04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (1827)

56. mál, launamál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Af því að hv. síðasti ræðumaður vék nokkuð að ummælum mínum í sambandi við þetta mál, þykir mér rétt að láta þegar koma fram nokkrar aths. í beinu framhaldi af ummælum hans.

Hin harðvítuga andstaða Framsfl. gegn þessu frv. hlýtur að teljast jafngilda fyllsta stuðningi við þær kröfur, sem nú eru uppi af hálfu stéttasamtaka um mjög verulega launahækkun, en svo sem öllum hv. alþm. er kunnugt, eru nú uppi kröfur um allt að 40% launahækkun til handa launþegum í landinu, a.m.k. til handa meðlimum A. S. Í.

Það er rétt, áður en lengra er haldið, að gera sér örlitla grein fyrir því, þótt hv. málsvörum Framsfl. finnist það varla vera ómaksins vert, hvaða þýðingu slíkar kröfur hafa fyrir útflutningsframleiðsluna og þá fyrst og fremst fyrir íslenzkan sjávarútveg. Greidd laun í sjávarútvegi munu nú nema um 800 millj. kr. á ári, og eru þá greidd laun til sjómanna samkv. hlutaskiptum einnig talin þar með. En að sjálfsögðu verður visst hlutfall að haldast milli launa sjómanna og milli þeirra, sem vinna við sjávaraftann í landi. Þetta eru opinberar tölur og þær einu, sem fyrir liggja um þetta efni. M.ö.o.: launagreiðslur sjávarútvegsins nema um 1800 millj. kr. Ef nú kaupgjald í landinu yrði hækkað um 40%, eins og hæstu kröfur eru uppi um, mundi þetta þýða aukin útgjöld fyrir íslenzkan sjávarútveg, sem næmu 700 millj, kr. Leiðtogar Framsfl. hafa hér á hinu háa Alþingi ekki bent á nein úrræði til þess að gera sjávarútveginum kleift að inna af hendi aukin launaútgjöld að upphæð u.þ.b. 700 millj. kr. Við því er kannske ekki heldur að búast. Hér eru á ferðinni pólitískir spekúlantar, sem gefa því meiri gaum að hafa áróður í frammi heldur en hinu, að benda á raunhæf úrræði.

En svo vill nú til, að aðrir menn, sem eru í mjög nánum tengslum við hina pólitísku forustumenn Framsóknar hér á hinu háa Alþingi, hafa nýlega haldið fund með sér í Reykjavík, og á ég hér við framkvstj. á vegum Sambands ísl, samvinnufélaga við fiskiðnað samvinnuhreyfingarinnar í landinu. Þessir menn komu saman til fundar hér í Reykjavík dagana 23. og 24. okt. s.l., þannig að ekki er hálfur mánuður síðan þessir menn sátu á fundi hér í Reykjavík til þess að ræða vandamál fiskiðnaðarins og þá í raun og veru sjávarútvegsins alls. Maður er löngu hættur að gera þær kröfur til foringja Framsfl., að þeir bendi á raunhæf eða ábyrg úrræði í nokkru máli, enda hefur það sannarlega ekki átt sér stað í umr. um þetta mál hér á hinu háa Alþingi. En auðvitað gerir maður aðrar kröfur til framkvstj. í fiskiðnaði á vegum helztu almannasamtaka í landinu, samvinnuhreyfingarinnar. Þá kröfu verður að gera til þeirra, að þeir bendi á raunhæf úrræði til lausnar vandanum, sem að steðjar, og það hafa þeir líka gert. Þeir hafa ekki brugðizt því trausti, sem almenningur í landinu hlýtur að bera til manna í ábyrgðarstöðum. Á fundi sínum bentu þeir á ákveðin úrræði til lausnar á vandamálum fiskiðnaðarins. Og nú skal ég, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa þá till., sem samþykkt var í lok fundarins 23.—24. okt. s.1., um þær ráðstafanir, sem þessir menn, sem ábyrgð bera á fiskiðnaði íslenzku samvinnuhreyfingarinnar, vilja gera til lausnar aðsteðjandi vanda, því að þeim er sannarlega ljóst, að um mikinn vanda er að ræða nú í íslenzku efnahagslífi, þó að það virðist að mestu hafa farið fram hjá pólitískum leiðtogum Framsóknar hér á hinu háa Alþingi. En ályktunin er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur framkvæmdastjóra við fiskiðnað á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga, haldinn í Reykjavík dagana 23.—24, okt. 1963, ályktar, að þær hækkanir, sem orðið hafa á vinnulaunum, verði hráefnis sem og öðrum vinnukostnaði, hafi þegar raskað svo mjög rekstrargrundveili fiskiðnaðarins, að þau rekstrarvandamál, sem við er að etja, séu alvarlegri og erfiðari en svo, að við verði ráðið án sameiginlegs átaks og samræmdra aðgerða í samvinnu við ríkisvaldið. Fundurinn telur eftirtalin úrræði geta komið að nokkru gagni til þess að leysa úr þessum erfiðleikum og væntir þess, að eftirgreindar till. mæti skilningi viðkomandi yfirvalda:

