24.10.1963
Neðri deild: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

Olíugeymar í Hvalfirði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera hér fram fsp. utan dagskrár til hæstv. utanrrh. Hæstv. ráðh, fékk að vita af þessari fsp. í gær og óskaði þá eftir, að henni yrði frestað þar til í dag.

Fyrir rúmri viku urðu nokkrar umr. utan dagskrár í sameinuðu þingi um hugsanlega mannvirkjagerð í Hvalfirði á vegum Atlantshafsbandalagsins eftir fsp. frá hv. 1. þm. Austf. Í þeim umr. veitti hæstv. utanrrh. þinginu ýmsar upplýsingar, þ. á m. um sögulegan aðdraganda málsins. Nú hefur það gerzt, að fyrrv. utanrrh. og núv. ambassador Íslands í Moskvu, dr. Kristinn Guðmundsson, hefur lýst því yfir opinberlega, að ýmsar upplýsingar hæstv. utanrrh. í þessu máli séu rangar og hafi hann sagt þinginu ósatt. Hér er að sjálfsögðu um mjög alvarlegt mál að ræða, sem verður að rannsaka niður í kjölinn þegar í stað. Að vísu liggur nú fyrir Sþ. till. til ályktunar um þetta sama mál, sem við höfum flutt nokkrir þm. Alþb. Till. þessi hefur þó enn ekki verið tekin á dagskrá, og er óvíst, hvenær það verður leyft. Ég tel því, að ekki sé unnt að bíða með þetta einstaka atriði málsins og verði. þingið tafarlaust að fá úr því skorið, hvor segi ósatt í þessu máli, hæstv. utanrrh. eða fyrrv. utanrrh.

Í umr. utan dagskrár í Sþ. 16. okt. s.l. sagði hæstv. utanrrh., með leyft hæstv. forseta:

„Á árinu 1955 verður utanrrh. Íslands, dr. Kristinn Guðmundsson, forseti NATO. Tilmælin um infrastructure-framkvæmdír í Hvalfirði eru þá ræddar hér heima og við NATO. Niðurstaðan verður sú, að fjárveiting til þessara framkvæmda er tekin upp í áætlanir um fjárveitingar úr infrastructure-sjóði, og eru áætlanir þessar gerðar 1. marz 1956. Utanrrh., dr. Kristinn Guðmundsson, er þá enn í forsæti Atlantshafsbandalagsins. Það er ekki venja, og ég þekki þess engin dæmi að taka fjárveitingar upp í fjárhagsáætlun infrastructure-sjóðsins, nema áður sé gengið úr skugga um, að viðkomandi land sé samþykkt þeirri framkvæmd, sem fé er veitt til.“

Síðan sagði hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1955 komu tilmæli til utanrrh. Framsfl. um stórfelldar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði. Þessi tilmæli eru tekin til athugunar af utanrrn. hér í Reykjavík. Um þessar mundir verður utanrrh. Íslands forseti Atlantshafsbandalagsins. Undir hans forsæti eru áætlanir samdar um þær framkvæmdir í Hvalfirði, sem farið hafði verið fram á.“

Og enn sagði hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held, að við þurfum nú ekki að deila um það, að á sínum tíma, um áramótin 1955 –1956, stóð ekki á Íslendingum að taka þessar framkvæmdir upp í áætlanir.“

Og enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt er staðreynd, hvað gerðist í París haustið 1955 og fyrri part ársins 1956, og þær staðreyndir verða ekki misskildar. Það, sem ráðh. gerði þar, það gerði hann í umboði sinnar ríkisstj. og fyrst og fremst þess flokks, sem bar ábyrgð á henni.“

Eins og sjá má af þessum ummælum, er hæstv. utanrrh. ekki í vafa um, hvað dr. Kristinn Guðmundsson hafi gert í París 1956, eins og ráðh. orðar það sjálfur. Hann fullyrðir á Álþingi, að áætlanir um Hvalf jörð hafi verið gerðar undir forsæti dr. Kristins og með vitund hans og vilja.

Hinn 22. okt. s.l. birtust í dagblaðinu Tímanum ummæli dr. Kristins Guðmundssonar fyrrv. ráðh, um fullyrðingar þær, sem fram komu í ræðum hæstv. utanrrh. í sameinuðu Alþingi og ég hef rakið hér að framan. Dr. Kristinn Guðmundsson segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Slík fjárveiting var aldrei rædd eða til með ferðar á þeim ráðherrafundum, þar sem ég var í forsæti, og mannvirkjagerð í Hvalfirði bar aldrei á góma á þeim fundum NATO, sem ég sat. Hins vegar var þessum málum nokkrum sinnum hreyft við mig sem ráðh. af varnarliðinu á Íslandi, en ég vísaði öllum tilmælum um mannvirkjagerð í Hvalfirði algerlega á bug í fullu samráði við meðráðh. mína, og kom aldrei til mála, að ég samþykkti neitt slíkt fyrir Íslands hönd.“

Ljóst er af ummælum hæstv. ráðh. og fyrrv. ráðh., að hér stendur fullyrðing á móti fullyrðingu. Annar hvor segir ósatt. Við, sem höfum ekki aðstöðu til að kynna okkur staðreyndir málsins, getum að sjálfsögðu ekkert um það sagt, hvor segir ósatt, hæstv. utanrrh. eða fyrrv. utanrrh. En fullvíst er, að annaðhvort hefur ambassadorinn í Moskvu gerzt sekur um að bera yfirmann sinn, hæstv. utanrrh., röngum sökum eða hæstv. utanrrh. hefur sagt Alþingi ósatt. Hvort tveggja er alvarlegt mál, og þó er hið síðara hálfu verra, ef rétt reynist.

Nýlega gerðist það í Bretlandi, eins og kunnugt er af fréttum, að varnarmálaráðh., Profumo að nafni, var staðinn að því að segja brezka þinginu ósatt. Ráðh. varð að víkja úr embætti þegar í stað. Í máli því, sem hér um ræðir, hefur að vísu ekkert verið sannað, en þetta dæmi sýnir, hve alvarlegum augum er litið á slík mál í öðrum löndum, og rétt er að minna á, að þegar Profumo ráðh. var staðinn að ósannsögli, var aðeins um að ræða heldur óvenjulegt og kynlegt einkamál, en hér er um að ræða stórpólitískt utanríkismál.

Hæstv. utanrrh. hefur lagt á það sérstaka áherzlu við umr. hér í þinginu, að með væntanlegum samningum um hernaðarmannvirki í Hvalfirði sé verið að uppfylla gömul loforð frá 1956.

Ég vil að lokum benda á það, að staðreyndir þessa máls eru sérstaklega mikilvægar vegna þess, að ef í ljós kemur, að dr. Kristinn Guðmundsson hefur létt fyrir sér, eru ráðagerðir hæstv. utanrrh, um samninga við NATO um framkvæmdir í Hvalfirði byggðar á röngum forsendum. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. utan dagskrár: Getur hæstv. utanrrh. lagt fram þau sönnunargögn, er sanni þá fullyrðingu hans, að dr. Kristinn Guðmundsson fyrrv. utanrrh. hafi samþykkt áætlanir um hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði árið 1956?