27.02.1964
Neðri deild: 62. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1806)

17. mál, áfengislög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. með því frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., eru tildrög þess, að frv. var hér flutt, þau, að óvenjumikill drykkjuskapur hafði átt sér stað í ferðalagi æskufólks hér sunnanlands í Þjórsárdal á hvítasunnunni á s.l. ári. Vegna þeirra atburða, sem þarna gerðust, hafði verið skipuð nefnd manna til þess að rannsaka það, sem þarna hafði farið fram, og hvað gera mætti til þess að reyna að koma í veg fyrir slíka atburði. Og viðbrögðin, sem síðan hafa orðið, eru þau, að frv. það, sem hér liggur fyrir, var lagt fyrir Alþ., þar sem gert er ráð fyrir nokkrum breytingum á áfengislögunum.

Ég verð að segja það, að mér finnst, að þær breytingar, sem er að finna í þessu frv., séu harla smávægilegar með tilliti til þess vandamáls, sem hér er við að glíma. Maður verður í rauninni að leita allvandlega í frv. til þess að finna nokkuð í því, sem megi telja til verulegra bóta frá því, sem verið hefur, utan það ákvæði, sem er að finna í 2. gr. frv., þar sem bifreiðastjórum er bannað að aka drukknum unglingum eða stuðla að því á einn eða neinn hátt, að unglingar geti haft vín um hönd í bifreiðum þeirra. Breyting eins og sú, sem er að finna í 1. gr., þar sem sú endurbót er gerð á lagaákvæðinu um það, að óheimilt sé að selja ungmennum, sem eru yngri en 21 árs að aldri, áfengi eða veita þeim áfengi, en við þetta ákvæði er bætt í þessari frvgr. þessum orðum, að það sé óheimilt að veita þeim áfengi með nokkrum hætti, — ég á afskaplega erfitt með að finna það, að þetta breyti á nokkurn hátt frá því, sem verið hefur, um sjálft efni málsins. Sem sagt, mín skoðun er sú, að breytingarnar, sem er að finna í frv., séu fremur smávægilegar og þær hljóti eðli málsins samkvæmt að áorka lítið til bóta í sambandi við vaxandi drykkjuskap í landinu og alveg sérstaklega vaxandi drykkjuskap unglinga.

Mér sýnist, að þetta frv. beri þess öll merki, að það er í rauninni verið að snúast í kringum vandamálið eins og köttur snýst í kringum heitan graut. Það er engin dirfska til í því, hvernig taka á á sjálfu vandamálinu. Sannleikur málsins er sá að mínum dómi, að það skortir ekki fyrst og fremst lagaákvæði í þessum efnum. Það er að finna talsvert mikið af bönnum og boðum í löggjöf í sambandi við sölu og veitingar á áfengi og í sambandi við drykkjuskap. En samt flæðir nú allt út í ósóma í þessum efnum, eins og flestir verða að viðurkenna, og þá er fitjað upp á því: Ja, er nú ekki rétt að halla til orðalagi einhvers staðar á því, sem fyrir er að finna, eða þá, eins og æðioft hefur komið fram hér á Alþingi, að menn tala um það að létta eitthvað á bönnunum, breyta eitthvað svolítið til, þá muni verða minna um lögbrot, þá muni þetta vera allt auðveldara í meðförum.

