12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Hannibal Valdimarsson sagði áðan, að ég hefði ekki átt þátt í lausn vinnudeilunnar 1955 með till. um atvinnuleysistryggingasjóðinn, till. um atvinnuleysistryggingar hefði verið borin fram áður og þess vegna ekki ný 1955. Mig skiptir þetta að vísu ekki miklu máli, en bezt er þó að hafa það, sem rétt er. Þegar ég bar fram till. um atvinnuleysistryggingarnar í sáttanefnd og víð deiluaðila 1955, hafði enginn orðað þessa till. þar og ekkert verið um hana rætt, en niðurstaðan varð þó sú, að þessi till. réð úrslitum og leysti deiluna.

Umr. í gærkvöld voru að ýmsu leyti athyglisverðar og lærdómsríkar. Ádeiluefni stjórnarandstöðunnar var raunar aðallega eitt: Stjórninni hefur ekki tekizt að stöðva verðbólguna. Og fyrir það var hún dæmd óalandi og óferjandi og raunar óráðandi öllum bjargráðum. 1 sama streng tók Hannibal Valdimarsson áðan á sinn venjulega hátt. Það er þó á allra vitorði, að þetta hefur engri íslenzkri ríkisstj. tekizt síðustu áratugina tvo a.m.k. og jafnvel sízt þeim, sem nú gagnrýna þessa þróun mest. Af þessu átti svo að leiða áframhaldandi rýrnun lífskjara og aukna vinnuþrælkun, eins og Geir Gunnarsson komst að orði hér í gærkvöld. Þessum og öðrum álíka öfugmælum verður ekki jafnað til neins betur en móðuharðindatals Framsfl., sem öli þjóðin brosti að góðlátlega. Hvort tveggja skýtur svo langt yfir markið.

Ekki mátti þó leysa verðbólguvandann að dómi Eysteins Jónssonar á kostnað launþeganna og ekki heldur á kostnað framleiðenda. En á hvers kostnað? verður manni þá að spyrja. Sjálfsagt eftir þeirri leið, sem Framsfl. vildi fara við lausn vinnudeilu einnar fyrir rúmu ári. Hún var þannig, að launþeginn fengi það kaup, sem hann krafðist, en atvinnurekandinn greiddi aðeins það, sem hann taldi að atvinnureksturinn gæti borið, en mismunurinn yrði greiddur úr ríkissjóði. Svo einfalt var dæmið í þeirra augum þá og kannske er það enn.

Málflutninginn að öðru leyti má einna gleggst marka af þeirri fullyrðingu Halldórs E. Sigurðssonar, að helmingurinn — af tekjum verkamanns, sem vinnur 8 stundir á dag, eða 40 þús. kr., gangi til greiðslu á óbeinum sköttum og tollum í ríkissjóð. Þetta er svo fjarri öllu lagi, að hvert mannsbarn sér, að það fær ekki staðizt.

Það hefur þó ekki verið vefengt, hvorki af stjórnarandstöðuflokkunum né neinum öðrum, að þessari ríkisstj. hafi ýmislegt vel tekizt. Ég skal nefna nokkur dæmi. Henni hefur tekizt að stofna gjaldeyrisvarasjóð, svo gildan, að það nægir til að tryggja viðskipti okkar út á við um nokkurt tímabil, þó að eitthvað óþægilegt beri að höndum, útflutningur okkar dragist saman eða innflutningur vaxi meira en talizt geti eðlilegt. Sparifé landsmanna hefur vaxið meira en nokkru sinni áður. Það var í árslok 1958 1578 millj. kr., en er nú yfir 4300 millj. eða rétt um það bil þrefaldað á röskum 5 árum, og er það vissulega nokkur ábending um afkomu almennings. Verzlunin er að langsamlega mestu leyti frjáls orðin og vöruúrval mikið, skömmtun afnumin og uppbótakerfi einnig að mestu leyti horfið. Jón Skaftason vildi telja, að uppbótakerfið væri enn við lýði, en hann veit þó vel, að hér er aðeins um brot að ræða af því, sem áður var.

