17.10.1963
Neðri deild: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1796)

17. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru örfá atriði, sem ég vildi drepa á, áður en málið færi til n., í þeirri von, að hún athugaði þau nokkuð.

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. sé til bóta, það sem það nær, og því sjálfsagt að veita því stuðning. Hitt vil ég taka undir hjá hv. síðasta ræðumanni, að bönn og viðurlög eru ekki eina aðferðin og ekki aðalaðferðin, sem á að viðhafa til þess að koma hér endurbótum á, heldur verður að vinna að þessum málum jákvætt, byggja upp það þjóðfélag handa ungmennunum, sem kemur í veg fyrir, að þau leiðist út á glapstigu, eins og nú því miður á sér æðioft stað.

Hv. 5. þm. Reykv. drap hér áðan á þann ósið, sem lengi hefur verið viðloðandi, að veita ákveðnum embættismönnum áfengi með afslætti. Ég veit reyndar ekki, hvað þessi afsláttur er mikill, ég býst við, að hann sé æðidrjúgur, ef öll álagningin á áfengið er innifalin í þeim afslætti. En ekki er mér neitt kunnugt um það. Ég veit ekki, hvernig á þessu stendur, að þessi siður hefur upphaflega verið tekinn upp. Hann er kannske frá því fyrir mitt minni eða riflega það. Hvort það hefur verið af einhverri miskunnsemi við þáv. embættismenn, að þeir hafi verið svo fátækir, að þeir hafi þurft þess með, veit ég ekki, en nú sýnast vera komnir þeir tímar, að sú ástæða væri niður fallin, og meira að segja á þessu ári ætti hagur sumra þessara embættismanna að hafa batnað svo, að þeir gætu nú sleppt þessum fríðindum. Ég tel því, að það sé rétt athugað hjá hv. 5. þm. Reykv., að þetta atriði ætti að athuga í nefnd.

Þá hnýt ég hér um eitt atriði í 3. gr. þessa frv. Þar stendur: „Ungmennum 18 ára eða yngri er óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á veitingastað, þar sem vínveitingar eru leyfðar, nema í fylgd með forráðamönnum sínum. En í fylgd með forráðamönnum sínum má víst hafa börn á öllum aldri á slíkum samkomum. Ég skil þetta svo. Nú er það óneitanlega þannig, að til eru foreldrar í landinu og það helzt til margir, sem telja áfengisneyzlu alls ekki skaðlega. Öðru nær, þeir mundu ekki telja það neitt athugavert, þótt þeir hefðu börnin sín með, svona á ýmsum aldri, á slíka samkomu. En teljum við það æskilegt, að slíkt sé leyft eða heimilað? Við verðum bókstaflega að reikna með hlutunum eins og þeir eru og þá þannig, að til eru foreldrar, sem gæta ekki sinna eigin barna nógu vel í þessum efnum. Við þurfum löggjöf til að vernda börnin, jafnvel fyrir sínum eigin foreldrum í þessum efnum, og þar með eigum við ekki að heimila það, að foreldrar taki börn með sér á drykkjusamkomur. Það er nefnilega ekki víst, að þeir, þegar þangað er komið, séu færir um að gæta þeirra. Ég geri ráð fyrir, að hugsunin í þessu sé sú, að foreldrarnir gæti sinna eigin barna, sem þarna eru á ferðinni. En þegar á það er litið, að þeir líta ekki sömu augum og ýmsir okkar á skaðsemi þessara veitinga, þá held ég, að þessi vernd foreldranna sé lítils virði. Og ég vil meira að segja telja það skaðlegt að leyfa þetta og eiga þannig þátt í því, að börn horfi upp á drykkjuskap foreldra sinna á slíkum samkomum. Þetta bið ég hv. nefnd að athuga.

Það hefur oftast nær, þegar rætt hefur verið almennt um þessi mál, verið vitnað í það, að til þess að skapa hér eða koma á umbótum í þessum málum, þá þurfi að skapast það almenningsálit, er dregið geti úr því tjóni, sem af áfengisneyzlu stafar alltaf. Það er vafalaust hárrétt, þetta. Ég býst við, að það séu flestir — kannske allir alþm. sammála um það, að slíkt almenningsálit þyrfti að skapa. En ég hef orðið fyrir vonbrigðum hér á hv. Alþ. í þessum efnum. Þegar á átti að herða að stíga litið spor til þess að skapa slíkt almenningsálit, brugðust alþm. sjálfir. En þetta var, þegar við þrír alþm. fluttum fyrir nokkrum árum till. um það að hætta áfengisveitingum í opinberum veizlum. Við töldum það vera fordæmi öðrum til gagns, að slíkur háttur yrði upp tekinn að hætta þessum áfengisveitingum í opinberum veizlum. En það var, held ég, innan við fjórða hluta alþm., sem vildi fallast á það. Ég hef þó ekki breytt um skoðun síðan, að slíkt mundi vera drjúgt spor í þá átt að skapa almenningsálit, sem gæti orðið til bóta í þessum efnum. Ég vil því beina því til hv. n., sem fær þetta mál til athugumar, hvort ekki sé rétt, annaðhvort að koma slíku ákvæði inn í þetta frv. eða þá á annan hátt að koma þeim sið á að hætta slíkum áfengisveitingum.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta að sinni, en ég treysti því, að hv. n. taki þau atriði til athugunar, sem ég hef hér bent á.