Þetta fengum við mjög að heyra hér, þegar þau áfengislög voru sett, sem enn eru hér í gildi og tóku gildi á árinu 1954. Þá var því mjög haldið fram, að þær breytingar, sem þá var verið að gera á áfengislögunum, ættu að bæta stórkostlega um það ástand, sem þá ríkti í áfengismálunum. Þá höfðu þær reglur verið í gildi hér um alllangan tíma, að aðeins eitt veitingahús í höfuðborginni hafði leyfi til vínveitinga, það var Hótel Borg. Þetta þótti ýmsum ekki fullnægjandi, eins og ástandið var, og það reis upp allmikið stríð um þetta. Fulltrúar annarra veitingahúsa hér í höfuðborginni gerðu miklar kröfur til ríkisvaldsins og heimtuðu þennan rétt sér til handa líka, og það var mjög dregið fram, að hvers konar spilling og vandræði fylgdu þessu einokunarfyrirkomulagi, sem þarna væri um vínveitingar hjá þessu eina hóteli í bænum. Og svo kom fram frv. hér á Alþ. um það, að nú skyldu mörg önnur veitingahús í bænum fá sams konar vínveitingaleyfi, þá gætu menn losnað við alla þá spillingu og þau leiðindi, sem fylgdu því, að menn væru að potast inn á samkomustaði á ólöglegan hátt með áfengi, þá gæti þetta allt saman farið fram eftir settum reglum og hér yrði tekin upp miklu meiri vínmenning, eins og það var orðað. Sem sagt, breytingarnar, sem þá voru gerðar, voru gerðar undir þessu kjörorði, að það átti að gera framkvæmtlina í þessum efnum á allan hátt betri en áður var, auðveldara að fylgja fram lagaákvæðum og koma á meiri reglu í þessum efnum. En reynslan hefur nú alveg ótvírætt sannað það, sem við héldum þá fram hér á Alþingi, sem vorum á móti þessari breytingu. Hér var ekki á ferðinni nein tilraun til þess að gera ástandið í áfengismálum þjóðarinnar betra. Hér var verið að knýja fram breytingar, sem miðuðu að því að gera drykkjuskapinn í landinu útbreiddari en hann var nokkurn tíma áður, að gera t.d. ungu fólki, sem sækir samkomustaðina, auðveldara um að fá keypt áfengi á samkomustöðum en áður var. Og þetta hefur líka orðið útkoman. Drykkjuskapurinn hefur ekki minnkað hér á samkomustöðum frá því, sem var, heldur þvert á móti. Afleiðingin hefur m.a. orðið sú, að upp úr hefur soðið á þann hátt, sem gerði á hvítasunnuhátíðinni á s.l. ári og frægt er orðið. Drykkjuskapurinn hefur ekki farið minnkandi hjá ungu fólki, heldur hefur hann aukizt.

Og nú er enn boðað hér í sambandi við afgreiðslu á þessu máli frá meiri hl. þeirrar n., sem fjallað hefur um þetta frv., till. um það, að nú skuli rýmka enn nokkuð til, m.a. undir kjörorðinu um, að þá verði betra að halda reglurnar, þá verði auðveldara að framkvæma lögin. Nú skuli ekki gilda áfram bann, sem búið er að gilda í langan tíma, að óheimilt sé að selja ungmennum áfengi eða veita þeim áfengi, séu þeir undir 21 árs aldri. Nú sé rétt að færa þetta niður í 18 ár, svo að 18 ára unglingar geti þó gengið í áfengisútsölur og keypt sér þar alveg refjalaust áfengi. Og að þeir geti þá fengið einnig fulla afgreiðslu á vínveitingahúsum, þeir sem eru á þessu aldursstigi, á milli 18 og 21 árs, en hefur verið bannað það að undanförnu. Og því er haldið fram, að það eigi að gera þessa breytingu til þess að auðvelda framkvæmd laganna. Ég dreg auðvitað enga dul á það, að ég er algerlega á móti þessari breytingu, tel hana til hins verra og hættulega, eins og ástandið er í þessum málum í dag, að koma fram með slíkan boðskap sem þennan, því að hann geri ekki annað en ýta undir það, að fleiri og fleiri ungmenni stundi drykkjuskap að meira eða minna leyti. En það skal ég fyllilega játa, að ef ég hefði trú á því, að nú ætti virkilega að halda sér við þetta ákvæði í framkvæmdinni og héðan af yrði séð um það, að jafnt út úr áfengisverzlunum landsins sem á vinveitingahúsum gæti enginn án verulega mikillar áhættu, sem yngri er en 18 ára, fengið afhent áfengi, þá mundi ég ekki standa í deilu við einn eða neinn um það, hvort aldursmarkið væri 18 eða 21 ár, það skal ég játa. En það er bara ekki þetta, sem vandinn snýst um. Ég er alveg sannfærður um það, að það fer auðvitað eins í þetta skiptið og hin fyrri skiptin, að þó að aldursmarkið væri bundið við 18 ár, en ekki 21, yrði það brotið, eins og hitt ákvæðið hefur verið brotið, með aldursmarkið 21 árs. En eigi að síður er þessi niðurfærsla ákveðin tilkynning frá hálfu Alþ., ef hún verðum samþykkt, um það, í hvaða átt þessi mál stefna hjá okkur, og það hefur sín áhrif.

Aðalvandamálið í þessum efnum er, að það er ekki séð um að framfylgja þeim lagaákvæðum, sem í gildi eru um áfengismál. Það er fullkominn óvilji ríkjandi hjá yfirmönnum lögregluvaldsins í landinu að framfylgja þeim lagaákvæðum. Það væri vitanlega hægt að standa að framkvæmd þessara mála á allt annan hátt en gert hefur verið. Eins og ég sagði, er það búið að standa lengi í lögum hjá okkur, að það er bannað að afhenda eða veita ungmennum undir 21 árs aldri áfengi. En samt koma upp slík tilfelli eins og gerðust á síðustu hvítasunnuhátíð í Þjórsárdal, að mörg hundruð ungmenna, allt niður í 14 og 15 ára aldur, eru tekin ósjálfbjarga af drykkjuskap og lögreglan stendur í því að taka þetta fólk. En hvert var svo áframhaldið í sambandi við þetta mál? Var leitað eftir þeim, sem virkilega höfðu brotið lögin? Var einhver gangskör gerð að því að hafa upp á þeim, sem höfðu selt eða afhent með einhverjum hætti unglingunum þetta áfengi, sem olli drykkjuskapnum? Var reynt að hafa upp á lögbrjótunum, þeim sem brutu lögin? Nei, það var ekkert gert í því, og það er aldrei gert neitt í því. Það er sannleikur málsins. Það er auðvitað enginn vafi á því, að þar sem það gerist, að ungmenni undir 21 árs aldri eru tekin á einn eða annan hátt ölvuð, á vitanlega að fara fram rannsókn á því, hvaðan áfengið kom, hver afhenti þeim áfengið, hver braut lögin. Og það á að láta þá, sem brotið hafa lögin, sæta sektum, missa vínveitingaréttindi, ef það eru einhverjir slíkir menn. Og við skyldum bara sjá, ef þetta væri gert og gert alveg svika- og undanbragðalaust, hvort menn höguðu sér ekki nokkuð öðruvísi í þessum efnum, að afhenda áfengi og selja áfengi til þeirra, sem má ekki afhenda áfengi, heldur en nú hefur verið gert. Þetta er vandinn í málinu. Er hægt að koma því fram, að lögregluyfirvöldin í landinu vilji raunverulega framkvæma þau ákvæði, sem í gildi eru í áfengislöggjöf okkar?

Ég er á þeirri skoðun, að það beri miklu fremur að stefna að því að herða á ýmsum sektar- og refsiákvæðum, sem í áfengislögunum eru, heldur en að draga úr slíkum ákvæðum. Og ég held, að það eigi að hamra á því áfram, eins og gert hefur verið af ýmsum mönnum á undanförnum árum, að þeir, sem hafa með framkvæmd l. að gera, standi betur í stöðu sinni en þeir hafa gert. í gildandi lögum eru nú ákvæði um það, að jafnan skuli hver og einn, sem kaupir áfengi eða fær áfengi afhent, verða að framvísa vegabréfi til sönnunar aldri sínum. Hvernig hefur þessu ákvæði verið framfylgt? Hafa menn í vínveitingahúsunum hér í bænum verið látnir framvísa vegabréfum, eins og stendur í l.? Nei. Enn á auðvitað að endurtaka þetta í þessum breytingum. Vegabréfi skal framvísa, og nú er mikið talað um, að það eigi að taka upp þessa reglu. En verður það gert? Verður séð um framkvæmdina á heiðarlegan hátt?

Ég held, að það, sem eigi að gera í þessum efnum, eins og málin standa nú, sé í fyrsta lagi að gera ýmis refsiákvæði l. allmiklu strangari en þau eru. Í öðru lagi eigi að ganga fast eftir því, að t.d. vegabréfaskyldunni sé framfylgt. Og svo er nauðsynlegt, að allir opinberir aðilar hætti öllu dekri við drykkjuskapinn í landinu. Það á hvorki að verðlauna einn né neinn fyrir það að stunda drykkjuskap. Það á ekki að hlífa einum eða neinum, hvorki í dómum né á annan hátt, vegna þess, að hann hafi verið drukkinn, eins og mörg dæmi eru til um. Það á ekki að afsaka menn með ölvun, og það á ekki að vera í gildi hér hjá okkur lengur, að við séum að verðlauna eða heiðra einn eða neinn, t.d. hér á Alþingi eða í ríkisstj., með sérstökum hlunnindum í sambandi við vínveitingar. Slíkt á að leggjast niður. Svo er auðvitað mjög þýðingarmikið í þessum málum að auka verulega fjárframlög til æskulýðsstarfsemi í landinu og gera miklu meira að því að reyna að beina hugum æskufólksins að öðru en að þeim samkomustöðum í landinu, sem þykjast endilega þurfa að hafa vin til afgreiðslu. Við þurfum virkilega samkeppni, m.a. á samkomustöðum, samkeppni við vinveitingasamkomurnar. Við þurfum á samkeppni að halda við slíka staði.

Ég hef hugsað mér að flytja hér ásamt hv. 10, landsk. þm. (GeirG) tvær brtt. við frv., eins og það liggur hér fyrir. Fyrri brtt. okkar er við 1. gr. frv., að við hana bætist svo hljóðandi mgr., með leyfi hæstv. forseta: „Verði ungmenni undir 21 árs aldri uppvíst að ölvun, skulu vilkomandi lögregluyfirvöld skyld að hefja rannsókn á því, hver selt hefur eða veitt áfengið, og skulu hinir seku sæta sektum.“ Með þessari till. er beinlínis gert ráð fyrir því að skylda lögregluyfirvöldin til þess, þegar slíkt kemur fyrir, að ungmenni innan 21 árs aldurs er tekið ölvað, að láta rannsókn fara fram á því, hver er raunverulega sá seki, og koma fram sektum á slíka aðila.

2. brtt. er við 3. gr. frv., en í 3. gr. frv. stendur m.a.: „Ungmennum 18 ára eða yngri er óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á veitingastað, þar sem vínveitingar eru leyfðar, nema í fylgd með forráðamönnum sínum.“ Við leggjum til, að þetta undanþáguákvæði: „nema í fylgd með forráðamönnum sínum,“ verði fellt niður. Það er vitanlega engin trygging fyrir því, að þau ungmenni, sem eru inni á vínveitingastöðum og mega ekki samkv. lögum þiggja þar slíkar veitingar sem áfengið er, geri það ekki, þó að þau séu í fylgd með forráðamönnum sínum. Það á vitanlega að afnema þetta og banna með öllu, að þeir, sem yngri eru en 18 ára, séu inni á þessum vinveitingastöðum eftir kl. 8 á kvöldin. Þá mætti vel segja mér það, að ef staðið yrði heiðarlega að því, færu sumir staðirnir, sem hafa sótt mjög eftir vínveitingaleyfi, að hugsa sig um, hvort væri nú betra að hafa vínveitingaleyfið og vera laus við öll ungmenni upp að 18 ára aldri í landinu eða hvort þeir vildu fá ungmennin á samkomu til sín. En það er auðvitað nokkuð gott að hafa unglingana alla, eins og nú er gert, og vínveitingaleyfið til viðbótar. Það á að loka fyrir þessa smugu að okkar dómi, og það gæti orðið nokkuð til bóta.

Um afstöðu til þeirrar till., sem hér hefur verði flutt um það að afnema þau sérstöku vínréttindi, sem í gildi hafa verið hér um sinn til forseta þingsins og ráðh., þá er ég einnig á þeirri skoðun, að það sé rétt að samþykkja slíka till., það beri að afnema þessi sérstöku réttindi. Þau eru til ills í þessum málum. Á því er auðvitað enginn vafi, að þær vínveitingar, sem fara fram á vegum ríkisins í opinberum veizlum, þegar slíkar veitingar eru þar hafðar um hönd, verða greiddar af ríkinu og eru greiddar af ríkinu. En þær vínveitingar, sem eru á vegum þessara aðila sjálfra, eiga þeir þá að borga á því verði, sem almennt gildir í landinu, og slík fríðindi sem þessi eiga að leggjast af. Ég held, að afnám þeirra mundi út af fyrir sig, þó að segja megi, að það sé ekkert stórmál, hafa heldur góð áhrif í þessum málum og það ætti því að samþ. till. um afnám þessara réttinda.