01.11.1963
Neðri deild: 9. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (1814)

56. mál, launamál o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil láta það verða mín fyrstu orð um þetta mál, að ég tel, að með því að leggja fram þetta frv. hafi stjórnin því miður valið ófriðarleiðina. Ég álít, að frv. eins og þetta um að lögbinda allt kaupgjald launastéttanna og bænda sé bæði óviturlegt og ranglátt og jafngildi því í raun og veru, að ófriði sé lýst á hendur þessara stétta í stað þess, að nú hefði þurft að mínum dómi að halda alveg þveröfugt á málum og leggja mesta og aldrei sterkari áherzlu en nú á samningaleiðina í þessum efnum.

Þessum orðum vil ég láta fylgja þá yfirlýsingu, að Framsfl. mun beita sér eindregið gegn þessu frv., því að hann telur, að nú þyrfti einmitt að snúa sér að því að gera atvinnuvegum landsmanna kleift að standa undir óhjákvæmilegum kauphækkunum til að mæta þeirri óðadýrtíð, sem á er skollin, og leysa málin á þá lund, í stað þess að stíga nú fram og flytja frv. um að velta byrðunum yfir á launafólk og bændur með allsherjar lögbindingu á kaupi þessara stétta.

Ég vil svo rökstyðja þessar skoðanir með nokkrum orðum og kannske þá í leiðinni víkja nokkuð að sumu af því, sem hæstv. forsrh. flutti fram þessu frv. til stuðnings, að því er honum fannst.

Ég vil þá fyrst minna á, að þegar kosið var í vor, var hæstv. ríkisstj. auðvitað fullkomlega ljóst, að hennar stjórnarstefna hafði beðið algert skipbrot. Ástandið í efnahagsmálum landsins var þannig. En hún reyndi að leyna þessu fyrir kjósendum, og ég vil bara biðja menn að íhuga það, sem hæstv. forsrh. sagði hér sjálfur áðan um ástandið, og bera það saman við það, sem hann og hans félagar sögðu þjóðinni í vor, þegar verið var að kjósa. Og ætli það hefði ekki orðið nokkuð öðruvísi blærinn á því öllu saman og upplitið, ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefði verið lagt fram eins og hálfum mánuði fyrir síðustu alþingiskosningar? En það er nokkurn veginn gefið mál, að þá strax munu þeir hafa haft þetta úrræði í huga. En hefði ekki verið drengilegra að segja þjóðinni strax í kosningunum satt um það, hvernig ástatt var og til hvers þeir töldu raunverulega þurfa að grípa, heldur en viðhafa þær aðferðir, sem nú eru fram komnar? Ég held, að flestum landsmönnum muni finnast það.

Það lá alveg ljóst fyrir í vor, að í stað jafnvægis og stöðugs verðlags, sem átti að leiða af stjórnarstefnunni, var búið að sprengja efnahagskerfið og algert upplausnarástand ríkjandi í kaupgjalds- og launa- og verðlagsmálum. Enn fremur var það alveg ljóst, að í stað jafnvægis, sem átti að ná í lánamálum, ríkti þar meira misræmi en svo að segja nokkru sinni fyrr og heiftarlegri lánsfjárskömmtun en menn nokkru sinni áður höfðu átt að venjast. Enn fremur lá það alveg ljóst fyrir, að það hafði gersamlega misheppnazt að treysta verðgildi peninganna, og það lá einnig alveg fyrir, að meira að segja afkoman út á við í mesta góðæri, sem þjóðin hafði nokkru sinni lifað, var þannig, að skuldirnar við útlönd voru meiri að frádregnum innstæðum en þær höfðu nokkru sinni áður verið í sögu landsins. Þetta lá allt saman fyrir, en samt sem áður var kaldhamrað, og þessi mál voru látin fá á sig þann blæ, af miklum krafti, sem í það var lagður af hálfu stjórnarflokkanna, að stefnan hefði tekizt og það þyrfti ekki neitt sérstakt nýtt að aðhafast. En inni á sér voru þeir að hugleiða þau úrræði, sem hér koma nú fram.

Ríkisstj. segir, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, byggist á því, að hún þurfi frest, hún þurfi bara dálítinn frest til að íhuga þessi mál og það megi ekkert gerast í launamálum, á meðan hún sé að íhuga málið. En það eru liðnir fjórir og hálfur mánuður, síðan þessi hæstv. ríkisstjórn ákvað að halda áfram að stjórna landinu, það eru liðnir fjórir og hálfur mánuður síðan, og það hefur legið algerlega ljóst fyrir henni allan tímann, hvernig ástandið var raunverulega orðið — alveg á borðinu. Og meira að segja var hæstv. ríkisstjórn allt þetta svo vel ljóst s.l. vor, að hún færði kosningarnar fram um nokkrar vikur, til þess að úrskurður kjaradóms skyldi ekki liggja fyrir, áður en gengið var að kjörborðinu, því að hún þorði ekki að láta þjóðina horfast í augu við, hvað óhlutdrægir dómarar í kjaradómi töldu opinbera starfsmenn þurfa að hafa í tekjur eins og stjórnin var búin að koma efnahagsmálum landsins. Af þessum ástæðum var kosningunum í vor flýtt um nokkrar vikur. Stjórninni var því mjög vel ljóst strax s.l. vor og auðvitað fyrr, hvernig var raunverulega komið þessum málum, þó að hún legði svona mikla áherzlu á að láta annað koma fram eða annað í veðri vaka, og hún hefur haft fjóra og hálfan mánuð, síðan hún ákvað að halda áfram og taka að sér að stjórna landinu þrátt fyrir lítinn meiri hluta og illa fenginn. Hún þarf þess vegna áreiðanlega ekki á neinum fresti að halda vegna tímaskorts, ríkisstjórnin. Hún vill að vísu láta núna í bili líta á sig eins og andvaralausu konuna í þjóðsögunni um „Gilitrutt“, hún hefði lifað andvaralaust í fjóra og hálfan mánuð með allan þennan vanda fyrir augunum. En sannleikurinn er sá, að þetta er bara gervi, sem hæstv. ríkisstj. bregður yfir sig, því að það kemur fram, því miður, af öllu því, sem sagt er núna um þetta mál, og síðast af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að stjórnin hefur nú þegar ákveðið að fara inn á þá leið að gera þá aðalbreytingu á sinni stefnu og að því er virðist þá breytingu raunar eina að halda niðri kaupgjaldi og afurðaverði til bænda með lagaboði. Og það er ekki annað að heyra beinlínis á því, sem kemur úr herbúðum stjórnarinnar, en að þetta sé kallað lögbinding til bráðabirgða, eingöngu vegna þess, að það muni vera þægilegra á þann hátt að koma löggjöfinni fram, og síðan eigi að halda þessu hiklaust áfram.

