01.11.1963
Neðri deild: 9. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (1815)

56. mál, launamál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur gert glögga grein fyrir eðli þess vanda, sem nú steðjar að íslenzku efnahagslífi, orsökum hans og rökunum fyrir þeim ráðstöfunum, sem lagt er til að gerðar verði með því frv., sem hér liggur fyrir til umræðu. Innan Alþfl. hefur mál þetta verið athugað og rætt mjög gaumgæfilega, og hefur miðstjórn Alþfl. gert um málið samþykkt, sem ég — með leyfi hæstv. forseta — skal nú leyfa mér að lesa:

„Í trausti þess, að ríkisstj. undirbúi aðgerðir til að bæta kjör láglaunafólks með raunhæfum ráðstöfunum, svo sem skatta- og útsvarsívilnunum, lágmarkslaunum, tryggingabótum eða öðrum slíkum aðgerðum, sem tiltækilegar þykja, og þessar ráðstafanir verði komnar til framkvæmda fyrir n.k. áramót, samþykkir miðstjórnin fyrir sitt leyti, að verðlag og kaupgjald verði fest, meðan á þessum undirbúningi stendur, óbreytt eins og nú er, þó ekki lengur en til 1. jan. n.k.“

Í framhaldi af þessari samþykkt, sem markar stefnu og afstöðu Alþfl. í þessu mikilvæga máli, vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um málið almennt.

Vandinn, sem þjóðinni er nú á höndum, er í raun og veru tvíþættur. Annars vegar er það staðreynd, að jafnvægið, sem náðst hafði í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd á árunum 1961 og 1962, hefur raskazt nú á þessu ári. Á árunum 1961 og 1962 var verulegur greiðsluafgangur í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd í fyrsta sinn um langt skeið. Það var ekki aðeins, að lífskjör þjóðarinnar í heild bötnuðu verulega. Þjóðin safnaði einnig gildum gjaldeyrisvarasjóði erlendis. Á þessu ári hafa lífskjör þjóðarinnar haldið áfram að batna, en nú gerist það ekki lengur samfara greiðsluafgangi í viðskiptum við aðrar þjóðir, heldur að nokkru fyrir tilstilli greiðsluhalla í utanríkisviðskiptum. Gjaldeyrisvarasjóðurinn vex ekki í ár. Hann mun þvert á móti að öllum líkindum minnka nokkuð.

Þessa þróun verður að stöðva. Ef hún heldur lengi áfram, eyðist gjaldeyrisvarasjóðurinn, þjóðin fer að nýju að safna lausaskuldum erlendis og glatar lánstrausti sínu. Þá getum við ekki lengur fengið hagstæð lán erlendis til þess að standa undir heilbrigðri uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega. Við verðum á ný bónbjargamenn bandamanna okkar, eins og við því miður vorum um skeið, eða við verðum háðir einræðisríkjum, eins og sumir virtust þá óska. Þegar ekki er lengur hægt að auka skuldir og lifa á lánum, þá verður að lokum að grípa til beinnar eða óbeinnar gengislækkunar. Þetta eru engar bollaleggingar út í bláinn. Þetta eru engar hrakspár. Þetta eru allt saman hlutir, sem hér hafa gerzt og ættu að vera öllum í fersku minni.

Ég er sannfærður um, að enginn heilbrigt hugsandi Íslendingur vill láta þróunina verða þessa einu sinni enn. Ég held, að allir Íslendingar, sem hugsa þetta mál ofan í kjölinn, vilji láta stöðva greiðsluhallann, áður en til slíkra afleiðinga hans kemur. Og þá vaknar spurningin: Hvernig er það hægt? Til þess að unnt sé að svara þessu, verður að gera sér grein fyrir, hver sé orsök greiðsluhallans. Í stuttu máli má segja, að greiðsluhallinn stafi af því, að aukning framkvæmda og aukning neyzlu hefur verið mun meiri en aukning þjóðarframleiðslunnar, einkum og sér í lagi þó aukning framkvæmda og þá fyrst og fremst framkvæmda einkaaðila. Þessa of miklu aukningu neyzlu og framkvæmda má rekja til hinna miklu launahækkana, sem áttu sér stað í fyrra og á þessu ári. Þessar hækkanir hafa aukið eftirspurn eftir bæði neyzluvörum og fjárfestingarvörum, langt umfram aukningu þ,jóðarframleiðslu. En launahækkanir hafa ekki aðeins haft bein áhrif á neyzlu og fjárfestingu, þær hafa einnig skapað ótta um það, að ekki mundi takast að halda gengi krónunnar stöðugu. Þess vegna hafa menn viljað flýta sér að framkvæma það, sem nokkur leið væri að herja út fé til. Af sömu ástæðu hefur innflutningur alls konar varanlegs neyzluvarnings, svo sem bifreiða, aukizt gífurlega.

