12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

Almennar stjórnmálaumræður

Helgi Bergs:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Landbrh. var að vanda drjúgur hér áðan af frammistöðu sinni, enda er hann fyrsti landbrh., sem stendur í málaferlum við mikinn hluta bændastéttarinnar. Á ferli hans sem raforkuráðh. hefur engin meiri háttar rafvirkjun verið framkvæmd og rafmagnsmálin nú komin í hnút, en í kvöld tilkynnti hann, að hann hefði skipað nefnd í málið, — hann hefði kannske mátt gera það fyrir.

Fjmrh. vildi, að við framsóknarmenn bærum saman skattheimtuna 1958 og nú. Það er sjálfsagt. Þá voru skattar og tollar 15 þús. kr. að meðaltali á 5 manna fjölskyldu og eru 53 þús. kr. nú. Von var, að honum entist illa kortérið til að sýna fram á, að álögur hafi lækkað, og ekki minntist hann á eitt af sparnaðarloforðunum frægu, sem voru þó 59 talsins.

Þau miklu aflabrögð og hagstæðu viðskiptakjör, sem hér hafa verið undanfarin ár og telja má einstæð í íslenzkri atvinnusögu, sköpuðu okkur kjörin tækifæri til þess að bæta hag alls almennings í landinu og efla stórlega atvinnuvegina. En þau tækifæri hafa að mestu verið látin fara hjá garði. Ekki mun okkur áður hafa orðið jafnlítið úr jafnmiklu aflafé. Er þar engu um að kenna nema dæmalausri óstjórn efnahagsmála í tíð núv. ríkisstj.

Það, sem hefur einkennt íslenzkt efnahagslíf undanfarin ár, er dýrtíðarfióðið, sem hefur verið stórfelldara en dæmi eru til áður hér á landi, ef undan er skilið árið 1942, en þá fór Sjálfstfl. einn með stjórn landsins. Þetta kemur raunar ekki á óvart þeim, sem reynt hafa að kryfja til mergjar eðli og tilgang þeirrar stjórnarstefnu, sem upp var tekin áríð 1960. Mörgum ríkisstj. hefur áður tekizt illa að ráða við dýrtíðina, en engin önnur en sú, sem nú situr, hefur beinlínis tekið hana í þjónustu stefnu sinnar. Viðreisnin og verðbólgan hafa verið eins og samvaxnir tvíburar, sem nærzt hafa hvor á öðrum. Þó að það í orði kveðnu væri eitt af stefnumálunum, sem viðreisnarstjórnin boðaði af mestu yfirlæti, að nú ætti að stöðva dýrtíðina, þá var það tal í hrópandi mótsögn við það fagnaðarerindi dýrtíðarinnar, sem öll stefna stjórnarinnar byggðist þó á. Grundvallaratriði boðskaparins var sú fullyrðing, að þjóðin lifði um efni fram, að almenningur eyddi meiru en hann aflaði. Þess vegna var það yfirlýstur tilgangur viðreisnarinnar að rýra kaupgetuna. Það skyldi gert með því að tryggja það, að verðlagið hækkaði meir en kaupgjaldið. Í því augnamiði var gengið stórlega lækkað 1960 og miklir söluskattar á lagðir, en samband kaupgjalds og verðlags var rofið. Sumarið 1961 reyndu launþegar að bæta sér brot af þessari kjaraskerðingu með því að semja um hóflega kauphækkun. Sú hækkun varð þó mun minni en verðlagshækkunin hafði verið og stefndi því ekki eftirlætismálefni stjórnarinnar í neinn voða. Eigi að síður lækkaði stjórnin gengið á ný þá um sumarið. Dýrtíðin skyldi hafa verulega vinninginn yfir kaupgjaldshækkanirnar. Þessari stefnu sinni hefur ríkisstj. verið trú frá upphafi til þessa dags, og ef það er þetta, sem stjórnarliðar eiga við, þegar þeir hrópa upp um það, að viðreisnin hafi tekizt, þá hafa þeir oft farið með meira fleipur, því að nú er það komið glögglega í ljós, að eftir 4 ára viðreisn hefur verðlag vöru og þjónustu hækkað um 84%, en almennt kaupgjald um 55%. Þannig hefur stjórnarstefnan alið dýrtíðina.