Allt það, sem frá stjórninni kemur, bendir eindregið í þessa átt. Þegar hæstv. forsrh. var að lýsa hér áðan, hver stefna stjórnarinnar væri, sagði hann, að það ætti að beita samræmdum aðgerðum í launamálum og peningamálum og stöðva hækkun tilkostnaðar hjá framleiðslunni. En hvað er að stöðva hækkun? Þetta væri frambúðarleiðin. Hann var ekki að lýsa því, sem væri í þessu frv. Hann var að lýsa því, sem ætti að gerast á næstunni í framhaldi af þessu frv. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að stjórnin ætli að beita sér fyrir því, að kaupgjald í landinu skuli standa óbreytt eins og það er. Og þegar Alþýðublaðið er að lýsa því, hvernig viðhorf Alþfl. hafi verið til þessara mála, þá kemur þetta í raun og veru einnig í ljós. Þar er sem sé ekki gert að skilyrði, að eðlilegar kauphækkanir eigi sér stað, eftir að þessu bindingartímabili lýkur, heldur er þar rætt um aðrar ráðstafanir, sem verði að gera, svo sem skatta- og útsvarsívilnanir, lágmarkslaun, tryggingarbætur eða aðrar slíkar aðgerðir, sem tiltækilegar þykja. Ekki nema það eigi, þegar talað er um lágmarkslaun, að felast í því einhver hækkun.

En allt, sem kemur fram, þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. og þessar upplýsingar frá Alþfl., bendir til þess, að stjórnarflokkarnir séu ráðnir í því, ef þeir hafa bolmagn til, að taka upp þá stefnu að halda kaupgjaldi og afurðaverði niðri með lögum og hér sé því ekki í dag verið að ræða um bráðabirgðaráðstöfun, heldur sé verið að taka upp þessa stjórnarstefnu. h`g bið menn að taka eftir því, að þetta kom mjög greinilega fram í stefnuyfirlýsingu hæstv. ráðh., þar sem hann talaði um, að meginatriðið væri að stöðva hækkun tilkostnaðarins. Ég vildi, að þetta væri ekki rétt, sem ég verð að álykta um þetta efni, og ef hæstv. ríkisstj. finnst ég hafa sig fyrir rangri sök í þessu eða hér vera um getsakir að ræða, þá bið ég hann að nota þá einföldu aðferð til þess að koma hér í veg fyrir misskilning að lýsa hér yfir, að hún sé ráðin í því að taka upp aftur eftir 31. des. n.k. þá stefnu, sem hún áður hafði, að samningar um kaupgjald og kjör skuli vera frjálsir. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að láta þessa yfirlýsingu koma hér fram nú þegar við þessar umr., ef það, sem ég hef flutt um þetta, telst af henni getsakir. Ef hæstv. ríkisstj. ekki lýsir þessu yfir skýrt og skorinort, þá er enginn vafi á því, hvaða stefnu hún hefur raunverulega tekið upp í þessum málum, þó að þeir telji heppilegt að kalla þetta til að byrja með bráðabirgðaskref.

Við þekkjum nú nokkuð orðið þessi bráðabirgðaúrræði, sem gripið er til. Okkur er í fersku minni bráðabirgðasöluskatturinn, sem innleiddur var hér fyrir nokkrum árum með hátíðlegum yfirlýsingum um, að hann væri aðeins til bráðabirgða og aðeins settur vegna þess, að aðaltekjuöflunin, sem fylgdi viðreisninni, gilti ekki nema hluta úr fyrsta árinu. Hann væri settur til þess að fylla upp í þá eyðu, sem þar kæmi fram í tekjuöfluninni. En hver varð niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú, að þrátt fyrir yfirlýsingarnar var þessi skattur framlengdur ár eftir ár, og að lokum var hann lögleiddur til frambúðar inn í sjálfa tollskrána.

Við þekkjum þessar aðferðir, og við heyrum þær yfirlýsingar, sem hér hafa verið fluttar af hæstv. ráðh., og öll þjóðin mun vafalaust taka mjög gaumgæfilega eftir því, hver verða svör hæstv. ríkisstj. varðandi þessa ósk mína um, að hún gefi um það alveg skýlausa yfirlýsingu, að hér sé aðeins um bráðabirgðalöggjöf að ræða, sem verði, hvað sem öllu liður, afnumin eða látin falla úr gildi 31. des. og þá komi aftur í gildi óskorað samningsfrelsi um kaup og kjör í landinu, eins og gilt hefur og stjórnin lýsti yfir, að væri einn meginþáttur í hennar stefnu, þegar hún fór af stað, og hefur raunar verið síðasta kjörtímabil. En ef þessi yfirlýsing kemur ekki fram, þá sjáum við, hvað hér er að gerast.

Ef stjórnin er með þessu frv. raunverulega að reyna að skapa sér starfsfrið og einhverja möguleika til þess að reyna að ráða fram úr málunum, en ekki að taka upp hreina lögbindingar- og lögþvingunarstefnu, þá er henni enn meiri nauðsyn sjálfrar sín vegna að gefa svona lagaða yfirlýsingu. Það væri bókstaflega það eina, sem gæti orðið til þess, að stjórnin hefði starfsfrið eða hefði nokkra möguleika til þess að skapa nokkurn jarðveg fyrir ráðstafanir af einu eða öðru tagi, sem hún hefði í huga að gera, — einmitt svona skýlaus yfirlýsing um, að menn skuli ekki misskilja þetta, þetta sé aðeins til bráðabirgða og verði ekki undir neinum kringumstæðum haldið lögbanni eða lögbundnu kaupi og afurðaverði eða lögboðið kaup og afurðaverð eftir 31. des. n.k.

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. er þetta algerlega ljóst. Henni hlýtur að vera fullkomlega ljóst, að ef frá þessu atriði er ekki ósleitilega gengið, þannig að enginn misskilningur geti komizt þar að, þá er ekki til nokkur sá maður í landinu, hvorki stuðningsmaður ríkisstj. né andstæðingur hennar, sem efast um, að hér er raunverulega verið að taka upp þá stefnu að halda niðri kaupgjaldi og afurðaverði með lagaboði. Og þá er alveg óhætt að hætta að ræða þetta sem bráðabirgðamál eða sem bráðabirgðaúrræði eða mál, sem sé sett fram til þess að fá starfsfrið, þá er það sannmæli, sem ég sagði hér áðan, að með þessu er farið inn á ófriðarleiðina. Og það er alveg víst, að það er sannmæli, að þannig mun þetta reynast, ef ekki er öðruvísi frá þessu gengið en enn liggur fyrir og liggur í málflutningi hæstv. forsrh., því að allur málflutningur hæstv. forsrh. bar einmitt með sér alveg það gagnstæða, að hér væri ekki um bráðabirgðaúrræði að ræða.

Nú segist hæstv. ríkisstj. þurfa að grípa til þessara ráðstafana — eins og hæstv. forsrh. orðaði það áðan — vegna skyndilegra breytinga, sem orðið hefðu í launamálum landsins. Ég verð að segja, að ég varð meira en litið hissa á því að heyra þennan málflutning hæstv. forsrh. Ég veit ekki betur en það hafi legið ljóst fyrir hverju mannsbarni, a.m.k. frá því í júní í vor, allir megindrættir í þessum málum eins og þeir eru í dag. Þá voru verzlunarmenn búnir að leggja fram sínar kröfur um launabreytingar, og þeim hefur verið haldið fram í marga mánuði til samræmingar við kjaradóm, sem fjallaði um laun opinberra starfsmanna, og verkamenn voru búnir að setja fram kröfur um kaupgjaldsbreytingar, og þá náðist aðeins samkomulag til bráðabirgða um nokkra hækkun á launum, en allir samningar hafðir þannig, að þeir væru opnir 15. okt. í haust. Þetta var gert strax í júnímánuði, bæði samningar verkamanna og ýmissa annarra hliðstæðra og einnig samningar verzlunarmanna, og að allt væri opið 15. okt., og ríkisstj. sjálf átti þátt í því, að svona var haldið á þessum málum, að bráðabirgðaúrlausnir voru gerðar með það fyrir augum, að endanlegir framhaldssamningar færu raunverulega fram í haust, einmitt núna. Ríkisstj. sjálf átti þátt í því, að málunum var frestað á þessa lund.

Svo kemur hæstv. forsrh. nú og segir hér, að það hafi skyndilega orðið breytingar í þessum efnum, sem geri það að verkum, að ríkisstj. þurfi nú að stiga fram og breyta gersamlega um stefnu og flytja frv, um að taka allan samningsrétt af þessu fólki, sem hefur verið að búa sig undir samningana í allt sumar og ríkisstj. og aðrir aðilar ráðgerðu að semja við í haust.

Það, sem hefur þess vegna raunverulega gerzt, er þetta, að það var samið í vor um að fresta þessum málum til hausts, bæði með vitund og fullum vilja ríkisstj. En stjórnin, sem raunverulega er aðili að því, að þessum málum var frestað í vor, ætlar að notfæra sér frestinn til að taka samningsréttinn af þessu fólki með lögum, enda þótt ríkisstj. ætti beinan þátt í því í vor að fresta þessum málum til haustsins, til þess að þá yrði samið. Hvað er að fara aftan að mönnum, ef ekki þetta? Hvað er að svíkja, ef ekki þetta? Hvað er að hafa rýtinginn í erminni, ef ekki þetta?

Hvað hlýtur það fólk að hugsa, sem leikið er á þennan hátt, eins og hæstv. ríkisstj. ætlar sér nú að gera? Og það er komið fram nú þegar, að samtök verkamanna hafa beðið fram yfir þann tíma, sem talað var um í vor, þau fóru ekki af stað 16. okt., það eru komin mánaðamótin október — nóvember, og það er upplýst, að samtök verkamanna buðu enn talsvert langan frest, til þess að hægt væri að vinna að því að ná samningum eða samkomulagi um þessi mál. En þessu er ekki anzað, því var ekki anzað. Hvers vegna er því ekki anzað? Auðvitað vegna þess, að ríkisstj. hefur ákveðið að taka upp þá stefnu að breyta þeim eina þætti í sinni stefnu, sem áður var, að halda nú niðri kaupgjaldi og afurðaverði með tögum.

Ríkisstj. á aðeins einn leik í þessu enn þá, sem hún gæti notað, til að reyna að bæta eitthvað ástandið, og hann væri sá að gefa þá yfirlýsingu, sem ég fór áðan fram á að yrði gefin, hreina og afdráttarlausa, skýra og skorinorða, að ekki komi til nokkurra mála, að hún standi að því að lögbinda kaup eða afurðaverð eftir 31. des. n.k. Hér sé klippt og skorið, hreint og beint aðeins um bráðabirgðaúrræði að ræða og hvað sem fyrir komi, þá taki hún aftur upp þá stefnu, sem hún hefur haft fram að þessu, eftir 31. des., að samningsrétturinn skuli gilda.

Auðvitað dettur mér ekki í hug, að allt það tjón, sem þetta frv. hefur þegar valdið, muni verða bætt með þessu, en þetta mundi þó a.m.k. skýra málið, og ég er alveg sannfærður um hitt, og það veit ég, að allir skilja, að ef hæstv. ríkisstj. ekki gefur þessa yfirlýsingu, þá er ástæðan ekki nema ein og sú, sem allir skilja, að þetta er ekki bráðabirgðamál, heldur upphaf að nýrri stefnu, upphaf að nýrri styrjöld, upphaf að nýju stríði í framhaldi af þeirri 4 ára lotu, sem segja má að hafi endað á þessu ári.

Þá kemur spurningin: Hvernig er svo ástatt núna, þegar stjórnin leggur til, að kaupgjald sé lögbundið, bannaðar séu hækkanir á kaupgjaldi? Þá er þannig ástatt, að fyrir 8 stunda vinnu alla virka daga ársins getur verkamaður fengið 67 þús. kr. tekjur á ári, með því að enginn dagur falli úr. En samkv. framfærsluvísitölunni þarf meðalfjölskylda 95500 kr. til brýnustu nauðsynja, og þá er aðeins gert ráð fyrir 922 kr. húsaleigukostnaði á mánuði eða tæplega 11 þús. kr. á ári. Þótt ekki sé nú reiknað nema með 2500 kr. húsaleigu á mánuði, sem stendur þó raunverulega aðeins undir hálfri íbúð, eins og þær kosta núna, og er þess vegna fjarstæða, — þó að ég reikni með því, og þá bara til þess að verða ekki sakaður um öfgar, þótt ekki sé reiknað nema með 2500 kr. húsaleigu á mánuði, þá þarf 114 500 kr. til að standa undir framfærslukostnaði vísistölufjölskyldunnar eftir opinberum útreikningi. En verkamaðurinn hefur fyrir 8 stunda vinnu allan ársins hring hvern dag segi og skrifa 67 þús. kr. Þetta ástand telur hæstv. forsrh. og stjórnarflokkarnir ástæðu til þess að lögfesta, þetta sé frambærilegt að lögfesta, þetta ástand í kaupgjaldsmálum. En hverjum dettur í hug, að slíkt geti staðizt til lengdar, og hverjum dettur í hug, að það sé raunverulega orðið þannig, að það sé ómögulegt að finna leiðir til þess, að íslenzkir framleiðsluatvinnuvegir geti borgað meira kaup en þetta? Er þó að heyra, að hæstv. ríkisstj. telji, að það sé alveg óhugsandi að finna nokkrar leiðir til þess, að íslenzkir framleiðsluatvinnuvegir geti borgað hærra kaup en þetta. En ég segi: Hvernig lízt mönnum á þá stjórnarstefnu og á þá stjórnarforustu, sem lýsir slíku yfir við þau ytri skilyrði, sem þjóðin býr nú við í landinu? Hvernig lízt mönnum á slíkt? Halda menn raunverulega, að þetta geti staðizt? Hvers vegna er þá verið að þessu? Og mér skildist á hæstv. forsrh., á niðurlagsorðum hans, að það væri einmitt alveg sérstaklega það fólk, sem við þetta býr, sem ætti að þakka stjórninni fyrir þetta frv. Hann fór fram á það.

