20.04.1964
Sameinað þing: 66. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (BF):

Svo hljóðandi bréf hefur borizt:

„Reykjavík, 16. apríl 1964.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, 4. þm. Vestf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum, leyfi ég mér að fara fram á fjarvistarleyfi. Vegna forfalla 1. varamanns Sjálfstfl. í Vestfjarðakjördæmi leyfi ég mér, með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis, að óska þess, að 2. varamaður flokksins í kjördæminu, Einar Guðfinnsson útgerðarmaður, taki sæti mitt á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Eggert G. Þorsteinsson,

forseti efri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Fyrir liggur einnig svo hljóðandi símskeyti frá Kristjáni Jónssyni á Hólmavík, sem er 1. varamaður Sjálfstfl. í Vestfjarðakjördæmi:

„Sökum annríkis get ég ekki tekið varamannssæti á Alþingi að þessu sinni.

Kristján Jónsson.“

Undirskrift staðfestir Droplaug Þorsteinsdóttir símastúlka.

Ég leyfi mér að vísa fram komnu kjörbréfi og símskeyti til hv. kjörbréfanefndar til rannsóknar, en með því að varamaður hefur ekki fengið ferð til bæarins, verður ekki hægt að ljúka afgreiðslu kjörbréfsins endanlega fyrr en á fundi, sem haldinn verður á morgun.