14.12.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

Verkföll

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði, að ríkisstj. hafi hugleitt að gera nýjar till., en mér skildist á því, sem hann sagði, að hann efaðist enn um, að tími væri kominn til þess, að ríkisstj. legði fram nýjar tillögur, sem mættu miða að sáttum á milli aðila. Og í þessu sambandi sagði hæstv. forsrh., að deiluaðilar hefðu ekki snúið sér til ríkisstj. eða beðið um frekari afskipti hennar af málinu nú um sinn. Ég hélt, að það hefði komið skýrt fram, að atvinnurekendur, sérstaklega fulltrúar útflutningsatvinnuveganna, hefðu talið, að tilboð ríkisstj. þeim til hagsbóta hafi gengið allt of skammt, og það væri meginástæða til þess, að þeir teldu sér ekki fært að ganga lengra til móts við launakröfur sinna viðsemjenda en þeir hefðu þegar gert, því að illa trúi ég því, að fulltrúar útflutningsatvinnuveganna viðurkenni ekki opinberlega, að það sé á því rík nauðsyn, að þeir geti borgað hærra kaup en þeir hafa gert til þessa, til þess að þeir geti verið samkeppnisfærir um vinnuaflið. Ég hygg, að í till. þeim, sem ríkisstj. gerði, hafi hún miðað við það að létta nokkrum útgjöldum af útflutningsatvinnurekstrinum frá því, sem í gildi er nú, en hins vegar hafi ríkisstj. séð ástæðu til þess, um leið og hún létti nokkrum útgjöldum af útflutningsatvinnuvegunum, að gera till. um að leggja nýjan skatt á landsmenn almennt til hreinnar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, óháð þessum deilum, sem nemur margfaldri þeirri upphæð, sem ríkisstj. sá sér fært að bjóða útflutningsatvinnuvegunum til stuðnings því, að þeir geti risið undir hærra kaupgjaldi. Ég hygg, að þetta hafi komið mörgum á óvart, að ríkisstj. skyldi einmitt á þessum tíma, þegar var verið að leysa þessi vandamál, koma fram með till. um það, að leggja þyrfti á almennan skatt í landinu til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, sem nam miklu hærri fjárhæð en hún taldi sér fært að aðstoða útflutningsatvinnuvegina með, Ég held því, að það sé enginn vafi á því, að fulltrúar útflutningsatvinnuveganna beinlínis ætlist til þess, eins og þeir hafa gert opinberlega till. til ríkisstj. um áður, að ríkisstj. gangi lengra til móts við þá, og á því standi hvað þá áhrærir í þessum samningum. Hitt er svo mín skoðun, að á því leiki enginn vafi, að ýmsar greinar atvinnulífsins geta borgað það kaup, sem fram á er farið í þessum samningum, og reynslan hefur þegar sýnt það, að þær greinar hafa borgað nokkuð svipað kaup og farið er fram á í samningunum af fulltrúum verkalýðsfélaganna og það þurfi því ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir af hálfu ríkisvaldsins til þess að aðstoða þær atvinnugreinar.

Ég tek alveg undir með hæstv. forsrh., að það er vitanlega æskilegast, að aðilarnir í deilunni, vinnuveitendur og fulltrúar verkalýðssamtakanna, eigist sem mest einir við um þessi mál og reyni að fikra sig áfram til samkomulags. En þegar málin eru þannig, að bein afskipti ríkisvaldsins hafa leitt til þess, að aðilarnir telja sig ekki hafa bolmagn til þess að verða við þeim kröfum, sem fram eru settar, er vitanlega eðlilegt, að ríkisstj. komi þar til og ræði við aðila um það atriði og teygi sig til hins ýtrasta til þess að fá þau atriði úr veginum, sem þar hafa verið til fyrirstöðu.

Hæstv. forsrh. minntist á það, að við fulltrúar Alþb. hefðum mjög verið á móti beinum ríkisafskiptum af þessum málum, og átti þar m.a. við frv. ríkisstj. um launamál o.fl., sem stöðvað var hér fyrr á þinginu, og hann sagði í þeim efnum, að það hefðu ekki komið fram hjá okkur nema þá óljóst, hvers eðlis við vildum hafa þau afskipti, sem um væri nú talað að gætu komið til greina af hálfu ríkisvaldsins í sambandi við lausn þessara deilna. Í umr. um þessi mál hefur þetta nú komið fram mjög greinilega. Það er t.d. mín skoðun, að ríkisstj. eigi mjög auðvelt með það að gera hag útflutningsatvinnuveganna betri en hann er nú, m.a. með því að lækka vexti, einkum og sérstaklega á hinum svonefndu afurðalánum. Og í öðru lagi getur ríkisstj. einnig gert ráðstöfun til þess að bæta hag útflutningsatvinnuveganna með því að lækka hin gífurlega háu útflutningsgjöld og gera um leið nauðsynlegar breytingar, sem ég hef gert hér grein fyrir áður, á fyrirkomulagi vátryggingakerfísins og spara þar með mikið fé, en það er auðvelt að mínum dómi.

