16.01.1964
Sameinað þing: 34. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

Alþingishús og ráðhús

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki hér á þessum stað eða stundu að fara að blanda mér inn í skipulagsmál Reykjavíkurborgar eða hvar hún velur ráðhúsi sínu stað.

Varðandi húsnæðismál þingsins sýnist mér ekki ósennilegt, að niðurstaðan verði sú í bili, að farið verði að ráðum hæstv. dómsmrh., þar sem hann stingur upp á því, að þingið komi upp eða tryggi sér eitthvert húsnæði hér í nágrenninu til bráðabirgða til að bæta úr brýnustu þörf og að ákvörðun um byggingu framtíðarþinghúss verði látin bíða. Það finnst mér, að væru eðlileg vinnubrögð í þessu máli að svo stöddu. En hitt er það, að að því kemur trúlega fyrr eða síðar og m.a. vegna þessarar fyrirhuguðu ráðhúsbyggingar við Tjörnina, ef úr henni verður, að byggja verður nýtt þinghús á öðrum stað en það er nú.

Þegar ég tók til máls áðan, leyfði ég mér að vekja athygli þinghúsnefndarinnar á till. í þessum efnum, sem uppi hafa verið fyrr og síðar, og m.a. um þjóðaratkvgr. um þingstaðinn, og ég leit á það sem ábendingu fyrir n. í því skyni, að hún tæki það mál til athugunar. Hins vegar ræddi ég ekki að neinu ráði efni þess máls og hafði ekki ætlað mér það, en rakti aðeins lauslega ýmislegt, sem gerzt hefur í málinu, og þó fátt eitt. Þessi ábending mín, sem gerð var án þess að ræða efni málsins, varð hæstv. forsrh. tilefni til nokkurra umþenkinga og reyndar hv. 1. þm. Austf. einnig, sem ég get ekki látið með öllu ósvarað, úr því að hafin er viðræða um það efni.

Ég held, að hæstv. forsrh. ætti að kynna sér nánar ritgerðir þær, sem Jón Sigurðsson skrifaði í Ný félagsrit um þingstaðarmálið. Og ég held, að hann og hv. þm. fleiri ættu einnig að kynna sér þau skjöl, sem geymzt hafa prentuð írá embættisnefndinni um 1840, um þessi mál. Þar áttu hlut að menn, sem við a.m.k. teljum það merka, að þeirra er getið í hverri kennslubók í Íslandssögu. Hitt veit ég ekki, hve margra okkar, sem nú ræðum hér þetta mál, verður getið á sama hátt.

Hæstv. forsrh. sagði tvennt, sem mér finnst ástæða til þess að minnast á hér sérstaklega. Hann sagði, að ég stefndi að því að svipta Reykjavík höfuðborgarnafninu, að mér skildist. Ég veit ekki, hvaðan hæstv. forsrh. hefur þetta, og ég kannast ekki við það, að ég hafi sagt neitt í þá átt, að það ætti að svipta Reykjavík sínum höfuðborgarrétti, hvorki nú né endranær. Ég held, að þegar þeir Sveinn Ólafsson í Firði, Benedikt Sveinsson og Ásgeir Ásgeirsson, núv. forseti Íslands, lögðu til fyrir 35 árum ásamt fleiri þm., að atkvgr. yrði látin fara fram í landinu um það, hvort flytja skyldi Alþingi til Þingvalla, þá hafi ekki vakað fyrir þeim, að Reykjavík hætti að vera höfuðborg. Ég hef ekki orðið þess var í umr. um þetta mál. Þegar aðsetur forseta lýðveldisins var ákveðið á Bessastöðum, mun það ekki hafa vakað fyrir þeim mönnum, sem það gerðu, að Reykjavík hætti að vera höfuðborg, eða að rýra gildi hennar sem höfuðborgar. Höfuðborg býst ég við, að eftir sem áður verði talin, ef höfuðborgarheitið hefur í rauninni efnislega þýðingu, sá staður, þar sem ríkisstj. hefur aðsetur. En þar með er ekki sagt, að í þessari sömu höfuðborg þurfi að safna saman öllum helztu þjóðstofnunum. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh. sé það kunnugt, svo fróðum manni, og ýmsum öðrum t.d., að á þeim tímum, þegar Berlin var höfuðborg Þýzkalands á dögum Weimar-lýðveldisins og áður, var æðsti dómstóll þýzka ríkisins ekki í höfuðborginni, heldur var hann í annarri borg. Hann var í Leipzig. Og það er ekki neitt lögmál eða nein stjórnarskrá, sem býður það, að allar helztu þjóðstofnanir skulu vera í höfuðborginni. Að láta þau orð falla, að ég hafi lagt til eða vildi leggja það til, a$ Reykjavík hætti að vera höfuðborg, þó að ég benti á það, að rétt væri að láta fara fram þjóðaratkvgr. um þingstaðinn, á sér ekki stoð.

