24.02.1964
Neðri deild: 60. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

17. mál, áfengislög

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þær till. frá meiri hl. allshn., sem hér liggja fyrir, ern, eins og fram kom hjá seinasta ræðumanni og fram kemur í bréfi því, sem n. hefur borizt frá Stórstúku Íslands, eins konar auglýsing eða staðfesting þess, að á undanförnum árum hefur áfengið verið í sókn, en bindindið á undanhaldi, því að fyrir 10 árum taldi löggjafinn sér fært að binda það bannákvæði, sem er í áfengislögunum, við 21 árs aldurstakmark, en meiri hl. n. telur, að nú eigi að binda þetta við 18 ára aldur, og færir rök að því, sem sannarlega hafa mikið til síns máls, að það sé næsta erfitt að framkvæma lögin með því aldurstakmarki, sem nú er, eða m.ö.o., að á þessu 10 ára tímabili, síðan áfengislögin voru sett, hefur sú breyting á orðið, að áfengið hefur verið að vinna á, bindindið hefur verið að láta undan, með þeim afleiðingum, að meiri hl. hv. allshn. telur nauðsynlegt að lækka aldurstakmarkið um 3 ár frá því, sem nú er. Og ég áfellist meiri hl. n. ekkert fyrir að hafa gert þetta. Ef menn gera sér grein fyrir ástandinu, eins og það er í dag, þá er það sannast sagna næsta erfitt að framkvæma áfengislögin með því aldurstakmarki, sem nú er gildandi, og verður kannske næsta erfitt að framkvæma þau, þ6 að aldurstakmarkið verði fært í það horf, sem meiri hl. n. leggur til. En þetta er vissulega ömurleg staðfesting á þeirri öfugþróun, sem hefur átt sér stað í landinu á þeim 10 árum síðan áfengislögin voru sett. Og það er fullkomin ástæða til þess, þegar rætt er um þetta mál hér á Alþ., að menn geri sér nokkra grein fyrir því, hvernig ástandið er nú í þessum efnum og hvort hér sé ekki þörf fyrir einhver meiri átök en þau, sem koma fram í því frv., sem hér liggur fyrir.

Við minnumst þess t.d., að nú að undanförnu hefur verið mikið talað um þá skaðsemi, sem hlytist af sígarettureykingum, og það verið byggt á nýjum rannsóknum, sem hefur verið skýrt frá fyrir nokkru um þær afleiðingar þeirra, að menn fengju frekar lungnakrabba, ef þeir reyktu sígarettur, en ella. Og það eru margir, sem hafa af eðlilegum ástæðum orðið talsvert skelfingu lostnir yfir þessum niðurstöðum og talið nauðsynlegt að hefja sókn gegn sígarettureykingum, og skal ég síður en svo mæla á móti því. En þó að það megi færa vísindaleg rök að því, að nokkurt manntjón hljótist af sígarettureykingum, þá er það tvímælalaust, að það er ekki nema brot af því manntjóni, sem hlýzt á margvíslegan hátt af neyzlu áfengisins. Það eru miklu, miklu fleiri menn, sem áfengið leggur að velli en sígarettureykingarnar nokkru sinni gera, þó að ég sé síður en svo að mæla með þeim. Og svo nauðsynlegt sem það er þess vegna, að menn beini vopnum sínum gegn sígarettureykingunum, þá er enn þá meiri nauðsyn þess, að menn beini vopnum sínum gegn áfengisnautninni og stefni að því, að hún verði takmörkuð og höfð sem mest í hófi.

Ég þarf ekki að nefna það, því að ég veit, að hver og einn þm. þekkir fleiri og færri af mönnum, sem áfengið hefur lagt að velli með ýmsum hætti og það marga hina mætustu menn, sem hefur verið hið stórfelldasta tjón fyrir þjóðfélagið að missa. Við getum minnzt þess líka í þessu sambandi, og það er alls ekki úr vegi að minnast þess, að hér á þessu þingi hefur oft verið rætt um það vinnutjón, sem hlytist af verkföllum. En hvaða vinnutjón er það, sem hlýzt af verkföllum, ef það er samanborið við það margvíslega vinnutjón, sem hlýzt af áfengisneyzlunni í hinum ýmsu myndum? Það vinnutjón er áreiðanlega miklu stórfelldara, þegar það kemur saman. heldur en það vinnutjón, sem nokkru sinni hefur af verkföllunum hlotizt, og ern þó aðrar og verri ástæður, sem til þess liggja, heldur en til þess tjóns, sem verkföllin kunna að valda.