Þetta held ég, að ríkisstj. geti auðveldlega gert til hagsbóta fyrir útflutningsframleiðsluna. Ég held líka, að ríkisstj. gæti gert þýðingarmiklar ráðstafanir fyrir launþega í landinu, sem gætu orðið til þess, að þeir breyttu nokkuð kröfum sínum, t.d. með því að fallast á að taka aftur upp eldri lagaákvæði um vísitölutryggingu á kaupi, þ.e. undanbragðalausa vísitölutryggingu á kaupi. Það er auðvitað enginn vafi á því, að launþegasamtökin í landinu hljóta, eins og þróunin hefur verið í verðlagsmálunum, að miða sínar launakröfur nokkuð með tilliti til þess, að engin vísitölutrygging er nú á kaupinu.

Ég álít líka, að ríkisstj. gæti staðið fyrir því, að ákveðnar yrðu nokkrar verðlagslækkanir á ýmsum þýðingarmiklum vörum, vegna þess að reynslan hefur sýnt það, að afkoma ríkissjóðs er með þeim hætti, að ríkissjóður þarf ekki að innheimta alla þá tolla, sem hann gerir nú af brýnustu lífsnauðsynjum. Þar væri hægt að draga nokkuð úr og bæta þannig aðstöðuna. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það, hvað hægt er að gera í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. vék nokkuð að því, hvað væri raunverulega markmið manna í sambandi við kaupgjaldsbreytingar, hvort markmiðið væri það að stefna að almennum kauphækkunum, sem gengju yfir alla í landinu og þá mundu verða hinum kauplægri að litlu gagni, eða hvort menn vildu miða baráttu sína við það að hækka kaup hinna lægst launuðu, og mér fannst hann haga orðum sínum þannig, að fulltrúar Alþýðusambandsins væru á fyrri skoðuninni, sem miðaðist við það að koma fram miklum kauphækkunum til allra í landinu, jafnt þeirra, sem taka hærra kaupið, og hinna, sem taka hið lægra. Ég held, að þessi uppsetning hjá hæstv. forsrh. sé mjög röng. Þeir aðilar, sem nú er deilt um kaupið hjá í landinu, almennt talað, eru þeir, sem vinna fyrir lægst kaup samkv. gildandi kaupgjaldssamningum. Yfirgnæfandi meiri hl. þeirra, sem eru í verkföllum nú, eru hin almennu verkalýðsfélög og félög þeirra, sem vinna í iðnaði. Ég held því, að hæstv. ríkisstj. geri allt of mikið úr því, að uppi séu nú einhverjar sérstakar kröfur um það að hækka óeðlilega laun þeirra, sem hafi há laun fyrir. Ég tel, að um það sé ekki að ræða í hópi þeirra aðila, sem í verkföllum standa nú. En hinu verður hins vegar ekki neitað, að ýmsir þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem hafa lengst af búið við hæstu launakjör, hafa þegar fyrr á árinu fengið tiltölulega mesta launahækkunina.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, en mér sýnist á því, sem hér hefur fram komið hjá hæstv. forsrh., að ljóst sé, að ríkisstj. ætlar sér að endurskoða sínar fyrri till. og hugsar sér að leggja fram nýjar till. til þess að reyna að greiða fyrir sáttum í deilunni. Það þykir mér út af fyrir sig góðs viti. En ég vil í þessum efnum undirstrika það, að ég álit, að það sé kominn tími til þess, að ríkisstj. geri það, hún dragi þetta ekki frekar en orðið er, því að hver dagur er fyrir þjóðarbúið í heild dýr, ef svo skal til ganga eins og gengið hefur til nú að undanförnu. Ég held, að ríkisstj. hafi í þessum efnum möguleika til að gera það, sem gæti orðið til þess, að samningar tækjust, en þd má hún ekki láta standa á sér og þá verður hún að gera það, sem greinilegt er að t.d. atvinnurekendur ætlast til í þessu og kann að vera að sé þörf þeirra vegna, sumra þeirra, en draga hins vegar til baka till. sínar, sem fara í þveröfuga átt varðandi lausn deilunnar, eins og till. um það að ætla að fara að leggja á nýjan almennan söluskatt, sem mundi hækka verðlagið í landinu og raunverulega kalla eftir meiri kaupgjaldskröfum og auðvitað íþyngja atvinnurekstrinum líka. Frá slíkum till. held ég, að ríkisstj. þyrfti að hverfa, en snúa sér beint að hinu verkefninu, sem er að gera ráðstafanir þeim atvinnugreinum til stuðnings, sem nauðsynlegt er, svo að samningar geti tekizt.