1) Vextir á fjárfestingarlánum og afurðalánum verði lækkaðir um 3%.

2) Afurðalán til framleiðslu verði hækkuð í 85% af útflutningsverðmæti og verði þau lán veitt sjálíkrafa út á framleiðsluna eftir skýrslum, sem viðkomandi viðskiptabanki tekur gildar.

3) Útflutningsgjald, 7.4% af framleiðsluverðmæti fob., verði fellt niður að hálfu fyrir árið 1963 frá 1. 1. og gjaldið allt fellt niður frá 1. 1. 1964.

4) Aðstöðugjald á fiskvinnslu verði fellt niður — eða til vara, að álagning gjaldsins verði samræmd og sá rekstrarkostnaður, sem rekja má til óhagstæðrar aðstöðu og staðsetningar, verði metinn frádráttarbær.

5) Rafmagnsverð tilfiskiðnaðar verði lækkað og samræmt.

6) Fiskvinnslustöðvar fái aðgang að lánsfjármagni til þess að endurskipuleggja vinnslukerfið og til kaupa á nýjum tækjum og búnaði, sem stuðlað geti að aukningu á nýtingu vinnuafls og hráefnis.

7) Greiðslu afborgana af stofnlánum til fiskvinnslustöðva verði frestað um eitt ár.

8) Niður verði felldir tollar af öllum vélum og tækjum, sem notuð eru til vinnslu sjávarafurða, frá og með 1. jan. 1963.

9) Skattfríðindi í einhverri mynd verði veitt fólki, sem vinnur í fiskiðnaði, þar eð tilfinnanlegur flótti virðist ríkjandi úr fiskiðnaði í önnur störf.

Verði hins vegar hækkun á fiskverði, vinnulaunum og öðrum kostnaði frá því, sem nú er, telur fundurinn, að óhjákvæmileg stöðvun vinnslustöðvanna sé yfirvofandi og augljós, nema aðrar og sérstakar ráðstafanir séu gerðar af hálfu hins opinbera til þess að mæta þeim. Að því leyti sem framangreindar ráðstafanir ekki duga til þess, að fiskiðnaður losni við taprekstur, verði gerðar samhliða ráðstafanir af hálfu ríkisvaldsins með fjárstuðningi, þar til jafnvægi næst.“

Hér lýkur ályktuninni. Nú er rétt að fara yfir það, — það er hægt að gera það mjög fljótlega, — hvaða sparnaður mundi verða í rekstri sjávarútvegsins, ef þessar ályktanir yrðu framkvæmdar.

