24.02.1964
Neðri deild: 60. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (1802)

17. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í aths. með þessu stjfrv. er svo mælt, að tilefni til þess, að það er flutt, er atburður, sem gerðist með æskufólki austur í Þjórsárdal á s.l. sumri. Eftir því að dæma hefði frv. sjálfsagt ekki verið flutt, ef þessi atburður hefði ekki gerzt. Ástandið í áfengismálum almennt í landinu er þó öllum landslýð kunnugt, áfengisneyzla æskufólks hefur farið svo vaxandi á síðari tímum, að valdið hefur miklum áhyggjum allra þeirra, sem vilja vinna að þroska og manndómi uppvaxandi kynslóðar. Fjöldi afbrota er að meira eða minna leyti tengdur áfengisneyzlu, bifreiðaslysin með öllum sínum afleiðingum eru orðin svo uggvænleg, að menn standa svo að segja ráðþrota, og mikill fjöldi þeirra er vegna áfengisneyzlu. Síðast í gærkvöld var verið að segja frá því í útvarpinu, að frá áramótum, eða hér um bil á 50 dögum, hefðu 103 menn verið teknir fyrir ölvun við akstur hér í Reykjavík, og er það miklum mun meira en var á síðasta ári, en þá voru þó teknir 584 menn yfir árið. Svona er saga áfengisneyzlunnar að meira eða minna leyti á flestum sviðum þjóðlífsins. Það hefði því ekki átt að þurfa neina Þjórsárdalsför til þess, að Alþingi hefði leitazt við að gera einhverjar umbætur á áfengislöggjöfinni.

Mér finnst, að yfirleitt hafi gengið heldur treglega hér á hv. Alþ. að fá umbætur á áfengislögum vegna þess, hve menn hafa mjög skiptar skoðanir í þessum efnum. Hitt er mér aftur á móti alveg ljóst, að það er ekki af því, að nokkur þm. vilji, að þessi mál þróist í þá átt, sem verið hefur, en svona hefur það samt gengið til. Séu menn spurðir að því opinberlega, hvað eigi helzt að gera í þessum efnum, er yfirleitt fátt til ráða annað en að benda á, að nauðsyn sé á aukinni fræðslu um skaðsemi áfengis. Slík fræðsla er auðvitað nauðsynleg, og hún ber sjálfsagt einhvern árangur. En ég held þó, að árangurinn af henni sé miklu minni en menn halda. Eða hvers vegna ætti þá ástandið að fara síversnandi í þessum málum, þrátt fyrir að þessari fræðslu er búið að halda uppi áratugum saman? Það er ekki þess vegna, sem æskufólk neytir áfengis, að það viti ekki um afleiðingar áfengisneyzlunnar. Nei, en aðra ástæðu vil ég frekar nefna, hún er sú, að æskufólki þykir það fínt og stórmannlegt að vera eins og þeir fullorðnu. Það jafngildir nokkurs konar vottorði um manndóm og myndarskap að hafa verið þátttakandi í drykkju með fullorðnum mönnum, og þeim mun frekar ef þar hefur verið um svokallaða heldri menn að ræða. Og hvert ættu unglingarnir að sækja fyrirmyndina, ef ekki til sér reyndari og meiri manna? Það eru þess vegna þeir fullorðnu og jafnvel forustumenn í þjóðfélaginu, sem eiga meginsökina á áfengisneyzlu æskufólks í landinu. Það er ekki æskufólkið, sem rekur áfengissölu hér á landi. Það eru ekki unglingarnir, sem hafa gert ósjálfstæði manna og ég vil segja eymd á þessu sviði að tekjulind fyrir ríkissjóð. Nei, það eru hinir eldri, sem verða að færa þetta á sinn reikning að miklu leyti, þar með förina í Þjórsárdal í fyrra.

