01.11.1963
Neðri deild: 9. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (1818)

56. mál, launamál o.fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ef ég kysi að tala um þetta mál í sama dúr og hv. síðasti ræðumaður gerði, þá lægi ósköp nærri að fjölyrða um hans hnyttnu orð hér áðan, — sem skýrðust raunar nokkuð af áskorun hans til ríkisstj., að hún ætti að segja af sér, — að honum þættu ráðherrastólarnir þægilegri en ýmis önnur sæti hér í þinghúsinu. En við höfum nú haft reynslu og þjóðin af þessum hv. þm. sem ráðh. og sem forustumanni um að leysa svipaðan vanda og hér er um að ræða, því að það er alveg rétt, eins og hv. 1. þm. Austf. sagði hér fyrr í dag, að það hefur oft borið við og á oft eftir að bera við, að ofþensla hleypur í okkar efnahagslíf, og þá þarf að grípa til þeirra tiltækilegu ráða, sem eru hæf til að koma í veg fyrir ofþensluna og gera hana skaðlausa.

Hv. 5, þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, settist í hinn þægilega ráðherrastól á Alþingi haustið 1956. En hann var ekki einu sinni kominn í hinn þægilega stól hér í þinghúsinu, þegar hann úr sínum enn þá þægilegra stóli uppi í Arnarhvoli gaf út brbl., sem höfðu titilinn: Brbl. um festingu kaupgjalds og verðlags. Og í þeirri ræðu, sem hann flutti á Alþingi, þegar hann lagði þetta frv. fram til staðfestingar á brbl., viðurkenndi hann hreinlega, að til þess að ráða við verðbólguna hafi hann sjálfur, forseti Alþýðusambandsins, gert það, sem nú skal segja, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef ég hefði hlíft verkafólkinu og látið það fyrst fá sina kaupgjaldshækkun og ekki látið lögin koma í gildi fyrr en eftir 1. sept., þá hefðu allir aðrir getað vísað til þess, að þeir yrðu líka að fá sína möguleika til þess að hagnast, áður en lögin voru framkvæmd af þeim.“

Hv. þm., þáv. ráðh., lýsti því þannig með berum orðum yfir, að hans fyrsta úrræði hefði verið að svipta verkalýðsfélögin lögbundnum rétti, samningsbundnu ákvæði, með brbl. Þá var ekki haft svo mikið við að leggja lögin fyrst fyrir Alþingi, og þessi hv. þm., sem nú fárast mjög yfir því, að lög eigi að verka aftur fyrir síg, ákvað þannig með sínu fyrsta þýðingarmikla skrefi að láta þessi brbl. verka aftur fyrir sig með því að svipta verkalýðinn þeim rétti, sem hann var búinn að fá. Ef núv. ríkisstj. þarf fordæma við, þarf ekki lengra að fara en í þetta eina dæmi. Hitt er annað mál, að þetta var vafalaust gert af ríkri nauðsyn, og við sjálfstæðismenn, sem þá vorum í stjórnarandstöðu, tókum þessum brbl. og staðfestingu þeirra á þingi með allt öðrum hætti en núv. hv. stjórnarandstaða gerir. Því var að vísu haldið fram með mjög hæpnum hætti, að leitað hefði verið meira eða minna óformlegs samþykkis nokkurra forustumanna verkalýðsfélaganna um setningu þessara brbl., og hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, útskýrði það svo, að það hefði verið eðlilegt, að þessi ráðstöfun hefði verið gerð, vegna þess, eins og hv. þáv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, sagði um verkalýðsfélögin orðrétt:

„Þau stóðu frammi fyrir því, að þau gátu samkv. rétti sínum tekið nokkra kauphækkun 1. sept. þ.á., en þau stóðu líka frammi fyrir því, að þessi litla kauphækkun, sem fólst í þessum 6 stigum, átti að hverfa að fullu og öllu strax eftir 15 daga.“

Það var vegna víxlverkana milli kaupgjalds verkalýðsins og landbúnaðarvöruverðsins, alveg sama dæmi og við höfum í sumar, að kanpgjaldshækkunin, sem ákveðin er í júní, er nú upp étin, fyrst og fremst af hækkun landbúnaðarvara og af öðrum óhjákvæmilegum hækkunum. Hér er sem sagt ekki um neitt nýtt vandamál að ræða og ekki heldur ný vinnubrögð. Mér kemur ekki til hugar að saka þessa hv. þm. um illvilja í garð verkalýðsins eða yfirleitt nokkurs Íslendings, þó að þeir tækju þetta ráð, sem þeir gerðu. Þeir völdu það af ríkri nauðsyn.