Það hefur verið talað um það á undanförnum árum og sérstaklega nú upp á siðkastið, að hin fyrirhugaða stórvirkjun við Búrfell sé ókleif, nema hún fái meira eða minna af erlendu fjármagni til þessarar framkvæmdar. Búrfellsvirkjun er þó ekki dýrari en það, að það fjármagn, sem þjóðin eyðir í áfengi og tóbak á 21/2 ári eða rösklega það, mundi nægja til þess að byggja Búrfellsvirkjun fyrir þetta fjármagn. Svo stórkostlegu fjármagni ver þjóðin til þess að kaupa áfengi og tóbak.

Ég nefni þessi atriði aðeins til þess að sýna, hvílikur vágestur áfengisnautnin og tóbaksnautnin er orðin í þjóðfélagi okkar og hve nauðsynlegt það er að reyna að gera myndarlegt átak til þess að takmarka það eitthvað frá því, sem nú er.

Að sjálfsögðu eru margar ástæður, sem valda því, að á undanförnum árum hefur sú þróun átt sér stað. að áfengið hefur verið í sókn og bindindi á undanhaldi. Það yrði langur tími að rifja það allt saman upp hér. En það er ein ástæða, sem mér finnst alveg sérstaklega nauðsynlegt að við gefum gaum að hér á Alþ., og það er sá þáttur, sem ég tel að Alþ. og ríkisstj. hafi átt í þessu óhugnanlega undanhaldi, í þessari auknu sókn áfengisnautnarinnar og hinu minnkaða eða takmarkaða bindindisstarfi. því verður ekki neitað, — og ég beini því ekki sérstaklega að núv. ríkisstj. fremur en mörgum þeim, sem hafa setið á undan henni, og ekki að okkur, sem nú sitjum á Alþ., heldur þeim mönnum, sem hafa setið á Alþingi á undanförnum árum, að því verður ekki neitað, að Alþingi og ríkisstj. hafa sofið í þessum málum og látið þau afskiptalaus og á þann hátt með þessum svefni sínum og aðgerðaleysi átt mikinn þátt í því, hver þróunin hefur verið í þessum efnum að undanförnu. Og ég vil líka segja: Hvers er að vænta af ríkisstj., og hvers er að vænta af Alþingi, meðan það er talið eitt hið mesta hnoss, að æðstu ráðamenn þjóðfélagsins séu sérstakra réttinda aðnjótandi í þessum efnum? Og er hægt að búast við því, að þeir valdhafar, sem vilja halda áfram þessu hnossi, að hafa aðgang að ódýru áfengi og ódýru tóbaki, séu líklegir til forustu um bindindisstarf og baráttu gegn áfengisnautninni?

Nei, meðan það þykir siðferðislega rétt hér á Alþingi að láta hina æðstu valdamenn njóta slíkra forréttinda og það er talið nauðsynlegra t.d. að tryggja þeim ódýrt áfengi og ódýrt tóbak en ódýra nauðsynjavöru, er þá hægt að búast við því, að það sé mikil forusta hjá þessum aðilum, Alþingi og ríkisstj., í þessum efnum, til að halda uppi almennri baráttu gegn áfengisnautninni og fyrir auknu bindindi? Ég held ekki. Þess vegna held ég, að þessi venja, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, að tryggja æðstu valdamönnum þjóðfélagsins sérstök forréttindi í þessum efnum, sé miklu þýðingarmeiri en menn gera sér grein fyrir og hafi miklu meiri áhrif í þá átt að draga úr hinni réttu baráttu þessara manna í þeim efnum en ella mundi vera. Og ég satt að segja hef ekki þá trú, að þeir menn hafi sérstakan áhuga fyrir bindindisstarfi eða fyrir því að vinna á móti áfengisnautninni, ef þeir telja áfengið vera svo eftirsóknarvert og tóbakið svo eftirsóknarvert, að það eigi að verðlauna hina æðstu embættismenn með því að veita þeim sem greiðastan aðgang að þessum munaðarvörum. Þess vegna tel ég það mjög mikilvægt í þessum efnum, hvernig atkvgr. fellur um þá till., sem minni hl. allshn. hefur lagt fram um þetta atriði. Ég álít, að á þeirri atkvgr., sem fram fer um þá till., muni það vel sjást, hver sé hin raunverulega afstaða alþm. til áfengismálsins og áfengisins. Ef menn líta svo á, að það sé rétt að tryggja æðstu valdamönnum þjóðfélagsins sem auðveldastan aðgang að þessum munaðarvörum, er Ákaflega erfitt að reikna með því, að sámu menn hafi nokkurn sérstakan áhuga á því að vinna gegn áfengisnautninni og að auknu bindindisstarfi.

