17.10.1963
Neðri deild: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1793)

17. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er samið í dómsmrn. á grundvelli skýrslu eða álitsgerðar, sem nefnd, sem skipuð var vegna atburða í Þjórsárdal um hvitasunnuhelgina 1963, hefur samið og nú hefur verið birt í blöðum. Ég hygg þó, að það sé rétt að lesa hér upp þær till, n., sem varða endurskoðun á nokkrum ákvæðum laga og reglugerða, og nokkur atriði, er varða löggæzlu og dómgæzlu, vegna þess að þau skýra frv., með leyfi hæstv. forseta. Það eru kaflar um endurskoðun á nokkrum ákvæðum laga og reglugerða:

„1) Áfengislöggjöf verði endurskoðuð með sérstöku tilliti til þess, að komið verði í veg fyrir áfengisneyzlu ungmenna. Koma þar einkum eftirfarandi atriði til greina: Að sett verði skýlaus ákvæði um, að ungmenni innan ákveðins aldurs sé óheimilt að hafa áfengi um hönd, aldurstakmark 18 eða 19 ár. Að ungmennum innan ákveðins aldurs verði óheimil dvöl að kvöldlagi á veitingastað, þar sem vinveitingar eru leyfðar, nema í fylgd með forráðamönnum. Að áfengi, sem ungmenni kann að hafa undir höndum, verði skilyrðislaust og án tafar gert upptækt. Að skýr ákvæði verði sett um bann gegn hvers konar afhendingu eða veitingu áfengis til ungmennis. Að sett verði ströng viðurlög gagnvart þeim, er afhenda eða veita ungmenni áfengi. Að hætt verði afhendingu á tollfrjálsu áfengi til ungmenna, enda þótt þau séu lögskráð á skip. Að skilyrðislaust verði gert upptækt áfengi, sem borið er ólöglega inn á veitingastaði eða reynt er að bera þangað inn, sömuleiðis áfengi í fórum manna, sem teknir eru ölvaðir á almannafæri. Sektir fyrir ölvunarbrot verði hækkaðar verulega frá því, sem nú er, svo og viðurlög við leynivinsölu.

2) Sett verði ákvæði um bann gegn því, að ökumenn leigubifreiða flytji ölvuð ungmenni eða leyfi ungmennum áfengisneyzlu í bifreiðum sínum. Ákvæðin hindri þó ekki, að ungmenni séu flutt heim til sin, þótt ölvuð séu.

3) Sett verði ákvæði í reglugerð um sérleyfishafa og hópferðaleyfishafa, er geri þá ábyrgari en verið hefur um flutning ungmenna á skemmtistaði og aðra samkomustaði. Ákvæðin beinist að því að koma í veg fyrir, að ungmenni séu flutt á slíka staði, nema um skipulagðar ferðir sé að ræða undir ábyrgri stjórn hæfilega margra fararstjóra eða ungmennin fari til staðar, þar sem vitað er að skipulagt mót fer fram eða umsjón og eftirlit sé á staðnum. Reglur 2. töluliðar hér næst á undan gilda og um sérleyfis- og hópferðabifreiðar.

4) Settar verði reglur samkv. lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, nr. 55 1949, um læknislegar og félagslegar aðgerðir til þess að sporna við ofdrykkju ungmenna, svo sem að flytja ungmenni, sem ítrekað eru tekin ölvuð á almannafæri, til læknismeðferðar.

5) Gefin verði út almenn reglugerð um útgáfu persónuskilríkja til ungmenna á aldrinum 12–22 ára. Verði miðað að því, að útgáfa geti hafizt á hausti komanda“

Kaflinn, er varðar löggæzlu og dómgæzlu, hljóðar svo:

„1) Skemmtanaleyfi fyrir almennar skemmtanir, svo sem dansleiki, hvers konar mót og mannfagnaði, sem ungmenni hafa aðgang að, séu hvergi veitt, nema tryggilega sé séð fyrir nægilegu eftirliti og löggæzlu.

2) Með því að víða í héruðum er engin aðstaða fyrir löggæzlumenn að taka til geymslu þá, sem ölvaðir gerast, valda óspektum eða setja ómenningarbrag á samkomur með öðrum hætti, er brýn nauðsyn á, að gerð verði hið fyrsta áætlun um byggingu héraðsfangelsa samkv. l. nr. 21 1961, þar sem þörfin er mest.

