24.10.1963
Neðri deild: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

Olíugeymar í Hvalfirði

Utanrrh. (Guðmundur I. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég varð meira en lítið undrandi, þegar ég heyrði efni fsp. hv. 5. landsk. þm. Mér var að vísu skýrt frá því í fyrradag, að von væri á fsp., en um efni hennar vissi ég ekki gjörla. Ég gat átt von á ýmsu, en naumast átti ég von á, að spurt yrði eins og þessi hv. þm. spurði.

Ég býst við, að allir minnist þess, sem eitthvað hafa lesið Þjóðviljann á allmörgum undanförnum árum, að það blað hefur þrástagazt á því, að Bandaríkjamenn og NATO væru að óska eftir hernaðarstöðvum í Hvalfirði, vildu gera þar hernaðarmannvirki og gera Hvalfjörð að flotastöð. Þetta sama blað hefur einnig um fjöldamörg ár fullyrt, að ríkisstj. Íslands stæði í samningamakki við NATO og Bandaríkin um slíkar framkvæmdir. Það hefur einnig mátt lesa það á síðum þessa blaðs, að ríkisstj. Íslands væri ekki fjarri því að fallast á slíka hluti, stundum jafnvel fullyrt, að málið væri vel á veg komið.

Þegar svo það skeður fyrir örfáum dögum, að ég í ræðu hér á Alþingi — ég vil segja staðfesti alveg hverfandi lítið brot af öllu því, sem Þjóðviljinn hefur um þetta sagt í mörg ár, þá skeður það, að einn af þm. kommúnista stendur upp á Alþingi og segir: Er ráðh. virkilega að segja satt? Við andstæðingar Þjóðviljans og kommúnista tökum nú Þjóðviljann með mikilli varúð og trúum ekki allt of vel því, sem þar stendur. Við vitum einnig, að því nánari sem menn eru því blaði og því betur sem menn þekkja inn á þess málflutning, því verr trúa þeir því. Og ég veit, að í hjarta sínu er þessi hv. þm. fullur af efasemdum um sannleiksgildi þess málflutnings, sem hans eigið blað hefur uppi. Hinu átti ég ekki von á, að hann stæði hér upp á Alþingi til að auglýsa það jafnaugljóslega og hann gerði í sinni ræðu, hvílíkar efasemdir hann hefur um málflutning síns blaðs, því að ef þm. hefði virkilega trúað því, sem hann í mörg ár hefur séð í sínu eigin blaði, þá hefði hann áreiðanlega ekki farið að spyrja hér eða viðhaft þær efasemdir, sem hann viðhafði í ræðu sinni áðan.

En nóg um það. Ég skal snúa mér að sjálfri fsp. Í ræðu minni á Alþingi fyrir nokkrum dögum sagði ég í fyrsta lagi, að snemma á árinu 1955 hafi komið fram tillögur hjá NATO um, að gerðar skyldu í Hvalfirði geymslur fyrir olíu og sprengiefni og sköpuð aðstaða fyrir skipalægi samkv. infrastructure-áætlun NATO, og að þessi tilmæli hafi síðan verið rædd, bæði hér heima í Reykjavík og eins í París. Þetta var fyrsta atriðið í minni frásögn. Þessu atriði hefur ekki verið mótmælt. Tíminn segist hafa talað við dr. Kristin Guðmundsson austur í Moskvu, og í þeim ummælum, sem höfð eru eftir doktornum, er þessari staðhæfingu minni ekki mótmælt. Hún er þvert á móti staðfest, því að þar viðurkennir hann, ef rétt er eftir honum haft, sem ég skal ekkert um segja, að þessi tilmæli hafi komið fram hvað eftir annað. Þetta atriði ætti því ekki að þurfa að sanna. la,n ég skal leyfa mér að bæta við, að engin dul hefur verið á það dregin í mörg ár, að ósk sem þessi hafi komið fram frá Atlantshafsbandalaginu. Í desembermánuði 1955 átti t.d. einn blaðamaður Morgunblaðsins viðtal við dr. Kristin Guðmundsson og við æðsta yfirmann hermála Atlantshafsbandalagsins. Viðtalið við þessa menn var að nokkru leyti birt í Morgunblaðinu, og með leyfi hæstv. forseta, segir Morgunblaðið svo orðrétt frá viðtali sínu við Wright, æðsta yfirmann herafla bandalagsins:

„Það hefur ekki verið óskað eftir að reisa flotastöð á Íslandi, og ég tel alls ekki líklegt, að þess verði óskað. Hins vegar hefur verið farið fram á að hafa afnot af herskipalægi í Hvalfirði, en það þýðir alls ekki, að þar verði flotastöð. Þar munu herskip ekki leggjast að bryggju og hermenn ekki ganga á land. Í öllum flotastöðvum er margt starfslið og mikið umstang á landi, en hjá ykkur kemur slíkt ekki til mála. Hitt vona ég, að við fáum hið umbeðna herskipalægi. Er óhætt að fullyrða, að á friðartímum verður það ekki mikið notað.“