Fyrsta og aðaltill. er sú að lækka vexti af fjárfestingarlánum og afurðalánum í 3%, og skil ég þetta þannig þeim víðtækasta skilningi, að ætlazt sé til þess, að bókstaflega allir vextir sjávarútvegsins séu lækkaðir ofan í 3%, en þar er um að ræða meir en helmingslækkun á þeim vöxtum, sem sjávarútvegurinn nú greiðir. Vextir af stofnlánum eru sem kunnugt er mun lægri en vextir af rekstrarlánum, ekki nema 61/2 %. Þeir vextir, sem sjávarútvegurinn greiðir nú í heild, bæði vegna rekstrarlána og stofnlána, munu nema um 170 millj. kr. Vaxtagreiðslur sjávarútvegsins munu nema um 170 millj. kr., þannig að helmingslækkun á vöxtunum mundi spara sjávarútveginum 85 millj. kr. Þessi aðaltill. sjálfra framkvæmdastjóra Sambands ísl. samvinnufélaga fyrir hinum stóra frystiiðnaði samtakanna mundi spara sjávarútveginum um 85 millj. kr.

Þá gera þeir ráð fyrir því, að afurðalán séu hækkuð nokkuð. Þar mundi ekki vera um beinan peningasparnað að ræða, heldur auðvelda reksturinn eitthvað í framtíðinni, þó að það mundi að sjálfsögðu bitna á öðrum. hað er ekki unnt að meta þetta tilbeinna peninga fyrir sjávarútveginn. Ég mun taka tillit til þess á eftir.

Útflutningsgjaldið, 7.4%, á að falla niður. Það má segja, að það nemi nú um 250 millj. kr. á ári, en hver einasti eyrir af þessu gjaldi rennur aftur til sjávarútvegsins. Það er því ekki hægt að spara sjávarútveginum í heild einn einasta eyri með því að fella þetta gjald niður, af því að hann fær það allt saman aftur til baka. Og það er ekki sagt hér, að til þess sé ætlazt, að almenningur í landinu eigi að borga þær 250 millj. kr., sem útflutningsgjaldið nemur, enda mundi það af sjálfu sér koma einhvers staðar fram.

Þá er sagt, að aðstöðugjald til fiskvinnslu eigi að fella niður og rafmagnsverð eigi að lækka. hað eru 4. og 5. liðurinn. Samkv. 6. liðnum átti að auka almennt aðgang fiskvinnslustöðvanna að lánsfé, sem mjög erfitt er að meta til peninga, fresta greiðslu afborgana af stofnlánum, sem er í raun og veru aðeins frestun á mjög litlum hluta vandans, en engin lausn á honum.

Um 8. liðinn, að niður séu felldir tollar af öllum vélum og tækjum, er það að segja, að þar er ekki um rekstrarkostnað að ræða, heldur um fjárfestingarkostnað, sem mundi vera, þegar á langan tíma er litið, aðeins bót, sem í raun og veru er sjálfsagt að taka til vinsamlegrar athugunar að framkvæma og er reyndar í undirbúningi að gera. Og 9. og síðasti liðurinn er að veita fólkinu, sem vinnur, skattfríðindi, sem auðvitað mundi ekki spara sjávarútveginum grænan eyri, heldur vera kjarabót í sérstöku formi til þeirra, sem vinna við sjávarútveginn.

Það er ekki hægt að segja alveg með vissu, hvað niðurfelling aðstöðugjalds mundi nema miklu, né heldur, hvað meint er með till. um lækkun á rafmagnsverði, þó að allir eigi nú raunar að vita, að rafmagnsverðið er lægra en svarar framleiðslukostnaði rafmagnsins. En það má segja, að mjög vel sé í lagt, að niðurfelling aðstöðugjaldsins, einnig lækkun á rafmagnsverði og mat til fjár á aukningu afurðalánanna mundi nema á ári um 15 millj. kr., þannig að sá beini fjárhagslegi sparnaður, sem mundi geta leitt af framkvæmd till. þessara ábyrgu manna í Framsfl., — flestir þeirra munu tilheyra honum, — hinn fjárhagslegi sparnaður fyrir sjávarútveginn af framkvæmd þessara till. mundi nema um 100 millj. kr. M.ö.o.: þegar ábyrgir menn samvinnuhreyfingarinnar, menn, sem þekkja til vandamála s,jávarútvegsins, vandamála atvinnulífsins, koma saman til fundar fyrir 1–2 vikum, benda þeir á úrræði til þess að spara s,jávarútveginum í heild um 100 millj. kr. En hér á hinu háa Alþingi standa leiðtogar Framsfl. uppi í ræðustólnum hver á fætur öðrum og heimta og lýsa yfir stuðningi við kauphækkanir, sem þýða 700 millj. kr. útgjaldaaukningu fyrir sjávarútveginn. M.ö.o.: pólitíkusarnir hér á Atþingi innan Framsfl. heimta, að s,jávarútvegurinn beri 700 millj. kr. útgjöld, en framkvæmdastjórarnir, sem standa fyrir Samhandi ísl. samvinnufélaga, benda á sparnaðarúrræði, sem nema 100 millj. kt. Það er 1/7. Þeir telja unnt að spara fyrir sjávarútveginn 1/7 af því, sem flokksbræður þeirra og pólitíkusarnir hér á Alþingi telja sjávarútveginn geta borið.