Auðvitað verður að játa, að okkar efnahagskerfi er orðið að skrípamynd í meðförum þessarar hæstv. ríkisstj. Það er grátlegt að þurfa að segja það, því að þetta var eins og skrípamynd, sem ég var að draga upp, — en því miður er það ekki karikatur, það er skrípamynd, það er mynd af raunveruleikanum, eins og hann er núna. Og vitastuld verður slíkt misræmi ekki leiðrétt í einu stökki, það er óhugsandi með öllu. En jafnvíst er hitt, að þetta getur alls ekki staðizt og það er með öllu óverjandi að hugsa til þess að lögfesta slíkt ástand, að við þessar kringumstæður sé hægt að færa skynsamleg rök fyrir því að taka samningsréttinn af, rétt, sem ætti að nota til þess að lagfæra þetta, að ég nú ekki tali um, þegar til viðbótar þessu er þannig ástatt, að fjöldamargt af því fólki í landinu, sem hefur margfaldar tekjur á við verkafólk hefur fengið einmitt á síðustu mánuðum stórkostlegar launahækkanir, sem í sumum dæmum, hækkanirnar einar út af fyrir sig nema sennilega meira en árslaunum, sem verkamaður getur fengið fyrir 8 stunda vinnu alla daga ársins. Ég er satt að segja alveg hissa á því, að slíkt frv. skuli geta komizt í gegnum stjórnarflokkana t.d., jafnvel þótt hæstv. ráðh. hefði dottið eitthvað slíkt í hug.

Ég tók þarna dæmi af verkamannakaupi, en sumir, sem þarna eiga hlut að máli, hafa nokkru hærra kaup og á dæmið ekki nákvæmlega við þá. Ég vil ræða sérstaklega um afstöðu verzlunarfólksins í þessu sambandi, sem er stór hópur, sem á hér verulegan hlut að máli. Hvernig hefur verið haldið á málefnum verzlunarfólksins? Háttsettir menn úr stjórnarliðinu hafa verið settir í fararbrodd verzlunarfólksins, og það hefur bókstaflega ekki linnt yfirlýsingum frá þessum mönnum, að það yrði séð um það, það væri óhætt að treysta því, að kjör verzlunarfólksins fengjust leiðrétt í samræmi við t.d. kjör opinberra starfsmanna. Það hefur ekki linnt yfirlýsingum af hendi þeirra, sem úr stjórnarherbúðunum hafa verið settir í fremstu raðir þessa fólks, og stundum hefur verið blandað saman ferðum fyrir þessi samtök og pólitískum ferðum til þess að flytja þennan boðskap, m.a. fyrir síðustu kosningar, — beinlínis blandað saman ferðum, til þess að þetta skyldi vera algerlega ljóst, það væri þetta, sem að væri stefnt, það væri óhætt að treysta þessu. Og meira að segja var þessi stefna margyfirlýst og ítrekuð á s.l. vori í sambandi við sjálfa byrjunarsamningana, sem þá fóru fram. En hvað er meiningin að gera núna? Hvernig er meiningin að staldra við þessar yfirlýsingar og þessi fyrirheit? Það er ætlunin, að þrátt fyrir kjaradóminn og þrátt fyrir kjarabætur opinberra starfsmanna og þrátt fyrir allar þessar yfirlýsingar og öll þessi loforð verði kaupgjald verzlunarfólksins lögboðið óbreytt eins og það hefur verið og fyrirtækjum í landinu bannað að hækka kaupgjald þessa fólks.

Þetta er nú það, sem snýr að þessari fjölmennu stétt í landinu, og svona hefur verið að henni búið upp á siðkastið. Allir, sem hér eru inni, vita, að þetta er satt. Þetta er alveg laukrétt lýsing á því, sem gerzt hefur varðandi verzlunarfólkið. En hvernig er hægt að fara svona að? Og hvaða kost ætla stjórnarflokkarnir verzlunarfólkinu eftir 1. jan.? Hvar er „paragrafinn“ um verzlunarfólkið í skilyrðum Alþfl. t.d.? Hvar kemur það undir það, sem ég var að minnast á áðan og hefur verið birt um skilyrði Alþfl. fyrir lausn þessa máls? Ég geri varla ráð fyrir því, að þeir hugsi sér, að þeir geti leyst málefni þessa fólks með því að setja inn í næsta launabindingarfrumvarp eitthvert ákvæði um lágmarkslaun. Ég geri tæpast ráð fyrir því.

Og þá kemur spurningin: Hvaða lausn ætla þeir á málefnum þessa fólks? Það er alveg sama, hvort dæmin eru tekin um verkamanninn eða verzlunarfólkið, það er alveg sama, hvar gripið er niður í þetta, það ætti að vera hverjum manni augljóst, að það er gersamlega óverjandi að ætla sér að lögleiða kaupgjaldsbindingu, eins og þessi málefni standa, — alveg gersamlega óverjandi.

Hæstv. forsrh. talaði áðan af talsverðum fjálgleik um víxlhækkun kaupgjalds og verðlags og lýsti því nokkuð. Ja, mér datt nú í hug: Hver skyldi þekkja betur vélina en sjálfur mótoristinn? — þegar ég var að hlusta á hæstv. ráðh. Hvaða víxlhækkun kaupgjalds og verðlags er þetta, sem hæstv. forsrh. er að tala um, og hvaða orsakir á hún? Ekki er það víxlhækkun vegna vísitölunnar, sem þar er að verki, því að þessi ríkisstj. er sú eina, sem mun hafa búið við þau skilyrði að þurfa ekki að berjast við víxlhækkun af völdum vísitölunnar, því að allt það tímabil, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur setið, ef ég man rétt, hefur vísitalan verið slitin úr sambandi við launin. En áður var það yfirleitt þannig, að laun hækkuðu í samræmi við framfærsluvísitöluna. Og meira að segja hefur þessi hæstv. ríkisstj. búið við það, að launasamtökin í landinu hafa látið sér þetta lynda. Þau hafa gengið það langt til móts við kenningar stjórnarvaldanna bæði fyrr og síðar um háska víxlverkunar af völdum vísitölunnar, að þau hafa látið sér það lynda, að það væri ekki í gildi ákvæði um, að kaupgjald skuli hækka í samræmi við framfærsluvísitölu.

Hæstv. forsrh. minntist auðvitað ekkert á þetta. Hann var samt sem áður að tala um þessa víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Og ég spyr: Við hverju geta þeir búizt, miðað við þá stjórnarstefnu, sem þeir hafa framfylgt? Þeir byrjuðu með því 1960 að lögleiða nýja gengislækkun, nýjar stórkostlegar álögur, tolla, söluskatt, innleiða okurvexti í stað tiltölulega sanngjarnra vaxta, sem áður voru. Og það var sýnt fram á það með rökum, sem óhugsandi var að hnekkja, að dýrtíðaráhrifin í fyrstu umferð af öllum þessum ráðstöfunum gátu aldrei orðið undir 1100 til 1200 millj. í þjóðarbúskap, þar sem allar þjóðartekjurnar voru þá metnar 5–6 milljarðar eða 5000–6000 milljónir. Það var þegar í stað alveg augljóst, að af þessu hlaut að leiða slíka dýrtíðarholskeflu, að hún hlaut að gera efnahagsmálefni landsins gersamlega óviðráðanleg, eins og reynslan hefur sýnt.

Samt sem áður tóku menn á sig miklar hækkanir á framfærslukostnaði, án þess að kaupið væri hækkað á móti, alveg óvenjulega miklar, og sýnd var alveg sérstök þolinmæði í því sambandi. Og þegar svo farið var af stað til þess að reyna að bæta ofur lítið kjör launastéttanna eftir dýrífðarflóðið, þá voru gerðir slíkir samningar 1961, að þeir voru alveg sérstaklega vel til þess fallnir að reyna að koma á jafnvægi einmitt í þessum málum. Kauphækkuninni, sem þá var innleidd, var þannig í hóf stillt, að það lá alveg fyrir, að með skynsamlegum ráðstöfunum vegna framleiðslunnar þurfti ekki að valda neinum vandkvæðum. Meira að segja sögðu stjórnarblöðin sjálf frá því, að íslenzki iðnaðurinn hefði getað borið þessa kauphækkun og enga verðhækkun fengið vegna hennar, öll verðhækkun, sem orðið hefði hjá iðnaðinum, hefði orðið vegna gengislækkunarinnar, sem stjórnin lét svo dynja í kjölfar þessarar kauphækkunar. í síldariðnaðinum var þetta þannig, að þessi kauphækkun gat komizt inn í verðlagið, og samt sem áður var hægt að hækka verðið á síld til sjómanna bæði frá söltunarstöðvum og verksmiðjum, þrátt fyrir kauphækkunina. Og það var hækkandi verð á útflutningsafurðum, og sá hluti kauphækkunarinnar, sem deilt var um á þessu tímabili við stjórnina og hennar menn, svaraði til á að gizka 2% breytingar á útflutningsverði á útflutningsafurðum.

En hvað gerði ríkisstj., sem fékk slíka samninga, sem hún hefði getað notað til þess að reyna að koma á jafnvægi í efnahagsmálum? Hún skellti á nýrri 13% gengislækkun ofan á það, sem fyrir var, vegna þess að stefna hæstv. ríkisstj. hefur alla tíð byggzt á því, að reyna að halda kaupgjaldinu föstu, en ná jafnvægi, eins og hún kallar það, í þjóðarbúskapnum með því að láta verðlagið hækka. Og nú átti að láta verðlagið hækka enn í landinu með nýrri gengislækkun, af því að nú sögðu þeir, að komið væri hærra kaupgjald en framleiðslan raunverulega gæti borið, þó að það væri hægt að sanna það í öllum greinum, að einmitt þessi kauphækkun var þannig, að það var mjög auðvelt að rísa undir henni án þess að gera nokkrar sérstakar mótráðstafanir. Ég tala nú ekki um, ef það hefði verið linað nokkuð á vaxtaokrinu til þess að gera útflutningsframleiðslunni enn léttara að bera þessa kauphækkun, enda finnst ekki sá maður í landinu lengur utan stjórnarinnar, sem heldur uppi vörnum fyrir þetta frumhlaup 1961, gengislækkunina, sem þá var gerð.

Þannig hefur stjórnarstefnan beinlínis verið miðuð við það að leita sífellt jafnvægis á þessa lund, með því að láta verða nýjar hækkanir, í því trausti, að hægt væri að halda kaupi almennings niðri. En ríkisstj. getur engu um kennt öðru en sinni eigin stefnu og þeim ráðstöfunum, sem hún hefur sjálf gert, um þá erfiðleika, sem nú er við að stríða. Að hér hafi verið um pólitíska starfsemi að ræða til að hnekkja ríkisstj. í sambandi við kaupgjaldsmálin er fjarstæða, sem þeir eru nú raunar hættir að bera sér í munn, þegar þess er gætt, að þau félög launafólks, sem stjórnað er af stuðningsliði ríkisstj., hafa gengið í fararbroddi til þess að reyna að forða sér að einhverju sáralitlu leyti undan þeim dýrtíðarholskeflum, sem hæstv. ríkisstj. hefur rótað upp. Fram hjá þessu verður ekki komizt, þetta eru einfaldar staðreyndir.

Allar þessar aðfarir hæstv. ríkisstj. hafa leitt til öngþveitis og óðaverðbólgu og upplausnar í kjaramálum og fjárfestingarmálum, það vitum við. En hæstv. ríkisstj. virðist enn þá telja, þrátt fyrir allt þetta, að það eitt hafi á skort, að almenningur tæki á sig nógu eindregið þá kjaraskerðingu, sem honum var ætlað að bera. að það sé það aleina, sem á hafi skort í framkvæmd stjórnarstefnunnar, enda er þetta nú það eina, sem á að breyta, því að nú á að taka samningsfrelsið af samtökum almennings og lögbjóða kaupgjaldið í staðinn. Og yfirlýsingar hæstv. forsrh. aðrar um önnur atriði þess, sem á að koma, staðfesta svo, að það á að halda áfram með öll þau úrræði, sem verst hafa gefizt undanfarið. Það á að halda áfram með öll þau úrræði, sem verst hafa gefizt. Stjórnin er enn því miður við sama heygarðshornið, en bætir því einu við að þvinga fram með lögum þá kjaraskerðingu, — reynir það, — sem þeim tókst ekki að koma á til fulls eftir hinni frjálsu leið.

Hæstv. ríkisstj. hefur stundum verið að tala um, að fyrir henni vekti að koma á frelsi í stað hafta og þvingana, sem áður hefðu verið. En hvert verður frelsið, eftir að búið er að taka upp þessa nýjustu breytingu á stefnu ríkisstj.? Þjóðin býr nú þegar við stórkostlegri skömmtun á lánsfé en nokkru sinni fyrr, og það er kallað frelsi. Ofan á það á svo að bæta því að lögbinda kaupgjald og afurðaverð. Hverjir verða þá frjálsir, þegar búið er að framkvæma þetta? Hverjir verða frjálsir? Hvar er frelsið? Fyrir hverja er frelsið? Frelsið er þá ekki orðið fyrir aðra en þá, sem hafa nóga peninga, sem hafa fullar hendur fjár. Það er frelsi fyrir þá eina, sem hæstv. ríkisstj. stefnir að, eins og nú er verið að skipa málum, og þessa stefnu á svo að kenna við frelsi. Það eru þvingunarráðstafanir ofan á þvingunarráðstafanir. Fyrst eru okurvextir innleiddir til þess að fæla menn frá því að nota lánsfé, síðan eru þvingunarráðstafanir í lánamálum. Viðskiptabankarnir eru þvingaðir með því að draga hluta af sparifjárinneigninni inn í Seðlabankann. Það er dregið úr afurðalánunum, nýjar þvingunarráðstafanir, og þegar þessar þvingunarráðstafanir ekki duga, þá á að bæta inn í stefnu frelsisins lögbindingu á kaupgjaldi og afurðaverði. Og ég spyr aftur: Hverjir eru þá frjálsir? Hverjir eru það? Það er ekki vandasamt að sjá, hverjir eru þeir einu, sem þá eru frjálsir. Meira að segja er stofnunum og fyrirtækjum í landinu kirfilega bannað að bæta kjör sinna starfsmanna, hversu nauðsynlegt sem þeim kann að finnast það vera.

Ég álít, að við séum nú staddir á vegamótum, algerum vegamótum í öllum þessum efnum. Annars vegar er þessi stefna þeirra, sem framfylgt hefur verið með „endurbótum“ þeirra, þeirri einni að bæta við lögþvingun á kaupi, að bæta því einu við að halda niðri með lagaboði kaupi launastétta og bænda, kannske bæta svo við nýjum álögum, nýjum neyzlusköttum eða jafnvel vaxtahækkun, eins og mátti nú jafnvel lesa á milli linanna hjá hæstv. forsrh., og auka enn þá lánsfjárhöftin.

Þetta þýðir, að það er enn óbreytt stefnan, og á að herða á með nýjum þvingunarráðstöfnum til að leysa ofþensluna, sem nú er í þjóðfélaginu, með því að halda niðri neyzlu og framkvæmdum almennings að ógleymdri starfsemi almannafélaga, eins og t.d. samvinnufélaganna, en þeir fjársterkustu einir allra í landinu hafi frjálsar hendur. Þetta er sú stefna, sem á að innleiða með enn þá meiri hörku en áður hefur komið til greina með þessum nýju lögbindingarráðstöfunum.

Þessi stefna hlýtur að verða til þess að minnka þjóðartekjurnar, alveg tvímælalaust, frá því, sem þær ella gætu orðið, enda sýnir reynslan það. Við sjáum, hvílík óblessun hefur fylgt þessum ráðstöfunum, þegar við athugum annars vegar kaup verkamanna, sem ég var að lýsa áðan, og hins vegar afkomu framleiðslugreinanna og yfirlýsingar hæstv. forsrh. um, að þetta kaup sé það, sem íslenzkar framleiðslugreinar geti hæst borið eftir fjögurra og hálfs árs aðfarir ríkisstj. og eftir að hafa framkvæmt þessa stefnu.

Er hægt að hugsa sér ömurlegri gjaldþrotayfirlýsingu um nokkra stjórnarstefnu en hæstv. forsrh. hefur gefið hér í dag með því að stíga hér fram og segja: Allt það, sem íslenzkir framleiðsluatvinnuvegir þola, miðað við þá stefnu, sem við höfum fylgt í fjögur og hálft ár, er að borga 67 þús. kr. fyrir að vinna 8 stundir hvern einasta virkan dag á árinu? Er til ömurlegri gjaldþrotayfirlýsing um nokkra stjórnarstefnu en þessi yfirlýsing hæstv. forsrh.? Kaupið má ekki hækka, framleiðslan ber ekki hærra kaup, en kaupið er þetta. Og það verður að koma í veg fyrir það með lögum, segir hæstv, forsrh., að þetta breytist. Og þetta liggur að verulegu leyti í því, að þessi stefna að reyna að þvinga fram jafnvægi með þessum ráðstöfunum í peningamálum, sem þeir kalla, og draga úr ofþenslu eftir þeirri leið leiðir í vaxandi mæli til þess, að það verður að víkja, sem sízt skyldi, úr framkvæmdum í íslenzkum þjóðarbúskap og þær framkvæmdir sitja fyrir, sem gefa minni þjóðartekjur, þ.e.a.s. framkvæmdir þeirra, sem peningana hafa í höndunum, sem þeir endilega vilja koma í framkvæmd. En hvaða sönnun er svo fyrir því, eða líkur, að það séu einmitt nákvæmlega þær framkvæmdir, sem eiga mestan rétt á sér frá almennu sjónarmiði eða muni auka mest þjóðartekjurnar? Og ef á að herða þessa stefnu enn og þessar þvingunarráðstafanir, þá verður það bara til þess, að þessu fylgja enn meiri vandkvæði og vandkvæði þessarar stefnu koma enn betur í ljós en áður.

En þá kemur spurningin: Hvernig á að fara að? Hvernig er hin meginstefnan, sem ætti að aðhyllast í staðinn fyrir þessa, sem framkvæmd hefur verið með þeim árangri — eða hitt þó heldur, sem nú liggur fyrir og játað er af hæstv. forsrh.?

Í fyrsta lagi á að viðurkenna það hreinskilnislega og opinskátt, að hlut launafólks almennt í landinu og bænda verður að rétta frá því, sem hann er nú. Það er þýðingarlaust að berja höfðinu við steininn í þessu efni. Sá skakki, sem orðinn er í þessu tilliti, verður vitaskuld ekki leiðréttur í einu stökki, það er líka nauðsynlegt að leggja áherzlu á það, en að hlut þessa fólks verður að rétta, það er alveg óhugsandi annað. Og það ríður meira á því en nokkru sinni áður, að það sé samningaleiðin, sem farin er í því efni, hún sé ekki yfirgefin, það sé ekki farið inn á þvingunar- eða lögbindingarleiðina.

Þá er það annar mikilsverður liður í þessari stefnu að snúa sér tafarlaust að því að gera framleiðslunni á Íslandi fært að greiða það kaup, sem lífsnauðsynlegt er að borga, miðað við núverandi kringumstæður, þó ekki miðað við, að hægt sé í einu stökki að leiðrétta allan þann skakka, sem inn í þetta er kominn. Og í því sambandi koma mörg úrræði til greina, mismunandi fljótvirk, en fyrst og fremst verður að snúa sér að þessu. Þetta er aðalmálið og höfuðviðfangsefnið, og í því sambandi er alveg óhjákvæmilegt að lækka vextina. Hvernig sem menn fara að, þá verður aldrei hægt að koma þessum málum í viðunandi horf með því að halda uppi þeim okurvöxtum fyrir framleiðsluna, sem nú eru, vegna þess að íslenzk framleiðsla getur ekki keppt við framleiðslu annarra þjóða með því að borga miklu, miklu hærri vexti en framleiðendur annarra þjóða þurfa að gera. Og það er ekki heldur hægt fyrir framleiðsluna að borga eins hátt kaup og þarf, til þess að fólkið í landinu geti búið við svona háa vexti.