En dýrtíðin hefur launað stjórninni eldið. Hún hefur tekið að sér fyrir hana óvinsælt hlutverk skattstjórans. Vorið 1960, þegar ríkisstj. hafði lagt á þjóðina mörg hundruð millj. í óbeinum sköttum, lækkaði hún beinu skattana um nokkra milljónatugi. Nú skyldu svokallaðar þurftartekjur vera tekjuskattsfrjálsar. En um leið voru afnumdar þær umreikningsreglur, sem áður höfðu tengt persónufrádrátt og skattstiga verðlaginu. Þá gat dýrtíðin hafið sitt skattstjórastarf. Áður en við var litið, hafði hún skrúfað venjulegar þurftartekjur upp í háan skattstiga. Svo liðu nokkur ár. Þá gekk fram fjmrh. og sagðist skyldu laga það, sem dýrtíðin hefði úr lagi fært, og svo voru samþykkt á Alþingi lög, sem leiðréttu svolítið brot af þessu, en till. okkar framsóknarmanna um að verðtryggja persónufrádráttinn og leiðrétta skattstigann í réttlátari átt voru felldar. Dýrtíðin á að halda áfram að vera skattstjóri. Vísitala beinna skatta hefur sífellt farið hækkandi undanfarin ár og er nú hærri en nokkru sinni fyrr. En fjmrh: hefur unnið það afrek að afnema fyrst tekjuskatt á þurftartekjum með öllu, lækkað hann síðan tvisvar eftir það með þeim árangri, sem menn munu kynnast, þegar skattar verða á lagðir í sumar.

Það má ekki á milli sjá, hvort hefur verið öðru þarfara, stjórnin dýrtíðinni eða dýrtíðin stjórninni. En víst er um það, að sambúð þeirra hefur verið sannkallað kærleiksheimili.

Ég minnti á það áðan, að verðlag vöru og þjónustu hefur hækkað um 84%, meðan almennt kaupgjald hefur hækkað um 55%. Þetta á sér stað í svo eindæma hagstæðu árferði, að aflafé þjóðarinnar er miklu meira en nokkru sinni fyrr. Það liggur þannig ljóst fyrir, að hlutur launþega og um leið bænda, sem fá kaupgjald sitt í hlutfalli við þá, hefur minnkað stórum í skiptingu aflafjárins.

Sá útgjaldaliður, sem nú hvílir með mestum þunga á þjóðinni og atvinnuvegum hennar, er fjármagnskostnaðurinn, og hann hefur verið ríkisstj. drjúgur til þess að spenna upp dýrtíðina og halda þannig niðri kaupgetu almennings. Ríkisstj. hefur stórhækkað allan stofnkostnað og vexti. Þetta kemur niður á pyngju hvers einasta manns í landinu. Húsnæðiskostnaðurinn hefur stórhækkað, ekki bara í nýbyggingum, heldur lagar öll húsaleiga sig eftir þessum skilyrðum, og kemur þetta að sjálfsögðu harðast niður á unga fólkinu og hefur auk þess stórfelld áhrif á allan framfærslukostnað í landinu. öll tæki og vélar til framleiðslunnar eru einnig óhæfilega dýr, m.a. vegna þess, að á þau er lagður svo mikill tollur, að ekki nær neinni átt. Í grg. með frv. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn upplýstist, að tollar nemi 41% af innkaupsverði véla, 11% af öllum kostnaði við byggingar og 20% af öllum kostnaði við kísilgúrverksmiðjuna. Þetta var talið einstakt fyrir Ísland og geta ráðið úrslitum um það, hvort slíkt iðjuver verði samkeppnisfært hér á landi. Vissulega væri tímabært fyrir ríkisstj. að gera sér það ljóst, að þessi sjónarmíð eiga víðar við en um kísilgúrframleiðslu. Þetta á auðvitað við um alla framleiðslu þjóðarinnar. Af kostnaði við byggingar nema tollar samkv. þessu 11%. Af lítilli meðalíbúð, sem kostar 700 þús. kr. nema tollarnir þá 77 þús. eða rúmlega helmingi alls húsnæðismálastjórnarlánsins, eins og það getur orðið hæst. 41% af innkaupsverði framleiðsluvéla fer í tolla í ríkissjóð. Á þennan feiknalega stofnkostnað leggjast svo háu vextirnir með nær öllum sínum þunga. Afleiðingin verður sú, að síhækkandi hluti afrakstursins af framleiðslunni fer til þess að standa undir fjármagnskostnaðinum og atvinnuvegirnir standa verr að vígi en nokkru sinni fyrr til þess að greiða sómasamleg vinnulaun. En jafnframt nægja tekjur launþeganna sífellt verr til þess að mæta stórauknum framleiðslukostnaði.

Háu vextirnir eru réttlættir með því, að þeir séu nauðsynlegir til þess að fá menn til þess að leggja fé sitt fyrir. En sparifjáreigendur hafa ekki áhuga á háum vöxtum, ef þeir verða til þess eins að spenna upp dýrtíðina. Það, sem þeir vilja, þurfa og eiga rétt á, er öryggi um það, að þeir fái a.m.k. sömu verðmæti út úr sparisjóðsbókunum og þeir lögðu inn á þær. En undanfarin ár hefur dýrtíðin ekki aðeins eytt vöxtunum öllum, heldur einnig drjúgum hluta höfuðstólsins líka. Þetta er ekki hagstætt sparifjáreigendum, enda er nú komið óvefengjanlega í ljós, að þótt sparifé hafi aukizt nokkuð í krónum talið, nægir sparifjárforðinn verr en nokkru sinni fyrr til þess að fullnægja þörfum þjóðarinnar og atvinnuvega hennar. Sú tilkostnaðaraukning; sem leitt hefur af dýrtíðarstefnu ríkisstj.. er svo ferleg, að þrátt fyrir talsverða sparifjáraukningu í krónum á undanförnum árum stendur bankakerfið verr að vígi en nokkru sinni fyrr til þess að gegna hlutverki sínu, og það eina, sem hæstv, ríkisstj, dettur í hug til úrlausnar þessum vanda, eru tilfærslur á peningum innan bankakerfisins, sem lagðar eru til með frv. um Seðlabanka, sem nú liggur fyrir Alþingi. Slíkt er auðvitað engin lausn. Aukin sparifjármyndun ein getur leyst þennan vanda, en til þess þarf nýja stjórnarstefnu, sem endurvekur traust á krónunni og tryggir sparifjáreigendum vörn gegn áföllum áframhaldandi dýrtíðar.