En nú segir hv. 5. þm. Vestf. um frv. núv. ríkisstj., að í því felist engin úrræði, það sé einungis til að skapa sér frest, meðan úrræðanna sé leitað. En einnig að því leyti gilti nákvæmlega hið sama um brbl. hv. þm. frá því í ágúst 1956. Þau voru þó ekki takmörkuð að gildi við tvo mánuði, eins og þessi lög eiga að vera, heldur við 4 mánuði, frá 1. sept. til 31. des. Og þáv. hæstv. ríkisstj. var ekki skjótari með úrræði sín en svo, að þegar þan komu fram, var fast liðið að jólum. Á þeim tíma var sá háttur hafður á, eins og hv. 1. þm. Vestf., Hermann Jónasson, svo fagurlega tók til orða haustið 1958, að við sjálfstæðismenn vorum „settir til hliðar“ og mjög lítið var til okkar leitað. En ég minnist þess, þegar hv. 1. þm. Vestf., þáv. hæstv. forsrh., kallaði mig til sín rétt fyrir jólin, sýndi mér þetta frv. og óskaði samstarfs, aldrei þessu vant, um, að málið fengi að ganga fram fyrir jól. Þetta var „jólagjöfin“ svokallaða, alræmt frv. og lagasetning á sinni tíð. Við sjálfstæðismenn athuguðum málið. Við vorum því að vísu fyllilega ósammála, en við viðurkenndum, að þörf væri ráðstafana til þess að bjarga atvinnuvegum þjóðarinnar frá stöðvun, og greiddum því fyrir því, að málið næði fram að ganga fyrir jól, þrátt fyrir það að við bentum þá þegar á, að mjög væri þessi löggjöf misráðin. En segja mátti um hæstv. ríkisstj. þá eins og oft ella, að betra er að veifa röngu tré en engu.

Það var að vísu í „jólagjöfinni“ ekki um beina kaupbindingu að ræða, en stórkostlega skerðingu á hag alls almennings með margháttuðum tollum. Og þeirri aðferð var einnig haldið áfram í „bjargráðunum“ alræmdu, sem samþykkt voru hér eftir mikla og langvarandi verkleysu á Alþingi fyrri hluta ársins 1958. Loksins, þegar komið var fram á sumar, ég hygg um mánaðamótin maí–júní, voru þessi „bjargráð“ samþykkt, sem síðan leiddu til þeirrar frægu óðaverðbólgu, sem hv. 1. og 5. þm. Vestf. kepptust við að lýsa haustið 1958 og voru þá búnir að koma sér saman um og hv. 5. þm. Vestf. að skrifa mjög skelegga og að ýmsu leyti skynsamlega grein um það í eitt af sínum málgögnum, að ráðstafanir yrði að gera til þess að hefta þessa óðaverðbólgu og verkalýðurinn að leggja sitt af mörkum í því skyni. Hv. þm. fóru síðan á fund Alþýðusambandsins, og þegar þeir náðu þar ekki sínu máli fram, hygg ég, að hv. 5. þm. Vestf. hafi kosið að standa með sínum félögum, og hv. 1. þm. Vestf., þáv. forsrh., hafi virzt heldur litil stoð í þessum fylgisveini. En afleiðing alls þessa varð sú, að þegar þeir fengu ekki ný kaupbindingarlög þá samþykkt af Alþýðusambandsþinginu, lög, sem áttu að ganga í þá átt, að Alþýðusambandið veitti frest til desemberloka, hyrfi á brott, en léti hina háu herra eina um, hverjar ráðstafanir væru gerðar, þá varð það úr, eins og kunnugt er, að hæstv. forsrh. þáv., Hermann Jónasson, kom í þennan stól, sem var nú honum ekki mjög þægilegur þá að standa í, og hélt sína frægu uppgjafarræðu, eina hina eftirminnilegustu í allri Íslands sögu.