Það, sem ég held að sé eitt mesta óhappið, sem hefur gerzt í áfengismálunum að undanförnu, er sá þáttur í setningu áfengislaganna frá 1954, að þá var unga fólkinu opnaður greiður gangur að vínsöluhúsunum, án þess að það væri látið nokkuð koma í staðinn, nokkur starfsemi koma í staðinn til þess að vega á móti þessu. í áfengislagafrv. frá 1954, eins og það var upphaflega lagt fyrir þingið, var gert ráð fyrir því, að jafnhliða þessari opnun vínsöluhúsanna, sem þá átti sér stað, skyldu teknar upp auknar áfengisvarnir og aukin æskulýðsstarfsemi, til þess að vega á móti því, að unga fólkið sækti vínsöluhúsin. í þessu frv. var ákvæði um það, að nokkrum hluta af tekjum áfengisverzlunarinnar yrði varið til þess að styrkja áfengisfræðslu og æskulýðsstarfsemi, sem ynni gegn áfengisnautn, að styrkja t.d. íþróttastarfsemi og ýmsa tómstundastarfsemi unga fólksins o.s.frv. Illu heilli var þessi fjárveiting felld niður úr frv. og lögin afgreidd án þess að áfengisvarnastarfseminni væri séð fyrir nokkru sérstöku fé til þess að halda starfsemi sinni uppi, enda hefur niðurstaðan orðið sú þrátt fyrir góðan vilja þeirra manna, sem hafa valizt í áfengisvarnaráð og áfengisvarnanefndir, að áfengisvarnakafli áfengislaganna hefur orðið meira og minna tómur bókstafur, vegna þess að það hefur skort fjármagn til þess að fylgja þessum ákvæðum laganna eftir. Það hefur vantað fjármagn til þess að styrkja bindindisstarf og æskulýðsstarfsemi, sem ynni eitthvað á móti þeirri opnun vínsöluhúsanna, sem átti sér stað með áfengislöggjöfinni frá 1954. Og af því mörgu, sem til greina kemur í þeirri sókn, sem nú þarf að hefja gegn. áfengisneyzlunni, hinni miklu og vaxandi áfengisneyzlu, er einmitt að taka upp þetta ákvæði áfengislagafrv. frá 1954 um að verja hæfilegu fjármagni til þess, að hér sé hægt að koma upp æskulýðsstarfsemi, sem eitthvað vinnur gegn vínsöluhúsunum og getur keppt við þau um unga fólkið. Þess vegna fagna ég þeirri till., sem minni hl. allshn. hefur lagt fram við þetta frv., sem er þess efnis, að a.m.k. 5 millj. kr. af tekjum áfengisverzlunarinnar skuli varið til áfengisvarnastarfsemi, bindindisfræðslu og til æskulýðsstarfsemi, sem sé líkleg til að vinna gegn áfengisnautn og beina unga fólkinu frá vínsöluhúsunum. Að sjálfsögðu er það margt, sem til greina kemur í þeim efnum að vinna gegn áfengisnautninni. Ég skal hins vegar játa það, að ég er þeirrar skoðunar, að ég legg miklu meiri trú á áfengisfræðslu og heilbrigða æskulýðsstarfsemi í þeim efnum en mjög öflug bönn. Bönn geta komið að gagni innan vissra takmarka, en þau geta aldrei leyst þetta mál til fulls, og ég held, að það sé miklu frjósamari aðferð og heppilegri að vinna gegn áfengisneyzlunni með hollri æskulýðsstarfsemi og með heilbrigðri fræðslu á þeim vettvangi, þar sem hún á við, eins og t.d. í skólunum. kannske ekki sízt í barnaskólunum og gagnfræðaskólunum. En þessi starfsemi hefur því miður fallið að mestu leyti niður á undanförnum árum, vegna þess að það hefur ekki verið fjármagn til þess að framkvæma þann þátt áfengislaganna, sem fjallar um áfengisvarnir. Og ég verð nú að segja það, að fyrst áfengislögin eru á annað borð opnuð hér á Alþingi og á að gera tilraun til að gera á þeim einhverjar lagfæringar og samræma þau þeim viðhorfum og aðstæðum, sem nú eru, þá finnst mér, að það minnsta, sem hægt sé að gera, sé einmitt það að tryggja nokkra fjárveitingu til þess, að áfengisvarnakafli laganna verði raunverulega framkvæmdur, en hann verði ekki látinn vera dauður bókstafur, eins og átt hefur sér stað þau undanfarin 10 ár, sem áfengislögin hafa verið í gildi. Og sannleikurinn er sá, að það er bezt fyrir Alþ. að gera sér það ljóst, að þegar þessi fjárveiting var felld niður úr áfengislagafrv. 1954, þegar það mál var til meðferðar hér á Alþ., voru það raunverulega svik við bindindismenn, sem þá áttu sér stað. En eins og kunnugt er, var unnið að áfengislagafrv. frá 1954 undir forustu hæstv. núv. forsrh. á þann hátt, að sérstök nefnd vann að samningu frv., og í þeirri nefnd áttu m.a. sæti bæði fulltrúar bindindismanna og fulltrúar vínsöluhúsanna og fleiri aðilar, sem vildu opna sem mest fyrir áfengisflóðið. Og það varð að samkomulagi milli þessara aðila, að gegn því, að bindindismenn þeir, sem í nefndinni voru, m.a. Brynleifur heitinn Tobíasson, féllust á það, að verulega væri rýmkað um starfsfrelsi vínsöluhúsanna, þá kæmi þetta á móti, ákveðin fjárveiting til þess að tryggja það, að hægt væri að halda uppi hæfilegum áfengisvörnum og aukinni æskulýðsstarfsemi, sem ynni gegn áfengisnautn. Þess vegna voru bindindismenn raunverulega sviknir, þegar þetta ákvæði um fjárveitinguna var fellt niður úr lögunum. Og það væri þess vegna ekkert annað en að efna þetta gamla samkomulag við þá, að þessi fjárveiting væri nú tekin upp.