Herra forseti. Það er margt orðið breytt í málflutningi stjórnarliða síðan viðreisnin hóf göngu sína. Þá var fundið upp slagorðið: rétt gengi. Gengi krónunnar átti ávallt að færast til samræmis innlendum tilkostnaði. Illu heilli var haldið við þessa stefnu fram yfir árið 1961 a.m.k., en í haust sem leið höfðu þeir lært nóg til þess, að forsrh. lýsti því yfir,. að gengislækkunarleiknum yrði nú að hætta. Það er ekki langt síðan þeir hæddust að því, að útflutningsatvinnuvegunum höfðu um meira en áratugsskeið verið greiddar útflutningsuppbætur, enda töldu þeir þetta fráleita efnahagsráðstöfun, þótt þeir hefðu á sínum tíma átt mestan þátt í að koma henni á sjálfir. En það tal er hljóðnað. 4 árum eftir að viðreisnin var framin, tóku þeir upp útflutningsuppbætur sjálfir að nýju. Vísitölutengsl milli kaupgjalds og verðlags voru eitt af því, sem viðreisnarmenn fordæmdu af hvað mestum hroka, en nú tala þeir allir um vísitölutryggingu kaups sem sjálfsagðan lið í viðleitni til þess að ráða bót á því öngþveiti, sem viðreisnin hefur skapað á vinnumarkaðinum. Af mestri fyrirlitningu töluðu þeir þó um þá yfirlýstu stefnu stjórnar Hermanns Jónassonar á sínum tíma að hafa samstarf við launþegasamtökin um stjórn efnahagsmála. Það eru hljóðir og hógværir menn, sem um þessar mundir eru setztir á rökstóla með verkalýðssamtökunum til þess að reyna að finna einhvern botn í viðreisnarvitleysuna, þannig að dýrtíðarófreskjan verði nú hamin og launþegar geti notið bættra kjara, og er það vitið meira. Menn gera sér nú vonir um, að atvinnurekendum og verkalýð hafi tekizt að sveigja ríkisstj. til skynsamlegri vinnubragða en áður. Nú vona allir menn, að hér sé ekki bara á ferðinni sú sýndarmennska, sem einkennt hefur öll störf ríkisstj. um skeið, heldur raunveruleg hugarfarsbreyting, sem nægi til þess að firra þjóðina vandræðum af nýjum og stórfelldum kjaradeilum. Stjórnin á vissulega ýmissa kosta völ í því skyni. Þó er það einkum með tvennum hætti, sem hún getur tryggt verkafólki kjarabætur. Hún getur létt af atvinnuvegunum þeim stórkostlega fjármagnskostnaði og öðrum álögum, sem taka til sín allt of stóran hlut af afrakstri framleiðsluatvinnuveganna, svo að meira geti farið til kaupgreiðslna, og hún getur líka aukið kaupgetu launþeganna með því að lækka þá óhóflegu neyzluskatta og aðrar álögur, sem spenna upp framfærslukostnaðinn í landinu. Og að báðum þessum leiðum getur hún einnig stuðlað að hagstæðari verðlagsþróun.

Æ fleiri gera sér það nú ljóst, að það verður að taka upp nýja stefnu í efnahagsmálum, sem stöðvi dýrtíðarflóðið, og sú stefna hlýtur að koma. Hver dagur sem það dregst er þjóðinni dýr. Sú nýja stefna hlýtur að byggjast á þeim grundvallaratriðum, sem framsóknarmenn hafa barizt ósleitilega fyrir undanfarin ár: lækkuðum fjármagnskostnaði og álögum, verðtryggingu sparifjár og kaupgjalds. Með slíkum aðferðum einum er kleift, eins og nú standa sakir, að skapa á ný eðlilegt ástand í efnahagsmálum landsins og skapa grundvöll fyrir traustari og varanlegri uppbyggingu atvinnuveganna og bættum hag allra. Það er auðséð, að ríkisstj. hefur eitthvað lært á óförum sínum undanfarin ár. Námið hefur að vísu sótzt seint og verið þjóðinni dýrt, og hótanir þær, sem uppi hafa verið um ný þvingunarlög, bera þess ekki vott, að hún hafi lært nóg, en nú gengur hún til síns prófs. — Góða nótt.