10.02.1964
Neðri deild: 53. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

Framkvæmd sektardóms

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég geri lítið að því að biðja um orðið utan dagskrár. Því miður er ekki nema lítið af ráðherrunum mætt nú, en ég vona, að þeir, sem við eru, segi hinum.

Það er þannig mál með vexti, að við hittumst oft hjá L.Í.Ú. útvegsmennirnir, segjum þar hver öðrum smáskrýtlur og fréttir, tölum um banka o.fl. Svo bar við í morgun, að ég kom þar, og þá var mér sagt, að Sturlaugur Böðvarsson ætti að mæta hjá fógeta á Akranesi kl. 1 í dag og ætti að fara með hann í tugthúsið. Ég fór að spyrjast ýtarlega fyrir um þetta, og upplýsingarnar, sem ég fékk bæði hjá Sturlaugi og þeim hjá Landssambandinu, eru þannig, að fyrir u.þ.b. 3 árum flutti Haraldur Böðvarsson & Co. út ca. 20 tonn af frystri síld til Vestur-Þýzkalands með togaranum Víkingi frá Akranesi, Útflutningsleyfi var fyrir hendi vegna sölunnar, en láðst hafði að fá matsvottorð hjá Fiskmati ríkisins fyrir útflutningi á síldinni. Þegar botnvörpungurinn Víkingur kom til Reykjavíkur, áður en hann lagði af stað til Þýzkalands, lét Fiskmat ríkisins kyrrsetja skipið. Ráðuneytisstjóri viðskmrn. þá, Jónas Haralz, krafðist þess af eiganda síldarinnar, að síldinni yrði kastað í sjóinn á leið skipsins til Þýzkalands, eða hún yrði sett í bræðslu. Sturlaugur H. Böðvarsson framkvæmdastjóri lofaði, að svo skyldi gert, og bað hann umboðsmann sinn í Þýzkalandi að sjá um það. Þegar síldin kom til Þýzkalands, lét umboðsmaður H.B. & Co. selja síldina á opnum markaði, og seldist hún fyrir u.þ.b. 140 þús. kr.. eða kr. 7.00 hvert kg. Fyrir hendi er vottorð frá öllum kaupendum síldarinnar, 15 að tölu, um, að hér hafi verið um fyrsta flokks síld að ræða. Sturlaugur H. Böðvarsson framkvæmdastjóri var síðan dæmdur í 14 þús. kr. sekt fyrir þessa framkvæmd og komi 34 daga varðhald í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd.

Fiskmatsstjóri ríkisins er Bergsteinn Bergsteinsson. Það skal tekið fram, að fiskur, sem fluttur er út með togara, er yfirleitt ekki metinn, hann er metinn ytra. Vafalaust er það rétt, að þetta kemur á bága við einhverjar reglur hér á landi, að mat fór ekki fram á síldinni, en hitt gegnir algerri furðu, ef á að fara að taka útgerðarmenn og setja þá í tugthúsið fyrir að henda ekki verðmætum í sjó. Nú er það nokkuð tryggt, að sérfræðingar ytra hafa vit á gæðum síldar ekki síður en Bergsteinn Bergsteinsson eða Jónas Haralz. Það, sem maðurinn er dæmdur fyrir, er því þetta, að hann selur síldina í Þýzkalandi í stað þess að henda henni í sjóinn eða setja hana í bræðslu. Og það eru mestar líkur til eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að þeir feðgar hafi alls ekki vitað um þetta, að umboðsmaðurinn hafi tekið þetta í sinar hendur, sem sagt fengið vottorð um, að síldin væri í góðu lagi, og selt hana í stað þess að setja hana í bræðslu, þannig að þeir hafi ekki getað að þessu gert. Vitanlega voru þessar 14 þús. ekki stórfé fyrir Sturlaug Böðvarsson, en það, sem hann er að mótmæla, er ranglætið. Hvers konar réttlæti er í þessu landi, ef athafnamenn landsins eru teknir og settir í tugthús fyrir að reyna að koma í verð afurðum landsmanna?

Kl. 1 átti Sturlaugur að mæta, og er sennilega verið með hann á leiðinni í tugthúsið nú. Þetta er alveg furðulegt í landi, þar sem útgerðarmenn verða að knékrjúpa bankastjórunum og eru svo að segja reknir á dyr daglega af einhverjum dátum, sem þeir hafa til að neita og neita í landi, þar sem bankaútibúin þjóta upp og þar sem mönnum virðist bara verið að stofna bankaútibú til að reyna að ná í sparifé almennings, en ekki til að lána það út og sízt af öllu þeim, sem þurfa þess.

Það er margt öfugt og vitlaust í okkar landi, en þetta held ég taki út yfir, að fara að taka einhverja mestu athafnamenn landsins og setja þá í tugthúsið fyrir að henda ekki verðmætum í sjóinn. Ég hygg, að ef einhver ætti að fara í tugthúsið, þá væri það heldur þessi Bergsteinn Bergsteinsson og jafnvel skaðlaust, að Jónas Haralz væri þar með honum til skemmtunar í nokkra daga. En satt að segja höfum við engin efni á því, að athafnamenn landsins séu teknir og settir í tugthús fyrir að henda ekki verðmætum í sjóinn. Þetta er algerlega furðulegur hlutur. Það má öllu ofbjóða, og ég tel óvíst, að tugthúshurðirnar í þessu landi haldi, ef á að fara að framkvæma svona hluti, ef á að halda manninum inni í 34 daga fyrir slíka hluti. Hann borgar sínum beitingarmönnum 850 kr. á dag, sagði hann mér í morgun, — ég átti tal við hann sjálfan, hann var rétt ófarinn í tugthúsið. – 850 kr. á dag fyrir að beita. Sjálfur á hann að fá fyrir það að dúsa í tugthúsinu rúmar 400 kr. á dag.

Það getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. segi, að sér komi þetta ekkert við, þetta sé dómsmál, en hún hlutaðist a.m.k. til um það, að öllum tugthúslimum var hleypt út, þegar verið var að vesenast með Skálholtskirkju í sumar, og byrjuðu þeir víst flestir að stela, eftir að þeir komu út. Ég hygg, að ríkisstj. hefði getað svæft þetta og getur vafalaust enn, ef hún vill. Ég held satt að segja, að það sé nóg vitleysa, sem gerist í þessu þjóðfélagi okkar, þó að ekki sé verið að halda Sturlaugi Böðvarssyni í 34 daga, eða hvað það verður nú lengi, í tugthúsinu fyrir að gera ekki verðmæti ónýt, sem búið er að afla.

Ég hef sjaldan eða aldrei beðið mér hljóðs utan dagskrár, en þetta er svo furðulegt mál, að mér var ómögulegt að láta því óhreyft.