30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins, að það kæmi hér fram, af því að ég á sæti í útvarpsráði, að um það hefur verið rætt allmörg undanfarin ár að taka þann sið upp að lesa stutta útdrætti úr forustugreinum dagblaðanna. Þetta tíðkast í flestum nálægum löndum og þykir sjálfsögð og eðlileg þjónusta við almenning, ekki sízt þar í löndunum, sem fólkið nær ekki eins fljótt til blaðanna og fólkið gerir í borgunum og þó einkanlega hinum stærri borgum. Ég veit til þess, að í útvarpinu á Norðurlöndum og í Englandi er þetta gert og talið sjálfsagt, og það er yfirleitt getið um forustugreinar blaðanna og þá ekki farið eftir flokkum. Flokkarnir eiga misjafnlega sterka málsvara í blaðaheiminum, og ég veit ekki til þess, að það sé talið neitt brot á hlutleysi eða gengið á hlut nokkurs stjórnmálaflokks, þó að það sé misjafnt í hinum ýmsu löndum, hve flokkarnir eru öflugir að blaðakosti. Ég sagði, að það hefði verið minnzt á þetta í útvarpsráði nokkur undanfarin ár. Það var ekki komizt að niðurstöðu um þetta fyrr en nú í haust, þegar ákveðið var, að þessi háttur skyldi upp tekinn hér einnig, og það, sem ég held að hafi riðið baggamuninn um það, að útvarpsráð ákvað nú að taka þennan sið upp, var það, að á s.l. ári var byrjað að segja þingfréttir frá Alþingi með öðrum hætti en áður hafði tíðkazt. Áður hafði tíðkazt að geta einungis um þskj., lesa upp úr þskj. og segja þurrt frá afgreiðslu mála. Hins vegar voru umr. á Alþingi ekki raktar nema í algerum undantekningartilfellum. En sem sagt, fyrir tæpum 2 árum var sá háttur tekinn upp að „referera“ þingræður. Ég held, að við séum allir sammála um það, þm., að þetta hafi verið skynsamlegt og fært þingið og þess störf nær þjóðinni, gefið fólkinu betra tækifæri til þess að fylgjast með því, hvað er að gerast á fundum löggjafarsamkomunnar. Eftir hins vegar það, að farið var að segja slíkar fréttir af ræðum fulltrúa allra flokka á Alþingi, þótti enn þá ríkari ástæða til þess að geta um það, sem gerðist í blöðunum og hinum pólitísku forustugreinum þeirra.

Ég tek undir það með hæstv. menntmrh., að ég hef ekki orðið var við annað en þetta mæti almennum vinsældum, þessi lestur úr forustugreinum dagblaðanna, og þá ekki sízt úti um land. Eins og samgöngum er háttað hér á landi, líða oft vikur þannig, að blöðin komast ekki út í hin ýmsu byggðarlög, sérstaklega hin fjarlægustu, og fólkið veit þá lítið um það, hvað er efst á baugi í stjórnmálaumr. í höfuðborginni. Nú fær fólkið hins vegar tækifæri til þess á hverjum morgni að fylgjast með þessu, og þetta er ekki einungis frásögn af pólitískum deilum og umr., heldur er þetta hreinlega mjög aukin fréttaþjónusta, því að í forustugreinum dagblaðanna er ekki alltaf eintóm pólitík. Þar eru oft fréttir og hugleiðingar um ýmislegt, sem alls ekki snertir dægurbaráttuna á hverjum tíma. Ég held þess vegna, að hér hafi verið tekin upp merkileg nýjung, sem útvarpið eigi þakkir skildar fyrir og ég veit ekki annað en fólkið, ekki sízt úti um land, meti og þakki.