18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

95. mál, vegalög

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get nú ekki varizt þess, að mér þótti framsöguræða hæstv. samgmrh. dálítið snubbótt, því að hér er vissulega um stórt og yfirgripsmikið mál að ræða. En hann mun ekki hafa talið þörf á langri ræðu, m.a. vegna þess, að í grg. með vegalagafrv. eru röksemdir mjög ýtarlega færðar fram fyrir því, og skal ég vissulega taka undir það, að það er gerð ýtarleg grein fyrir meginatriðum málsins. Og þó að ég standi nú hér upp við þessa 1. umr, er það ekki til þess að halda langa ræðu um málið eða fara að beita hér málþófi, en mér finnst þó rétt, að fram komi nú þegar við 1. umr. fáein atriði í sambandi við þetta stóra mál.

Vegamálin hafa um langan tíma verið meðal hinna stærri, jafnvel stærstu mála, sem Alþingi hefur haft til meðferðar hverju sinni, og þetta er vitanlega mjög eðlilegt, þar sem við búum í stóru landi og erum fámennir að berjast við það að koma á hjá okkur vegakerfi í þessu víðlenda landi. Það hefur oft verið bent á það af ýmsum, bæði innan þings og utan, á undanförnum árum og áratugum, að það væri eðlilegt og rétt, að öll þau opinberu gjöld, sem tekin eru beint af umferðinni, gjöld eins og benzínskattur, þungaskattur og gúmmígjald, ættu að renna til vegabóta, til þessara samgöngumála á landi einvörðungu. Þessu hefur engan veginn verið fylgt á umliðnum tíma. Þessir skattar hafa því miður að allverulegu leyti orðið almennur eyðslueyrir ríkissjóðs, þ.e.a.s. ríkissjóður hefur notað allmikinn hluta af þessum sköttum til annarra þarfa en þeirra að bæta samgöngur á landi. Það er auðsætt, að hér var og hefur nú nokkuð lengi verið mikil þörf á aðgerðum til þess að tryggja það, að vegakerfi okkar geti batnað verulega, að það bókstaflega sligist ekki undir þeirri stórvaxandi umferð, sem um það fer og hlýtur enn að vaxa mikið á komandi tímum. Það hefur þess vegna verið lengi ljóst, að þess hefur verið mikil þörf að taka vegamálin öll fastari tökum en gert hefur verið og afla aukins fjár til þess að byggja þau upp á myndarlegan hátt.

Það frv. til vegalaga, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú fyrir skömmu lagt fyrir Alþingi, er að mínum dómi að mörgu leyti til stórbóta í þessum efnum, og ég fagna því, að það er fram komið. Að vísu fylgir sá böggull skammrifi, að hér er um allverulega aukna almenna skatta að ræða á umferðina, og það má vitanlega segja og færa að því mörg rök, að í þessu mjög svo margskattaða ríki okkar sé nú ekki á slíka skatta bætandi. Og vissulega hefði verið æskilegast, að áður en til nýrrar skattlagningar kæmi í sambandi við umferðina, til þess að bæta vegakerfið, hefði ríkið látið af hendi til samgöngubóta þá tekjustofna alla, sem nú eru í gildi samkv. lögum, þá tekjustofna af umferðinni, sem nú renna að töluverðu leyti til annarra þarfa ríkisins. Sú leið hefur ekki verið farin, heldur skulu nú enn lagðir á nýir skattar. Þetta tel ég að vísu vera meginókost frv., en sú er þó bót í máli, að þessir nýju skattar á umferðina, skattarnir af benzíni, hjólbörðum og bifreiðaþunga, eiga samkv. hinu nýja frv. að renna allir og óskiptir til umbóta í vegamálum. Og þar sem þrifin er svo geysilega brýn á myndarlegu átaki og markvissu starfi við algera endurnýjun vegakerfisins, þá tel ég, að eftir atvikum sé hægt að fallast á þessa lausn í megindráttum a.m.k., sem lögð er til með því frv., sem hér liggur fyrir. Á einhvern hátt verður að afla verulegs fjár á komandi árum til þessara bráðnauðsynlegu framkvæmda. Það þolir áreiðanlega enga bið. Og þess er einnig að gæta, að ef skynsamlega er á haldið og því marki náð, sem að er stefnt með þessu frv., á á tiltölulega skömmum tíma það fé að skila sér að verulegu leyti og að lokum fullkomlega aftur með greiðari umferð og stórminnkuðum viðhaldskostnaði bifreiða.

