14.11.1963
Sameinað þing: 16. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2206 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

Breytingar á ríkisstjórninni

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. í morgun var haldinn fundur í ríkisráði og þar borin upp svofelld tillaga:

„Tillaga til forseta Íslands um skipan embættis forsrh.:

Læknar mínir hafa tjáð mér, að mér sé nauðsynlegt að taka mér algera hvíld frá störfum í nokkra mánuði. Ég get því ekki unnið að lausn hinna ýmsu vandamála, sem fram undan bíða. Haustið 1961 stóð svipað á fyrir mér. Tók ég mér þá hvíld frá störfum í þrjá mánuði. Ég tei ekki rétt að hafa sama hátt á nú og leyfi mér því allra virðingarfyllst að fara fram á, að þér, herra forseti, fallizt á að veita mér lausn frá embætti forsrh.

Jafnframt leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja til í samræmi við einróma óskir þingflokks Sjálfstfl., að dr. Bjarni Benediktsson dóms- og kirkjumrh. verði skipaður forsrh. í trausti þess, að þér, herra forseti, fallizt á framangreindar till. minar, leyfi ég mér að leggja fyrir yður til undirskriftar lausnarbréf mér til handa og skipunarbréf dr. Bjarna Benediktssonar til að vera forsrh. í ráðuneyti Íslands.

Í forsætisráðuneytinu, 13. nóvember 1963.

Allra virðingarfyllst,

Ölafur Thors. / Birgir Thoriacius.“

Á þessa till. hefur forseti Íslands ritað:

„Fellst á tillöguna.

Ásgeir Ásgeirsson.

Reykjavík, 14. nóvember 1963.“

Í samræmi við það hefur hann undirritað skipunarbréf til handa mér til að vera forsrh. í ráðuneyti Íslands og bréf, þar sem hann veitir Ólafi Thors lausn frá embætti forsrh.

Þá var þar borin upp önnur till. til forseta Íslands um skipun ráðh, og breytingu á forsetaúrskurði frá 20. nóv. 1959, um skipun og skipting starfa ráðh. o.fl.:

„Þar sem þér, herra forseti, hafið fallizt á að veita Ólafi Thors lausn frá embætti forsrh. og skipað mig forsrh., leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja til, að yður þóknist að skipa Jóhann Hafstein alþm. ráðh. í ráðuneyti Íslands og jafnframt að gera þá breytingu á forsetaúrskurði nr. 64 frá 20. nóv. 1959, að mér verði falið að gegna þeim ráðherrastörfum, sem í þeim úrskurði voru falin Ólafi Thors, en Jóhann Hafstein fari með þau málefni, sem mér voru falin í nefndum úrskurði.

Í trausti þess, að fallizt verði á framangreinda till., leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja fyrir yður, herra forseti, til undirskriftar skipunarbréf handa Jóhanni Hafstein alþm. til að vera ráðherra í ráðuneyti Íslands, svo og úrskurð um breytingu á forsetaúrskurði frá 20. nóv. 1959, um skipun og skipting starfa ráðh. o.fl.

Í forsætisráðuneytinu, 14. nóvember 1963.

Allra virðingarfyllst.

Bjarni Benediktsson. / Birgir Thorlacius.“

Á þessa till. hefur forseti Íslands einnig ritað: „Fellst á tillöguna.

Ásgeir Ásgeirsson.

Reykjavík, 14, nóvember 1963.“

Jafnframt undirritaði hann skipunarbréf til handa Jóhanni Hafstein til að vera ráðh. í ráðuneyti Íslands og enn fremur forsetaúrskurð um breytingu á forsetaúrskurði frá 20. nóv. 1959, um skipun og skipting starfa ráðh. o.fl. Hljóðar hann svo:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Samkv. till. forsrh. er hér með gerð sú breyting á forsetaúrskurði nr. 64 frá 20. nóv. 1959, um skipun og skipting starfa ráðh. o.fl., að dr. Bjarni Benediktsson fer með forsætisráðherrastörf og önnur ráðherrastörf, er Ólafi Thors voru falin í nefndum úrskurði, en ráðh. Jóhann Hafstein fer með störf þau, er ráðh. Bjarna Benediktssyni voru falin í nefndum forsetaúrskurði.

Gjört í Reykjavík, 14, nóvember 1963.

Ásgeir Ásgeirsson. / Bjarni Benediktsson.“ Sú breyting, sem á ríkisstj. er orðin, hefur verið gerð vegna veikinda Ólafs Thors, en ekki af stjórnmálaástæðum. Ný ríkisstj. hefur ekki verið mynduð, heldur kemur einungis maður manns í stað, svo sem óhjákvæmilegt er. Að öðru leyti er stjórnin hin sama. Hún er studd af sömu flokkum og fylgir sömu stefnu og áður.

Víst er það mikil breyting, að Ólafur Thors skuli hafa látið af ráðherrastörfum. Hann er nú aldursforseti Alþingis, hefur setið lengst á þingi af núv. þm. og hefur frá upphafi verið í hópi þeirra, sem mest hefur að kveðið. Í dag eru rétt 31 ár, frá því að Ólafur Thors varð fyrst ráðh. Tæpum 10 árum síðar myndaði hann sína fyrstu ríkisstj., hina fyrstu af 5, sem hann hefur veitt forustu.

Sem betur fer er ekki efni til að halda nú minningarræðu um Ölafs Thors. Þingheimur sameinast um þá ósk, að hvíldin, sem hann tekur sér, verði til þess, að hann nái góðri heilsu á ný og eigi langt og farsælt líf fyrir höndum. Allir vonum við að sjá hann skjótlega heilan og hressan hér í þingsölunum. Megi þjóðin sem allra lengst njóta hans mikla mannvits, lífsreynslu, víðsýni og frábæru samningalipurðar. Enginn hefur verið honum lagnari að laða saman ólíkar skoðanir. Á þessum hæfileikum hefur oft þurft að halda á Alþingi og í íslenzku þjóðlífi. Þeirra þarf við nú ekki síður en áður. Þess vegna ríkir einlægur söknuður í huga okkar fylgismanna hans og samstarfsmanna.

Um leið og ég þakka Ólafi Thors forustuna, sem hann hefur veitt ríkisstj. síðustu 4 árin, óska ég okkur öllum úrræðagæða hans, umburðarlyndis og sáttfýsi.