Við skulum vera alveg hreinskilnir og játa það, að hér stöndum við frammi fyrir miklu sameiginlegu vandamáli, sem allar ríkisstjórnir nú um mannsaldursskeið hafa þurft að glíma við og ætíð — með réttu eða röngu — brugðizt við á sama veg. Ég man alltaf eftir því, þó að ég væri ekki þingmaður, að ég kom hér upp í þingið vetrarkvöld 1938, þegar þáv. hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, var að fá lögfesta lagaþvingun til þess að binda endi á sjómannadeilu. Vitanlega gerði hæstv. forsrh. þetta af ríkri nauðsyn, og honum var það svo mikið kappsmál, að hann gerði það, þó að hann sæi fyrir, að þáverandi meðráðh. hans, Haraldur Guðmundsson, mundi hverfa úr ríkisstjórninni.

Að þessu sinni var ég einungis áhorfandi. Ég var meiri þátttakandi í mínum flokki í hinum löngu samningaumræðum og viðræðum, sem leiddu til myndunar þjóðstjórnarinnar 1939, þegar þáv. hæstv. ríkisstj. undir forsæti Hermanns Jónassonar gafst upp og leitaði samstarfs við Sjálfstfl. um myndun nýrrar stjórnar, vegna þess að efnahagskerfið var komið í rúst. Þá þótti ekki annað tiltækilegt en að fella gengið og heimila að vísu nokkra vísitöluuppbót, en þó mjög takmarkaða, þannig að efnislega var þar um kaupfestingu að ræða, beina kaupskerðingu. Það var úrræðið, sem þá þótti eitt fært að grípa til.

Það má einnig minnast þess, þegar þessi sami hæstv. forsrh. sagði af sér haustið 1941, vegna þess að hann gat ekki komið fram kaupskerðingar- og kaupbindingarlögum, en myndaði svo ríkisstjórn sína aftur eftir nokkrar vikur, en varð að þola það, að hún sprakk eftir áramótin, þegar gerðardómslögin voru sett 1942. Hv. Alþfl.- menn og hvað þeir kölluðu sig nú þá, vinir okkar með langa nafnið síbreytilega, þeir voru að vísu báðir á móti þeirri löggjöf. Við sjálfstæðismenn vorum henni fylgjandi, og ég er jafnsannfærður um það, eins og ég vissi, að við gerðum það eftir beztu sannfæringu, þá gerðu hæstv. þáv. ráðherrar, Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, það eftir beztu sannfæringu sinni að fallast á þá löggjöf — og ekki einungis að fallast á hana, heldur beita sér fyrir henni af öllum lífs og sálar kröftum.

Og það skyldi þó ekki einnig hafa verið svo, að samningar um myndun vinstri stjórnar rétt fyrir jólin 1942 hafi farið út um þúfur vegna þess, að þá fengust hinir flokkarnir, sem Framsókn var þá í makki við, ekki til þess að fallast á þau kaupbindingarskilyrði, sem Framsfl. taldi sér nauðsynlegt að setja. Ég var ekki þátttakandi í þeim samningum og skal því ekki fara frekar út í það.

Hitt veit ég gjörla, að þegar ég fyrst kom í ríkisstj., þá var með hæstv. þáv. menntmrh., núv. hv. 1. þm. Austf., þá gerðum við af illri nauðsyn á árinu 1947 að lækka kaupið með löggjöf settri af Alþ. Við gerðum það ekki verkalýðnum til ills eða vegna þess, að við vildum ekki unna alþýðu manna á Íslandi að búa við góð kjör, heldur af því, að við sáum ekki og enginn gat þá bent á önnur hagkvæmari ráð til þess að forðast almenna atvinnustöðvun í landinu.

Hið sama átti sér stað um gengislögin 1950, sem vissulega voru kaupskerðingarlög, fram hjá því tjáir ekki að reyna að komast, og við getum ósköp vil minnzt þess, allir þrír í sameiningu, ég og mínir þáv. félagsbræður, svo þokkalegir sem þeir nú voru, hv. 1. þm. Austf. og hv. 1. þm. Vestf., að þá var það lagt til í okkar stjórnarfrv., þó að því væri breytt á þinginu, að almenn kauphækkun ætti beinlínis að leiða til þess, að skráning krónunnar væri tekin til athugunar. Það var sameiginleg tillaga okkar. Við getum sagt, að sú till. hafi verið viturleg eða ekki viturleg, heimskuleg eða hyggileg, en við gerðum þetta áreiðanlega að tillögu okkar af beztu sannfæringu, vegna þess að við töldum, að það væri jafngott, að menn gerðu sér grein fyrir því, að almennar kaupgjaldshækkanir umfram getu efnahagslífsins til þess undir þeim að standa gætu a.m.k. leitt til gengisfalls og yrði því að taka það mál upp til athugunar, ef slíkar almennar kaupgjaldsbreytingar yrðu gerðar.

