24.10.1963
Neðri deild: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

Olíugeymar í Hvalfirði

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta langar umr. um þetta utan dagskrár. Þetta berst líka allt í tal aftur, en það er vegna þess, að hæstv. utanrrh. var að gera eins konar registur yfir það, sem hann taldi sannað í málinu, sem ég vildi segja aðeins örfá orð.

Ég vil þá fyrst benda á, að það er upplýst í málinu samkv. vitnisburði dr. Kristins Guðmundssonar, að hann hefur ekki átt þátt í því, að þessi liður um Hvalfjarðarframkvæmdirnar var settur inn í infrstructure-áætlunina. Þetta er upplýst. Hann segir, að þetta hafi ekki borizt í tal á þeim fundum, sem hann var á í NATO, og þá náttúrlega ekki heldur á þeim fundum, sem hann var í forsæti á.

En þrátt fyrir þetta segir hæstv. ráðh. núna, að það muni vera ófrávíkjanleg regla, að. inn í þessar áætlanir sé ekki tekið annað en það, sem samþykkt er af hlutaðeigandi landi, og því hafi ekki verið mótmælt, segir hæstv. ráðh., þessu hafi ekki verið mótmælt. Þó liggur það fyrir frá fyrrv. utanrrh. Íslands, að hann segist ekki hafa samþykkt þessar framkvæmdir og þær hafi ekki verið ræddar á neinum þeim fundi, sem hann hafi mætt á. En hæstv. núv. utanrrh. segir samt, að þetta sé ómótmælt, að það sé ófrávíkjanleg regla, að ekki sé sett inn á infrastructure-áætlunina nema það, sem hlutaðeigandi lönd hafa samþ.

Við vitum allir, sem komum nálægt þessum málum, að þessar framkvæmdir hafa aldrei verið samþykktar af Íslands hendi. Við vitum, að dr. Kristinn hefur ekki farið með neitt einkapukur í því sambandi. Hvernig þær eru svo komnar inn í þessa infrastructure-áætlun, hef ég ekki hugmynd um, og eins og ég sagði hér um daginn, þá er það ekki okkar mál, hvað þeir setja í hernaðaráætlanir sínar úti í París. Það, sem okkur varðar um, er það, hvað okkar menn, sem trúað er fyrir þessum málum, samþykkja og hvað þeir gera og hvað gert er, og fram að þessu hafa framkvæmdir á þessum slóðum, eins og menn vita, ekki verið samþykktar. Það er aðalstaðreyndin í málinu.

Hvort þvargað hefur verið meira eða minna fram og aftur um þetta, það skal ég ekki fullyrða, ég þekki ekki svo einstök atriði þessara mála. En það liggur fyrir og hann orðar það þannig efnislega, fyrrv. ráðh., dr. Kristinn Guðmundsson, að það hafi nokkrum sinnum verið farið á flot með þetta mál, og hæstv. utanrrh. orðaði það þannig, að það hefðu verið miklar umleitanir um þetta fram og aftur. Það út af fyrir sig skal ég ekki draga í efa. En niðurstaðan hefur ætíð orðið sú fram að þessu, að það hefur ekkert verið samþykkt, eins og dr. Kristinn Guðmundsson segir í sinni yfirlýsingu, og það er auðvitað aðalatriðið. Hvað einhver aðmíráll hefur sagt um vonir sínar í þessu sambandi, kemur okkur ekkert við. Það er algerlega hans mál, eftir hverju hann kann að hafa vonazt.