Ef þessi þróun á að stöðvast, verður tvennt að koma til. t fyrsta lagi verða laun að hætta að aukast hraðar en þjóðarframleiðslan. Í öðru lagi verða menn að sannfærast um, að gengi krónunnar muni verða varðveitt og verðlag haldast stöðugt. Innflutningurinn minnkar þá, vinnuaflið flyzt aftur yfir í útflutningsatvinnuvegina, útflutningur vex. Jafnvægið, sem áður hafði náðst, kemst á aftur, gjaldeyrisvarasjóðurinn tekur aftur að vaxa. Í stað þess að festa fé sitt í fasteignum eða öðrum slíkum verðmætum í von um, að þær hækki í verði, taka menn aftur að leggja fé á vöxtu í peningastofnanir og auka þannig skilyrði þeirra til þess að lána atvinnuvegunum nýtt stofnfé og aukið rekstrarfé. Vissan um, að gengi krónunnar verði varðveitt og verðlagið muni haldast stöðugt, verður að geta stuðzt við trausta og örugga stefnu hins opinbera í bankamálum og fjármálum og heilbrigða og skynsamlega stefnu í launamálum. Ef bankakerfið lánar út meira fé en nemur heilbrigðri sparifjármyndun, ef ríkisbúskapurinn er rekinn með halla, ef almennar launahækkanir verða umfram aukningu þjóðartekna, þá getur engin vissa orðið fyrir því, að gengið haldist óbreytt. Þess vegna er samræmd stefna í bankamálum, fjármálum ríkisins og launamálum forsenda þess, að hægt sé að breyta greiðsluhallanum aftur í greiðsluafgang og halda genginu stöðugu.

Þetta er meginorsökin fyrir því, að nú sé nauðsynlegt að festa kaupgjald og verðlag um sinn. Það eitt dugir þó ekki. Jafnhliða verður stefnan í bankamálum og fjármálum ríkisins að vera heilbrigð. Á undanförnum árum hefur ríkisstj. kappkostað að stjórna bankamálum og fjármálum þannig, að ekki gætti of mikillar þenslu. Eins og reynslan sýnir glögglega, getur þetta ekki náð tilætluðum árangri, ef kauphækkanir verða langt umfram aukningu þjóðartekna. Undir slíkum kringumstæðum er ekki hægt að hafa hemil á þenslunni með aðgerðum í peningamátum og fjármálum einum, nema stjórnarvöldin séu reiðubúin að ganga svo langt, að atvinna dragist stórlega saman og jafnvel komi til alvarlegs atvinnuleysis. Þetta hefur núverandi ríkisstjórn að sjálfsögðu ekki viljað gera. Það er og verður grundvallaratriði í stefnu hennar að stuðla að fullri atvinnu í landinu. Skapist hins vegar eðlilegt ástand í launamálum, þannig að laun hækki ekki umfram aukningu þjóðarframleiðslu, getur rétt stjórn peningamála og fjármála náð tilætluðum árangri og er um leið óhjákvæmilegt tæki til, að sá árangur náist.