Ég hef minnzt á úrræðin, sem hæstv. vinstri stjórn greip til á sínum valdatíma, og þau fóru mjög í hina sömu átt og sýndu það, að þegar hv. Alþb: menn eru í ríkisstj., þá kunna þeir ekki í þessum efnum önnur ráð en við hinir. Ég rakst á það, þegar ég var að fletta upp ummælum þeirra Hannibals og Lúðvíks hér áðan, að ég hafði í þeim umræðum varpað fram þeirri spurningu, hvort þarna væri nú um raunveruleg sinnaskipti þessara mjög svo vönduðu og grandvöru manna að ræða eða hvort þetta væri aðgangseyririnn, sem þeir þyrftu að borga til að fá að vera á fleytunni með Eysteini. Eftir ummælum hv. 5. þm. Vestf. hér í kvöld virðist nú svo sem það hafi verið aðgangseyririnn, en ekki sannfæring. Og þó er ég alls ekki viss um það, því þó að ræða hv. 5, þm. Vestf. væri sambland af gamni og alvöru, þá var vissulega ýmislegt athyglisvert í henni, sem er þess virði að taka til athugunar og kryfja til mergjar, hvort þurfi að vera svo róttækur ágreiningur manna á milli um, eins og hv. þm. vill nú vera láta.

Við komumst ekki hjá því að viðurkenna, í fyrsta lagi þetta, sem ég hef nú rakið, að viðbrögð allra ríkisstjórna við hliðstæðum vanda, eins og við höfum nú við að etja, eru og hafa ætið verið hin sömu. Það hefur verið svo furðulega fátt um úrræði, en það er vegna þess, að vandinn er hinn sami og úrræðin eru svo furðulega fá. En hv. 5. þm. Vestf. segir, að við hinir kennum ætið verkalýðshreyfingunni um þennan vanda og segjum, að það sé vegna kauphækkana, sem verðhækkanirnar komu. Það er hin sama kenning og hann hélt sjálfur fram, þegar hann átti heima í þessum þægilega stól, þarna til hægri, þó að hann vilji nú ekki viðurkenna þá kenningu í bili. Við skulum játa allir, að þarna er um víxlverkanir að ræða.

Þarna er um vítahring að ræða, sem verður að brjótast út úr, hverjir sem hér eru við völd, hverjir sem sitja í hinum þægilegu stólum hverju sinni, og það er skylda okkar sem þingmanna og forráðamanna, sem manna, sem hver um sig nýtur trausts álitlegs hóps manna, að reyna að finna ráð til þess að rjúfa þennan vitahring.

Hv. 5. þm. Vestf. gerir mikið úr hógværð verkalýðshreyfingarinnar og segir, eins og hv. 5. þm. Austf. hafði sagt áður: Hún hefur aldrei hækkað kaup nema sem afleiðingu af verðhækkun til þess að ná samræmi. Þetta er það, sem þeir segja nú, þótt þeir héldu þveröfugu fram 1966. Þeir geta auðvitað sagt, eins og haft er eftir Norðmanninum: „Ég skipti um skoðun, af því að ég er heiðarlegur maður.“ En um það verður ekki deilt, að þeir hafa skipt nm skoðun. Ef það er vegna þess, að þeir eru heiðarlegir menn, þá verða þeir að viðurkenna, að kaupkröfu- og kaupgjaldsbarátta verkalýðsfélaganna, hvort sem hún er undir þeirra forustu eða lýðræðissinna, hún hefur ekki náð þeim tilætlaða árangri. Það er óvefengjanlegt, sem þeir eru stöðugt að hamra á, en leita ekki skýringanna fyrir, þrátt fyrir allar þessar hækkanir, hækkanir ofan á hækkanir, þá eru hinir verst stæðu alltaf nokkru verr stæðir eftir hverja hringferð heldur en þeir voru áður. Sú barátta, sem til slíkrar niðurstöðu leiðir, ekki aðeins nú, heldur svo langt sem við kunnum að rekja þessa sögu, hún hlýtur að vera á villigötum. Það hlýtur að vera meira en lítið bogið við það kerfi, sem leiðir til slíkra afleiðinga.