Það er svo annað mál, að jafnvel till. framkvæmdastjóranna, sem eru þó það ábyrgasta, sem úr þessum herbúðum yfirleitt hefur heyrzt, væru mjög torframkvæmanlegar. Jafnvel þessi 100 millj. kr. lækkun á útgjöldum sjávarútvegsins yrði mjög torframkvæmanlegt, því að væntanlega sjá allir menn, að ef lækka ætti vexti sjávarútvegsins um meira en helming, er ekki hægt til frambúðar a.m.k. að láta iðnað og verzlun bera jafnháa vexti og nú á sér stað. Og ef allir vextir eru lækkaðir um helming, þá missa sparifjáreigendur helminginn af þeim tekjum, sem þeir nú hafa af sínum sparifjárinnstæðum í bönkum og lánsfjárstofnunum, og það má geta nærri, haða áhrif það mundi hafa á sparifjármyndun í landinu, ef slíkt væri gert. Ekki mundi það auðvelda framkvæmd tillöguliða nr. 2 og 7, sem eru um það, að sjávarútvegurinn skuli fá aukið lánsfé til umráða, ef sparifjáreigendur eru sviptir meira en helmingi af vaxtatekjum sínum. Ekki mundi það verða aukin hvatning til þess að þeir spöruðu. Sparnaðurinn mundi eflaust minnka og geta bankakerfisins til þess að láta sjávarútveginn og aðra fá lánsfé mundi stórminnka frá því, sem nú á sér stað.

Þá má og segja um till., sérstaklega um lækkun rafmagnsverðsins, að sú till. er náttúrlega mjög hæpin vegna þess, sem ég gat um stuttlega áðan, að framleiðslukostnaður rafmagns í landinu er nú mun hærri en svarar til söluverðs þess, svo að ekki virðist geta verið skynsamleg ráðstöfun til frambúðar að lækka rafmagnsverðíð frá því, sem nú á sér stað, og ekki unnt öðruvísi en einhver annar borgi. — Hitt er svo auðvitað engin lausn til frambúðar að fresta greiðslum afborgana af stofnlánum og öðrum skuldum, og till. um skattfríðindi handa fólki, sem vinnur við sérstakan atvinnurekstur, þyrfti a.m.k. mjög rækilegrar athugunar við, áður en hún yrði talin lausn á nokkru vandamáli til frambúðar.

Eftir þessa tillögugerð segja framkvstj. og eru allir alveg sammála, þá komast þeir að þessari mjög athyglisverðu niðurstöðu, að verði hins vegar hækkun á fiskverði, vinnulaunum og öðrum kostnaði frá því, sem nú er, sé stöðvun fiskiðnaðarins yfirvofandi. Ef stöðvun fiskiðnaðarins er yfirvofandi, ef þessum í hæsta lagi 100 millj. kr. er ekki létt af sjávarútveginum, hvers konar stöðvun er þá ekki yfirvofandi, ef honum er ætlað að bera 700 millj. kr. útgjaldaaukningu frá því, sem nú er? Svo kemu,r botninn, siðasta setningin í ályktuninni, þar sem sagt er, að að svo miklu leyti sem þessar ráðstafanir dugi ekki, verði ríkisvaldið að gripa til fjárstuðnings, til þess að jafnvægi náist. M.ö.o.: þrautavaratill. framkvstj. Sambands ísl. samvinnufélaga er, að bótakerfið sé tekið upp aftur að nýju, að ríkissjóður fari beinlínis að greiða hallann af rekstri hraðfrystihúsanna. Það er úrræði, sem leiðtogarnir hér á Alþ. hafa ekki viljað gera að beinni till. sinni, a.m.k. ekki enn þá.

