18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti.

Frv. það, sem hér um ræðir, var afgreitt í hv. Nd. í dag með shlj. atkv. Frv. hefur verið mikið rætt og talsvert um það skrifað, og ég geri ráð fyrir því, að hv. Ed.-þingmenn hafi kynnt sér það rækilega. Ég tel því ekki ástæðu til að þreyta hv. þd. á því að fara að rekja efni frv. í heild eða einstakar greinar þess. Ég tel ekki heldur ástæðu til þess að rekja söguna eða aðdragandann að því, að þetta frv. er orðið til, það er hv. dm. einnig kunnugt. En ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að samstarf hefur tekizt um það að gera frv. þetta að lögum. Undir meðferð málsins í Nd. var tekin upp samvinna beggja samgöngumálanefnda þingsins, og hefur því hv. samgmn. Ed. tekið þátt í afgreiðslu málsins, meðan það var fyrir Nd. Mun það að sjálfsögðu flýta fyrir afgreiðslu málsins í þessari hv. d., þar sem samgmn. þessarar hv. deildar hefur tekið þátt í störfum með hv. samgmn. Nd. og verið samþykk þeim brtt., sem gerðar voru við frv. í hv. Nd.

Samvn. samgm. — þannig má orða það gerði allmiklar brtt. við frv., sumar að vísu ekki veigamiklar, aðrar veigameiri, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að margar af þessum till. voru til að bæta frv., en engar til þess að spilla því. Allar voru till. samgmn. samþ. í Nd. Einstakir hv. þm. fluttu brtt. eins og eðlilegt er um svo stóran lagabálk, en þær voru allar felldar nema ein lítil brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúla Guðmundssyni, varðandi framkvæmd á sýsluvegaáætlun.

Þetta frv. gerir ráð fyrir, ef að lögum verður, allmikilli aukningu á vegafé. Það gerir ráð fyrir, að vegafé aukist á næsta ári, ef það verður að lögum nú fyrir áramót, um 105 millj. kr. frá því, sem er á gildandi fjárlögum. Þetta er vitanlega há upphæð miðað við það vegafé, sem hefur verið fyrir hendi fram að þessu. En það mun þó koma í ljós, áður en langt líður, að jafnvel þetta hrekkur ekki til þess að fullnægja eðlilegum kröfum og þörfum í sambandi við framkvæmd vegamála, eins og þarfirnar eru miklar.

Ég vænti þess, að hv. Ed. líti svipuðum augum á þetta frv. og hv. Nd. gerði, og sérstök ástæða er til að vænta þess, þar sem hv. samgmn. þessarar d. var sammála hv. samgmn. Nd. Það má segja, að það hefði verið æskilegt, að frv. þetta hefði verið lengur til athugunar í hv. Alþ., en það er bezt að segja söguna eins og hún er, að það gafst ekki tími til að koma því fyrr fram.

Hv. vegalaganefnd hefur unnið vel að þessu máli, og hún skilaði frv. til ríkisstj. haustið 1962. Það frv. var til athugunar hjá ríkisstj. um nokkurn tíma, og eftir það skrifaði ég vegalaganefnd og gerði nokkrar ábendingar til æskilegra breytinga á frv. Vegalaganefnd tók svo frv. aftur til athugunar og vann að nokkru leyti í samráði við ríkisstj. að lokaafgreiðslu málsins, t.d. um það, hversu benzíngjaldið ætti að vera hátt, gúmgjaldið og þungaskatturinn. Það var að lokum ákveðið í samráði við ríkisstj. Vitanlega má alltaf deila um það, hvort benzínskatturinn hefði átt að vera þetta hár eða hærri, það hlýtur vitanlega alltaf að vera matsatriði, og það hefur enginn hv. þm. fundið að því undir meðferð málsins, enda er það svo, að þótt benzínið hækki nú um 1.30 kr., þá verður það samt lægra en gerist í nágrannalöndunum. Og ég hygg, að þegar menn fara að athuga þessi mál niður í kjölinn og þær miklu þarfir, sem eru á endurbótum í okkar samgöngumálum, að flestir verði sammála um það, að við höfum ekki efni á því að vera að selja benzínið langt undir því, sem nágrannaþjóðirnar gera, sem eru búnar að koma öllu sínu vegakerfi í ágætt horf. En eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá tel ég, að það sé ekki ástæða til að vera að rekja efni frv., af því að ég veit, að hv. dm. hafa kynnt sér það rækilega og skapað sér skoðun um það.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að ef það gerist, að þetta frv. verður að lögum fyrir jól, þá er það vegna þess, að hv. þm. tóku höndum saman um það, bæði stjórnarflokkar og stjórnarandstaða. Ef stjórnarandstaða hefði beitt sér gegn málinu og flutt við það víðtækar brtt., sem hefðu kostað miklar umræður, þá var vitanlega vonlaust að koma málinu í gegn á stuttum tíma. En þm. hafa sameinazt um frv., vegna þess að allir hafa talið mikla nauðsyn bera til að fá aukið vegafé og að athuguðu máli sannfærzt um, að vegalaganefnd hefur byggt frv. vel upp og að þeir tekjustofnar, sem hér um ræðir, hafa einnig að athuguðu máli þótt eðlilegir og sanngjarnir, þar sem engin athugasemd hefur komið fram um þá.

Ég vil að lokum vonast til þess, að hv. Ed. taki á þessu máli á svipaðan hátt og hv. Nd., aðeins með því móti er mögulegt, að frv. geti orðið að lögum. Ég hlustaði nú á það áðan, að hv. 3. þm. Norðurl. v. fann að því, að sumir hæstv. ráðh. legðu fram frv. nokkuð seint og ætluðu hv. alþm. lítinn tíma. En ég held, að aðfinnsla hv. 3. þm. Norðurl. hafi byggzt á því, að það var verið að sækja af miklu kappi mál, sem hann taldi vera lítilvægt, og þess vegna er það, að ég vonast til, að aðfinnsla frá þessum hv. þm. komi nú ekki um þetta mál, vegna þess að það verður aldrei um það deilt, að þetta mál er stórt og viðamikið og þýðingarmikið. Það verður ekki um það deilt, að það er mjög þýðingarmikið, hvort það verður að lögum fyrir áramótin eða eftir áramótin. Ef frv. verður ekki að lögum fyrir áramótin, þá nást ekki þær tekjur á næsta ári, sem gert er ráð fyrir, eins og frv. liggur fyrir. Þá hlýtur að tapast nokkur hluti af næsta ári, sem ætlað er að veita tekjur til vegamála það ár, og þess vegna er það mjög þýðingarmikið fyrir vegaframkvæmdir á næsta ári, að frv. bíði ekki. Um það verður ekki deilt, þótt menn gætu deilt um það frv., sem áðan var verið að ræða um, hvort það væri alveg nauðsynlegt, að það yrði að lögum fyrir eða eftir áramót. En þetta er nú óþarfa samlíking að sjálfsögðu og ástæðulaust að fara fleiri orðum um málið að svo komnu. En ef hv. þm. vildu bera fram einhverjar fyrirspurnir í sambandi við málið, þá er vitanlega sjálfsagt að leitast við að svara þeim og upplýsa þær í sambandi við umræðurnar.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. samgmn. og 2. umr.