Þarna er skýrt frá því opinberlega af æðsta yfirmanni herafla bandalagsins, að óskað hafi verið eftir aðstöðu í Hvalfirði. Hann dregur ekki á þetta neina dul. Það, sem ég var því að skýra frá í minni ræðu, er staðreynd, sem hefur verið á almannavitorði í mörg ár. En aðmírállinn segir svolítið meira. Hann segist vona, að hann fái hið umbeðna skipalægi í Hvalfirði. Þessa von lætur aðmírállinn í ljós, eftir að málið hefur verið til umræðu á milli utanrrh. Íslands og Atlantshafsbandalagsins um langan tíma. Ég læt menn svo alveg um að geta sér til, hvort aðmírállinn hefði látið í ljós slíka von, ef þessum ummælum hefði afdráttarlaust verið neitað. Fyrsta atriði frásagnar minnar er því ekkert annað en opinber staðreynd, sem þekkt hefur verið í mörg ár.

Annað atriðið, sem ég sagði í minni ræðu, var, að þessum umr. hafi lyktað með því, að í fjárhagsáætlun infrastructure-sjóðsins hafi verið tekin upp fjárveiting til þessara framkvæmda og væru till. um þetta dags. l. marz 1956. Þetta er einnig staðreynd, og þessu hefur ekki verið mótmælt, enda liggja áætlanirnar fyrir.

Þriðja atriðið, sem ég fullyrti, var, að það hefði ekki verið venja og þekktist ekki, að fjárveitingar sem þessar væru teknar upp í fjárhagsáætlanir, nema viðkomandi ríki gætu yfirleitt fallizt á framkvæmdir, sem um væri að ræða. Einnig þetta er staðreynd. Þessu hefur ekki verið mótmælt, og þessu verður ekki hnekkt.

Og loks sagði ég, að þegar þessir hlutir hefðu gerzt, þá hefði dr. Kristinn Guðmundsson utanrrh. Íslands verið forseti NATO og þar með æðsti starfsmaður bandalagsins.

Öll þau ummæli, allar þær staðreyndir, sem ég skýrði frá, liggja því fyrir opinberlega og hafa yfirleitt verið þekktar í mörg ár, nema það má vera, að það komi fyrst fram nú, að fjárveitingin hafi verið tekin upp í fjárhagsáætlanir.

Ég skal ekkert um það segja, hvort viðtal það, sem tíminn telur sig hafa haft við dr. Kristin Guðmundsson austur í Moskvu, er rétt haft eftir eða ekki. Hitt veit ég og þykist vita með vissu, að þegar viðtalið hefur átt sér stað, hefur doktorinn áreiðanlega ekki haft við höndina eða verið búim að sjá orðrétta þá ræðu, sem ég flutti hér í þinginu, ella mundi hann ekki hafa látið hafa eftir sér ummæli eins og þau, sem Tíminn hefur eftir honum.

Höfuðinntakið í því, sem Tíminn segir hann hafa sagt, er það, að hann hafi aldrei léð máls á því, að framkvæmdir þær í Hvalfirði, sem hér hefur verið rætt um, yrðu gerðar, það hafi að vísu verið talað um það við sig nokkrum sinnum, en hann hafi alla tíð vísað öllu slíku afdráttarlaust á bug. Þær staðreyndir, sem ég hef skýrt frá í málinu, þekkja menn nú orðið, og ósjálfrátt verður mönnum að spyrja: Ef menn eiga að taka það fyrir góða vöru, að öllum tilmælum sem þessum hafi verið vísað afdráttarlaust á bug, um leið og þau komu fram, um hvað var þá verið að tala alla þessa mánuði? Og hafi þeim verið vísað afdráttarlaust á bug, hvers vegna segir þá æðsti yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins eftir margra mánaða viðræður, að hann voni, að málið nái fram að ganga? Og loks, hafi þeim verið vísað afdráttarlaust á bug, hvers vegna eru þær þá í fjárhagsáætlun NATO, þegar Það er vitað, að það er venja að taka aldrei slíkar tillögur upp í fjárhagsáætlunina gegn mótmælum og vilja viðkomandi þjóða? Þetta eru spurningar, sem menn hljóta að spyrja sjálfa sig, og hver svarar eftir því, sem honum þykir bezt við eiga. Mitt hlutverk hefur verið það eitt að skýra frá þeim staðreyndum, sem fyrir liggja í málinu, og þeim verður ekki haggað, enda eru þær opinberar.