16.01.1964
Sameinað þing: 34. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

Alþingishús og ráðhús

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er eðlilegt, að þm. taki nú enn á ný til athugunar um stöðu og aðbúnað þessa húss og þingsins í heild af því tilefni, sem hér hefur verið hreyft. Það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að frambúðarmeðferð þinghússins hlýtur mjög að verða háð þeim ákvörðunum, sem teknar verða um stöðu ráðhúss í norðurenda Tjarnarinnar. Um leið og ég viðurkenni þetta, vil ég hins vegar lýsa ósamþykki mínu á því, þegar hann beindi nokkrum hnífilyrðum að borgarstjórn Reykjavíkur af því tilefni, að hún ætlaði nú að taka um þetta ákvörðun án samþykkis þingsins. Það er eðlilegt, að borgarstjórnin af sinni hálfu taki ákvörðun um það, hvar hún telur eðlilegt, að ráðhús verði sett. Í því felst engin ögrun, enn þá siður fjandskapur í garð Alþingis, heldur það eitt, sem borgarstjórnin metur, svo sem réttilegt er, að tími sé til þess kominn, að ráðhúsinu sé endanlega ákveðinn staður. En annað mál er svo það, að sú staðarákvörðun hlýtur að lúta venjulegum reglum um meiri háttar skipulagsákvarðanir og hlýtur að lúta endanlegu samþykki þeirra aðila, sem til þess eru settir að fjalla um það, og þá að sjálfsögðu þess ráðherra, sem staðfesta á skipulagsuppdrátt. Ég efast ekki um, að slíkur háttur sé ráðgerður, og því er ekki ástæða til þess að setja út á meðferð borgarstjórnar á málinu. Það breytir ekki því, að af hálfu ríkisins kunna að verða aðrar skoðanir ofan á. Um það er ekki tímabært að segja að svo stöddu. Ég er því þess vegna samþykkur, þegar hv. 3. þm. Reykv. beinir því til hv. þm., að þeir íhugi þetta mál nú enn og að sú nefnd, sem kosin hefur verið til þess að fjalla um málið, taki upp störf, þar sem fyrr var frá horfið.

Þar sem málið er því enn þá í raun og veru á undirbúnings- og athugunarstigi, veit ég ekki, hvort tímabært er að ræða um það almennt fyrir utan það, sem við erum sammála um, að málið þurfi rækilegri athugunar af hálfu ríkisins, áður en það tekur málið til endanlegrar ákvörðunar. En ég vil þó láta uppi, að það er vissulega engin tilviljun eða nýjung, að ráðgert skuli vera, að ráðhúsi sé fenginn staður á þessum slóðum. Ef ég man rétt, hefur það verið ráðgert áratugum saman, bæði af hálfu skipulagsnefndar ríkisins, hvert hennar formlega heiti er, man ég nú ekki, og fyrir liggja ítrekaðar samþykktir af hálfu þeirra manna, sem kosnir hafa verið af borgarstjórn eða bæjarstjórn áður til þess að fjalla um þetta. Og mér er nær að ætla, að bæjarstjórn hafi einnig, a.m.k. einu sinni, ef ekki oftar, sjálf lýst samþykki sínu á þessum ráðagerðum, þannig að allir þeir aðilar, sem af hálfu borgarinnar og raunar af hálfu ríkisins embætti sínu samkvæmt hafa um þetta fjallað, hafa ætíð, stundum eftir nokkuð misjafnar skoðanir í upphafi og allrækilega leit, komizt að þeirri niðurstöðu, að æskilegasti staður fyrir ráðhús væri við norðurenda Tjarnarinnar. Og ég skal játa, að það hefur einnig lengi verið mín skoðun. Ég fjallaði nokkuð um þetta mál á þeim tíma, þegar ég var borgarstjóri, og sannfærðist þá um, að þessi staður væri hinn æskilegasti, ekki einungis vegna margfaldra hagkvæmniástæðna, heldur einnig vegna þarfar á því að fá glæsilega byggingu til þess, ef svo má segja, að loka norðurenda Tjarnarinnar. En öll vitum við það, sem þarna höfum um gengið og skoðað, að núv. húsaskipan er sízt ánægjuleg til að sjá og þarf breytingar.

Auðvitað gætu menn hugsað sér, að í stað ráðhúss væri vegleg þinghúsbygging að norðanverðu við Vonarstræti. En það hefur verið skoðun mín, og ég hef styrkzt í þeirri trú við að virða fyrir mér þær hugmyndir, sem í því efni hafa veríð settar fram, að með slíkri byggingu væri þessu húsi, sem við nú erum í, mjög misþyrmt og það gæti ekki með nokkru móti samrýmzt að halda þessari byggingu eins og hún nú er og ætla að byggja einhvers konar viðbyggingu við hana við norðurhlið Vonarstrætis. Eina ráðið til þess, að þessi bygging fái notið sín, og hún mun einnig njóta sín vel, væri algerlega opið svæði frá henni til þeirrar byggingar, sem sunnar kemur og þarf að koma. Til þess að sá fagri húsgrunnur verði notaður eins og æskilegt er, verður að hafa hæfilegt rými á milli alþingishúss og dómkirkju og byggja síðan veglega stórbyggingu fyrir sunnan Vonarstræti. Það mætti hugsa sér, að menn vildu hafa þar nýtt þinghús í staðinn fyrir ráðhús, en ég sé ekki, að það væri á neinn hátt æskilegra en ætla ráðhúsinu stað þarna og reyna að leysa vandamál þingsins á annan veg.

