17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

95. mál, vegalög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla áðan hjá hv. 10. landsk., að þetta frv. bæri að skoða jafnvel sem spor aftur á bak varðandi hagsmunamál okkar Kópavogsbúa, vil ég láta í ljós gagnstæða skoðun. Þrátt fyrir það, þó að sú till., sem hann flytur hér, næði fram að ganga, er ekki séð fyrir því, að Kópavogsbúum væri betur borgið í dag eigum við ekki nema siðferðislega kröfu á ríkissjóð til þess að leggja þennan veg þarna í gegn, og við teljum þá kröfu vissulega sterka. Hvort sem frv. verður samþ. með þeim till., sem hv. samgmn. leggur til, eða hvort samþykkt yrði till. hv. 10. landsk., þá yrði Kópavogur í þessum efnum áfram að sækja undir stjórn vegamála um það að fá þessu verki hrundið í framkvæmd. Við verðum ávallt að sækja undir skilning vegamálastjórnarinnar á nauðsyn þess að hrinda þessu máli fram, þannig að það er kjarni málsins, hver sem lagagreinin verður. Ég er þeirrar skoðunar, að hv. samgmn. hafi séð þarna vel fyrir lausn okkar vandamáls, og ég færði henni hér fyrr á fundinum þakkir fyrir það að hafa tekið undir erindi bæjarráðs Kópavogs varðandi þetta efni. Ég fagna að vísu hverri þeirri rödd, sem styður okkur í lausn þessa máls. En umfram allt og sérstaklega fagna ég því, þegar menn ganga til samstarfs um að leysa þennan vanda, og tel það meira virði en till., sem þegar er reynt á, að ekki næst samkomulag um.

Ég gat þess í upphafi, að við yrðum hér eftir sem hingað til að sækja undir stjórn vegamála um skilning á nauðsyn þessara framkvæmda. Þess vegna vil ég að endingu alveg sérstaklega þakka hæstv. samgmrh. fyrir þau orð, sem hann lét hér falla nú rétt áðan um algera sérstöðu Kópavogsbæjar varðandi umferð hér suður á Reykjanes.