Þá sagði hæstv. forsrh., að það að heyja Alþingi á Þingvöllum eða utan höfuðborgarinnar, en það, sem hér var rætt um, voru Þingvellir, samrýmdist ekki nútíma þjóðfélagsháttum, og hv. 1. þm. Austf, sagði, að hin langa seta Alþingis krefðist þess, að það sæti í höfuðborginni, og ef það sæti ekki í höfuðborginni, mundi valdið dragast úr höndum þess. Ef það samrýmdist að dómi margra hinna mætustu manna hér á Alþingi þjóðfélagsháttum fyrir 30–40 árum, að Alþingi sæti á Þingvöllum, þá ætti það ekki síður að gera það nú, svo mjög sem samgöngur hafa breytzt. Nú mundi það geta samrýmzt þjóðfélagsháttum framtíðarinnar með tilliti til þeirra samgöngubreytinga, sem áreiðanlega verða á komandi tímum í þessu landi eins og annars staðar í veröldinni. Ég verð e.t.v. að biðjast afsökunar á því orðalagi, en mér finnst það vera barnaskapur að láta sér koma það í hug, að það verði nokkur hindrun fyrir þm. í starfi á 21. eða 22. öld, þó að Alþingi sitji á Þingvöllum.

Ég læt þessi orð falla efnislega um þetta mál að gefnu tilefni. Að öðru leyti benti ég á það eitt til athugunar fyrir nefndina, að hún íhugaði, hvort ekki væri rétt að taka upp hina gömlu till. frá því fyrir 30–40 árum um að gefa þjóðinni kost á að segja álit sitt um þetta mál.

Þegar deilt var um alþingisstaðinn laust eftir 1840, voru skoðanir mjög skiptar um þetta mál. Stjórnin úti í Kaupmannahöfn fór að till. meiri hluta embættismannanefndarinnar um það, og átti þó í rauninni ekki að vera fullnaðarákvörðun, heldur til bráðabirgða, meðan hún væri að hugsa sig betur um. Reyndin varð sú, að Alþingi sat í Reykjavík, og var það e.t.v. eftir atvikum, eins og þá stóð á, ekki óheppilegt. En ég hef séð í bókum sagnfróðra manna, að á því sé enginn efi, að ef málið hefði þá verið borið undir atkv. kjósenda í landinu, hefði verið samþykkt að hafa Alþingi á Þingvöllum, og eins og hæstv. forsrh., svo sögufróður maður sem hann er, veit sjálfsagt engu síður en ég, var Jóni Sigurðssyni það fyllilega ljóst og varð var við það í bréfum og á annan hátt. að afstaða hans í þessu máli mæltist mjög misjafnlega fyrir í landinu, þegar hún varð kunn.

Nú var því haldið fram á sínum tíma hér á Alþingi og raunar víðar, að þjóðin ætti það inni þá, og það á hún inni enn, að hún fengi einhvern tíma að segja álit sitt um þetta mál. Og úr því að það verður nú sennilega niðurstaðan að taka upp hið skynsamlega ráð hæstv. dómsmrh, að bæta úr húsnæðisvandræðum Alþingis til bráðabirgða, þá finnst mér, að hin hv. nefnd, sem hefur þetta mál til meðferðar, og hv. þm. ættu að leyfa þetta. Sé svo, að yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar sé þess sinnis, sem hæstv. forsrh. og fleiri virðast vera og telja ástæðu til að láta koma fram strax í dag, — ég veit ekki hvers vegna, — þá er samt enginn skaði skeður, þó að ein þjóðaratkvgr. fari fram. Það kemur þá aðeins fram, að þeir, sem nú eru að ræða um, að Alþingi verði háð á Þingvöllum, eru annarrar skoðunar eða hafa ekki fylgi við sina hugmynd. En ef þjóðin væri sama sinnis og hún var 1940, að vilja hafa Alþingi á Þingvöllum, þá væri skaði skeður, ef hún fengi ekki að segja það, því að þetta mál er eitt af þeim málum, sem snerta nokkuð djúpt tilveru þessarar þjóðar.

Ég skal svo ekki hafa um þetta efni fleiri orð.