldi samtökum launþega og atvinnurekenda frjálst að semja um hækkun grunnkaups án allra afskipta af hálfu ríkisvaldsins. Reynslan hefur sýnt haldleysi þessa banns. Víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds hafa aldrei verið stórfelldari en nú, og nú er svo komið, að fulltrúar hæstv. ríkisstj. eru setztir að samningaborðinu með fulltrúum A.S.Í. til þess m.a. að semja um nýja vísitölutryggingu á kaup. Loforðið um að láta afskiptalausa samninga um kaup og kjör var þannig efnt, að nær strax eftir fyrstu samningsgerðina, frá því að viðreisnarstefnan var birt, þ.e.a.s. í júní 1961, var gengislækkunarvopninu beitt purkunarlaust af hæstv. ríkisstj. og samningurinn þannig að engu gerður.

Í sjöunda lagi: Fullyrt var, að viðreisnarráðstafanir mundu ekki skerða kjör þeirra, sem mestra bóta nytu úr almannatryggingunum, þ.e. aldraðs fólks, öryrkja og fjölskyldna með þrjú börn eða fleiri. Reynslan sýndi þó nálægt 5% hækkun á framfærsluvísitölunni hjá vísitölufjölskyldunni, frá því er ráðstafanirnar voru gerðar og þar til í júní, og var þá búið að taka tillit til hækkaðra bóta frá almannatryggingunum og lækkunar beinna skatta, auk þess sem á það ber að líta, að margir útgjaldaliðir framfærsluvísitölunnar eru vanreiknaðir, svo sem húsaleiga o.fl.

Af þeirri upptalningu, sem ég nú hef rakið, sést, að í sumum veigamestu atriðum er hæstv. ríkisstj. farin að breyta þveröfugt við upphaflega stefnu og að reynslan hefur sýnt fram á haldleysi annarra stefnuskráratriða. Ég hlýt því að spyrja: Hver er stefna hæstv.. ríkisstj.? Við hvað heldur hún enn þá af viðrefsnartill., og hvaða ný stefnuskráratriði hefur hún tekið upp í stað þeirra, sem hún er fallin frá? Þetta vill þjóðin gjarnan fá að vita. Störf þessa þings eru e.t.v. bezta dæmið um fálmið og stefnuleysið, sem heltekið hefur hæstv. ríkisstj. Ef undan er skilið uppbótafrv. fræga, minnist ég ekki nokkurs stjórnarfrv., sem telja má stefnumarkandi eða snerta þau vandamál, sem nú ber hæst. Nú er svo komið, að hæstv. ríkisstj. virðist hafa gefizt upp við landsstjórnina, ef fylgja á hennar fyrri skilgreiningu á því, hvað sé að stjórna, því að hún hefur neyðzt til þess að setjast að samningaborðinu með Hannibal til þess að semja um vandamálin. Þung hljóta sporin að hafa verið að því borði og óskemmtileg, sjálfstæðismönnunum a.m.k., því að þau voru ekki fá köpuryrðin þeirra, sem féllu í garð ráðh. vinstri stjórnarinnar sálugu forðum fyrir þá óhæfu að ætla að stjórna landinu í samráði og í samstarfi við stéttasamtökin.

En staðreyndir lífsins eru stundum óskemmtilegar. Hrakfarir hæstv. ríkisstj. hljóta að vera öllum sæmilegum mönnum áhyggjuefni, og ekki spáir það góðu um framhaldið, þegar reynt er að koma mistökum eigin gerða yfir á herðar annarra. Eða halda talsmenn stjórnarinnar, að nokkur skyni borinn maður fáist til að trúa því, að stjórnarandstæðingar eigi alla sök á því, hvernig komið er? Er ekki með slíku hjali verið að gera minna úr hæstv. ríkisstj. heldur en jafnvel efni standa til? Sannleikurinn er líka sá, að Framsfl. hefur æ ofan í æ boðizt í stjórnarandstöðu til að ganga til samstarfs við stjórnarflokkana um lausn aðsteðjandi vandamála. Þetta var gert þegar á árinu 1960. Þá gerðum við það að till. okkar, að kosin yrði samstarfsnefnd allra þingflokkanna til þess að gera till. um skipan efnahagsmálanna. Því tilboði var hafnað með hroka. Hið sama gerðum við einnig snemma á þessu þingi, er kaupgjaldsbindingarfrv. var lagt fram. Stjórnarflokkarnir neituðu einnig því tilboði og kusu yfir sig einn smánarlegasta ósigur, er þingsaga siðari ára kann frá að greina, er þeir gáfust upp á málinu við síðustu umr. í síðari deild.

Við framsóknarmenn höfum sett þessi tilboð fram, af því að við vitum, að þjóðin er í vanda, og af því að við vitum, að þjóðfélag okkar er orðið svo stéttarlega uppbyggt og greinist í svo sterkar samtakafylkingar, að flókin mál eins og efnahagsmálin, sem alla snerta, verða ekki leyst nema með víðtæku og vel undirbúnu samstarfi.

Þær viðræður, sem nú eru byrjaðar á milli fulltrúa launþega og ríkisvaldsins, marka tímamót á valdaferli hæstv. ríkisstj. Allt fram til þessa dags hafa talsmenn hennar nánast hæðzt að öllu slíku. Ég vona, að viðræður þessar leiði til jákvæðrar niðurstöðu og að fulltrúum launþega og atvinnurekenda takist að sannfæra ráðh. um, að sjálfsagt og eðlilegt sé, að samstarf verði tekið upp milli þessara aðila í framtíðinni. En hræddur er ég um, að það reynist ærið verkefni, miðað við fyrri orð og gerðir talsmanna stjórnarliðsins.

Hæstv. ríkisstj. þarf nú á elleftu stundu að láta sér loks skiljast, að hún er ekki í aðstöðu til að setja neinum úrslitakosti. Hún þarf að brjóta odd af oflæti sínu og ganga til heilhuga samstarfa, bæði við stjórnarandstöðuna, sem nálega er eins sterk í þinginu og stjórnarliðið sjálft, svo og við samtök launþega og atvinnuveganna. Annað leiðir til ófarnaðar.

Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi orti kvæði um það, sem hann kallaði „vífilengjur, afturhald, ættarhroka og auðvaldstrú hvíta mannsins í sambandi við kynþáttadeilur“. Kvæðið nefndi hann „Hversu lengi“, og lauk hann því með þessum orðum:

„Hversu lengi læzt þú hafa

lyklavöld í Paradís?“

Ástæða er einmitt nú við þessar eldhúsdagsumr. að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hversu lengi ætlarðu að látast hafa lyklavöldin, látast hafa lykla, sem þú ýmist aldrei hefur haft eða ert búin að brjóta og týna. — Góða nótt.