3) Löggæzla í héruðum landsins verði hið fyrsta efld, eftir því sem fjárveitingar frekast leyfa, bæði hvað snertir fast lið og héraðslögreglulið samkv. lögum um lögreglumenn.

4) Þjóðvegalöggæzla ríkislögreglunnar verði efld verulega, svo að hún geti veitt héraðslögreglumönnum nauðsynlegan stuðning og aðstoð.

5) Hert verði eftirlit með því, að ungmenni fái ekki afgreitt áfengi í áfengisútsölum eða vinveitingastöðum.

6) Haldið verði áfram baráttu gegn leynivínsölu og afgreiðslu slíkra mála fyrir dómi hraðað.

7) Hert verði á ráðstöfunum til að koma í veg fyrir smygl, eftir því sem frekast er unnt.

8) Unglingar og aðrir, sem ölvaðir eru á almannafæri og hafa í frammi ólæti, verði gerðir ábyrgir, svo að eftirminnilegt megi verða þeim sjálfum og öðrum víti til varnaðar.“

Þá er rétt að geta þess, að ekki alls fyrir löngu barst dómsmrn. bréf frá stjórn Landssambands ísl. barnaverndarfélaga, þar sem eru sendar tillögur, er samþykktar voru einróma á aðalfundi sambandsins, sem haldinn var í Reykjavík dagana 12.–13. sept. s.l. Ályktunin var gerð að undangengnu ýtarlegu framsöguerindi um málið og alimiklum umr., en fundinn sóttu auk kjörinna fulltrúa frá barnaverndarfélögum margir áheyrnarfulltrúar og gestir, eins og segir í þessu bréfi. Till., sem sendar voru, hljóða þannig:

„Fimmti landsfundur Landssambands ísl. barnaverndarfélaga skorar á dómsmrh. að efla löggæzlu og eftirlit með unglingum á almannafæri og á skemmtistöðum. Vill fundurinn benda á eftirfarandi atriði, til að draga úr vandkvæðum af framferði unglinga:

1) Hert sé á eftirliti á sölu áfengis til unglinga.

2) Forráðamönnum skemmtistaða, sem unglingar sækja, sé gert að skyldu að hafa eftirlit með umgengni og háttprýði þeirra og gæta þess, að fjölmenni keyri ekki úr hófi fram.

3) Ákveðnar reglur séu settar þeim aðilum, sem gangast fyrir hópferðum unglinga.

4) Unglingum sé gert að skyldu að bera nafnskírteini, svo að unnt sé að fylgjast með aldri þeirra og ábyrgð.

5) Allir þeir, sem brjóta af sér í umgengni, viðskiptum og framkomu við unglinga, verði hiklaust og tafarlaust sóttir til saka.“