En þó að þetta allt sé viðurkennt, er viðkvæðið jafnan hið sama: Það hefur ekki tekizt að stöðva verðbólguna. Hún hefur vaxið þessi stjórnarár meira en nokkru sinni áður og er nú orðin sannkölluð óðaverðbólga. Það þarf að leita langt til þess að finna tilsvarandi hækkun framfærslukostnaðar í nokkru landi, sagði Lúðvík Jósefsson í gærkvöld. En hann þarf ekki að fara út fyrir landssteinana til þess að finna hliðstæðu. Það er að vísu rétt, að verðbólgan hefur ískyggilega færzt í aukana. En er þá sú fullyrðing rétt, að þar sé um meiri verðbólguaukningu að ræða en nokkru sinni áður, eins og haldið hefur verið á lofti af stjórnarandstöðinni? Vísitala framleiðslukostnaðar hefur hækkað frá apríl 1959, þegar hún var 100, í 161 stig nú í aprílmánuði s.l., réttum 5 árum síðar. Hefur þetta aldrei komið fyrir áður, eins og haldið hefur verið fram? Í marz 1950 var framfærsluvísitalan einnig 100, eftir að Framsfl. hafði tekið við stjórnartaumunum með Sjálfstfl. upp á sömu stjórnarstefnu og hann hafði nokkrum vikum áður fengið samþykkt vantraust á. 5 árum síðar, í marzmánuði 1955, hafði vísitala framfærslukostnaðar hækkað í 161 stig, nákvæmlega jafnmikið og hún hefur nú hækkað, á nákvæmlega jafnlöngu tímabili. Framsfl. hefur því ekki af miklu að státa í þessu efni. Þeim tókst að hækka framfærslukostnaðinn nákvæmlega jafnmikið og hann hefur hækkað í tíð núv. ríkisstj. og á sama tíma, en án þess að svipaður árangur næðist þá á öðrum sviðum og núv. ríkisstj, hefur náð.

Með þessu er ég engan veginn að halda því fram, að dýrtíðin í landinu hafi ekki vaxið of mikið og allt of mikið síðustu missirin, heldur hinu, að þetta er ekkert nýtt. Nákvæmlega hið sama hefur endurtekið sig á undanförnum árum, hvaða ríkisstj. sem setið hefur að völdum. Enn kom það fyrir á síðasta missiri vinstri stjórnarinnar, að vísitala framfærslukostnaðar hækkaði um 27 stig á síðasta hálfa árinu, sem hún sat að völdum, seinni hluta árs 1958, og komu þó ekki öll kurl til grafar, því að um áramótin 1958 og 1959 voru teknar upp stórfelldar niðurgreiðslur, sem gerðu það að verkum, að raunveruleg hækkun vísitölunnar kom þó ekki fram, þannig að Alþb. hefur ekki af neinu að státa í þessu efni frekar en Framsfl.

Hin öra verðbólguþróun, sem átt hefur sér stað síðustu tvo áratugina, er meinsemd í íslenzku efnahagslífi, sem ekki er hægt að saka einn um frekar en annan. Ef hægt verður að spyrna þar við fótum, sem flestir virðast nú vilja, verður þar að koma til sameiginlegt átak allra flokka og allra aðila, sem hlut eiga að máli. Þess vegna ber að fagna því, að Alþýðusamband Íslands hefur nú boðið ríkisstj. samvinnu um að freista þess að leysa þennan vanda. Einmitt það, Alþýðusambandið, í samvinnu við ríkisstj. hefur möguleika til að ná árangri, sem engan veginn er hægt að ná öðruvísi, og er vonandi, að það takist.

Nokkuð svipað er að segja um byggingarkostnað íbúðarhúsa. Því hefur verið haldið fram, að byggingarkostnaður íbúðarhúsa hafi vaxið hóflaust upp á síðkastið og miklu meira en nokkru sinni áður. Sannleikurinn er hins vegar sá, að vísitala byggingarkostnaðar var í árslok 1958 134 stig, miðað við 100 1. okt. 1955.