Við verðum og að viðurkenna, að það er rétt eftir núgildandi skipan Alþýðusambands Íslands, að það hefur ekki úrslitaráð um meðferð þessara mála eða samningsákvarðanir hverju sinni. Ríkisstj. leitaði fyrir nokkrum mánuðum til stjórnar Alþýðusambandsins um samstarf til þess að fá hækkað kaup eingöngu fyrir lægstu launaflokkana, þá sem verst eru staddir. Svarið við því var þetta: Alþýðusambandið hefur ekki ráð yfir þessu. — Það vísaði málinu frá sér til hinna einstöku félaga. Það er vissulega skiljanlegt, að einstök félög vilji ekki fela Alþýðusambandinu þetta vald, meðan það er eins uppbyggt og það er nú.

Hv. þm. vildi færa að okkur, að við værum ekki jafnmiklir lýðræðisunnendur á borði og við værum í orði. En ég verð að segja, — án þess að hv. hm. minni mig að öðru leyti á krókódíl, vegna þess að það er allt önnur skepna, sem hann minnir mig á, verði ég að fara í dýraríkið, — að þá fannst mér það vera krókódílstár, þegar hann var hér að gráta yfir örlögum verzlunarmanna og um leið að hæðast að lýðræðisást okkar hinna, vegna þess að hvað sem um hv. þm. verður að öðru leyti sagt, þá var hans framkoma gagnvart verzlunarmönnunum á síðasta Alþýðusambandsþingi allt annað en lýðræðisleg. Hann virtist þá enn vera allt of mikið undir þeim áhrifum, sem hann fékk við sina frægu heimsókn í Tékkóslóvakíu, þegar hann sannfærðist um, að það væri alveg eins gott kosningafyrirkomulag, þar sem aðeins einn flokkur fengi að bjóða fram, eins o8 í þessum svokölluðu lýðræðisríkjum. Ég hef nú von um, að hans ágæti sonur hafi upplokið hans augum fyrir því, að ástandið austan tjalds sé nú ekki alveg eins gott og jafngöfugum ferðalang kann að virðast, jafnvelmeðfarinn og hann er, þegar hann er þar á skyndiferð.

Nei, við verðum að játa, að það er eðlilegt, að með núverandi uppbyggingu Alþýðusambandsins séu hin einstöku félög treg til þess að láta Alþýðusambandið fá fyrir sig samningsrétt. En afleiðingin af því, að enginn einn aðili kemur fram fyrir verkalýðshreyfinguna, er þessi, að kaupgjaldsbaráttan er að verulegu leyti innbyrðis barátta félaganna sjálfra. Þau eru í kapphlaupi, sem hingað til hefur leitt til þess, að þessir verst settu menn fá minnst og verða aftur úr. Það er engin ný kenning hjá mér, að kaupgjaldsbaráttan sé að verulegu leyti þessa eðlis. Mér var sýnt í dag málgagn hv. þm. Hannibal Valdimarssonar, Frjáls þjóð, þar sem einn af helztu trúnaðarmönnum vinstri stjórnarinnar, hagfræðingurinn Haraldur Jóhannsson, skrifar grein, þar sem hans höfuðniðurstaða er einmitt ábending um þetta, að kaupgjaldsbaráttan sé fyrst og fremst innbyrðis barátta verkalýðsfélaganna sjálfra.

Við sjáum líka af ummælum hv. 5. þm. Vestf. (HV), hversu þessi innbyrðis barátta í raun og veru er óheil og óheilbrigð, þegar hv. þm. talar hér um kjaradóminn. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég tel þann dóm að mörgu leyti óheppilegan. Ég vil lýsa yfir því, að það er algerlega rangt, sem hv. þm. gaf í skyn, þótt hann segði það ekki berum orðum, að ríkisstj. hefði ráðið niðurstöðu dómsins. Það voru frjálsir dómendur, óháðir öllum, sem að þessari niðurstöðu komust, með réttu eða röngu. Eitt fyrsta skilyrðið, sem þeir áttu að gæta í dómi sínum, var, að þeir áttu að miða við kaupgjald annarra stétta, þannig að hækkunin til embættismannanna átti að vera leiðrétting, en ekki lyftistöng til nýrra, almennra kauphækkana. Þetta er berum orðum boðið í lögum, sem ég hygg að enginn maður á Alþ. hafi greitt atkvæði gegn. Það mun að vísu vera svo, að hv. 5. þm. Vestf. og a.m.k. sumir hans flokksbræður sátu hjá við afgreiðslu málsins. En það var vegna þess, að þeir töldu, að þessi lög gengju ekki nógu langt, þeir töldu, að réttur hinna opinberu starfsmanna væri ekki nógu vel tryggður með þessum lögum. Að dómnum hafi verið ætlað að byggja á hinu almenna kaupgjaldi í landinu, svo að niðurstaða hans gæti ekki leitt til almennrar kauphækkunar, sést auk þess ákvæðis, sem ég vitnaði í — mjög berlega af öðru, og það er, að ef almenn kaupgjaldshækkun verður í landinu, þá eiga opinberir starfsmenn rétt á sams konar hækkun handa sér. Þetta er ákvæði laganna.