Hv. síðasti ræðumaður vildi forða þinginu sem allra lengst og byggja yfir það á Þingvöllum. Ég tel ekki ástæðu að fara að ræða þá hugmynd á þessu stigi. Það er miklu meira mál en svo. Ég vil einungis láta uppi, að ég tel, að það samrýmist ekki nútíma þjóðfélags- eða stjórnarháttum, að þinginu sé ætlaður staður annars staðar en í sjálfum höfuðstað landsins. Það væri mjög erfitt fyrir þm. landsins að gegna sínum skyldustörfum, ef þeir væru teknir úr daglegu sambandi við þau störf, sem unnin eru í sjálfri höfuðborginni, þannig að þá er spurningin um, hvort menn vilja flytja stjórnarsetur allt til Þingvalla, og hygg ég, að fáir telji það framkvæmanlegt. Við skulum ekki fara að ræða um hugmyndir Jóns Sigurðssonar í þessu efni eða túlka þær. Það var ekki hjá honum eingöngu um að ræða veg Reykjavíkur eða nauðsyn, sem hann sá á því að koma upp einni höfuðborg, heldur einnig að haga stjórnarstörfum á Íslandi, þar með þingstörfum, þannig, að samrýmdist nútíma þjóðfélagsháttum: Hann sá það rétt fyrir á sínum tíma, og þau atvik eru öll fyrir hendi og raunar í enn ríkara mæli í dag heldur en er hann kvað upp úr með sína skoðun. En þetta er auðvitað enn annað mál, hvort menn telja ástæðu til að flytja þingið og þá helzt höfuðborgina með burt úr Reykjavík, eins og hv. síðasti ræðumaður í raun og veru stefnir að og raunar einnig hefur verið hreyft ekki alls fyrir löngu í umr. á Alþingi og ég er auðvitað algerlega andvígur.

Það verkefni, sem fyrir okkur liggur, er miklu takmarkaðra að mínu viti. Hægt er að samræma veglega byggingu við norðurenda Tjarnarinnar því, að þetta hús standi eins og það nú er. Og ef menn vilja ekki láta skemma það með auðsæjum viðbyggingum, en vilja þó halda þinginu hér, er þá hægt að finna lausn á því vandamáli. Og ég tel, að hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, hafi í n., sem hefur til íhugunar húsnæðismál Alþingis, bent á leið, sem vissulega hlýtur mjög að koma til álita, og hún er sú, að húsalengjan hér fyrir vestan þinghúsið hverfi og Alþingi eignist þær lóðir og þar verði komið upp veglegri byggingu, sem geti hýst mikinn hluta af starfsemi þingsins. Jafnframt verði þessi bygging látin standa óhögguð eins og hún er, e.t.v. með einhverri léttri millibyggingu, sem þó þarf ekki að vera. Það væri eins hægt að hugsa sér jarðgöng á millí, þannig að innangengt væri. Ef menn óska þess að nota þetta hús áfram fyrir störf Alþingis, er þarna að mínu viti bent á raunhæfa lausn, sem auk þess hefur rík söguleg rök við að styðjast, af því að það er ljóst, að hinar fornu húsatóftir Ingólfs Arnarsonar eru þarna í næsta nágrenni. Slík bygging mundi vita út að hinum gamla kirkjustað og túni. Samtímis yrði auðvitað að hafa í hyggju, hvort menn vildu láta rýma burt landssímahúsinu og öðrum þeim byggingum, sem hér eru andspænis. Allt hlýtur þetta að koma til athugunar. En ég hygg, að frambúðarnotkun þinghússins, þess sem við erum í, fyrir Alþingi sé algerlega háð einhverri slíkri lausn, ef menn telja hana ekki færa, verði að leita að öðrum stað fyrir þinghúsið. Það mætti hugsa sér að segja við Reykjavíkurbæ: Þinghúsið vilt fá norðurenda Tjarnarinnar, en nær en það má bygging ekki verða núverandi húsi, til þess að hún yfirþyrmi ekki alþingishúsið, eins og það er. Eins er hægt að hugsa sér og hefur komið fram till. um það að fá Ísbjarnarlóðina gömlu suðaustur af ráðherrabústaðnum fyrir þinghús. Sumir tala um, að ráðhús eða stórhýsi ætti að vera við suðurenda Tjarnarinnar. Allt þetta hlýtur að koma til álita. En skoðun mín er sú, að hið versta af öllu væri, ef farið væri að klambra við þetta hús og reyna að breyta því að ytri ásýndum með byggingu hér fyrir sunnan, yfir á Templaralóðinni gömlu.

Það hafa verið gerðir uppdrættir að þessu. Ég veit, að sumir telja þetta líklega lausn, t.d. 3. þm. Reykv., en um það efni er ég honum algerlega andstæður. En hitt var eðlilegt, að nú væri vakin athygli á því, að þetta mál yrði tekið upp til athugunar á ný, og þar sem að því hlýtur að vera komið, að fullnaðarákvörðun verði tekin um skipulag miðbæjarins, er það vissulega rétt, að það má ekki öllu lengur dragast, að tekin verði ákvörðun um frambúðarlausn húsnæðismála þingsins.