17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

95. mál, vegalög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég tel mér skylt að færa hv. samgmn. þakkir fyrir það að hafa tekið undir erindi okkar bæjarráðsmanna í Kópavogi. Við gerðum okkur strax ljóst þar, að það væri mikil nauðsyn fyrir Kópavogskaupstað að fá viðurkennda að einhverju leyti þá algeru sérstöðu, sem við teljum að sá kaupstaður skipi varðandi samgöngumál, eins og ég drap hér lítillega á við 2. umr. þessa máls. Við gerðum okkur jafnframt grein fyrir því, að það eru vissir erfiðleikar á því að fá inn í heildarlöggjöf ákvæði, sem kveða fast á um vandamál einhvers sérstaks staðar á landinu. Því gerðum við okkur fulla grein fyrir. Við lögðum því áherzlu á, eins og fram kom hjá hv. frsm. samgmn., að fá niður fellda síðustu mgr. 34. gr., vegna þess að við litum svo á, að væri það ákvæði í gildi, þá næði 34. gr. ekki tilgangi sínum varðandi þær framkvæmdir, sem í verður að ráðast varðandi Reykjanesbrautina í gegnum Kópavog, og ef flett er upp á aths. í frv. einmitt um 34. gr., verður þetta enn gleggra, að það var mikil nauðsyn á því að fá einmitt síðustu mgr. greinarinnar niður fellda, en í aths. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Um 34. gr. Tilgangur þessa ákvæðis er að opna leið til að hraða framkvæmdum, sem bráðnauðsynlegar eru, en ekki unnt að ljúka á nægilega skömmum tíma með eðlilegum hluta viðkomandi staðar, og einnig að stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum með því að gera kleift að láta vinna í einu lagi fyrir meira en eins árs framlagshluta, einkum ef um fámennt byggðarlag er að ræða, sem fær lága upphæð árlega.“

Við óttuðumst það, að þetta mundi verða til þess, eins og ég drap hér á við 2. umr. málsins, að hér yrði aðeins um að ræða að færa til fjármagn á hverju áætlunartímabili, þannig að hægt væri að vinna eitt ár fyrir væntanlegt framlag, sem kæmi síðan á næstu 4 árum, en í sambandi við þær framkvæmdir, sem í verður að ráðast á Reykjanesbraut gegnum Kópavog, er þetta algerlega ófullnægjandi. Við gerðum okkur ljósa grein fyrir því, eins og ég gat um í upphafi, að það væri erfitt að ná samkomulagi um að setja inn í heildarlöggjöf ákvæði, sem tryggðu beint sérstöðu ákveðinna staða, og þess vegna fórum við fram á, að síðasta mgr. 34, gr. yrði felld niður, eða eins og segir í bréfinu, annaðhvort það eða sérstaða Kópavogs yrði tryggð.

Við treystum á skilning samgmrh. og vegamálastjórnarinnar á því, að sú framkvæmd, sem þarna um getur, þ.e.a.s. að leggja tvöfalda akbraut í gegnum Kópavog með viðhlítandi ráðstöfunum til þess að tryggja eðlilega samgönguhætti innanbæjar yfir brautina, að þetta sé af öllum, sem til þekkja og yfirstjórn hafa á þessum málum, talið svo brýnt verkefni, að annað verði vart látið ganga fyrir varðandi það fjármagn, sem hægt verður að deila niður til bráðnauðsynlegustu framkvæmda samkv. því, sem segir í 34. gr. Og ég vil segja það, að þær undirtektir alþm. hér og sá skilningur, sem þetta málefni á að mæta hér, þrátt fyrir það, þó að vissir erfiðleikar séu á því að fá beint ákvæði um þetta í lögum, treysti þá skoðun okkar, að þarna muni mjög bráðlega verða gengið til liðs við Kópavog um að knýja þetta nauðsynjamál fram. Og með hliðsjón af því, að við viðurkennum, að það er erfitt að ná samkomulagi um ákvæði, sem fyrst og fremst er staðbundið við einn eða örfáa staði, fá það inn heildarlöggjöfina, og með tilvísun til þeirra undirtekta og þess ágæta skilnings, sem sérstaða okkar Kópavogsbúa hefur mætt hér á hv. Alþingi, og í fullu trausti þess, að samgmrh. muni beita sér fyrir því, að ríkisvaldið gangi til liðs við okkur um að hrinda þessu nauðsynjamáli fram, þá get ég fyrir mitt leyti og í áframhaldi af því, sem bæjarráð Kópavogs óskar eftir, fallizt á þessa lausn málsins.