Enda þótt ég hafi nú lýst af þeim ástæðum, sem ég hef þegar greint frá í örstuttu máli, fylgi við frv. í meginatriðum og sé því meðmæltur, að það nái fram að ganga, vil ég þó ekki láta hjá líða að átelja tvö atriði í sambandi við undirbúning þessa máls af hálfu hæstv. ríkisstj. Hið fyrra er það, að við skipun nefndar til að undirbúa þetta yfirgripsmikla mál skyldi ekki vera hafður á sá eðlilegi háttur, að fulltrúar allra þingflokka ættu sæti í þeirri nefnd. Það eitt var að mínum dómi eðlilegt og einnig mjög í samræmi við starfsaðferðir Alþingis og ríkisstj. í mörgum sambærilegum tilvikum á undanförnum áratugum. Í þess stað voru skipaðir í nefndina embættismenn og fulltrúar frá stjórnarflokkunum. Stjórnarandstaðan, sem hefur þó umboð frá nær öðrum hverjum kjósanda í landinu, fékk þar hvergi nærri að koma.

Það er síður en svo, að ég áfellist vegalaganefndina sjálfa fyrir störf hennar. Mér virðist, að hún hafi unnið gott verk, ágætt verk vil ég segja, þegar á heildina er litið, og hún á þakkir skyldar fyrir það. Um einstök atriði geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir, og í nokkrum efnum tel ég, að frv. þurfi enn endurbóta við, ef vel á að vera. En hér átti það vissulega við, að sjálfsagt var að sjá til þess af hálfu ríkisstj., að sem allra flest sjónarmið kæmu fram þegar við undirbúning málsins. Þá gátu stjórnarandstæðingar, ef þeir áttu fulltrúa í n., kynnt sér frv. til nokkurrar hlítar og lagt sitt af mörkum til þess, að það yrði sem bezt og rækilegast undirbúið og úr garði gert.

Hitt atriðið, sem ég tel einnig ástæðu til að átelja hæstv. ríkisstj. fyrir eða a.m.k. að kvarta undan, er hinn allt of skammi tími, sem Alþingi er ætlaður til þess að afgreiða svo margþætt og veigamikið mál eins og þetta er. Hefðu hins vegar allir þingflokkar átt fulltrúa í mþn., sem undirbjó málið, hefði þetta horft töluvert öðruvísi við. Þá gátu alþm. raunar allir átt þess kost að fylgjast með framvindu þess, koma sjónarmiðum sínum á framfæri á undirbúningsstigi málsins og þá mátti með verulegum rétti segja, að ekki hefði verið sérstök þörf á mjög löngum tíma fyrir hv. Alþingi til þess að afgreiða þetta frv., þó að býsna yfirgripsmikið og margbrotið sé. En með hliðsjón af því, hvernig undirbúningnum var háttað að þessu leyti, þá tel ég óhjákvæmilegt að láta í ljós óánægju mína yfir því, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki hafa getað lagt frv. fram a.m.k. þegar í þingbyrjun, og satt að segja hefði ekki veitt af því, að það hefði verið sýnt þegar í vor eða áður en síðasta þingi lauk, til þess að menn hefðu haft nokkurn tíma, þeir sem komu tiltölulega ókunnugir að málinu, og í því eru vissulega mörg nýmæli, — til þess að þeir menn hefðu haft sómasamlegan tíma til þess að kynna sér þetta stóra mál gaumgæfilega. Því miður hefur þetta ekki tekizt, og er því sjálfsagt um að kenna, að undirbúningurinn hefur kostað þetta langan tíma. Þá kom það fram í framsöguræðu hæstv. samgmrh., að vegalaganefndin hefði skilað frv. til l. um vegalög þegar haustið 1962. Það var svo að sjálfsögðu eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. þyrfti nokkurn tíma til að athuga það frv., en ég hefði þó talið, að ef sæmilega eða vel hefði verið að unnið, hefði e.t.v. mátt koma frv, nokkru fyrr á framfæri en gert hefur verið, og vissulega hefði það verið mjög æskilegt.

Eins og hv. alþm. vita, er sennilega ekki nema röskur hálfur mánuður, síðan frv. var útbýtt hér á Alþingi, 1. umr. í hv. Nd. fór fram fyrir rúmri viku, og nú er ætlunin, að frv. verði afgreitt frá þessari hv. d. á svo sem tveim dögum. Það er að sjálfsögðu nokkur bót hér í máli, að samvinna hefur tekizt milli samgmn. beggja deilda, þannig að hv. samgmn. þessarar d. kemur ekki ókunnug að málinu, og ætti það að geta bætt þarna nokkuð úr.

En þó verð ég að leggja á þetta nokkra áherzlu, að það er illt, það er óþægilegt, þegar um stórmál eins og þetta er að ræða, sem hafa mörg nýmæli að geyma, að ekki skuli vera talið fært að gefa Alþingi sómasamlegt tóm til þess að kynna sér málin og fjalla um þau.

En hvað sem þessu líður, hvað sem kann að mega með nokkrum rétti setja út á vinnubrögð hæstv. ríkisstj. að því er varðar ákveðin atriði um undirbúning málsins, þá tel ég engan veginn rétt, úr því sem komið er, að tefja afgreiðslu þess um skör fram. Ég mun fyrir 2. umr. freista þess að bera fram brtt. við nokkur atriði frv., sem ég tel að umbóta þurfi við, en ég mun geyma mér til þeirrar umr. að fjalla um einstök atriði frv.