Þessi byggingarkostnaðarvísitala er í dag eða 1. marz s.l. 209. Hún hefur því hækkað um 75 stig á 5 árum rúmum, eða 56%, sem svarar til rúml. 11% á ári. Hins vegar hækkaði hún um 34% á tímabilinu frá 1. okt. 1955 til 1. okt. 1958, eða á 3 árum, nokkurn veginn um sömu upphæð og þó aðeins hærri á ári. Einnig má segja um þessa hækkun svipað og ég sagði áðan um hækkun framfærsluvísitölunnar. Hækkunin er allt of mikil. En hún er ekkert sérstakt fyrirbrigði í tíð núv. ríkisstj. Hún hefur verið álíka mikil og síður en svo lægri í tíð fyrrv. ríkisstj., vinstri stjórnarinnar. En viðbrögð þessara tveggja ríkisstj. við þessari hækkun byggingarkostnaðar hafa verið mjög mismunandi. Í tíð vinstri stjórnarinnar var með hækkandi byggingarkostnaði lánveiting á íbúð lækkuð úr 100 þús. og niður í 70 þús. kr., en í tíð núv. ríkisstj. hafa lánin verið hækkuð um sama hundraðshluta og byggingarkostnaðurinn hefur vaxið. Ríkisstj. er þó ljóst, að betur má, ef duga skal, og enn þarf að hækka hvort tveggja, bæði hin einstöku lán og heildarlánveitingarnar til íbúðabygginganna, og hafa nú þegar á þessu þingi verið flutt frv. um tekjuöflun í því skyni og fleiri eru í undirbúningi. á hitt ber aftur að líta, alveg eins og með framfærslukostnaðinn, að stefna ber að lækkun byggingarkostnaðarins, því að hann er orðinn í ýmsum atriðum hóflaus eða hóflítill.

Einn mesti óvinur og bölvaldur íslenzkrar alþýðu undanfarna marga áratugi hefur verið atvinnuleysi, stundum og sums staðar tímabundið, annars staðar varanlegt. Síðustu árin hefur mjög úr atvinnuleysinu dregið, þannig að segja má, að það sé víðast hvar horfið og atvinna meira að segja svo mikil víða og eftirspurn eftir vinnuafli, að þessari eftirspurn hefur ekki verið hægt að fullnægja, jafnvel ekki með löngum vinnudegi. Ég tel engan vafa á, að þessi ánægjulega þróun á fyrst og fremst rætur sínar að rekja til hinnar gífurlegu aukningar skipastólsins og fiskvinnslustöðvanna í landi, sem átt hefur sér stað hin síðustu ár. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta frá skipaskoðunarstjóra, hafa verið smíðuð 90 ný fiskiskip fyrir íslenzka veiðiflotann s.l. 5 ár, stærri en 100 smál. Til samanburðar má geta þess, að næstu 3 árin á undan, á tímabili vinstri stjórnarinnar, bættust flotanum 13 skip samtals af þessari stærð, og var því þá á lofti haldið, hversu aukningin þá væri mikil. Til þess að öllu réttlæti sé fullnægt, skal þá tekið fram, að nokkrir af austur-þýzku togurunum eru taldir með síðara tímabilinu, því að þeir voru smíðaðir þá, þó að kaupin væru ákveðin af vinstri stjórninni. En það breytir ekki þeirri staðreynd, að fjölgun stóru veiðiskipanna hefur orðið miklu meiri síðustu 5 árin heldur en í tíð vinstri stjórnarinnar, sem mest hefur þó verið gumað af. M.a. reyndi Lúðvík Jósefsson í gær að eigna vinstri stjórninni þessa aukningu skipastólsins, helzt alla. Brúttórúmlestatala þessara nýju skipa, sem komið hafa til landsins eða verið smíðuð hér síðustu 5 árin, var 18500 lestir samtals, en 4284 lestir næstu árin á undan. Þessir stóru bátar mynda nú kjarnann í íslenzka veiðiflotanum og hafa dregið að landi gífurlegt magn bæði af síld og öðrum fiski. Minni skipum, undir 100 brúttósmálestum, hefur að vísu fjölgað enn meira að tölunni til, en rúmlestafjöldi þeirra er miklu minni. Allt þetta hefur vissulega orðið til að skapa mikla atvinnu í landi, þar sem aflinn hefur verið lagður upp. Þessi skipakaup öll hafa verið möguleg fyrst og fremst vegna þess, að lánastofnanir sjávarútvegsins hafa verið efldar, bæði með beinum fjárframlögum og stórfelldum lántökum, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. En fleira þarf til. Þegar skipum fjölgar svo ört eins og ég hef nú getið um og þau stækka, þarf að gera mikið átak í hafnarmálunum til þess að skapa öryggi og afgreiðslumöguleika fyrir þau. Enn er þar að vísu mikið ógert, en þó hafa þessar framkvæmdir aukizt stórlega hin síðustu ár. Á árunum 1956–58 var unnið að hafnargerðum fyrir um 30 millj. kr. á ári og þótti gott þá. Síðan hefur þessi upphæð farið stöðugt vaxandi og var árið 1963 100 millj., og svipaða upphæð verður væntanlega unnið fyrir í ár, enda nú ýmsar stórframkvæmdir í smíðum.

