17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

95. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgöngumálanefndir beggja þingdeilda hafa unnið saman að athugun á frv. því til vegalaga, sem hér liggur fyrir, milli 2. og 3. umr. Það hefur orðið samkomulag í n. um nokkrar brtt, við frv., sem nú hefur verið útbýtt hér á þskj. 154.

1. brtt. n. er við 12. gr. frv. og fjallar um það, að bætt skuli inn í upptalningu síðustu mgr. gr. orðinu „félagsheimili“.

2. brtt. er við 17. gr. frv. um, að vegamálastjóri komi í stað vegagerðar ríkisins.

3. brtt. n. og sú veigamesta er við 32. gr. frv. Þar er lagt til, að árlegt framlag til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum skuli nema 12½% af heildartekjum vegamála í stað 11%, eins og gert er ráð fyrir í frv. upprunalega.

Í 4. brtt, er lagt til, að 2. mgr. 34. gr. frv. falli niður.

Þá er einnig lagt til, að sú breyting verði gerð á upphafi 30. gr., að hún orðist þannig, að á eftir orðunum „að fengnum till. vegamálastjóra“ komi: „að svo miklu leyti sem vegáætlun mælir ekki fyrir um.“ Með þessu er það talið nægilega tryggt, að eðlileg mörk verði fundin milli þjóðvega innan kaupstaða og utan við þá.

Eins og hv. þm. muna, komu fram við 2. umr. málsins raddir um, að ákvæði 34. gr. væru sérstaklega óhagkvæm einum kaupstað, þ.e.a.s. Kópavogskaupstað. Um þetta flutti hv. 1. þm. Reykn., Axel Jónsson, ýtarlega ræðu, þar sem hann gerði grein fyrir sjónarmiðum ráðamanna kaupstaðarins. Enn fremur ritaði bæjarstjórn eða bæjarráð Kópavogskaupstaðar samgmn. ýtarlegt bréf um þetta. Loks hefur hv. 4. þm. Reykn., Jón Skaftason, sent samgmn. brtt., sem hann mæltist til þess við n. að hún flytti og miðaði að því að leysa þetta vandamál.

Ég vil aðeins af þessu tilefni segja það, að n. lagði sig mjög fram um að leysa þennan vanda, sem þarna er um að ræða, ræddi þetta við samgmrh., vegamálastjóra og fleiri aðila, og það er von n., að með þeim tveimur brtt., sem hún hefur flutt á þskj. 154, við 30. og 34. gr., hafi þetta tekizt. Ég tel rétt að lesa hér það bréf, sem n. barst frá bæjarstjórn að bæjarráði Kópavogskaupstaðar. Það er dags. hinn 12. des. s.l. og er á þessa leið:

„Bæjarráð Kópavogskaupstaðar hefur falið mér að rita yður vegna frv. þess til vegalaga, sem nú liggur fyrir hæstv. Alþingi, til þess að leggja áherzlu á sérstöðu kaupstaðarins.

Bæjarráð lítur svo á, að 2. mgr. 34. gr. frv. muni torvelda mjög lagningu þess hluta Reykjanesbrautar, sem liggur um Kópavog, nema aðrar ráðstafanir komi til. Eins og hæstv. samgmn. mun kunnugt, mun varanleg gerð Reykjanesbrautar um Kópavog kosta tugi milljóna. Óþarfi er að lýsa því í löngu máli, hve brýn þörf er á að hefja varanlega gatnagerð á þessum vegakafla, sem er langfjölfarnastur allra vega utan Reykjavikur. Með þeim greiðslum, sem gert er ráð fyrir í frv. samkv. 32. gr. og 34. gr., mun ekki séð fyrir endann á byggingu vegarins um langa framtíð. Fyrir því er það ósk bæjarráðs Kópavogskaupstaðar, að 2. mgr. 34. gr. verði felld niður eða sett ákvæði í frv., er tryggi, að sérstaða Kópavogskaupstaðar verði tekin til greina. Með von um skilning yðar og fyrirgreiðslu.

Virðingarfyllst,

Hjálmar Ólafsson.“

Við þessari höfuðósk, sem fram kemur í þessu bréfi bæjarráðs Kópavogskaupstaðar, hefur n. sem sagt orðið.

Ég vil einnig leyfa mér að lesa brtt. þá, sem n. barst frá Jóni Skaftasyni, hv. 4. þm. Reykn. Þar var lagt til, að við 2. mgr. 32. gr. bættist:

„Nú er nauðsynlegt vegna umferðar á þjóðvegi innan kaupstaðar eða kauptúns að leggja fjórfalda akbraut með varanlegu slitlagi, hraðbraut A, og skal þá viðkomandi sveitarfélag aðeins kosta helming verksins af tekjum sínum samkv. 1. mgr. 32. gr., enda sé a.m.k. helmingur umferðarinnar vegna gegnumferðar um sveitarfélagið. Hinn helmingurinn telst til kostnaðar við gerð þjóðvega utan kaupstaða og kauptúna. Með kostnaði við slíkan veg telst kostnaður við gerð brúa yfir veginn eða jarðgöng undir hann.“

Eins og ég sagði, vænti ég, að sú samkomulagsleið, sem samgmn. þingsins fundu á þessum vanda, sé fullnægjandi þessum hv. þm., sem að sjálfsögðu hafa mikinn áhuga á því að tryggja hagsmuni þessa kaupstaðar og leysa það sérstæða vandamál, sem þarna er um að ræða.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessar brtt. samgmn. N. stendur óskipt að þeim og mælir með því, að frv. verði samþykkt svo breytt.