24.10.1963
Neðri deild: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

Olíugeymar í Hvalfirði

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég get hughreyst hv. síðasta ræðumann með því að segja frá því, að í utanrrn. eru til öll þau tilmæli, sem frá Atlantshafsbandalaginu hafa komið í sambandi við þetta mál, og þar eru til hinar og þessar frásagnir af því, sem fram hefur farið í málinu. Í mínum ræðum hef ég haldið mér að því að skýra frá því einu, sem eru opinberar staðreyndir, og þau atriði, sem ég hef minnzt á, það eru atriði, sem út af fyrir sig eru ekki umdeild og ekki dregin í vafa. Hitt deila menn um, hvaða ályktanir megi draga af þessum staðreyndum. Ég hef ekki viljað fara inn á það að draga hér inn í skjöl Atlantshafsbandalagsins, vegna þess að þær infrastructureáætlanir, sem okkur berast, og þær upplýsingar, sem þar eru á ferðinni, eru ekki aðeins um okkar land, heldur og önnur og fleiri og koma til okkar sem trúnaðarmál, en þau eru send okkur, þessi skjöl, til þess að við getum kannað þau, fylgzt með þeim, gert okkar aths. og til þess að vera viss um, að ekkert sé upp í þau tekið, að því er okkur sjálfa varðar, gegn okkar vilja. Þessi skjöl liggja öll fyrir, en þetta eru trúnaðarskjöl Atlantshafsbandalagsins, og þar sem þau eru ekki nauðsynleg til þess að renna stoðum undir þær staðreyndir, sem ég hef hér frá skýrt, þá sé ég ekki, hvaða máli þau skipta í sambandi við þann ágreining, sem hér er á ferðinni.