Þegar það er athugað t.d., að lítil íbúð kostar orðið 550 þús. kr. til 600 þús. kr. og að vextirnir einir eru á milli 50 og 60 þús. kr., eða nærri því sem svarar árslaunum verkamanns, sem vinnur 8 stundir hvern virkan dag, þá sjáum við, hve háir vextir eru stórkostlegur liður í því, sem fólkið þarf að hafa til að geta lifað. Íslenzkir framleiðsluatvinnuvegir geta ekki staðið undir því kaupi, sem þarf að borga fólki, sem býr við þessa okurvexti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. viðskmrh. eða aðra hagfræðinga að koma hér og fara að lesa einhverjar tölur um, hversu miklir vextir séu borgaðir inn og út í bankakerfinu. Það kemur þessu máli bókstaflega ekkert við, vegna þess að það, sem hér skiptir máli, er hitt, hvaða vexti sá maður þarf að borga, sem þarf að koma sér upp heimili, miðað við núverandi kringumstæður, og það er kaupgjaldið til þessa manns, sem verður að móta kaupgjaldið í landinu. Og í skjóli þeirra háu vaxta, sem þessi maður þarf að geta borgað af sínu kaupi, fá svo allir eignamenn í landinu stórhækkaðar tekjur af sínu fjármagni. Það er hreinn barnaskapur að vera að mæta hér með þessar tölur, svo sem gert hefur verið hér á undanförnum árum í þessu sambandi, og ekki sæmandi. Og það sýnir bara, að ef menn raunverulega trúa á slíkar bábiljur eins og þetta talnaverk, sem hér hefur verið sett upp að þessu leyti um vextina og áhrif þeirra í þjóðarbúskapnum, þá sýnir það bara, að þeir menn, sem hafa ekki betri skilning á samhenginu í íslenzku efnahagslífi en kemur fram í þessu, þeir eiga ekki að koma nærri þessum málum, hreinlega ekki nærri þessum málum.

Hvaða þýðingu haldið þið, að það hafi, þegar verið er að reikna áhrif vaxtastefnunnar á launagreiðslur í landinu og á afkomu framleiðslunnar, að koma hér fram með það, hve háir vextir samtals séu borgaðir af öllum innstæðum í bönkunum og hve mikið lántakendur úr bönkunum þurfi að borga inn samtals í vexti, og segja svo: Þetta er svo lítill liður í öllu þjóðarbúinu, að það er alveg sama, hvað vextirnir eru settir. Manni skilst, að það ætti helzt að vera sama, þótt þeir væru t.d. 20%, það mundi ekki hafa neinar alvarlegar afleiðingar fyrir neinn, það væri svo lítil fjárhæð samtals. En hafa þessir menn aldrei hugsað þetta mál til enda? Gera þeir sér það ekki ljóst, að þessi nýi vaxtafótur, sem þeir eru að innleiða til frambúðar og þeir sögðu fyrst að ætti að vera aðeins til bráðabirgða, hann er að móta petta allt og gera þetta allt svona erfitt viðfangs? Hvers vegna þarf fólk nú að hafa svona hátt kaup? Halda þeir, að þeir geti miðað kaupgjaldið endalaust við þá, sem búnir vora að koma sér upp íbúð, t.d., áður en þeir komu til valda? Nei, það er ekki hægt. Það verður að gera svo vel að fara að miða við það ástand, sem þeir eru búnir að skapa og viðhalda hér í nokkur ár, og þá standa menn frammi fyrir þessum þokkalegu afleiðingum af því. Halda þeir líka t.d., að það sé endalaust hægt að miða í landbúnaðinum við þá bændur, sem voru orðnir grónir og búnir að ganga alveg frá sínum málum fyrir viðreisn? Dettur þeim í hug, að nýja viðreisnarverðið og nýju viðreisnarvextirnir hljóti ekki að koma inn í þessi mál sem vandamál, annaðhvort inn í landbúnaðarverðið eða þá að þeir kyrkja landbúnaðinn, ef þeir komast ekki inn í verðið? Nei, það verður að gera sér ljóst, að til þess að komast út úr þessum erfiðleikum er ekki leiðin sú að reyra þetta fastar í þessar viðjar, láta þetta spólast allt saman niður á við þrátt fyrir góðærið, Það verður að finna leiðir til þess að gera íslenzkri framleiðslu mögulegt að greiða mannsæmandi kaup til þess að mæta þeim erfiðleikum, sem búið er að skapa. Það verður ekki gert með því að hjakka alltaf ofan í sama sárið, eins og hæstv. ríkisstj. virðist halda. Hún virðist halda, að ástæðan til þess, að hér hefur ekki komizt á jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sé sú, að hún hafi ekki beitt nógu harkalega þessum ráðum sínum, í staðinn fyrir að gera sér grein fyrir því, að hér verður að snúa við blaðinu, leggjast þarf á eitt að finna með öllu hugsanlegu móti leiðir til þess að gera framleiðslunni kleift að borga það kaup, sem verður að vera.

Í þessu sambandi koma vextirnir með þeim rökum, sem ég hef verið að flytja. Og þá koma útflutningsgjöldin. Hvernig geta menn búizt við því, að íslenzkir útflutningsatvinnuvegir geti til lengdar búið við rúmlega 7% útflutningsgjald, að 7% af útflutningsverði vörunnar sé greitt í útflutningsgjald, þar sem atvinnuvegir, sem þeir keppa við, borga engin útflutningsgjöld og hafa jafnvel þjóðfélagslegan stuðning? Þetta geta þeir ekki búið við, eins og búið er að klemma að hér innanlands með þessari nýtízkustefnu, sem uppi hefur verið höfð, og eins og þörfin er orðin mikil fyrir hærra kaup. Þetta er bókstaflega ekki mögulegt, það er ekki með neinu móti framkvæmanlegt. Það verður að lækka útflutningsgjöldin. Hafa menn athugað, hvað þessi útflutningsgjöld raunverulega eru? Hvað þýðir t.d. 7% útflutningsgjald miðað við kaupgjald framleiðslunnar? Ég hef ekki reiknað það nákvæmlega, en ég veit, að í frystihúsunum er allt kaupgjald eitthvað talsvert undir 20% af útflutningsverðinu. Þetta þýðir, að 7% útflutningsgjald jafngildir tugum prósenta af kaupgjaldinu. Þessu verður að breyta. Það verður að lækka útflutningsgjöldin og leysa með öðrum hætti þau mál, sem nú eru leyst með útflutningsgjöldunum. Það þýðir ekki bara að berja höfðinu við steininn og segja: Kaupið má ekki hækka. — Það þýðir ekki. Það leysir ekki málið.

Fjöldamargar aðrar ráðstafanir koma vitanlega til greina, eins og t.d. þær að breyta tollakerfinu til hags fyrir framleiðsluna og gera henni þannig kleift að standa undir lífsnauðsynlegum kaupgreiðslum, eins og nú er komið.

