30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. viðurkenndi, að þessar greinar, sem lesnar eru úr blöðunum, væru pólitískar, enda er það á allra vitorði. Hann viðurkennir það. Og hann segir, að það geti skeð, að verði að fella þetta niður. Það getur vel verið. Ef hans flokkur er þannig á sig kominn, að hann vill ekki taka þátt í þessu, nema hann hafi tvöfaldan rétt á móti öðrum flokkum, þá verður auðvitað að fella þetta niður, því að þetta stangast á við reglur útvarpsins.

Mér þótti vænt um að heyra það, að sá eini, sem hér hefur talað í þessum umr. og á sæti í útvarpsráði, hv. 2. þm. Vestf., mótmælti ekki með einu orði þeirri skoðun, sem ég hef haldið fram, að með þessu væru reglur útvarpsins brotnar. Hann fór að tala um, hvað tíðkaðist í öðrum löndum, en það kemur okkur ekki við. Hér eru ákveðnar reglur um útvarpsrekstur, og þeim á að fylgja.

Og út af því, sem hæstv. forsrh. var að tala um, — hann var að bollaleggja um það, hverjir hefðu fundið þetta upp í útvarpsráði og átt mestan hlut að því, — þá sé ég ekki, að það skipti nokkru máli í þessu sambandi. Það, sem ég hef hér fundið að, er, að það væri ekki farið eftir reglum þeim, sem útvarpið á að starfa eftir, og á þessu þyrfti að verða breyting.