17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

95. mál, vegalög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur flutt hér nokkrar brtt. á þskj. 152. 7. till. hans er við 66. gr. frv., og er sú brtt. í tveim stafl., a og b. B-liðurinn hefst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Snjómokstur skal fyrst og fremst við það miðaður, að haldið sé opnum, þegar brýn þörf krefur, þjóðvegum milli byggðarlags og aðalverzlunarstaðar þess eða markaðsstaðar.“

Ég vil taka undir þau orð hv. flm., að það er mikil þörf á því að halda þessum leiðum opnum. En þess er oft einnig þörf að moka snjó af vegum milli byggðarlaga, enda hefur það oft verið gert að undanförnu. Og mér finnst því þörf á því að setja þarna inn einnig ákvæði um það. Ég vil því leyfa mér að leggja fram brtt. við þennan 1. málsl. tillgr., sem ég las, og er till. mín um það, að við þennan 1. málsl. bætist: „og einnig milli byggðarlaga“. Verði hún samþykkt, verður fyrsti málsl. till. þannig:

„Snjómokstur skal fyrst og fremst við það miðaður, að haldið sé opnum, þegar brýn þörf krefur, þjóðvegum milli byggðarlags og aðalverzlunarstaðar þess eða markaðsstaðar og einnig milli byggðarlaga.”

Þá vil ég einnig leyfa mér að leggja fram brtt. við ákvæði til bráðabirgða í frv. Næstsíðasta mgr. í þessu bráðabirgðaákvæði er þannig: „Framkvæmdaáætlanir fyrir sýsfuvegi 1965–1969 skulu gerðar fyrir 1. júlí 1965.“ Mér finnst þetta nokkuð seint, ef ekki á að ganga frá þessum framkvæmdaáætlunum fyrr en 1. júlí 1965, en áætlunin á að gilda m.a. fyrir það ár. Af þessu mundi leiða það, að ekki verður hægt að fara að vinna í sýsluvegum árið 1965 fyrr en í júlímánuði, ef ekki verður gengið frá þessum áætlunum fyrr en um mánaðamót júní-júlí. Ég hefði því talið rétt að breyta þessu og vi1 leyfa mér að leggja fram brtt. um það, að í stað 1. júlí í næstsíðustu mgr. komi 1. júní. Mér finnst það ekki mega síðar vera, að gerð sé áætlun fyrir framkvæmdir á þessu ári, 1965. Það getur verið óheppilegt, ef ekki er hægt að byrja vinnu við sýsluvegi fyrr en komið er fram í júlímánuð.

Þetta er stórt mál, sem hér er á ferð, og víst hefði verið ástæða til að ræða um ýmis atriði í frv., sem fyrir liggur, en ég ætla ekki að tefja fyrir framgangi málsins með því að fara út í þá sálma. En ég vil aðeins leyfa mér að leggja fram þessar tvær skrifi. brtt, og óska þess við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða, þannig að þær megi koma fyrir.