Við getum allir verið vitrir eftir á og sagt: Þetta er óskynsamleg löggjöf. — En hver var það í þessum háa þingsal, sem á það benti, meðan lögin voru til meðferðar Allra sízt hv. Alþb.- menn, sem töldu, að lögin gengju ekki nógu langt. Og við munum það einnig ofur vel, og landslýðurinn man það einnig ofur vel, að fyrr á þessu ári, þegar samningamenn opinberra starfamanna höfðu borið fram sínar kröfur, þar var munurinn á hinum hæst og lægst launuðu miklu meiri en hann er nú, og þar var kaupið handa hæstu flokkunum miklu hærra en það er nú, ég hygg, að hæsti flokkurinn, sem þar var talinn, hafi átt að fá 33 þús., í stað þess að samavarandi flokkur nú fær þó ekki nema eitthvað kringum 20 þús., þá töldu bæði hv. Framafl.- menn og hv. Alþb.-menn þetta vera sanngjarnar kröfur og réðust harðlega á ríkisstj. fyrir að fallast ekki umyrðalaust á þessi háu laun. Og við vitum það einnig ofur vel, að við höfum átt í hörðu höggi hér á Alþ., ríkisstj., einmitt við hv. stjórnarandstæðinga út af því, að þeir hafa talið, að við værum að níðast á hinum langskólagengnu, við værum að hrekja þá úr landi. Ég varð hér fyrir þungum ásökunum fyrir réttu ári vegna þess, að ég vildi ekki umyrðalaust gleypa við hinum háu kröfum aðstoðarlækna á ríkisspítölunum. Og starfsbróðir minn, hæstv. samgmrh., Ingólfur Jónsson, hefur legið undir stöðugum ásökunum fyrir það að reyna að halda í hemilinn við hinar gífurlegu hækkanir til handa verðfræðingum. Meðan á þessari baráttu atóð, héldu þessir hv. þn. því fram, að það væri vonlaust að ætla að halda menntuðum mönnum á nútímavísu hér á Íslandi í störfum, nema þeir fengju stórkostlega hækkað kaup, og ásökuðu okkur hina fyrir að hafa ekki skilning á þessu. Og það var talað nm smánarboð í þeim tilboðum, sem ríkisstj. gerði til ríkisstarfsmannanna í fyrra. Kjaradómur fór þar lengra en ég tel góðu hófi gegna, ég skal fúslega játa það, en þetta var dómur, sem við erum bundnir við. Og það má þá einnig varpa fram þeirri spurningu, eins og ég hef oft varpað fram til þeirra, sem fjandskapast við bændur og ásaka bændur fyrir að fá of hátt afurðaverð: Viljið þið sjálfir una gerðardómi? Þeir einir hafa rétt til þess að segja, að bændur fái of mikið, sem vilja sjálfir leggja sig undir þá lögþvingun, sem bændur hafa gert með afurðasölulögunum. Alveg eins hlýtur hv. 6. þm. Vestf. að verða spurður að því fyrir hönd sinna umbjóðenda, þegar hann býsnast svo yfir kaupi því, sem ákveðið var með kjaradómi: Vill verkalýðshreyfingin beygja sig undir gerðardómi (Gripið fram í.) Jú, jú, við skulum segja það. En ef þeir telja, að þessir menn hafi fengið of mikið og kjaradómur, gerðardómur, hafi skammtað þeim of rifan hlut, vilja þeir þá leggja sína umbjóðendur undir það, sem hinir gerðu? Það tjáir ekki að svara út í hött og allra sízt að tala um lýðfrelsi af þeim hv. þm., sem er lýðfrelsinu jafnhollur og hann hefur verið innan Alþýðusambandsins. Það er góð regla að gera fyrst hreint í sínu eigin húsi og tala síðan nm óhreinindin hjá öðrum.