Einn liður væri sá að láta skila í ríkissjóð söluskattinum, sem innheimtur er af þjóðinni. Hvernig væri það? Hvernig væri að láta skila söluskattinum í ríkissjóð, sem innheimtur er af landsmönnum? Og fleira gæti komið til greina, sem gæti hjálpað í þessum mikla vanda. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann geti lokið máli sínu á fáum mínútum eða vilji gera hlé á ræðu sinni.) Ég get lokið mér af á fáum mínútum. (Forseti: Þakka fyrir.)

Það verður að vera einn öflugur liður í þessari stefnu að gera mikla sókn undir merkjum vísinda og tækni til að auka framleiðni og framleiðslu og vinna að vinnuhagræðingu og vélvæðingu á öllum sviðum. Mín skoðun er sú, og það finnst mér að eigi að vera liður í hinni nýju stefnu, að vinnuafl og vélaafl eigi að ráða því, hverju verði til vegar komið í framleiðslu og framkvæmdum, og fjármagninu eigi að beina að því fyrst og fremst, sem gagnlegast er. En ofþenslu, sem óneitanlega er núna og getur orðið af og til, sé varnað með því að láta þær framkvæmdir sitja á hakanum og bíða, sem minni almenna þýðingu hafa og síður bæta úr brýnni nauðsyn eða auka framleiðni og þjóðartekjur, að ég nú ekki tali um þær framkvæmdir, sem beinlínis sóa verðmætum. Þetta á að víkja fyrir brýnustu nauðsyn heimilanna og framleiðslunni í landinu, og þannig sé leitað jafnvægis, en ekki með því að lögþvinga kjaraskerðingu og gera aðrar ráðstafanir, sem beinlínis draga úr framleiðslunni með rekstrarfjárskorti hjá fyrirtækjunum, okurvöxtum og skorti á fé til nauðsynlegustu tækja, sem mestu skipta til þess að rifa sig út úr vandanum jákvæðu leiðina, þ.e.a.s. með aukinni framleiðni og aukinni framleiðslu og að forðast, að það sem síður skyldi, sogi til sín fjármagnið og vinnuaflið.

M.ö.o.: það verður að taka upp stjórn á þessum málum í staðinn fyrir þá upplausn og óstjórn sem nú ríkir, stjórn, sem markvisst sé miðuð við, að það nauðsynlegasta sitji fyrir, en reyna ekki að leysa vandann eða lækna ofþensluna með því, að almenningur taki á sig minnkaða neyzlu og framkvæmdir, til þess að hinir fjársterkustu geti leikið lausum hala með það, sem þeim sýnist, enda þótt það sé oft og tíðum alls ekki það, sem fyrst og fremst þarf að gera.

Ég vil að lokum aðeins minnast á eitt atriði í þessu frv. sérstaklega, og það er um það, að lögin verki aftur fyrir sig, að lögin taki gildi, áður en þau eru samþ. á Alþingi. Það er alveg furðulegt. Takið eftir þessu orðalagi: Lögin eiga að taka gildi, áður en þau eru samþ. á Alþingi. Hver treystir sér að mótmæla því? Er þetta ekki skrýtið? Hvernig lízt mönnum á þetta? Ákvæði er í lögunum um, að það verði refsivert, sem fyllilega er löglegt að aðhafast í dag eftir gildandi lögum. Það á að gera refsivert, sem fyllilega er löglegt að aðhafast í dag eftir gildandi lögum. Það er ómótmælanlegt, að það er þetta, sem á að gera með frv., og að lögin eiga að taka gildi, áður en þau eru samþ. á Alþingi. Ég held, að þetta sé ekki hægt. Ég held, að þetta sé fordæmalaust og taki engu tali að reyna þetta. Það nær ekki nokkurri átt, að gildandi lög haldi ekki að öllu leyti sínu gildi, þangað til frv. hefur raunverulega öðlazt lagagildi, og slíkt fær auðvitað ekki staðizt að setja í lög ákvæði um refsingar, — og það er sérstök ástæða til að leggja áherzlu á það, að setja í lög ákvæði um refsingar fyrir löglegan verknað.

Það á að setja í lög ákvæði um að refsa mönnum fyrir verknað, sem í dag er fullkomlega löglegur á allan hátt eftir gildandi landsins lögum. Hvernig er þetta hugsanlegt? Ég held, að slík lagaákvæði hljóti að falla ómerk fyrir dómstólum, enda mundi það leiða út í hreinustu fjarstæðu, ef þessi háttur yrði yfirleitt upp tekinn í löggjöf. Ég vil því biðja hæstv. ríkisstj. að endurskoða þetta og fallast á að taka þetta ákvæði út úr frv.

Að lokum vil ég svo aðeins segja þetta: Ég álit, að með þessu frv. sé verið að efna til styrjaldar á rústum viðreisnarinnar, eins og ég hef orðað það í öðru sambandi. Ég tel það sorglegt, að þessi leið skuli hafa verið valin í stað þess að velja samningaleiðina. Ég tel, að það hefði verið meiri ástæða nú en oft áður til þess að reyna að forðast ófriðinn umfram alla muni, en í stað þess er hér kastað hanzkanum og benzíni hellt á. En það hefði átt að leita víðtækra samninga, sem leitt hefðu getað áleiðis út úr þeirri flækju, sem málefni landsins eru því miður komin í.

Að endingu, og það vil ég láta verða mín síðustu orð, að þegar hæstv. ríkisstj. fór af stað með viðreisnina árið 1960, þá sagði ég um þær ráðstafanir eftirfarandi orð á Alþingi, með leyfi hæstv. forseta, og ég ætla enn að gera þessi sömu orð að mínum orðum nú við þetta tækifæri, — ég sagði þá, með leyfi hæstv. forseta, og ég vil enda með því að lesa þau orð núna:

„Svona ráðstafanir er blátt áfram ekki hægt að gera. Það er með öllu gersamlega óskiljanlegt, hvernig nokkrum manni dettur í hug að koma fram með svona áætlanir eða svona fyrirætlanir. Hefur þetta alls ekki verið athugað — eða hvað? Hafa þessir hæstv. ráðh. ekki gert sér neina grein fyrir því, hvað þeir voru raunverulega að fara? Hvernig halda menn, að áhrifin af þessu verði í þjóðarbúskapnum? Og dettur mönnum í hug, að svona lagað sé í raun og veru framkvæmanlegt? Ég vil í fullri alvöru biðja hæstv. ríkisstj. að endurskoða þessar fyrirætlanir og endurskoða þessar áætlanir, því að vitanlega er ekkert til hættulegra í efnahagsmálum landsins en að gera einhverjar panikráðstafanir, sem enga stoð eiga í raunveruleikanum og enga möguleika hafa til að heppnast. Menn hafa ekki leyfi til þess að gera slíkar ráðstafanir, vegna þess að slíkt hlýtur að stórauka vandann frá því, sem hann er eða hefur verið.“

Þetta sagði ég þá, og við vitum, hvernig komið er í dag, og þetta vil ég núna gera að mínum orðum. Og ég vil nú enn fara fram á þetta sama við hæstv. ríkisstj.