16.10.1963
Sameinað þing: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

Olíugeymar í Hvalfirði

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, en vildi aðeins leiðrétta tvö eða þrjú atriði, sem fram hafa komið.

Hv. 5. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, vildi halda því fram, að óheimilt væri að gera samninginn um byggingu tankanna í Hvalfirði án þess að bera það undir Alþingi áður, slíkt væri stjórnarskrárbrot, og virtist þm. vera þeirrar skoðunar, að hér væri um algerlega nýjan samning að ræða og samning við aðila, sem við hefðum ekki varnarsamning við fyrir. Hér er á ferðinni alger misskilningur. Ríkisstj. Íslands samdi á sínum tíma við Bandaríkin í umboði NATO um varnir landsins og um varnarframkvæmdir á Íslandi. Á grundvelli þess samnings hafa Bandaríkin framkvæmt og kostað allar þær mannvirkjagerðir, sem hér hafa átt sér stað á varnarsviðinu. Það, sem um er að ræða hér, er ekki annað en það, að ríkisstj. Íslands semji við eða heimili Bandaríkjunum innan ramma varnarsamningsins að framkvæma umræddar mannvirkjagerðir í Hvalfirði með þeirri breytingu einni frá því, sem verið hefur, að kostnaðurinn sé nú ekki borgaður úr ríkissjóði Bandaríkjanna, af bandarískum þegnum, heldur fái Bandaríkjastjórn peningana til þess að greiða kostnaðinn að langsamlega mestu leyti frá NATO. Hér er spurning um það eitt, hvernig Bandaríkjastjórn útvegar sér fé til framkvæmdanna. Að öðru leyti er hér um að ræða framkvæmdir, sem eru nákvæmlega sama eðlis og allar þær aðrar, sem gerðar hafa verið hér á þessu sviði s.l. 10 ár og allir hafa verið sammála um, að ekki væru þingmál.

Hv. 1, þm. Austf. sagði, að svo væri að sjá sem eitthvað væri verið að draga í land með fyrirhugaðar framkvæmdir í Hvalfirði, vegna þess að í sumar hafi verið nefndir 25–28 tankar, mörg legufæri og miklar bryggjuframkvæmdir. Þegar fulltrúar Framsfl. og Alþb. töluðu við mig í sumar og spurðust fyrir um málið, gaf ég þeim þær upplýsingar, sem fyrir lágu, að því er upprunalegar áætlanir Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins í þessum efnum varðaði. Og þegar málið var upphaflega á ferðinni fyrir nokkrum árum, voru nefndar þær tölur, sem ég skýrði þeim frá, en jafnframt sagði ég þeim, að athuganir væru að byrja og ekki væri hægt að vita um það fyrir fram, hvernig málin horfðu við að þeim loknum. Þær tölur, sem ég nefndi því nú áðan, eru árangurinn af þeim athugunum, sem fram hafa farið til þessa, og á því stigi, sem þær eru núna.

Þá sagði hv. 1. þm. Austf., að Framsfl. hefði ætíð verið á móti hernaðarframkvæmdum í Hvalfirði, það hefði aldrei komið til mála, að Framsfl. léði máls á slíku, og áætlanir, sem gerðar væru úti í París, skiptu hér engu máli. Ég get ekki verið alveg sammála þessum hv. þm. um þetta. Árið 1955 koma tilmæli til utanrrh. Framsfl. um stórfelldar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði. Þessi tilmæli eru tekin til athugunar af utanrrn, hér í Reykjavík. Um þessar mundir verður utanrrh. Íslands forseti Atlantshafsbandalagsins. Undir hans forsæti eru áætlanir samdar um þær framkvæmdir í Hvalfirði, sem farið hafði verið fram á, og það er staðreynd, að það er ekki venja að taka upp í neinar slíkar áætlanir fjárveitingar til framkvæmda, nema fyrir liggi heimild viðkomandi lands eða viðkomandi ráðh. Menn geta svo bara getið sér til og sagt sér sjálfir: Er það líklegt, að utanrrh. Íslands hafi setið úti í París, þar sem áætlanir eins og þessar eru lagðar fram, þáttur Íslands á að vera þessi í framkvæmdunum, ef þessi sami utanrrh. og þeir, sem að honum standa, hann, sem situr í forsæti bandalagsins, vill ekkert hafa með þetta að gera og ekkert við þetta kannast?

Ég held, að við þurfum ekki að deila um það, að á sínum tíma, um áramótin 1955-1956, stóð ekki á Íslendingum að taka þessar framkvæmdir upp í áætlanirnar. Þá vildi hv. 1. þm. Austf. halda því fram, að málið snerist í raun og veru um það, hvort við ættum að gera Hvalfjörð að herbækistöð, hvort við ættum að gera hann að flotastöð. Hann telur, að ef leyft verði að byggja þarna nokkra tanka til viðbótar og endurnýjunar á þeim, sem fyrir eru, leyft verði að koma fyrir bryggju, til þess að sé hægt að afgreiða skip við tankana, og koma fyrir svo sem tveimur legufærum, þá sé Hvalfjörður þar með gerður að flotastöð. Hvernig hefur þetta verið s.l. 20 ár? Það hafa verið í Hvalfirði hvorki meira né minna en 30–40 olíutankar. Þar hefur verið bryggja til þess að afgreiða skip við þessa tanka, og þar hafa verið legufæri til þess að festa þessi skip með. Það, sem rætt er um nú, er ekkert annað eri það að endurbæta og e.t.v. auka tankana um 8–9 og nauðsynlega aðstöðu til þess að afgreiða skip við þessa tanka. Þessi breyting á allt í einu að gera Hvalfjörð, sem hefur haft 4–5 sinnum fleiri tanka en verið er að tala um í 20 ár, það á allt í einu að fara að gera Hvalfjörð að flotastöð.

Ég hef tekið það fram áður, og ég skal endurtaka það enn, að í öllum mínum viðræðum við NATO og við Bandaríkin um þetta mál hefur það verið grundvallaratriði, að þeir tankar og þau mannvirki, sem kæmu þarna, yrðu á engan hátt notuð annan en þann, sem verið hefur s.l. ár um tankana, sem fyrir eru, m.a. að um Hvalfjörð í þessu sambandi verði ekki um aðrar skipaferðir að ræða en þær einar, sem nauðsynlegar eru til að fylla olíu á tankana og til að skipta um olíu á tönkum, þegar sú, sem fyrir er, er orðin of gömul. Um það verður ekki að ræða að nota þessa tanka á friðartímum til áfyllingar fyrir herskip eða slíkt.

Ég held, að hv. 1. þm. Austf. skjóti nokkuð mikið yfir markið, þegar hann óttast svo mjög, að þessir fáu olíutankar í Hvalfirði breyti firðinum nú allt í einu úr friðsamlegum firði í hernaðarstöð. Það hlýtur að vera eitthvað annað en áhyggjurnar út af þessu, sem svo mjög amar að þessum hv. þm.