28.10.1963
Sameinað þing: 7. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

Minning látinna fyrrv. ráðherra

forseti (BF):

Dr. Juris Björn Þórðarson, fyrrv. forsrh., lézt í sjúkrahúsi hér í bæ aðfaranótt s.l. föstudags, 25. okt., eftir nokkurra ára vanheilsu, 84 ára að aldri. Hann átti um nær tveggja ára skeið sæti í ráðherrastól hér á Alþingi, og vil ég því leyfa mér að minnast hans nokkrum orðum, áður en gengið verður til dagskrár.

Björn Þórðarson var fæddur í Móum á Kjalarnesi 6. febr. 1879. Foreldrar hans voru Þórður bóndi þar Runólfsson bónda í Saurbæ á Kjalarnesi Þórðarsonar og kona hans, Ástriður Jochumsdóttir bónda í Skógum í Þorskafirði Magnússonar. Hann brautskráðist úr lærða skólanum í Reykjavík vorið 1902 og lauk lögfræðiprófi í háskólanum í Kaupmannahöfn snemma árs 1908. Næsta sumar var hann fulltrúi hjá bæjar- og héraðsfógetanum í Bogense á Fjóni, en kom hingað heim um haustið, settist að í Reykjavík og gerðist málflutningsmaður við yfirréttinn. Hann var settur sýslumaður í Vestmannaeyjum 1909–1910, stundaði síðan málflutning og var jafnframt starfsmaður í fjármálaskrifstofu stjórnarráðsins öðru hverju á árunum 1910–1912 og hafði auk þess á hendi setudómarastörf. Hann var settur sýslumaður í Húnavatnssýslu 1912–1914, settur sýslumaður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum 1914–1915, varð þá aðstoðarmaður í dómsmálaskrifstofu stjórnarráðsins, síðan fulltrúi til ársloka 1919, gegndi dómarastörfum í forföllum bæjarfógetans í Reykjavík nokkra mánuði á árunum 1916–1917 og skrifstofustjóraembætti í dóms- og kirkjumáladeild stjórnarráðsins 1918–1919; hafði á hendi fyrir atvinnu- og samgöngumáladeild stjórnarráðsins og síðar atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið úrskurðun sveitarstjórnar- og fátækramála 1916–1928. Hann var hæstaréttarritari á árunum 1920–1928 og jafnframt útgefandi hæstaréttardóma, en varð lögmaður í Reykjavík í ársbyrjun 1929 og gegndi því embætti þar til hann varð forsætisráðherra 16. des. 1942. Ráðuneyti hans lét af störfum 21. okt. 1944. Árið 1945 var hann skipaður formaður Alþingissögunefndar og ritstjóri Alþingissögunnar, og gegndi hann þeim störfum fram til ársins 1956, er þeirri útgáfustarfsemi lauk. Ýmsum nefndarstörfum öðrum gegndi hann um ævina, var formaður húsaleigunefndar Reykjavíkur 1919–1926, formaður merkjadóms Reykjavíkur 1919–1928, í yfirkjörstjórn við prestskosningar 1920–1928, formaður verðlagsnefndar 1920-1921, skipaður í landskjörstjórn 1922, formaður yfirskattanefndar Reykjavíkur 1922–1928, skipaður sáttasemjari í vinnudeilum 1926 og ríkissáttasemjari 1938–1942. Forseti Nemendasambands menntaskólans í Reykjavík var hann frá stofnun þess, 1946, meðan honum entist heilsa, og félagi í Vísindafélagi Íslendinga varð hann 1927.

Ljóst er af því, sem hér hefur verið rakið um opinber störf Björns Þórðarsonar, að hann hefur notið mikils og sívaxandi trausts þeirra aðila, sem um veitingu embætta og trúnaðarstarfa hafa fjallað. Þegar á skólaárum þótti hann vel fallinn til forustu. Hann var virðulegur í fasi, skyldurækinn og traustur, starfsamur og vandvirkur. Hann var lærður og glöggskyggn lagamaður og samdi allmörg rit og ritgerðir um lögfræðileg og söguleg efni. Doktorsprófi í lögum lauk hann við Háskóla Íslands árið 1927. Hann vann mikið og gott starf við útgáfu Alþingissögunnar og ritaði sjálfur veigamikinn hluta hennar, sögu sjálfstæðismálsins 1874–1944. Í störfum sáttasemjara sýndi hann lagni og þolinmæði, í embættisstörfum reglusemi og festu. Gleggst vitni um þann trúnað og traust, sem hann naut, ber það, er honum var á umbrotatímum styrjaldarára falið það vandasama hlutverk að veita forustu ríkisstj., sem skipuð var utanþingsmönnum. Hér skal ekki dæmt um stefnu og störf þeirrar stjórnar, en fullyrða má, að Björn Þórðarson vann með samráðherrum sínum af einlægum hug, lagni og festu að framkvæmd þeirrar stefnu, sem ríkisstj. hans hafði markað sér. Og það féll í hlut Björns Þórðarsonar að vera forsrh. á hinni sögulegu og hátíðlegu stund, er íslenzkt lýðveldi var endurreist að Lögbergi á Þingvöllum 17.- júní 1944.

Hér hefur verið lýst þeim þáttum í persónuleika Björns Þórðarsonar, sem flestum urðu auðsæir vegna opinberra starfa hans, virðuleik þeim og trúmennsku, sem hann var gæddur. Þeir, sem kynntust honum nánar, þekktu hann að hvoru tveggja í senn, hátíðleik og gamansemi, strangleik og góðvild.

Ég vil biðja hv. alþm. að votta minningu þessa merka manns virðingu sína með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum]