04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (1825)

56. mál, launamál o.fl.

Frsm. meiri hl. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft frv. þetta tilathugunar, en hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Þeir hv. 3 þm. Reykv. og hv. 1. landsk. ásamt mér legg,ja til, að frv. verði samþ. óbreytt, en hv. 11. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. v. eru andvígir frv. og skila séráliti. Álit meiri hl. er á þskj, 60, og ég mun ekki rekja það frekar hér í þessari framsöguræðu.

Mál það, sem hér um ræðir, var flutt af hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstj., og gerði hann mjög ýtarlega grein fyrir því í sinni framsöguræðu, og við 1. umr. málsins ræddu einnig hæstv. menntmrh. og hæstv. dómsmrh. ýtarlega um málið og gerðu einnig grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem hafa ráðið um flutning þess. Ég mun því ekki sjá ástæðu til að ræða málið sjálft frekar hér en gert hefur verið, en vil hins vegar með fáum orðum víkja nokkuð að nokkuð sérstæðu atriði í sambandi við viðbrögð stjórnarandstöðunnar gegn þessu frv.

Það er margviðurkennt sem mikilvægt grundvallaratriði í lýðræðisþjóðskipulagi, hver viðbrögð stjórnarandstöðunnar eru á hverjum tíma. Það hefur því miður oft viljað brenna við í okkar landi, að stjórnarandstöðuna hefur skort ábyrgðartilfinningu í málflutningi sínum, og mun enginn stjórnmálaflokkanna mælast undan því að eiga einhvern hlut í þeirri sök. Mér þykir þó ástæða til að minna á viðbrögð stjórnarandstöðunnar haustið 1956, þegar vinstri stjórnin sat að völdum. Þá hafði sú stjórn ekki aðeins fest laun og verðlag í 4 mánuði eða um helmingi lengri tíma en þetta frv. gerir ráð fyrir, heldur og bannað greiðslu vísitölu á laun, sem nam 6 stigum. Þar var sem sé um að ræða beinar kauplækkunaraðgerðir. Einmitt með tilliti til viðbragða stjórnarandstöðunnar nú er fróðlegt að rifja þetta upp. Bezt er afstöðu þáv. stjórnarandstöðu, sem þá var Sjálfstfl., lýst með því, sem þáv. hæstv. félmrh. og núv. 5. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, sagði við umr. um brbl. í þinginu. Í lok ræðu, sem hann hélt þá, sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég endurtek þakkir minar til hv. stjórnarandstöðu út af því, að hún viðurkennir þetta sem raunhæft byrjunarskref, þangað til varanlegar ráðstafanir verða fundnar til þess að halda áfram stöðvun verðbólgu og dýrtíðar.“

Þannig viðurkenndi hæstv. þáv. félmrh., að þáv. stjórnarandstaða hafi tekið ábyrga afstöðu í mikilvægu máll. En hver eru svo viðbrögð þessa hv. þm. nú, þegar farið er fram á tveggja mánaða frest, ekki fjögurra mánaða, eins og hann skammtaði sér sjálfur, og ekki til að lækka kaup, eins og hann gerði einnig þá með brbl., heldur til athugunar á því, hvernig unnt sé að koma í veg fyrir launalækkun eða gengisfall, en trygg,ja jafnframt raunhæfar kjarabætur til handa þeim, sem lægst eru launaðir? Það er ekki aðeins, að hann leggist gegn því hér á hv. Alþingi, að þessi stutti frestur verði veittur, heldur hyggst hann misnota þau almannasamtök, sem honum hefur verið trúað fyrir, til þess að hindra það utan þings, sem hann hefur ekki fengið kjörfylgi þjóðarinnar til að ráða á þingi. Hann ætlar sýnilega að framkvæma hótunina, sem hann slöngvaði framan í þjóðina strax að loknum alþingiskosningunum í sumar. Þetta má segja, að sé stjórnarandstaða á glapstigum.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er verið að gera tilraun til þess að stöðva verðbólgukapphlaupið, sem efnt hefur verið til með ótímabærum kaupkröfum. Árið 1955 stóðu þessir sömu aðilar, sem nú berjast gegn þessu frv., fyrir og knúðu í gegn kauphækkanir, sem útflutningsatvinnuvegirnir gátu ekki staðið undir, og þegar þeir svo náðu völdunum árið eftir og settu upp sína vinstri stjórn, þá létu þeir það verða sitt fyrsta verk að taka aftur þær kauphækkanir, sem þeir höfðu með ofbeldi knúið fram árið áður og sett dýrtíðarskrúfuna þá í gang. Báðir núv. hæstv. stjórnarandstöðuflokkar áttu hér hlut að máli.

Enn langar mig að vitna í ummæli hv. 5. þm. Vestf. til að sýna þann blekkingaleik, sem hann nú leikur. Í ræðu, sem hann hélt hér á hinu háa Alþingi haustið 1956 í umr, um brbl. um kauplækkun og kaupbindingu, rakti hann nokkuð viðræður, sem hann taldi sig hafa átt við formenn nokkurra verkalýðsfélaga, og segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir voru spurðir um það, hvort þeir mundu fremur telja verkafólkinu vera það til hagsbóta að láta dýrtíðarskrúfuna ganga sinn gang, þ.e.a.s. að 1. sept. fengi verkafólkið 6 stiga kauphækkun, við miðjan þann sama mánuð kæmi síðan 11.8% verðhækkun á landbúnaðarafurðir og margs konar hækkanir aðrar, sem þá strax var vitað um að mundu fylgja í kjölfarið, og svo ætti verkafólkið að fá nokkra kauphækkun 1. des. og svo koll af kolli á víxl fram á næsta ár. Það, sem þá var spurt um, var, hvort verkafólk vildi, að stjórnin léti þessa þróun eiga sér stað eða gera tilraun til stöðvunar á öllu verðlagi og festa þá jafnframt vísitöluna í 178 stigum næstu 4 mánuði, þ.e. til næstu áramóta.“

Síðar í þessari sömu ræðu sagði svo þessi þáv. hæstv. félmrh. svo um svör þessara verkalýðsfélagaformanna, með leyfi hæstv. forseta:

„Svörin voru öll á einn veg: Við viljum ekki flóðið, við viljum heldur stöðvun. Einn formaður sagði afdráttarlaust, ég man það vel: Ég held, að fólkið ætlist til þess af ykkur, að þið stöðvið verðhækkunarskrúfuna.

Svo mörg eru þau orð. Og þarna er einmitt hárrétt lýst afstöðu ábyrgrar verkalýðsforustu.

Launþegarnir í landinu hafa alltaf viljað stöðva dýrtíðarskrúfuna, því að þeirra afkomu hefur verið ógnað mest og þá mest afkomu hinna lægst launuðu. Ef menn bera nú þetta saman við það, sem þessi hv. þm. og flokksmenn hans aðhafast nú, þegar verið er að gera heiðarlega tilraun til þess að stöðva dýrtíðarskrúfuna, þá er sagt við þessa sömu verkalýðsfélagaformenn, að þeir eigi að berjast gegn stöðvun dýrtíðarskrúfunnar og það ekki aðeins með lögleg.. um aðferðum, heldur eru hafðar uppi hótanir um, að það skuli gert, þótt ólöglegt væri.

Um hinn hv. stjórnarandstöðuflokkinn gildir raunar í öllu hið sama og um Alþb: Ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar er þar alveg botnlaust, og það er oft svo með ólíkindum, að mér kemur stundum í hug stuttorð, en gagnorð lýsing í einni af fornaldarsögum Norðurlanda, Áns sögu bogsveigis, en sú lýsing er af Áni, þegar hann var 18 ára. Þar segir svo: „Hvorki hafði honum þó enn vaxið vit né kurteisi.“

Íslenzka þjóðin stendur nú á krossgötum. Undanfarin 4 ár hefur henni tekizt að reisa efnahagslíf sitt úr rústum. Henni hefur tekizt að skapa grundvöll að farsælli þróun innanlands og ávinna sér traust út á við. En allt þetta er nú í hættu, ef ekki er staldrað við. Ef haldið verður áfram þeirri kröfugerð, sem nú hefur verið um skeið, og knúðar fram óraunhæfar launahækkanir, er enginn mannlegur máttur, sem getur hindrað það, að allur sá efnahagslegi ávinningur, sem þjóðin hefur áunnið sér undanfarin 4 ár, muni brenna upp í eldi verðhólgunnar, og mun þá þjóðin verða fátækari eftír og það ekki aðeins að veraldlegum gæðum, heldur mun hún þá einnig glata virðingu sinni út á við. En það er enn tækifæri til að staldra við og gera ráðstafanir til að bjarga því, sem aflað hefur verið, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er skref í þá átt, nauðsynlegt skref til undirbúnings að frekari aðgerðum síðar.