Ég hef dregið hér fram þessar staðreyndir til að sýna, hvaða átak hér hefur verið gert til eflingar sjávarútveginum og hvaða árangur það hefur borið í viðleitninni til að útrýma atvinnuleysinu. En árangurinn er vissulega miklu meiri. Með þessari aukningu skipastólsins og hagnýtingu nýrrar veiðitækni, sem útgerðarmenn og sjómenn hafa verið framúrskarandi fljótir og duglegir að tileinka sér, hefur aflamagnið og þ. á m, gjaldeyrístekjur þjóðarinnar vaxið svo, að þær hafa aldrei meiri verið, en það er önnur saga, sem ekki skal rakin hér.

Þegar þannig hefur tekizt til um bættar afkomuhorfur hins vinnandi manns vegna aukinnar atvinnu og að því leyti til a.m.k. betri hag, beinist hugurinn eðlilega að hinum, sem vegna slysa, sjúkdóms eða elli geta ekki unnið eða hafa skert vinnuþrek. Hvernig hefur verið séð fyrir þeim? Hvernig hafa þróazt mál almannatrygginganna í tíð núv. ríkisstj., en undir bótagreiðslum almannatrygginganna er afkoma þessa fólks að mjög miklu leyti komin. Það dæmi lítur þannig út: Heildarbótagreiðslur almannatrygginganna árið 1958 voru 243 millj. kr. Bótagreiðslurnar í ár, 1964, munu verða 1045 millj. kr. eða hafa m.ö.o. meira en ferfaldazt á 6 árum. Á sama tíma og vísitala framfærslukostnaðar hefur hækkað um 61%, hafa bótagreiðslur almannatrygginganna hækkað um 329%. Ellilífeyrir hjóna var á fyrsta verðlagssvæði í ársbyrjun 1958 13700 kr. Hann verður í ár 43400 kr., hefur rúmlega þrefaldazt. Öryrki með tvö börn hafði á sama tíma 17300 kr., hann hefur nú 52300 kr. Einnig þar er um þreföldun á bótagreiðslunni að ræða. Einstæð móðir með tvö börn hafði á sama tíma 11600 kr. á ári, en hefur nú 40300 kr., en það nálgast að vera fjórum sinnum hærri upphæð en greidd var 1958. Þessar upphæðir voru greiddar allar á fyrsta verðlagssvæði, en á öðru verðlagssvæði hefur hækkunin orðið enn meiri. Þar var ellilífeyrir hjóna 1958 10300 kr. á ári, en er nú 43400 kr., eins og á fyrsta verðlagssvæði. Bæturnar hafa meira en fjórfaldazt. Öryrki með tvö börn hafði 1958 á öðru verðlagssvæði 13 þús. kr., en hefur nú 52300 kr. Einnig þær bætur hafa fjórfaldazt. Einstæð móðir með tvö börn hafði á öðru verðlagssvæði 1958 8700 kr. á ári, en hefur nú 40300 kr. Bótagreiðslurnar þar hafa nærri fimmfaldazt.

Þessa sögu er óþarft að rekja lengra. Hér hefur orðið gerbreyting á til hins betra í tíð núv. ríkissstj. Þó að segja megi, að æskilegt væri, að þessar bætur gætu verið enn nokkru hærri, hefur þó miðað svo í rétta átt, að bótagreiðslur þessa fólks eru nú alls ósambærilegar við það, sem var fyrir 5–6 árum.

Jón Skaftason spurði um stefnu ríkisstj. Ríkisstj. mun, ef hún íær að ráða, hiklaust fylgja fram sömu stefnu og hingað til, en hún er í meginatriðum þessi: Í fyrsta lagi að tryggja almenningi atvinnuöryggi, í öðru lagi að forða hinum óvinnufæru frá skorti, í þriðja lagi að auka og efla menntun ungmennanna í landinu og í fjórða lagi að veita aukin lán til íbúðarhúsabygginga. Verðbólguþróunin, sem er uggvænleg eins og oft áður, verður ekki skrifuð á reikning ríkisstj. Þar eru mörg samverkandi öfl að verki. Hvort hana tekst að stöðva, er ekki síður undir stjórnarandstöðunni komið heldur en ríkisstj. — Góða nótt.