16.10.1963
Sameinað þing: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

Olíugeymar í Hvalfirði

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð mörg, enda hefur þetta mál upplýstst við þá fsp., sem hér var gerð, og liggur það nú fyrir, að enn hefur ekki verið gengið frá samningum um fyrirhugaðar framkvæmdir í Hvalfirði.

En út af því, sem hæstv. utanrrh. hefur sagt og endurtók nú allra síðast viðvíkjandi því, að utanrrh. Framsfl. muni hafa samþykkt í París 1955 þær framkvæmdir, sem NATO hafði þá farið fram á og hefði haft í huga, vil ég segja tvö, þrjú orð. Færir hann því máli sínu til sönnunar það, að upp í fjárhagsáætlun, sem þar kvað hafa verið samþykkt, hafi verið tekinn einhver liður til þessara framkvæmda. Út af því vil ég bara segja það, að svo virðist sem fyrirsvarsmenn bandalagsins hafi ekki litið svo á, að samþykki væri fengið af Íslands hálfu til þeirra framkvæmda. Þeir hafa ekki skilið dr. Kristin Guðmundsson á þá leið, vegna þess að árið eftir, 1956, snúa þeir sér, samkv. upplýsingum hæstv. utanrrh., til þeirrar stjórnar, sem þá var við völd hér á landi, og fóru fram é leyfi til þessara framkvæmda, og þeim tilmælum var hafnað. Menn geta ímyndað sér það, hvort slíkri synjun hefði verið tekið alveg þegjandi og umræðulaust af bandalaginu eða öðrum samningsaðilum, sem um þetta hafa fjallað, ef svo hefði verið, að íslenzkur utanrrh. hefði verið búinn að fallast áður á þessi tilmæli. Ég held, að þetta augljósa atriði kippi algerlega stoðum undan því, sem hæstv. utanrrh. vildi halda hér fram og telja fram sem sönnun fyrir því, að það hefði verið fallizt á þessi tilmæli á árinu 1955 af utanrrh. þeim, sem þá var. Það nær engri átt, enda þarf ég ekki að endurtaka það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan um afstöðu Framsfl. í þessu efni, og enginn, sem þekkir dr. Kristin Guðmundsson, lætur sér það til hugar koma, að hann hafi farið að með þeim hætti, sem núv. hæstv. utanrrh. gaf í skyn, þegar afstöðu flokks hans var háttað á þennan veg, sem lýst hefur verið.