Um leið og ég segi þetta, þá dettur mér ekki í hug annað en viðurkenna, að kjaradómurinn ásamt ákvörðun landbúnaðarvöruverðsins í haust hefur komið mikilli ókyrrð á hjá launastéttunum, — ókyrrð, sem manalega er mjög skiljanleg. En sú ókyrrð er í raun og veru þó töluvert eldri, vegna þess að í okkar þjóðfélagi, þar sem skoða má þetta fáa fólk, sem landið byggir, í raun og veru allt sem eina fjölskyldu, — enda erum við ótrúlega mikið skyldir allir saman, miðað við stórþjóðir, og má því vissulega telja okkur sem eina fjölskyldu, — þá er það viðtekin regla, að menn bera kjör sín saman og miða þau við annarra hag. En það er auðvitað hin mikla tekjuaukning síldarsjómannanna, sem þarna verkar sem fyrsti neistinn og kveikt hefur í því báli, sem nú er komið af stað. Nú er ég alls ekki að telja eftir hinar miklu tekjur síldarsjómannanna. Þeir hafa áratugi búið við bág kjör og erfiða lífshætti, og það situr allra sízt á okkur, sem sitjum, í þægilegum stólum, hvort heldur í ráðherrastólum eða þingmannastólum eða annars staðar, að miklast yfir eða öfundast yfir, þótt þessir menn beri rífan hlut frá borði. En við vitum það hins vegar, og þau væri hræsni og óhreinskilni að neita því, að hinar miklu tekjur þessara manna og útgerðarinnar eiga mjög ríkan þátt í þeirri ofþenslu, sem nú er í íslenzku þjóðlífi, og hv. 1. þm. Austf. viðurkenndi í sinni annars ekki líkt því eins skemmtilegu ræðu og hv. 5. þm. Vestf., að að því hlyti öðru hvoru að koma. Hann hafði þó hreinskilni til þess, og er honum þó annað betur gefið.

Við skulum virða fyrir okkur þetta vandamál í heild og viðurkenna, að verkalýðshreyfingin, öflugustu almenningssamtök á Íslandi, hafi ekki haft erindi sem erfiði. Í lýsingum þeim, sem þeir gefa á kjörum hinna verr settu, er fólginn harðasti áfellisdómurinn yfir núverandi baráttuaðferðum verkalýðshreyfingarinnar. Þær sýna, að hún nær ekki þeim tilgangi, sem hinir velviljuðu forustumenn hennar, — og þar með á ég t.d. við hv. 5. þm. Vestf., vegna þess að hans velvilja dreg ég sízt í efa, sækjast eftir. Það er líka skiljanlegt, þegar við lítum á þetta kapphlaup verkalýðsfélaganna hvert við annað og hins vegar á algera upplausn í samtökum vinnuveitenda og samtakaleysi svo ótrúlegt, að þá er ekki furða, þó að margt hafi farið aflaga í þessum efnum. Hér er því vissulega fyllilega mikilla umbóta þörf, og við græðum ekkert á því, neinn okkar, að reyna að loka auganum fyrir þeim vanda, sem við stöndum frammi fyrir.

Íslenzkri kjarabaráttu þarf að koma á nýjan og heilbrigðan grundvöll. Þó að ég viðurkenni, að viss launamismunur sé óhjákvæmilegur, enda tíðkast hann í öllum þjóðfélögum, hvar sem er, þá er ég því sízt fylgjandi að auka á ójöfnuð meðal íslendinga. Þar verður mjög að hafa hóf á. En við verðum þá að játa, að hér þarf að finna nýjar aðferðir. Það þarf að komast inn á nýjar brautir, til þess að sá árangur fáist, bæði af framleiðslustarfinu, sem er mikið og gott, og af hinni miklu baráttu og erfiði, sem lagt er í alla kaupgjaldsbaráttuna. Þessar leiðir eru fyrir hendi, og þar hlýtur að vera hægt að finna, ef góðvild og skynsemi fá að ráða. Ríkisstj. taldi það óhjákvæmilegt til þess að fá hlé í verkfallabaráttu um skeið að setja fram þetta lagafrv. og fór þar að fordæmi hv. 5. þm. Vestf., Hannibals Valdimarssonar, þegar hann varð sjálfur ráðh., en eins og hæstv. forsrh. lýsti, þá var og er yfirlýst stefna okkar að beita okkur fyrir því, að hinir verst launuðu fái raunverulegar kjarabætur, ekki hækkanir, sem enda með þeim hætti, sem hv. 5. þm. Austf. (LJÓs), sá að hækkanirnar mundu enda, þegar hann var nýorðinn ráðh., þær mundu étast upp á 15 dögum. Slíkar hækkanir duga engum. Við verðum að hætta að elta þann skugga, þá ímyndun.