Ég sagði áðan, að vandinn, sem við blasir nú, sé tvíþættur. Hallinn út á við, sem ég nú hef verið að ræða, er annar þáttur vandans. Hinn þátturinn er sá, að á undanförnum árum hefur orðið breyting á tekjuhlutföllum í landinu. Tekjur launastéttanna í heild hafa vaxið, ekki aðeins peningatekjur þeirra, heldur einnig raunverulegar tekjur, þ.e. peningatekjur leiðréttar með tilliti til áhrifa verðlagsbreytinga. En raunverulegar tekjur allra launþega hafa ekki vaxið jafnmikið. Smám saman hefur þróunin orðið sú, að raunverulegar tekjur hinna tekjuhærri launastétta hafa vaxið hlutfallslega meira en raunverulegar tekjur hinna tekjulægri. Það hefur m.ö.o. dregið úr þeim launajöfnuði, sem hér ríkti. Meiri munur hefur orðið á raunverulegum launum hinna tekjuhæstu launþega og hinna tekjulægstu í þessu sambandi er nauðsynlegt að geta þess og meira að segja að leggja á það áherzlu, að hliðstæð þróun hefur átt sér stað í öllum nágrannalöndum Íslands undanfarin ár. Hún stendur í sambandi við það, að gildi sérþekkingar hefur vaxið, aukin verkkunnátta og aukin menntun hefur æ meiri þýðingu og á æ meiri þátt í þeirri aukningu þjóðartekna, sem hvarvetna á sér stað. Þess vegna má segja, að ekki sé óeðlilegt, að þeir, sem hafa til að bera sérstaka verkkunnáttu og sérstaka menntun, auki hlut sinn í þjóðartekjunum. Ófaglærðum verkamönnum og verkakonum fer hvarvetna hlutfallslega fækkandi, einnig hér á landi. Um leið minnkar sá vöxtur, sem verður á raunverulegum tekjum þeirra miðað við aðrar stéttir, sem hafa sérstaka verkkunnáttu eða sérstaka menntun til að bera. Hér er um alþjóðlegt fyrirbæri að ræða, og þarf okkur Íslendingum í sjálfu sér ekki að koma á óvart, þótt þess gæti hér eins og annars staðar. Hitt er svo annað mál, hvort okkur geðjast þessi þróun að öllu leyti eða ekki. Við höfum hér á landi um langan aldur vanizt meiri launajöfnuði en annars staðar hefur tíðkazt, og þess vegna kemur það verr við okkur a.m.k. marga hverja, þegar þessi þróun á sér stað hér, einkum og sér í lagi þegar hún gerist á tiltölulega stuttum tíma. Hitt er svo annað mál, að hve miklu leyti við höfum tök á að sporna gegn henni. Staðreynd er, að hvorki verkalýðshreyfingunni hér né í nágrannalöndum hefur tekizt að koma í veg fyrir, að þróunin hafi orðið þessi. Þessi breyting á tekjuhlutföllum þessara launastétta hefur gerzt að nokkru í frjálsum samningum stéttarfélaga við vinnuveitendur og í kjölfar breyttra launaforma í iðnaðinum, svo sem aukinni ákvæðisvinnu, og að nokkru á vinnustöðunum sjálfum án atbeina stéttarfélaga. Stjórnarvöld hafa ekki staðið fyrir þessum breytingum. Grundvöllur þeirra er sumpart frjálsir samningar og sumpart öfl vinnumarkaðsins.

Þess vegna er nú svo komið, að ef menn vilja bæta hlut láglaunafólksins, sem dregizt hefur aftur úr í launakapphlaupinu undanfarin ár, verða menn að gera sér það ljóst, að það er ekki unnt að gera með því að hækka kauptaxta þess, því að þá er öldungis víst, að hið sama gerist, sem gerzt hefur margsinnis undanfarin ár, að kauptaxtar iðnaðarmanna, verzlunarmanna, sjómanna og þá um leið bænda og opinberra starfsmanna breytast í kjölfarið, þannig að enginn hefur neitt upp úr kauphækkuninni. Þess vegna verður fyrst og fremst að bæta kjör láglaunafólks með atbeina ríkisvaldsins, þ.e. á þann hátt, að löggjafarvaldinu sé beitt í því skyni að jafna tekjuskiptinguna, flytja tekjur til hinna tekjulágu frá hinum tekjuháu, en það er fyrst og fremst hægt að gera með því að beita skatt- og útsvarskerfinu, tryggingakerfinu eða með því að grípa til annarra félagslegra ráðstafana, svo sem stuðnings við húsbyggingar efnalítils fólks.

Enda þótt ljóst sé, að breytingar hafi orðið á launahlutföllum á undanförnum árum í þá átt, sem ég hef nú lýst, má ekki gera meira úr þessum breytingum en efni standa til. Nákvæmur samanburður á breytingum á tekjum starfsstétta á tímabilinu 1951–1962 hefur nýlega verið gerður. Þessi samanburður sýnir m.a., að meðaltekjur iðnaðarmanna í Reykjavík voru 9% hærri en meðaltekjur verkamanna í upphafi þessa tímabils, þ.e. 1951, en 13% hærri í lok þess, þ.e. 1962. Meðaltekjur sjómanna voru 27% hærri en meðaltekjur verkamanna í upphafi tímabilsins, en 35% hærri í lok þess. Eitthvað hefur munurinn aukizt. enn á árinu 1963, þessu ári, en það er ekki um, stórfellda breytingu að ræða. Meira máli skiptir hin mikla breyting á launum opinberra starfsmanna, sem varð á árinu 1963.

Á það var lögð áherzla af hálfu ríkisstj. í samningaviðræðunum við opinbera starfsmenn, að launahækkun þeim til handa væri aðeins réttmæt að því leyti, sem hún fæli í sér samræmingu á kjörum til móts við það, sem nú tíðkaðist á almennum vinnumarkaði, og leiðréttingu vegna þeirrar sérstöku ábyrgðar og menntunar, sem störf þeirra krefjast. Enn fremur var lögð á það áherzla, að raunveruleg leiðrétting á kjörum opinberra starfsmanna gæti ekki átt sér stað, nema aðrar stéttir viðurkenndu réttmæti hennar. Svo virtist lengi vel sem um slíka viðurkenningu væri í raun og veru að ræða, og má í því sambandi benda á, að lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna voru afgreidd einróma hér á hinu háa Alþingi og önnur launþegasamtök létu a.m.k. í það skína, að þau styddu kröfur opinberra starfsmanna. því má ekki heldur gleyma, að málgögn stjórnarandstöðunnar veittu hinum gífurlegu kröfum, sem samtök opinberra starfsmanna lögðu fram, fullan stuðning.

Nú virðist hins vegar sem önnur launþegasamtök hafi í raun og veru alls ekki verið reiðubúin til að fallast á þá miklu leiðréttingu á kjörum opinberra starfsmanna, sem k,jaradómur fól í sér, því að nú krefjast hver samtökin á fætur öðrum mikilla kauphækkana með tilvísun til launahækkunar opinberra starfsmanna, enda þótt öllum hljóti að vera ljóst, að kauphækkun þeirra átti að vera leiðrétting á langvarandi misræmi í kjörum þeirra og annarra stétta og þeir eigi samkv, lögum, sem allir þingflokkar hafa samþykkt, rétt á nýjum kauphækkunum til samræmis við almennar kauphækkanir, sem eiga sér stað. Þeir, sem telja, að skynsamlegra hafi verið að fara hægar í leiðréttingu á kjörum opinberra starfsmanna, verða að minnast þess, að ábyrgðin á því, að það var gert, er ekki ríkisstj. einnar. Þá ábyrgð ber Alþingi allt og raunar einnig launþegasamtökin öll.

Eins og fram kemur í þeirri ályktun miðstjórnar Alþfl., sem ég las áðan, er það skoðun flokksins, að láglaunafólk hafi á undanförnum árum dregizt svo aftur úr hinum hærra launuðu í launakapphlaupinu, að ríkisvaldinu beri nú að grípa í taumana og gera sérstakar ráðstafanir til að jafna nokkuð tekjurnar í þjóðfélaginu, þ.e. bæta kjör láglaunafólksins með raunhæfum ráðstöfunum, svo sem skatta- og útsvarsívilnunum, tryggingabótum eða öðrum slíkum aðgerðum. Alþfl. gerir sér fyllilega ljóst, að þetta verður ekki gert með neins konar göldrum, það verður ekki gert án þess, að það kosti neinn neitt. Kjör láglaunafólks verða ekki bætt, nema einhverjir borgi það, sem í hlut þess fellur. En Alþfl. telur, að lífskjör hinna tekjuhærri séu nú svo góð hér á landi, að þeir megi vel við því að taka á sig nokkra byrði til þess að bæta kjör láglaunafólks. Alþfl. telur, að slíkar ráðstafanir mundu gera þjóðfélagið réttlátara og betra en það er nú.

Það er á þessum forsendum og með þessum rökum, sem Alþfl. styður frv. það, sem hér er nú til umr. Honum er ljós þjóðarnauðsyn þess að halda gengi krónunnar stöðugu, að tryggja afkomu útflutningsatvinnuveganna og áframhaldandi stöðuga atvinnu í landinu, að stöðva greiðsluhallann við útlönd og efla gjaldeyrisvarasjóðinn. En honum er jafnframt ljóst réttmæti þess að bæta kjör láglaunafólks með þeim ráðum, sem geta komið því að raunverulegu haldi.