27.01.1964
Neðri deild: 45. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2194 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

Fiskverð

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur komið upp mikil óánægja í hópi bátasjómanna og bátaútvegsmanna út af ákvörðun þeirri á fiskverði á komandi vertíð, sem gerð hefur verið. Þessi óánægja hefur nú leitt til þess, að bátasjómenn og útgerðarmenn í fjölmörgum verstöðvum hafa sent frá sér mótmæli út af ákvörðun fiskverðsins, og ekki einasta það, heldur er nú svo komið, að á mörgum stöðum hafa sjómennirnir gripið til þess að segja upp störfum sínum á fiskibátunum og beinlínis farið að ráða sig til annarra starfa. Það sama er að segja frá hálfu átgerðarmanna. Þeir hafa líka í ýmsum tilfellum tilkynnt skipverjum sínum, að þeir muni beinlínis ekki halda bátum sínum úti miðað við þetta fiskverð, svo að það er alveg augljóst mál, að hér stefnir út í mjög alvarleg efni, ef þessu á að halda áfram. Ég tel því, að það geti skipt miklu máli um það, hvernig fer með þessi mál, hvað hæstv. ríkisstj. lætur frá sér heyra einmitt nú þegar varðandi málið, og ég vildi því mega beina því til ríkisstj. nú, hvort hún treysti sér ekki til þess að gefa um það yfirlýsingar nú hér á Alþingi, að þetta mikla vandamál, sem þarna hefur komið upp, verði tekið til úrlausnar samhliða því frv., sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþingi varðandi önnur vandamál sjávarútvegsins. Ef skýr og ótvíræð yfirlýsing kæmi frá ríkisstj. í þessa átt, að þetta mál verði tekið til úrlausnar af hálfu ríkisstj. samhliða því frv., sem hér liggur nú fyrir til afgreiðslu, þá mætti það hafa nokkur áhrif á það, hvað gerist í þessum málum. Annars held ég, að svo geti farið, ef dráttur verði verulegur á því að takast á við þetta vandamál, að þá geti orðið erfitt að kippa því í lag, þannig að tjón hljótist ekki verulega af í sambandi við framleiðslustörfin. Ég vildi því mega beina þeim tilmælum til hæstv. ríkisstj., hvort hún treysti sér ekki til að gefa hér yfirlýsingu um það, að þetta vandamál verði nú tekið til meðferðar hér á Alþingi samhliða afgreiðslu þess frv., sem hún hefur lagt fram um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum.