30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki talað langt mál um þessi efni og mun ekki gera. Það var út af því, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan. Í fyrsta lagi hef ég ekki óskað eftir því, að hætt væri að lesa leiðarana í útvarpið, þó að þessi áhalli sé á lestrinum. Ég hef ekki óskað eftir því og óska ekki eftir því og hef ekkert sagt hér, sem gefur tilefni til að álíta það. Í öðru lagi hef ég ekkert gefið í skyn, að Sjálfstfl. muni hafa beitt sér fyrir þessum leiðaralestri í útvarpið. Um það hef ég ekki hugmynd og hef ekki haft og hef ekkert sagt í þá átt.

Tvennt hef ég sagt. Fyrst, að dómsmrh. hefði ekki verið svona ánægður með lestur leiðaranna, ef Framsfl. hefði haft tvö dagblöð, en Sjálfstfl, eitt. Læt ég menn um að gizka á, hvort það muni vera nokkrar ýkjur. Ég læt menn alveg um það sjálfa. Hitt, sem ég hef sagt, var það, og þess vegna stökk hæstv. forsrh. á fætur, að það væri mín skoðun, að lestur leiðaranna mundi ekki hafa verið samþykktur, ef Framsfl. hefði haft tvö blöð, en Sjálfstfl. eitt. Og nú vill svo vel til, að hæstv. forsrh. staðfesti, að svo miklu leyti sem þessa hluti er hægt að sanna, að hér er ekki um neinar getsakir að ræða, því að hann sagði, að Sjálfstfl. hefði verið dálítið tregur til þess að samþykkja, að leiðararnir yrðu lesnir í útvarpið, jafnvel þótt Sjálfstfl. hefði tvö blöð, en hinir flokkarnir aðeins eitt blað hver. Ef Sjálfstfl. hefur verið tregur til að samþykkja, að þetta yrði gert, þrátt fyrir það að hann hefur þessa yfirburði í lestrinum, að láta lesa úr tveimur blöðum, í staðinn fyrir að hinir hafa eitt, hver halda menn þá að hefði verið afstaða flokksins, ef Framsfl. hefði haft tvö blöð, en Sjálfstfl. eitt?

Ætli það séu nokkrar ýkjur, sem ég sagði, að það eru ekki minnstu líkur til, að þetta hefði verið samþykkt við slíkar aðstæður, ekki minnstu líkur til þess? Þess vegna er alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ráðh. að vera að finna að því, að hér á hv. Alþingi er bent á þetta ójafnrétti, sem þarna á sér stað.

En ég hef aldrei verið neitt órólegur út af þessu máli og er ekki og vil láta halda þessu áfram, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að ég treysti því, að menn séu fyrir löngu orðnir leiðir á þessum langlokum, sem lesnar eru úr blöðum Sjálfstfl., áður en þeim er lokið hverju sinni, og ég hef að því leyti dálítið svipaða afstöðu og hæstv. forsrh. Ég er alveg rólegur, og það er af þessum ástæðum.