En það, sem ég vildi svo segja að lokum, er það, að ég teldi það mjög til bóta og mikinn þátt í þeirri sókn gegn áfengisbaráttunni, sem nauðsynlegt er að hefja, þó að margt fleira þurfi að gera, að samþykkja þær tvær till., sem hv. minni hl. allshn. hefur lagt til, — að það sé mjög til bóta, og ég tel það í raun og veru algert lágmark, sem Alþ. getur nú gert í þessum efnum, ef það á annað borð vill hafa nokkur afskipti af þessum málum. Það frv., sem hér liggur fyrir, þó að sum ákvæði þess stefni í rétta átt, nær allt of skammt í þeim efnum, og ég hef ekki trú á því heldur, að það hafi verulega þýðingu. En ef það yrði viðurkennt af löggjafanum, að nú skuli það fellt niður, að það skuli vera talin einhver sérstök forréttindi að láta okkar æðstu valdamenn hafa aðgang að ódýru áfengi og ódýru tóbaki, þá væri a.m.k. viss mórölsk vísbending, sem í því fælist, og svo hitt, að ef það væri veitt sérstök fjárveiting, ekki lægri en minni hl. fer fram á, til áfengisvarnanna og til æskulýðsstarfsemi, sem vinnur gegn áfengisnautninni, — þetta tvennt er algert lágmark af því, sem Alþ. þarf að gera að þessu sinni. Og það, sem ég álít að ætti að gera jafnframt því, að frv. verður afgr. í þessu formi, væri það, að sett yrði sérstök nefnd, t.d. kosin af Alþ., sem ynni að því að endurskoða áfengislögin fyrir næsta þing með tilliti til þess, að aukin sókn verði tekin upp í þessum efnum gegn hinni sívaxandi áfengisnautn.