Í frv. eru þær breytingar á áfengislögum, sem nauðsynlegt og tiltækilegt þótti að gera á grundvelli álitsgerðarinnar, og eru þær samkvæmt því, sem ég las, í fullu samræmi við till. Landssambands ísl. barnaverndarfélaga, svo langt sem sú till. nær. Í frv, er lögð á það áherzla og efni þess er fyrst og fremst það að hindra áfengisveitingar og áfengisútlát með nokkrum hætti til unglinga og þá yfirleitt miðað við 21 árs aldur. Ég vek þó athygli á því, að í 3. gr. frv. er varðandi dvöl ungmenna á veitingastöðum. þar sem vínveitingar eru leyfðar, miðað við 18 ára aldur eða yngri og þeim bönnuð dvöl þar, nema í fylgd með forráðamönnum sínum séu. Það má segja, að þetta aldursákvæði er eitt meginvandamál, sem taka verður afstöðu til í sambandi við þetta mál. Núgildandi reglur miða við 21 ár, en í álitsgerð þeirri, sem ég áðan las upp, er vikið að yngra aldursmarki í sumum tilfellum, og er till. um 18 ára aldur í 3. gr. í samræmi við þær till. Æskilegast væri að sjálfsögðu að miða þarna við eitt aldursmark, og komum við þá að því, hvort fært þyki að fylgja eftir 21 árs aldursmarki í öllum tilfellum, þannig að það hafi raunhæfa þýðingu. Ég veit, að miklir annmarkar munu þykja á því að lækka þetta aldursmark frá því, sem nú er í lögum. Hitt verðum við allir að viðurkenna, að oft hefur þetta aldursmark verið gersamlega dauður bókstafur, og því miður er hætt við því, að erfitt verði einnig, þrátt fyrir þær tryggingarráðstafanir, sem settar eru í lagafrv., að fylgja því ætíð eftir svo sem vert væri og vissulega gera þarf, ef ákvæðinu er haldið. Ég hef þó ekki talið rétt að gera till. um að lækka þetta 21 árs aldursmark, sem í 1. gr. lagafrv. er haldið, en vek athygli á því til sérstakrar íhugunar fyrir hv. þm., hvort þeir telja rétt að lækka það og þá eingöngu í því skyni, að þau mörk, sem sett séu, séu með þeim hætti, að nokkurn veginn mögulegt sé að fylgja þeim, — ekki allt of miklar líkur til þess, að um dauðan bókstaf verði að ræða. En við vitum það t.d., — ég segi það ekki til þess að færa neitt að þeim hópi manna sérstaklega, heldur einungis vegna þess að þar er um augljósa og alkunna staðreynd að ræða, — að stúdentar, sem ekki hafa náð 21 árs aldri, hafa frá fornu fari tekið þátt í alls konar samkvæmum, þar sem vín er um hönd haft, og þarf að verða mikil breyting á framkvæmd og ég vil segja hugsunarhætti, til þess að þetta sé raunverulega gerlegt að stöðva. Eins vitum við um ýmsa, jafnvel gifta menn, sem vinna fyrir sínum heimilum í ýmsum stéttum og allir vita að vín hafa um hönd, að erfitt kann að vera að fylgja því eftir, að þeim sé það meinað með þeim hætti, sem í lagafrv. er ráðgert og nú á að herða eftirlitið með. Hér er um matsatriði að ræða, þar sem annars vegar verður að hafa í huga, að vitanlega er öllum innan við 21 árs aldur óhollt að drekka vín, og þá einnig að líta á, hvað framkvæmanlegt er, eins og þjóðfélagsháttum okkar nú og raunar lengi hefur verið háttað.

Það er eitt meginatriði þessa máls, að ætlunin er að gera ráðstafanir til þess, að aldursmarkið verði framkvæmanlegra en áður með því að gefa út nafnskírteini a.m.k. fyrir alla unglinga, og hefði framkvæmd þeirrar ráðagerðar þegar verið hafin, ef ekki hefði komið upp við athugun málsins, að hagstofustjóri taldi fyllilega til greina koma að gefa út nafnskírteini til handa öllum landsmönnum, ekki sérstaklega í sambandi við áfengislöggjöfina, heldur gætu slík skírteini orðið hagkvæm í ýmsum öðrum samböndum. Hann hefur nú í haust samið frv. um þetta, sem er til athugunar hjá stjórnvöldum, og fyrr en þeirra athugun er lokið, taldi dómsmrn. ekki rétt að hefjast handa um útgáfu nafnskírteina fyrir unglingana eina, vegna þess að þá yrði um tvíverknað að ræða og óþarfa fyrirhöfn, sem spara mætti, ef sá háttur yrði ákveðinn, sem ekki verður gerður nema með löggjöf og þá eftir ákvörðun Alþingis nú í haust, að lögbjóða nafnskírteini handa öllum. Var þá hugsað af hálfu hagstofustjóra, að a.m.k. í fyrstu fengju einungis hinir yngri aldursflokkar skírteini með mynd sinni á, þannig að um eins konar vegabréf, ef svo má segja, væri að ræða. Nafnskírteini annarra yrðu að því leyti einfaldari, að þar yrði mynd sleppt. En þetta atriði er sem sagt til athugunar, og ef ekki verður úr, að heildarlöggjöf verði um þetta sett, mun dómsmrn. nú á allra næstu vikum hefjast handa um útgáfu allsherjar nafnskírteina handa unglingum og þá sennilega miðað við 22 ára aldur sem hámark.