Það kveður oft við þann tón, þegar rætt er um áfengisvandamál, að það eigi ekki að vera að banna þetta eða hitt, öll bönn séu stórskaðleg, þau séu ekki í samræmi við réttarmeðvitund þegnanna í þjóðfélaginu, þess vegna séu lögin brotin. Ég held, að ég geti seint fellt mig við þessa skoðun. Mér sýnist, ef ætti að fara eftir þessari reglu um löggjöf, þá mætti breyta mörgum lögum, þá mætti t.d. afnema ýmis ákvæði úr umferðarlögunum, sem daglega er verið að brjóta. Það drægi kannske ekki úr slysahættunni, en það ætti þó að vera í samræmi við réttarmeðvitundina, ef þetta er rétt, sem menn halda fram. Og ætli mætti þá ekki t.d. líka draga eitthvað úr löggjöf um friðhelgi eignarréttarins? Afbrot manna á því sviði nú að undanförnu ættu þá að benda í þá átt, að eitthvað af þessari löggjöf sé ekki í samræmi við réttarmeðvitundina. Hvar ætli það endi, ef farið verður eftir þessari stefnu?

Mér finnst, að hv. meiri hl. allshn. sé ekki laus við það að fallast á þessa stefnu um bönn og refsingar í brtt., sem hann flytur við þetta frv. Meiri hl. n. flytur þá brtt. að lækka aldursmark unglinga, sem megi kaupa og neyta áfengis, úr 21 árs aldri niður í 18 ár. Í 29 ár eða frá því að áfengislög voru fyrst sett hefur þetta 21 árs mark verið í gildi, og frv. ríkisstj. gerði ekki ráð fyrir neinni breytingu á því. En hv. meiri hl. allshn. hefur nú komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé rétt að lækka þetta niður í 18 ár. Mér virðist, að með þessari breytingu eigi þetta að verða boðskapur Alþingis til þessa unga fólks, 18–21 árs að aldri: „Nú megið þið drekka.“ Er þetta líklegt til þess að draga úr áfengisneyzlu æskufólks? Ef slík till. yrði samþ., má segja, að nokkuð hafi þeir upp úr krafsinu, unglingarnir, sem fóru í Þjórsárdal, því að ekki hefði þessi tillaga komið til greina, ef sú för hefði ekki verið farin. Mér hefur borizt í dag afrit af bréfi, sem Stórstúka Íslands hefur ritað allshn. einmitt út af þessari brtt. og fleiru, sem hún flytur, þar sem Stórstúkan mótmælir harðlega þessari breytingu. Eitthvað lítur hún öðruvísi á þetta en meiri hl. nefndarinnar.

Þótt svo illa tækist til, að þessi brtt. meiri hl. allshn. yrði samþ., þarf enginn að halda, að við það verði staðar numið. 18 ára aldursmarkið verður ekki látið standa til eilífðar. Maður getur látið sér detta í hug, að unglingar legðu einhvern tíma leið sína til dala á ný, og þá kæmi annað frv. og þá yrði markið fært niður í 16 ár eða kannske þurrkað út. Nei, ég vara við þessari stefnu, sem fram kemur í þessari brtt.

Í 1. gr. frv. segir, að kaupandi áfengis skuli jafnan sanna aldur sinn með vegabréfi eða á annan fullnægjandi hátt. Þetta mun hafa áður verið í lögum. En hv. meiri hl. allshn. gerir brtt. við hetta og bætir inn orðunum: „ef krafizt er“. Þetta sýnist ekki vera stórvægileg breyting, en hún er stærri en hún sýnist, þessi breyting. Mér sýnist, að þarna sé löggjafinn að segja við þjónustufólk á vínveitingastöðum: „Þið um það, hvort þið eruð nokkuð að spyrja um þessi vegabréf.“ Að vísu er þjónustufólk í sök, ef það fer að selja svo ungu fólki áfengi. En til hvers er ákvæðið um vegabréf, ef ekki á að gera það að skyldu að leggja það fram, þegar áfengi er keypt eða tekið á móti því ? Getur það verið meining hv. meiri hl. allshn., að þetta eigi að vera á valdi veitingafólks, hvort vegabréfin eru sýnd eða ekki, hvort nokkuð er farið eftir þeim eða ekki. Það má að vísu segja sem svo, að það þurfi ekki að spyrja sjötugan karl, hvort hann sé orðinn 21 árs, það sé auðséð. En það á ekki að spyrja neinn að neinu. Það á að vera regla, að mínum dómi, samkv. þessu frv., að hver, sem kaupir áfengi, leggi fram vegabréfið, og er ekki til mikils mælzt. Þurfa ekki þessir menn að opna peningaveskið sitt til þess að borga áfengið, og ef vegabréfið er í þessu veski, er ekki mikið fyrir haft. Og ég trúi ekki, að neinn fari að telja það eftir sér til þess að fá vöruna.

