30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hefði ekki blandað mér í þessar umr., ef það hefði ekki verið af tilefni frá hæstv. forsrh. Mér skildist hæstv. forsrh. gefa í skyn, að það hefði verið að frumkvæði fulltrúa Framsfl. í útvarpsráði, að sá háttur hefur verið tekinn upp að segja frá forustugreinum dagblaðanna. Mér finnst í tilefni af þessu, vegna þess að ég er þessi fulltrúi, rétt að láta það koma fram, að þetta hefur ekki verið gert að mínu frumkvæði. Ég hygg, að það sé rétt frá sagt, að það hafi verið þannig ástatt í útvarpsráði í þessum málum á undanförnum árum, að þeir, sem þar voru fulltrúar fyrir Alþfl. og Alþb., hafi heldur sótt á um það, að þessi háttur yrði upp tekinn, en það er hins vegar rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að það hefur verið tregða í þessum efnum hjá fulltrúum Sjálfstfl. og hvað það snertir hef ég haft samstöðu með þeim um það á undanförnum árum. En á s.l. hausti var sótt enn þá meira á um þetta af hálfu þeirra aðila, sem hafa verið þessu fylgjandi, og mér virtist, að þá væri afstaða sjálfstæðismanna eða a.m.k. annars fulltrúa flokksins nokkuð breytt í þessum efnum, svo að ég taldi, þegar svo var komið, að það væri rétt að ljá kost á því að vera með því, að þessi háttur yrði tekinn upp í tilraunaskyni, að útvarpið segði frá forustugreinum dagblaðanna: Og mér skildist þá og skilst enn, að þessi þáttur hafi verið upp tekinn af hálfu útvarpsráðs fyrst og fremst í tilraunaskyni, til þess að vita, hvernig þessu væri tekið af almenningi og hvort það væri hægt að framkvæma hann í því formi, því að þetta er að sjálfsögðu nokkuð vandasamt, að menn teldu það ekki stríða gegn þeim reglum, sem útvarpinu er ætlað að vinna eftir. Ég hygg, að það megi segja, eða a.m.k. álit mitt er það, að í því formi, sem þetta hefur verið lagt í hendur fréttastofunnar að vinna úr forustugreinum dagblaðanna, hafi það tekizt mjög sæmilega, og ef á að binda þetta við það að miða við dagblöðin, eins og er ætlað með þessum hætti, þá sé erfitt að framkvæma það með öðrum hætti en gert hefur verið.

Hitt er svo dálítið annað mál, sem hefur komið fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hreyfði þessu máli, að hér væri rétt að gæta jafnvægis á milli flokka. En það hygg ég, að verði ekki hægt í því formi að miða þetta við forustugreinar dagblaðanna sérstaklega, heldur yrði þá að taka það upp með öðrum hætti og hafa annan þátt, þar sem hver flokkur hefði ákveðinn tíma til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. En það er að vísu dálítið annað mál en það, sem hér hefur verið sérstaklega rætt um, að binda þetta við forustugreinar dagblaðanna.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta atriði að sinni. Ég vil aðeins láta þá skoðun koma fram, fyrst ég er hingað kominn; að ég mundi telja það rétt, að ef þeim hætti verður fylgt áfram að segja frá forustugreinum dagblaðanna, þá yrði það einnig tekið upp að segja frá forustugreinum þeirra vikublaða, sem gefin eru út utan Reykjavíkur: Ég vil minna á það í þessu sambandi, að t.d. í enska útvarpinu er það ekki aðeins venja að segja frá forustugreinum dagblaðanna, heldur er líka sagt þar frá forustugreinum vikublaðanna, a.m.k. þeirra helztu, sem þar eru gefin út, og ég held, að ef þessu yrði haldið áfram, að segja frá efni forustugreinanna, mætti t.d. vel koma því fyrir að segja frá forustugreinum blaðanna úti á landi á mánudögum, því að það rúm er autt nú.