16.10.1963
Sameinað þing: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

Olíugeymar í Hvalfirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. 4 þm. Alþb. hafa á þskj. 22 borið fram till. til þál. um það, að Alþingi skuli að gefnu tilefni lýsa yfir því, að óheimilt sé að gera nokkra samninga við Atlantshafsbandalagið um framkvæmdir í Hvalfirði, nema samþykki Alþingis komi til. Nú hefur hv. 1. þm. Austf, innleitt þetta mál hér til umr. þrátt fyrir það, þó að það sé orðið skjalfest þingmál, og fengið það tekið hér fyrir utan dagskrár. Hygg ég allóvenjulegt, að þingmál sæti fyrir fram umr. sem þessum innan Alþingis. En látum það vera. Ég vil hér aðeins segja frá því að gefnu tilefni, að þegar hin fáorða og fyrirferðarlitla frétt um mannvirkjagerð á vegum NATO í Hvalfirði birtist s. 1. sumar, þá óskaði ég eftir því fyrir hönd Alþb. að fá að ræða það mál nánar við hæstv. utanrrh., og varð hann fúslega við þeim tilmælum og svaraði greiðlega þeim spurningum, sem ég og Eðvarð Sigurðsson, sem gekk með mér á hans fund, öllum þeim spurningum, sem við lögðum fyrir hann um þetta mál. Hann staðfesti það, að þarna stæði til að gera samning við NATO um byggingu alldýrra og umfangsmikilla mannvirkja í Hvalfirði og þ. á m. byggingu hafnarmannvirkja í stórum stíl og múrninga á botni Hvalfjarðar, en legufæri skyldu vera geymd í landi, þar til ríkisstj, tæki ákvörðun um, að þessar múrningar og þessi legufæri yrðu sjósett. Við spurðum um það, hvort þessi legufæri yrðu þannig, að þarna væri e.t.v. verið að búa út bækistöðvar fyrir kafbáta, sem e.t.v. hefðu meðferðis atómvopn, og minnir mig, að ráðh, segði, að vitanlega gætu öll skip, hverrar tegundar sem væru, notfært sér slík legufæri, þegar þau væru þar komin í nothæft ástand, og fannst mér í þessu felast engin synjun, engin neitun á þeirri fsp., sem við sérstaklega bárum fram um þetta atriði. Að öðru leyti hefur málið verið rakið opinberlega, fsp. okkar og svör ráðh. við henni, og hirði ég ekki að endurtaka það. En það var niðurstaða okkar máls á þessum fundi okkar með ráðh., að við mótmæltum því, að leyfilegt væri að gera á vegum ríkisstj. samninga við NATO eða önnur ríki, sem legðu kvaðir á íslenzkt land, eins og þarna væri tvímælalaust um að ræða, og kröfðumst þess, að Alþingi yrði kallað saman til ákvörðunar um slíkt mál. Ráðh. sagðist skyldu leggja þá kröfu eða ósk okkar Alþb.- manna fyrir ríkisstj., og hefur hann sjálfsagt gert það, en eins og kunnugt er, var málið ekki lagt fyrir Alþingi og hefur ekki komið til umr. hér fyrr en nú í fyrirspurnarformi, þangað til það verður þá að réttum þingsköpum tekið til umr. viðvíkjandi því þingmáli, sem nú liggur fyrir.

Það er afstaða Alþb. til þessa máls, að ríkisstj. sé ekki heimilt að ganga frá slíkum samningum, enda er ekkert um það að villast, að í sjálfri stjórnarskránni er forseta ríkisins, sem skal gera samninga við önnur ríki, ekki heimilað að gera neina þá samninga, sem feli í sér kvaðir á íslenzku landi, nema samþykki Alþingis komi til. Nú tók ég svo eftir, þegar hæstv. utanrrh. talaði hér áðan, að þetta mál væri ekki orðið samningsbundið enn, það væri á athugunarstigi, og tel ég því, þegar ekki hefur orðið af samningsgerð hjá hæstv. ríkisstj., áður en Alþingi kom saman, einsætt, að halda beri ákvæði stjórnarskrárinnar um það, að ekki verði neitt í þessu máli gert, án þess að þær ákvarðanir byggist á þinglegri ákvörðun Alþingis. Það er krafa Alþb, samkv. þáltill. á þskj. 22.

Ég held, að ekki sé ástæða til þess að ræða þetta mál frekar. Af hendi Alþb. verða málinu gerð skil í umr. um þingmálið, þáltill. um framkvæmdir á vegum Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði.