01.11.1963
Neðri deild: 9. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (1813)

56. mál, launamál o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Fyrir tæpum 4 árum hófst núv. ríkisstj. handa um þá viðreisn efnahagslífsins, sem hafði verið skotið á frest æ ofan í æ mörg undanfarin ár. Þá hafði verið halli á greiðsluviðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd að heita mátti óslitið frá því í lok styrjaldarinnar. Sá halli hafði farið vaxandi síðustu árin og leitt til þess, að gjaldeyriseign þjóðarinnar var þorrin og lánstraust hennar erlendis glatað, en þjóðin riðaði á barmi greiðsluþrots og algers glundroða. Verðkerfið var með öllu gengið úr skorðum. Engar vörur voru fluttar til landsins eða frá á skráðu gengi, heldur á margvíslegu öðru gengi, sem ákveðið var með gjöldum á innfluttar vörur og uppbótum á útfluttar vörur. Reynt var að afla fjár til greiðslu útflutningsuppbóta með því að örva sem mest innflutning hátollaðra lúxusvara eða munaðarvöru. Annar innflutningur var háður ströngum höftum og sömuleiðis öll önnur gjaldeyrisviðskipti. Flestar framkvæmdir aðrar en byggingar íbúðarhúsa voru háðar leyfum. Verðlag og kaupgjald hækkaði á víxl. Sparnaður fór minnkandi í hlutfalli við þjóðartekjur. Útflutningsuppbætur og háir tollar stuðluðu að óhagkvæmum rekstri atvinnufyrirtækjanna.

Þetta ástand efnahagsmála hafði haft alvarleg áhrif á framþróunina í landinu. Framkvæmdir höfðu verið miklar, en gefið tiltölulega lítið í aðra hönd. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur höfðu vaxið hægar en í flestum nágrannalandanna og lífskjör því einnig batnað hægar en í þessum löndum. Fyrirsjáanlegt var, að svo framarlega sem róttæk breyting væri ekki gerð á stefnunni í efnahagsmálum, væru enn alvarlegri afleiðingar á næsta leiti.

Gjaldeyrisskorturinn hlaut að torvelda framleiðslu og skortur erlends lánsfjár og innlends sparifjár að draga úr framkvæmdum. Bóta- og gjaldakerfið varð sífellt þyngra í vöfum og beindi framleiðslunni æ meir í óheilbrigðar áttir.

Horfur í þessu efni höfðu legið ljóst fyrir. Vandlegar athuganir höfðu farið fram á vegum hverrar ríkisstj. á fætur annarri og ætið leitt hið sama í ljós. Þegar á átti að herða, skorti hins vegar ætíð samstöðu innan ríkisstj. þeirra, sem með völd fóru, til þess að snúast af einurð gegn vandanum, sem þar af leiðandi fór vaxandi með hverju ári. Það var ekki fyrr en árið 1959, að ný viðhorf sköpuðust. Ríkisstj. Alþfl. gat þá framkvæmt bráðabirgðaaðgerðir til þess að stöðva þá öru verðbólguþróun, sem keyrir um þvert bak haustið 1958. Þegar núv. ríkisstj, var mynduð, varð loks til nægilega sterkur og samhentur meiri hl. á Alþingi og með þjóðinni til þess að hrinda fram þeirri stefnubreytingu, sem lengi hafði verið nauðsynleg og nú var orðin með öllu óhjákvæmileg.

Sá árangur, sem af þessari stefnubreytingu hefur leitt á undanförnum 4 árum, er mikill og margvíslegur. Endir bundinn á hallann í greiðsluviðskiptunum, og í fyrsta sinn síðan á styrjaldarárunum varð afgangur í þessum viðskiptum bæði árið 1961 og 1962. Tekið var fyrir aukningu gjaldeyrisskulda og gjaldeyrisforði myndaðist, er var meiri en þjóðin hafði nokkru sinni haft yfir að ráða síðan í lok styrjaldarinnar. Unnt reyndist að gefa innflutning frjálsan að langsamlega mestu leyti og sömuleiðis önnur gjaldeyrisviðskipti og framkvæmdir allar. Sparnaður jókst mjög í landinu, þegar fólkinu var ljóst, að breytt hafði verið um stefnu. Traust þjóðarinnar erlendis var endurreist.

Þegar ákvarðanir á sínum tíma voru teknar um aðgerðir í efnahagsmálum á árinu 1360, hafði verið ráð fyrir gert, að fullur árangur þeirra ráðstafana mundi ekki nást nema með því móti, að lífskjör versnuðu nokkuð í bili og framkvæmdir minnkuðu. Eitt aðalatriði ráðstafananna var einmitt að reyna að búa svo um hnútana, að rýrnun lífskjara kæmi ekki niður á þeim, sem erfiðast ættu með að bera hana. Þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir, benda hins vegar til þess, að engin teljandi rýrnun lífskjara hafi átt sér stað á árunum 1960 og 1961. Hins vegar dró á þessum árum úr ýmsum tegundum framkvæmda, og stuðlaði það að því, að árangur næðist. Þetta millibilsástand stóð þó skamma hríð og skemmri en menn upphaflega höfðu þorað að gera sér vonir um.

Þegar á árinu 1962 hafði hin nýja stefna í efnahagsmálum þegar skapað grundvöll fyrir auknum framkvæmdum og bættum lífskjörum, sem góð aflabrögð og hagstætt verðlag á útflutningsafurðum enn styrktu. Í stuttu máli má segja, að aldrei hafi þjóðin veitt sér jafnmikið, aldrei framkvæmt jafnmikið og aldrei lagt upp jafnmikið sem síðustu tvö árin. Þegar breyting stefnunnar í efnahagsmálum var framkvæmd 1960, var treyst á aðgerðir í peningamálum og fjármálum fyrst og fremst. Á hinn bóginn var það ljóst, að fullur árangur hinnar nýju stefnu gæti ekki náðst og varanlegt jafnvægi skapazt í efnahagsmálunum, nema fylgt væri þeirri stefnu í launamálum, að laun hækkuðu ekki meira en vöxtur þjóðarframleiðslu og hækkanir á verði útflutningsafurðanna leyfðu. Ríkisstj. hvatti samtök launþega og vinnuveitenda frá upphafi til þess að fylgja slíkri stefnu og staðfesta hana með samningum sín á milli, því að henni var alltaf ljóst og lýsti yfir því æ ofan í æ, að víxlhækkanir kaupgjalds og afurðaverðs umfram það, sem aukning þjóðartekna þyldi, hlytu „að valda verðbólgu, sem fyrr eða síðar mundi gleypa ávexti þess, sem bezt. hefur tekizt,“ svo að vitnað sé í ein af ótalmörgum ummælum af hálfu ríkisstj.

Hér var við mikla erfiðleika að etja. Heildarsamningar um laun, líkt og tíðkast í mörgum nágrannalandanna, hafa aldrei verið gerðir hér á landi, og um samræmda stefnu í launamálum hefur ekki heldur verið að ræða, hvorki af hálfu samtaka launþega né vinnuveitenda. Sjálft skipulag samtakanna er með þeim hætti, að torvelt er að koma á heildarsamningum eða samræmdri stefnu í launamálum. Afleiðingin er sú, að á milli einstakra hópa laumþega og á milli launþega og bænda er háð kapphlaup um að ná til sín sem mestu, án allrar hliðsjónar af aukningu þjóðarteknanna, sem kröfurnar þó verða að miðast við. Þetta kapphlaup er enn ákafara þau ár, sem þjóðarframleiðslan vex mikið, en þau árin, sem hún vex lítið. Tekjuhækkanir, sem verða af sérstökum ástæðum hjá einstökum starfshópum, eins og t.d. hjá sjómönnum vegna góðs afla, leiða til þess, að aðrir hópar krefjast sams konar hækkana. Hið sama á sér stað, þegar reynt er að leiðrétta samræmi í launakjörum eins hóps í samanburði við aðra. Enda þótt það sé í orði viðurkennt, að leiðréttingin sé réttmæt, er hún eigi að síður notuð sem grundvöllur að nýjum kröfum annarra hópa. Launahækkanir af þessu tagi leiða ekki til bættra lífskjara, heldur til hækkaðs verðlags, sem svo verður upphaf nýrrar kröfugerðar. Við slíkar aðstæður getur varanlegt jafnvægi ekki skapazt í efnahagsmálum og öruggur vöxtur þjóðarframleiðslunnar ekki náðst.

Þetta ástand í launamálum olli miklum erfiðleikum þegar á árinu 1961. Launahækkanir, er gerðar voru á því sumri, voru langt umfram það, sem vexti þjóðarteknanna nam. Árangur viðreisnarinnar var þá rétt að byrja að koma í ljós. Gjaldeyrisforði var enn litill, og sjávarútvegurinn hafði enn ekki rétt sig við eftir mikið verðfali á útflutningsafurðunum og slæma síldarvertíð árið áður. Hinar miklu launahækkanir hlutu því von bráðar að leiða til hallarekstrar atvinnufyrirtækja og samdráttar í framleiðslu og framkvæmdum, jafnframt því sem greiðsluhalli við útlönd myndaðist á nýjan leik. Efnahagur landsins var enn of veikur til að þola slíka erfiðleika, jafnvel um skamma hríð, og var því ekki um annað að ræða en lækka gengið þegar í stað. Eftir að það hafði verið gert, skapaðist fljótlega jafnvægisástand að nýju og gjaldeyrisforðinn hélt áfram að vaxa.

Sömu erfiðleikar í launamálum gerðu hins vegar vart við sig að nýju árið 1962. Það ár var eitt hið hagstæðasta fyrir þjóðarbúskap íslendinga. Útflutningsframleiðslan var mikil og vaxandi og þjóðarframleiðsla í heild óx um 7% frá árinu áður. Hins vegar hækkuðu bæði laun og tekjur mun meira en svaraði aukningu þjóðarteknanna, en það hlaut að leiða til verðhækkana. Íslendingar báru því ekki gæfu til að nota þetta einstaka árferði til þess að tryggja samtímis aukna almenna velmegun og stöðugt verðlag. Hækkun launataxta á árinu 1962 nam þannig rúmlega 12%, en að meðaltali jukust launatekjur launþega um tæp 23%, og áttu hinar miklu tekjur í sjávarútveginum mikinn þátt í þeirri aukningu. Þótt þessi mikla tekjuaukning hefði í för með sér hækkandi verðlag á árinu 1962, komu áhrif hennar ekki fram í versnandi greiðslujöfnuði gagnvart útlöndum vegna þess, hve geysilega mikil aukning átti sér stað í útflutningsframleiðslunni. Það var hins vegar fyrirsjáanlegt, að hin mikla tekjuaukning, sem átt hafði sér stað á árinu 1962, mundi leiða til versnandi aðstöðu gagnvart útlöndum á árinu 1963, nema aukning útflutningsframleiðslunnar yrði jafnör og árið 1962.

Þegar ríkisstj. lagði fram þjóðhags- og framkvæmdaáætlun sina í aprílmánuði s.l., var gert ráð fyrir því, að einkaneyzla og fjárfesting ykjust nokkru örar á árinu 1963 en þjóðarframleiðslan, en það mundi svo aftur hafa í för með sér nokkurn halla á greiðslujöfnuði við útlönd. Þessi halli var þá áætlaður 245 millj. kr., en á árinu 1962 hafði greiðsluafgangur numið svipaðri upphæð. Þessi halli var að dómi ríkisstj. ekki óeðlilega mikill með tilliti til hins mikla skipainnflutnings, sem áætlaður var á árinu. Framkvæmd áætlunarinnar á árinu 1963 hugðist ríkisstj. treysta með því að halda áfram þeirri stefnu aðhalds í fjármálum og peningamálum, sem fylgt hafði verið undanfarin tvö ár. En það var engu að síður augljóst, að meginskilyrðið fyrir því, að þolanlegt jafnvægi héldist á árinu 1962, var, að launþegum og atvinnurekendum tækist að marka stefnu í launamálum, sem væri í samræmi við afkomu atvinnuveganna og þjóðarbúsins í heild.

Nú er ljóst orðið af þeim tölum, sem fyrir liggja, að þróunin hefur orðið mun óhagstæðari en ráð hafði verið fyrir gert. Einkaneyzla hefur líklega aukizt hér um bil helmingi meira en áætlað hafði verið, en þó virðist fjárfesting einkaaðila hafa aukizt enn þá örar. Hefur bæði einka- og samneyzla aukizt um a.m.k. 6% og fjárfestingin um 28%, en þjóðartekjurnar sennilega aðeins um 4%. Þetta hefur svo leitt til þess, að innflutningur hefur vaxið hröðum skrefum og greiðslujöfnuður farið versnandi. Til septemberloka jókst innflutningur án skipa þannig um 27% miðað við 1962, en verðmæti útflutnings jókst aðeins um 6%. Útlit er nú fyrir, að niðurstaða af greiðslujöfnuðinum við útlönd í heild verði talsvert lakari en áætlað var í apríl s.l., sem sýnir þá örðugleika, sem nú er við að stríða í efnahagsmálum í heild.

Of mikil útiánsaukning samfara mikilli notkun stuttra erlendra vörukaupalána átti þátt í að ýta undir þá miklu þenslu, sem átt hefur sér stað í efnahagskerfinu undanfarna mánuði. Til þess að stemma stigu við þessari þróun var í júlí beint til bankanna, að þeir gættu varúðar í útiánum, og í september voru gerðar frekari ráðstafanir af hálfu Seðlabankans og ríkisstj, til þess að draga úr útlánsaukningu og notkun stuttra vörukaupalána. Þær upplýsingar, sem fyrir liggja, benda til þess, að þessar ráðstafanir hafi haft nokkur áhrif, en það er skoðun ríkisstj., eins og ég mun koma nánar að síðar, að nauðsynlegt sé að gera mun víðtækari ráðstafanir í peninga- og fjármálum til að leiðrétta það jafnvægisleysi, sem nú hefur myndazt í efnahagskerfinu.

Önnur meginorsök þenslunnar og sú, sem vafalaust hefur orðið þyngst á metunum, hefur verið áframhaldandi óheillaþróun í launamálum. Víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags ásamt stórkostlegri kröfugerð af hálfu flestra eða allra hagsmunahópa þjóðfélagsins hefur ekki aðeins haft í för með sér örari tekjuaukningu en þjóðarframleiðslan hefur leyft, heldur hefur þetta jafnframt grafið undan trú manna á framtíðargildi peninganna, ýtt undir spákaupmennsku og komið af stað kapphlaupi um framkvæmdir og vörukaup af hálfu alls almennings. Þjóðin hefur farið í kapphlaup við sjálfa sig í eyðslu og kröfugerð. Þótt enginn vilji verða aftur úr í slíku kapphlaupi, ætti þó öllum Íslendingum að vera ljóst, að með þessum aðferðum getur enginn unnið á nema rétt í bili og þá á kostnað þjóðarheildarinnar, þegar til lengdar lætur. Það er því tvímælalaust í hag alls meginþorra almennings, að þessum leik verði lokið sem fyrst, áður en hagsmunum þjóðarinnar er unnið. enn meira tjón. Því er ekki að neita, að hin gífurlega tekjuaukning, sem einstakir hópar launþega hafa fengið og þá sérstaklega sjómenn á síldarbátunum, hefur haft truflandi áhrif og ýtt undir kröfugerð af hálfu annarra stétta. Sama máli gegnir um ýmsa hópa iðnaðarmanna, sem notið hafa góðs af hagstæðum uppmælingartöxtum, og nú síðast hefur leiðrétting á kjörum opinberra starfsmanna með kjaradómi orðið tilefni nýs samanburðar, enda þótt áður hafi virzt víðtæk samstaða um jafnvel enn meiri hækkanir þeim til handa. Þau vandamál, sem hér er við að eiga, eru óneitanlega mjög erfið. En þetta eru vandamál, sem launþegar sjálfir verða að horfast í augu við, þar sem kapphlaup á grundvelli þrotlauss samanburðar á milli stétta og starfshópa getur aðeins endað í upplausn og hörmungum fyrir þjóðina í heild.

Ríkisstj. hefur treyst því og viljað vinna að því í lengstu lög, að launþegar og atvinnurekendur leystu þessi mál með skynsamlegum samningum sín á milli, er gætu orðið grundvöllur heilbrigðrar þróunar í efnahagsmálunum. Þegar samningar tókust um það snemma á þessu ári, að lægst launuðu stéttirnar, sem minnsta hækkun fengu á árinu 1962, fengju 5% kauphækkun, var ríkisstj. ljóst, að komið væri mjög nærri þeim mörkum, er útflutningsatvinnuvegirnir og þjóðarbúið í heild þyldi án verulegra erfiðleika. Það liðu þó ekki nema nokkrir mánuðir, þangað til ný kröfugerð var uppi, svo að útlit var fyrir stórfelldar hækkanir eða langvarandi vinnudeilur á mesta bjargræðistíma ársins. Ríkisstj. beindi þeim tilmælum til deiluaðila, að þeir gerðu sameiginlega rannsókn á því, hver væri greiðslugeta atvinnuveganna og hvaða kaupgjald væri samrýmanlegt heilbrigðum rekstri þeirra. Samningar tókust á þjóðhátíðardaginn 17. júní, og skyldu þeir gilda til 15. okt., en sá tími notaður til þess, að fulltrúar launþega og atvinnurekenda gætu gert rækilega rannsókn á afkomuhorfum atvinnuveganna og því kaupgjaldi, sem þeim væri unnt að bera. Jafnframt var samið um 7.5% eða hærri kauphækkun flestra stétta næstu vikur á eftir. Þótt ríkisstj. teldi þessar kauphækkanir óeðlilega miklar og til þess líklegar að ýta undir nýjar víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, var hún engu að síður þeirrar skoðunar, að mikilvægum áfanga væri náð, ef fulltrúar launþega og atvinnurekenda féllust á að setjast við sama borð og rannsaka af kostgæfni og öfgalaust öli þau gögn, sem fyrir liggja um afkomu íslenzkra atvinnuvega og möguleika þeirra til þess að bera hærra kaupgjald. Vildi ríkisstj. gera allt, sem í hennar valdi stæði, til þess að þessi athugun gæti borið sem ríkulegastan ávöxt og orðið grundvöllur gagnkvæms skilnings og nýs raunsæis í launasamningum.

Áður en ég ræði þær leiðir, sem til greina koma til að ráða fram úr þeim örðugleikum í efnahagsmálum, sem nú steðja að, vil ég drepa á aðaleinkenni þess ástands, sem nú ríkir.

Þensla í efnahagslífinu hefur vaxið hröðum skrefum undanfarna mánuði. Framkvæmdir og neyzla hafa vaxið ört og örar en svarar til vaxtar þjóðarframleiðslunnar. Meiri eftirspurn hefur verið eftir vinnuafli en hægt hefur verið að sinna. Nýir samningar og launahækkanir hafa verið gerðar með stuttu millibili, jafnframt því sem launagreiðslur umfram samninga hafa aukizt. Launahækkanir eins hóps hafa ýtt undir kröfur annarra um nýjar hækkanir. Í kjölfar launahækkana hafa siglt miklar verðhækkanir, ekki hvað sízt vegna náins samhengis milli launa og verðlags landbúnaðarafurða. Þetta hefur ýtt undir nýjar launakröfur. Jafnframt hafa framkvæmdir og neyzla enn aukizt, vegna þess að fólk hefur búizt við, að laun og verðlag mundi halda áfram að hækka.

Þenslan er nú komin á það stig, að mjög er farið að sverfa að útflutningsframleiðslunni og þeim framleiðslugreinum öðrum, sem standa í beinni samkeppni við erlenda framleiðendur. Framleiðslukostnaður íslenzkra atvinnuvega hefur vaxið örar en framleiðslukostnaður keppinauta þeirra í öðrum löndum. Jafnframt hefur innflutningur tekið að vaxa miklu örar en útflutningur og halli myndazt á greiðslujöfnuðinum, sem er meiri en svarar til eðlilegrar notkunar erlends lánsfjár til framkvæmda. Það er auðséð, að þessi þróun getur ekki haldið áfram og að ráðstafanir verður að gera sem allra fyrst, til þess að þenslan stöðvist, það misræmi, sem skapazt hefur milli neyzlu og fjárfestingar annars vegar og þjóðarframleiðslunnar hins vegar, geti horfið og íslenzkir atvinnuvegir haldið veili í samkeppni við erlenda keppinauta sína.

Í nýafstöðnum fjárlagaumr. komu enn einu sinni fram till. um það af hálfu stjórnarandstöðunnar, hvernig ætti að snúast við þeim örðugleikum, sem við er að etja. í stuttu máli fólu þessar till. það í sér, að útlán bankakerfisins væru stórlega aukin og útlánsvextir stórlega lækkaðir. Þensla undanfarinna mánaða hefur leitt til almenns skorts á lánsfé. Einstaklingar og fyrirtæki hafa ráðizt í meiri framkvæmdir og meiri innkaup en þau hafa fjárhagslegt bolmagn til. Jafnframt hefur þenslan dregið úr sparnaði. Eftirspurn eftir lánsfé hefur því aukizt, en framboð á sparifé hefur minnkað og lánsfjárskortur farið vaxandi. Hver sá einstaklingur og hvert það fyrirtæki, sem í lánsfjárörðugleikum stendur, mundi að sjálfsögðu fagna því að fá úr þeim örðugleikum bætt með auknu lánsfé og lækkuðum lánskostnaði. Hitt er jafnauðskitið, að úr erfiðleikum allra verður ekki bætt á þennan einfalda hátt, sem stungið er upp á. Lánsfjárskorturinn stafar af því, að of mikið er verið að framkvæma, of lítið er sparað. Aukning bankaútlána og almenn lækkun vaxta mundi leiða til þess, að enn meira væri reynt að framkvæma og enn minna væri sparað. Hér er þess vegna verið að leggja til að hægja á ferð farartækis með því að gefa vélinni meira eldsneyti eða slökkva bát með því að hella á það olíu.

Ég vil nú víkja að rannsókn ríkisstj. á málinu og þeim niðurstöðum, sem hún hefur leitt í ljós. Augljóst er, að sé það misræmi í efnahagslífinu, sem þenslan hefur skapað, orðið mjög mikið, verður það ekki leiðrétt nema með róttækum ráðstöfunum, sem hljóta annaðhvort að fela í sér almenna lækkun launa eða breytingu gengisskráningar. Margir mundu telja að litt athuguðu máli, að almenn lækkun launa og niðurfærsla verðlags, sem þeirri lækkun svarar, væri auðveldasta leiðin til þess að leiðrétta slíkt misræmi. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að gera sér það ljóst, að slík aðgerð mundi leggja þunga byrði á allan almenning, auk þess sem hún mundi verða mjög örðug í framkvæmd. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að meiri háttar aðgerðir af þessu tagi hafa aldrei verið framkvæmdar, hvorki hér á landi né annars staðar. Breyt. á gengisskráningu getur á hinn bóginn ekki náð tilætluðum árangri, eins og nú horfir við, nema hindrað sé nýtt kapphlaup milli launþegahópa innbyrðis og milli kaupgjalds og verðlags.

Ríkisstj. hefur talið, að ef nokkur tök væru á, ætti að reyna að komast að því fyrst og fremst, hvort þetta sé hægt, hvort enn þá sé ráðrúm til að leiðrétta misræmið, sem skapazt hefur, án róttækra aðgerða. Niðurstaðan er sú, að svo sé. Ef þenslan er stöðvuð nú, bófi er haldið í framkvæmdum og neyzluaukningu, eru líkur fyrir því, að misræmið í þjóðarbúskapnum geti horfið á tiltölulega skömmum tíma, án þess að koma þurfi til launalækkunar eða gengisbreytingar. Sá mikli árangur, sem náðist í efnahagsmálum landsins á árunum 1960–1962, skapar grundvöll fyrir því, að þetta geti tekizt. Gjaldeyrisstaða landsins er sterk, og það nýtur fjárhagslegs traust erlendis. Sjávarútvegurinn býr enn að þeim umbótum á starfsskilyrðum, sem framkvæmdar voru á árunum 1960–1961. Verðlag á útflutningsafurðum er hækkandi. Miklar framkvæmdir á undanförnum tveimur árum, ekki hvað sízt í sjávarútveginum, munu skila árangri á næstu árum. Af þessum sökum er nú ráðrúm til þess að leiðrétta á nokkrum tíma það misræmi, sem skapazt hefur, án þess að grípa þurfi til þeirra róttæku aðgerða, sem nauðsynlegar hafa reynzt áður, þegar líkt hefur staðið á. Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að það skipti höfuðmáli, að þetta tækifæri sé hagnýtt og þannig lagður grundvöllur að efnahagslegu jafnvægi, vaxandi framleiðslu og batnandi lífskjörum í framtiðinni.

Ríkisstj. telur, að til þess að þetta megi lánast, verði að beita samræmdum aðgerðum í launamálum, fjármálum og peningamálum. Verður að treysta því, að auðið reynist að skapa skilning þjóðarinnar fyrir því, að án slíkra úrræð hlýtur krónan að falla, en því er yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar mótfallinn.

Þær aðgerðir, sem stjórnin hefur í huga og telur nauðsynlegar, miða í aðalefnum að því að stöðva frekari hækkun tilkostnaðar framleiðslunnar um nokkurt skeið í von um það, að bætt tækni og framleiðni og hækkandi verðlag afurðanna geti á þeim tíma lagfært það misræmi, sem nú er talið vera milli tilkostnaðar og afraksturs. Samfara þessu verði svo gerðar ráðstafanir til að bæta kjör þeirra, sem minnst bera úr býtum, eftir öðrum leiðum en beinum kauphækkunum, sem samkv. reynslunni leiða fljótlega til enn meiri kauphækkana þeirra, sem betri afkomu hafa, auk þess sem allsherjar kauphækkanir koma auðvitað fram í verðlaginu, þannig að þeir verst stæðu eru enn verr settir eftir en áður.

Þá er nauðsynlegt að draga úr útlánum bankanna í vísum greinum. Þannig má minnka eyðslu og hina allt of miklu fjárfestingu, sem valdið hefur óheilbrigðri samkeppni um vinnuaflið og harðast kemur niður á framleiðsluatvinnuvegunum, sem öll þjóðin beint og óbeint lifir á. Jafnframt verður að beina meira fjármagni til útflutningsatvinnuveganna og auðvelda þeim þannig að yfirstiga þá erfiðleika, sem hækkaður tilkostnaður hefur haft í för með sér. Einnig verður að tryggja framhaldandi heilbrigðan rekstur ríkisins og bæjar- og sveitarfélaga og stofnana þeirra. Till. um leiðir til lausnar þessum vandamálum hefur ríkisstj. ákveðið að leggja fyrir Alþ. eins fljótt og ástæður leyfa. Hér er um víðtæk vandamál að ræða, sem skoða verður í heild.

Síðustu daga og vikur hefur orðið skyndileg breyting á aðstæðum, sem krefst skjótra aðgerða í launamálum, ef ekki á að kollvarpa fyrir fram öllum hugsanlegum ráðgerðum um að bjarga gengi krónunnar og treysta efnahagsaðstöðu þjóðarinnar á komandi árum. Óðum berast nýjar kröfur og verkfallsboðanir frá stéttum launamanna. Er auðsætt, að fleiri, að ég ekki segi allar, fylgja í kjölfarið. Er nú krafizt frá 40–70% kauphækkana, og er sú kröfugerð stórkostlegri og mótsagnakenndari en nokkur dæmi eru til um hér á landi. Samfara þessu lýsa atvinnurekendur yfir, að þeir þoli engar kauphækkanir, og sjálfur undirstöðuatvinnuvegurinn krefst ráðstafana, sem færi honum hundrað millj. kr. frá því, sem nú er, m.a. með niðurfellingu 7.4% útflutningsgjalda, sem beint og óbeint renna þó öll til hans, stórfelldra vaxtalækkana, sem sparifjáreigendur og aðrir þá verða að bera. Og ekki má gleyma því, að bændur telja sig hafa borið skarðan hlut frá borði þrátt fyrir þá miklu hækkun afurðaverðs, sem framkvæmd hefur verið. Allir krefjast þannig mikilla kjarabóta, hver úr annars vasa, enda þótt menn viti, að fái allir óskir sínar og kröfur uppfylltar, þá fær enginn neitt, heldur leiðum við efnahagslega ógæfu og ósjálfstæði og vansæmd yfir þjóðina, og þá er fleiru hætt.

Ríkisstj. telur því óhjákvæmilegt, að aðilar ætli sér nokkurt ráðrúm til þess að átta sig á afleiðingum þessarar kröfugerðar, og þá ekki sízt, að sérhverjum þeim, sem kröfur um kauphækkanir ber fram, gefist kostur á að horfast í augu við það, hvort hann sjálfur hagnast af því að fá kröfum sínum framgengt, þegar skeiðið er á enda runnið og allir hafa fengið tilsvarandi hækkanir, þ. á m. fjölmennar stéttir, svo sem opinberir starfsmenn og bændur, sem eiga lagalegan rétt til leiðréttingar í samræmi við hækkanir h,já öðrum. Athuganir þær, sem kjararannsóknanefnd hefur unnið að varðandi þróun þjóðartekna og launa og afkomu sjávarútvegsins, ættu að geta komið að miklu gagni í þessu sambandi. Að sjálfsögðu verður svo ríkisstj. að vera til viðtals við alla aðila, um leið og hún heldur áfram undirbúningi ráðstafana, sem hún telur að að haldi geti komið við endanlega lausn málsins. En meðan á þessu stendur, er það skylda ríkisstj. að leitast við að forða frá slysum. Fyrir því er það frv. flutt, sem hér er til umr.

Í frv. er lagt til, að óheimilt verði að hækka hvers konar laun og álagningu á því tímabili, sem lögin yrðu í gildi, þ.e.a.s. til 31. des. n.k. Í þessu felst í raun og veru, að tekjur allra stétta þjóðfélagsins verði óbreyttar á þessu tímabili miðað við sömu vinnu og áður. Í 1. gr. frv. eru ákvæði um það, að óheimilt sé að hækka kaup, laun, þóknun, uppmælingar- og ákvæðisvinnutaxta eða nokkurt annað endurgjald fyrir unnin störf frá því, sem um var samið eða greitt, þegar frv. til þessara laga var lagt fram á Alþingi. Jafnframt því, að með þessu sé girt fyrir það, að launakostnaður hækki, er í 4. gr. frv. lagt til, að hvers konar álagning sé óbreytt á sama tímabili og engar aðrar verðhækkanir megi eiga sér stað nema með samþykki réttra yfirvalda.

Með því að stöðva þannig hvers konar launahækkanir og hækkanir á álagningu og ágóða stefnir frv. að því, að ekki eigi sér stað frekari verðhækkanir vegna tekjuaukningar einstaklinga eða starfshópa. Á hinn bóginn er rétt að taka það skýrt fram, að ekki getur í þessu falizt trygging um algera verðstöðvun, þar sem óhjákvæmilegt er að taka tillit til þess í verðlagi á vörum og þjónustu, er sannanleg verðhækkun hefur orðið á efnivöru og öðrum kostnaði. Hér er fyrst og fremst um tvennt að ræða, sem hækkun getur valdið. Annars vegar verðbreyting erlendis, en hins vegar hækkun kostnaðar á undanförnum mánuðum, sem er ekki enn fram komin í verðlaginu. Jafnframt er svo fyrir mælt, að engar slíkar verðhækkanir megi eiga sér stað nema sem samþykki réttra yfirvalda.

Þar sem óhjákvæmilegt er, að meðferð þessa frv. á þingi taki nokkurn tíma, hefur ríkisstj. þótt nauðsyn bera til, að sett yrði ákvæði það, sem fram kemur í 2. gr. frv. um, að launahækkanir, sem samið kann að vera um, eftir að frv. þetta var lagt fyrir Alþingi, skuli og vera ógildar. Ekki er með öðru móti unnt að tryggja það, að ákvæði frv. komi jafnt niður á öllum launþegum.

Loks er í 3. gr. ákvæði, sem gera það óheimilt, á meðan i. eru í gildi, að knýja fram hvers konar breytingar á launum með vinnustöðvunum. Hafi slík vinnustöðvun komið til framkvæmda, þegar frv. verður að lögum, lýkur henni við gildistöku þess. Um einstök atriði vísa ég að öðru leyti til aths. við frv.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, sýnir glögglega, hve alvarlegum augum ríkisstj. litur á áframhald þeirrar þróunar í átt til sífellt meiri kröfugerðar og víxlhækkana kaupgjalds og verðlags, sem átt hefur sér stað að undanförnu. Á hinn bóginn er jafnframt nauðsynlegt, að þjóðin mikli ekki fyrir sér þau vandamál, sem hún þarf að leysa, og efli þannig vantrú og vonleysi, einmitt þegar hún býr við betri kjör og líður betur en nokkru sinni fyrr. Sé kröfum nú stillt í hóf og kraftar þjóðarinnar sameinaðir til nýrra átaka, til uppbyggingar og aukinnar framleiðslu, er ríkisstj. þeirrar skoðunar, að unnt sé á tiltölulega skömmum tíma að vinna bug á því misræmi, sem um stund hefur myndazt á milli framleiðslugetu þjóðarinnar annars vegar og neyzlu hennar og fjárfestingar hins vegar. Ríkisstj. stefnir að því að ná þessu marki, án þess að nokkur samdráttur þurfi að eiga sér stað í neyzlu, miðað við það, sem nú er, og án þess að breytingar verði á gengi íslenzku krónunnar. Við höfum öll farið of geyst og aukið kröfurnar til lífsins gæða örar en framleiðslugeta þjóðarinnar hefur leyft. Staða þjóðarbúsins er hins vegar enn þá sterk, framleiðslan mikil, og þjóðin á öflugan gjaldeyrisvarasjóð og nýtur trausts umheimsins. Það er því nægjanlegt, ef menn vilja sameinast um að hægja ferðina um stund, fresta kröfugerðum og leyfa þannig áframhaldandi aukningu þjóðarframleiðslunnar að jafna það bil, sem orðið er á milli þess, sem þjóðin aflar, og hins, sem hún eyðir. Kjarni málsins er sá, að ríkisstj. telur, að leggist allir á eitt, sé auðið að bæta hag þeirra, sem verst eru settir, og varðveita jafnframt verðgildi krónunnar. Verði hins vegar orðið við kröfum allra stétta, er krónan þar með fallin og þeir lægst launuðu verða, eins og jafnan hefur reynzt að undanförnu, verr settir eftir en áður. Verðgildi krónunnar og hagsmunir þeirra lægst launuðu eru þannig tengd órofaböndum. Það er til þess að leitast við að vernda heiður, heill og hag þjóðarinnar allrar, réttlætið og sérhagsmuni þeirra, sem minnst bera úr býtum, sem ríkisstj. fer fram á þann frest, sem þetta frv. mælir fyrir um, og væntir þess, að Alþingi samþykki það, í fullri vissu þess, að flestir, ef ekki allir þm. innra með sér játa, að það er, satt og rétt, er ég nú hef sagt. Ég ætla að treysta því, þar til annað reynist, að a.m.k. þeir, sem sérstaklega vilja vernda hagsmuni þeirra, sem verst eru settir, taki með góðhug og skilningi þátt í þeim viðræðum, sem nú munu hefjast um málið utan þings og innan.

Að lokum þykir mér rétt að geta þess að gefnu tilefni, að ástæðan fyrir því, að ég taldi ekki fært að taka tilboði þeirra þriggja verkalýðsleiðtoga, sem ég átti viðræður við, um viku til 10 daga frest til að reyna að semja um þessi mál án lagasetningar, var m.a. sú, að hvorki þeir né ég gátum tryggt allsherjarfrið þennan tíma, né heldur er líklegt, að málinu gæti lokið á svo skömmum tíma.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.