Við eigum að taka upp skynsamleg vinnubrögð, færa okkur í nyt reynslu annarra og reyna í sameiningu að beita því hyggjuviti, sem við sjálfir kunnum að hafa. Og ríkisstj. vill eindregið nota þennan tíma til þess að kanna það til hlítar með vinsamlegum viðræðum og samningum við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, hvort mögulegt sé að fá á þessu skynsamlegri og skaplegri hátt, þannig að friðvænlegra verði í landinu og meiri árangurs að vænta, bæði um framleiðslu og not framleiðslunnar, heldur en hin ófrjóa, tilgangslausa kaupgjaldabarátta hefur leitt til á undanförnum áratug. Ég er sannfærður um, að þessu marki er hægt að ná, ef menn vilja sitja á strák sínum. Það er hægt að halda skemmtilegar ræður, eins og hv. b. þm. Vestf. gerði. Með því gagnar hann hvorki sínum málstað né þeirra manna, sem hann telur sig fyrst og fremst vera umbjóðanda fyrir, og segja mætti, að sézt hafi á hrosshófinn, þegar hann að lokum endaði á því sem aðalniðurstaða sinnar ræðu, að ríkisstj. yrði nú að fara frá til þess að losa hina þægilega stóla handa öðrum verðugri. Þetta minnir óneitanlega á viðbrögð hans, þegar hann svaraði ríkisútvarpinu, sem þá var liprara við hann en það hefur verið í dag, — og ég skil nú sannast að segja ekki, af hverju þessi tilkynning var ekki birt í dag, — alveg eins og þegar ríkisútvarpið hafði eftir honum öllum landslýð til uppfræðingar, að verkalýðshreyfingunni skyldi beitt til þess að hafa úrslit kosninganna í sumar að engu. Menn töldu þetta í fljótræði sagt. Þessari sömu hugsun skaut upp í lok hana löngu ræðu. Svona er hægt að telja upp og togast á, ef menn vilja. Spurningin er sú: Eigum við að halda áfram þeim hráskinnaleik?

Það er algerlega rangt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði í upphafi sinnar ræðu hér í dag, að það værum við í ríkisstj., sem hefðum tekið ákvörðun um að stjórna landinu áfram. Það var þjóðin sjálf, sem tók ákvörðun um það við kosningarnar í sumar, að stjórnin skyldi sitja áfram. Engin ríkisstj. í Íslandssögu hefur fyrr eða síðar fengið ótvíræðari traustyfirlýsingu en þessi ríkisstj., og ég vil nú minna hv. 1. þm. Austf., sem lengur hefur setið í ríkisstj., en nokkur annar, á það, að hann hefur aldrei sjálfur setið í ríkisstj., sem hefur haft eins mikið fylgi meðal kjósenda og þessi, nema þegar hann hefur fengið að vera með okkur sjálfstæðismönnum.

En þetta er ekki höfuðefni málsins. Hitt skiptir öllu máli: Vilja menn horfast í augu við þann vanda, sem hér er um að ræða, og í alvöru leita úrlausnar á honum? Ríkisstj. er tilbúin til samstarfs við verkalýðshreyfinguna um að leita þvílíkrar árlausnar, og það verður einungis tekið sem yfirskin, ef þessari löggjöf á að beita sem afsökun til þess, að því samstarfi sé hafnað, vegna þess að þessir sóma menn veittu fordæmið fyrir löggjöf um kanpfestingu og verðfestingu í upphafi sinnar stjórnartíðar, og þeim þýðir því ekki að ásaka aðra um illvilja í garð verkalýðahreyfingarinnar, þ6 að þeirra eigin fordæmi sé fylgt.