Við 1. umr. þessa máls benti ég á ákvæði í 3. gr. frv., þar sem ungmennum yngri en 18 ára gömlum er bönnuð dvöl á vínveitingastað eftir kl. 8 að kvöldi, „nema í fylgd með forráðamönnum sínum,“ stendur í frv. Allshn. hefur víst ekkert haft við þetta að athuga, en ég hef mikið við þetta að athuga, eins og ég sagði þá, en ég skal ekki endurtaka það. Ég get ómögulega fallizt á, að foreldrum eða öðrum forráðamönnum barna eða unglinga sé heimilt að hafa þau með, þegar þeir fara á vinveitingastaði til að gera sér glaðan dag eða glaða nótt og eru þar e.t.v. við drykkju. Ég tel því, að þessi setning ætti að falla niður: „nema í fylgd með forráðamönnum“. Það er heldur ekkert aldurstakmark við þetta ákvæði. Þau mega víst vera eins ung og verkast vill, börnin, sem fylgja hinum fullorðnu á þessa staði.

Minni hl. allshn., hv. 1. þm. Norðurl. v., flytur tvær brtt. við frv. Önnur er um áfengisvarnasjóð. Henni er ég að sjálfsögðu meðmæltur, þar sem hún er í aðalatriðum hliðstæð frv., sem ég á hlut í að flutt hefur verið hér í þinginu, þótt í nokkuð öðru formi sé. Hin brtt., sem hann flytur, er um það að afnema þá venju að veita einstökum embættismönnum afslátt frá ákveðnu útsöluverði vínfanga. Þessu er mótmælt að vera að afnema þennan sið. Ég get skilið menn, að þeir séu á móti því að missa af þessum kjarabótum, sem hafa haft þær, en ég skil hins vegar ekki þá þm., sem njóta þeirra ekki, en telja samt, að þessi siður eigi að haldast. Ég hef aldrei heyrt hin minnstu rök fyrir því, hvers vegna eigi að halda við þessum ósið, ekki hin minnstu, hvorki hjá mönnum, sem njóta þessara áfengisuppbóta, því að þetta eru uppbætur, og ekki heldur hjá öðrum, sem ekki njóta þeirra. Samt virðast ætla að verða hinir mestu erfiðleikar á að fá hetta út úr heiminum. Nei, svona áfengisuppbætur held ég að séu sannarlega óþarfar og vafalaust til einna minnstra þrifa allra uppbóta í landinu.

Hv, frsm. meiri hl. n. gat þess í sinni framsöguræðu, að n. mundi athuga þetta frv. nánar milli 2. og 3. umr. Ég hef því ekki flutt neinar brtt. enn við þetta frv. og hafði hugsað mér að bíða til 3. umr. og sjá, hvort það kemur ekki eitthvað betra frá n. en enn er komið. Ég vildi fara fram á það við hv. meiri hl. n. eða frsm. meiri hl., að hann láti þessar brtt. við frv. bíða til 3. umr. Ég sé ekki, að það sé neitt úrhættis að fá þær samþykktar, en rétt að fresta þeim, ekki sízt vegna bréfsins, sem nú hefur borizt frá Stórstúkunni. Ég held, að það væri skynsamlegt að gera þetta. Þá gætu menn frekar borið saman ráð sín um það, hvað þætti rétt að flytja og hvað ekki að flytja við þetta frv., því að það vil ég að lokum taka fram, að ég tel frv. til verulegra bóta í heild, en því sé því miður spillt, ef samþykktar eru þær brtt., sem hv, meiri hl. allshn. hefur flutt.