Að aldursmarkinu slepptu, sem ég tel í raun og veru vera mesta vandamálið í þessu, og útgáfu nafnskírteina, sem er hreint framkvæmdaratriði fyrir þá yngri, en þarf löggjafar við, ef hinn hátturinn yrði tekinn upp, sem ég gerði grein fyrir, þá er ætlunin sú að gera með öllu óheimilt að afhenda yngri mönnum en 21 árs að aldri áfengi með nokkrum hætti, en það hefur verið heimilt undir vissum kringumstæðum eða a.m.k. framkvæmt — skulum við segja — óátalið undir vissum kringumstæðum fram að þessu. Þá er einnig ráðgert, að áfengi, sem er í höndum ungmenna yngri en 21 árs, skuli skilyrðislaust gert upptækt. Með sama hætti er heimilað að gera upptækt umsvifalaust áfengi, sem flutt er heimildarlaust inn á veitingastað, eftir því sem nánar segir í 3. og 7. gr. þessa frv.

Enn fremur eru ákvæði, sem eiga að hindra drykkjuskap í bifreiðum, en eins og öllum er kunnugt, er hann nú mjög tíðkaður, ekki sízt af ungmennum, — slík ákvæði eru auðvitað ætið erfið í framkvæmd, en öllum kemur saman um, að svo mjög hafi að þessu kveðið, að ráðstafanir verði að gera gegn því, — og eins að flytja ölvuð ungmenni, nema þá einungis án tafar til heimila þeirra.

Í samræmi við till. í þessari álitsgerð og raunar till. barnaverndarfélaganna líka er svo hert á sektar- og upptökuákvæðum áfengis einnig í fleiri samböndum, svo sem sést af lagafrv. og ég tel ástæðulaust að greina frekar.

Þá vil ég minna á, að lagt hefur verið fram frv. um drykkjusjúka menn, sem þegar er komið hér til n., og er vonandi tryggt, að það nái fram að ganga á þessu þingi, en að ákvæðum þess frv. er einnig vikið í álitsgerðinni.

Ég hygg, að varðandi löggjöf sé í þessu frv., að því er tekur til dómsmrn., farið eftir fram komnum tili. í öllu verulegu og hitt séu framkvæmdaratriði, sem sjálfsagt er að fylgja eftir einnig. Ég vek þó athygli á því, að ég hef ekki talið fært að setja refsiákvæði gagnvart ungmennum og þá miðað við aldur 18 eða 19 ár, eins og mér skilst að lagt sé til í álitsgerð Þjórsárdalsnefndarinnar, fyrir það eitt að hafa áfengi um hönd. Ég tel hvort tveggja, að það sé mjög erfitt að setja mörg mismunandi tímamörk, ég hef, eins og fram kemur af því, sem ég hef sagt, ærnar áhyggjur af þeim mismunandi tímamörkum, sem þegar eru í frv., og tel hitt frágangssök, að bæta enn einu við um að refsa unglingum undir tilteknum aldri alveg sérstaklega fyrir það eitt að hafa áfengi um hönd. Ef það er einhverjum að refsa, þá tel ég, að refsingin verði að beinast gegn þeim, sem láti þá fá áfengi, og það er skýlaust í frv., eins og það nú liggur fyrir, að slíkt sé refsivert. En hitt er hæpnara, að ætla að setja ný refsiákvæði fyrir unglingana sjálfa, vegna þess að þá verður í þessu sambandi einu að meta sem óvita og því annaðhvort að senda til læknis, eins og ráðgert er í frv. um drykkjusjúklinga eða lækningu drykkjusjúkra manna, eða beina refsingunni gegn þeim, sem veita þeim áfengið, eins og í þessu frv. er ætlað.

Mér er það alveg ljóst, að hér er um mjög mikið vandamál að ræða, mjög alvarlegt. Ég geri mér einnig ljóst, að því fer fjarri, að þetta frv. eitt leysi allan vanda í því efni. Það þarf margt fleira til að koma. Löggjöfin ein dugir ekki, allra sízt refsilöggjöfin ein, þó að hún sé hert, bæði að efni og í framkvæmd. En þó að við viðurkennum, að margt fleira þurfi til að koma, er þessi herðing refsilöggjafarinnar, áfengislaganna sjálfra, og herðing á framkvæmd þeirra nauðsynlegur liður í því, sem gera þarf, og vona ég því, að þetta frv. verði að meginefni til samþ.

hér á hv. Alþ., þó að vel megi vera, að mönnum sýnist ástæða til að breyta því í einstökum atriðum.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.