Ég held, að þetta, sem ég nú hef sagt, og þessi tilvitnun í ályktun framkvstj. Sambandsins í fiskiðnaðinum, sé í svo æpandi mótsögn við allan málflutning framsóknarmanna hér á hinu háa Alþingi, að frekari vitna þurfi í raun og veru ekki við, að ekki stendur steinn yfir steini í því, sem framsóknarmenn segja um þetta mál hér á hinu háa Alþingi.

Það er eitt annað, að vísu minni háttar atriði, sem fram kom í ræðu hv. siðasta ræðumanns og kom raunar fram hjá mörgum ræðumönnum stjórnarandstöðunnar við 1. umr. málsins, sem mig langar til að fara um fáeinum orðum, því að þar er um mjög almenna, en þó alvarlega villu í málflutningi að ræða. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að vísitöluútreikningur hagstofunnar sýndi að meðalfjölskylda þyrfti nú 91 þús. til að geta lifað, en kaup Dagsbrúnar væri, — ég man ekki, hvort hann nefndi ákveðna tölu í þessu sambandi, en hv. 1. þm. Austf. nefndi ákveðna tölu í þessu sambandi við 1. umr. málsins, — hann sagði: Kaup Dagsbrúnarmanna fyrir dagvinnu er 77 þús., og þá geta menn séð, hvað mikið vantar á, að Dagsbrúnarmaðurinn geti lifað, fyrst hagstofan hefur fellt þann úrskurð, að það sé nauðsynlegt að hafa 91 þús. kr. (Gripið fram í.) 67 þús.; ég bið afsökunar. Nei, ég var einmitt að fá upplýsingar frá hagstofunni um það, hvað vísitöluútgjöldin hefðu verið í sept. s.l. (EystJ: Kannske ráðh. geti kennt mönnum að lifa á 67 þús. kr.) Það er 91190 kr., það er nýjasta talan, sem fyrir liggur. (Gripið fram í.) Hvernig sem því víkur við, jafnvel þótt hún sé 95 þús. í okt., þó að ég hafi ekki séð þá tölu sundurliðaða, vil ég um þetta segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi eru vísitöluútgjöld, eins og þau eru í vísitölugrundvellinum, ekki og hafa aldrei verið hugsuð sem mælikvarði á það, hve mikið menn þyrftu til að lifa. Ef menn halda því fram, má ég — (EystJ: Vill ekki ráðh. kenna mönnum, hvernig á að lifa á 67 þús. kr. fyrir fjölskyldu, og snúa sér að því?) Ég ætla að biðja hv. þm. um að stílla sig, hann skal fá að tala hér, ég sé, að hann er reiður, og ég skil, að hann sé reiður. (Grípið fram í.) Ég skal ljúka máli mínu og þá kemur í ljós, hvað ég ætla að segja um málið. (Forseti: Ég vildi mælast til, að hv. þm. grípi ekki fram í fyrir ráðh., meðan hann er að halda sína ræðu.)

Það kemur í ljós, að hv. 1. þm. Austf. og líklega fleiri vita alls ekki, hver er tilgangurinn með útreikningi vísitölu framfærslukostnaðar, virðast ekki hafa hugmynd um það. Hafi hann hugmynd um það, er hann svo ósvifinn, að hann lætur sem hann hafi það ekki. Sannleikurinn er sá, að útgjöldin í vísitölu framfærslukostnaðar sýna, hvernig útgjöld fólks með ákveðnar tekjur skiptast milli einstakra útgjaldaliða. Vísitölugrundvöllurinn er meðaltal af útgjöldum ákveðinnar tölu fjölskyldna hér í Reykjavík, sem hafa haft ákveðnar tekjur. M.ö.o.: vísitölugrundvöllurinn sýnir hlutfallslega skiptingu útgjalda fjölskyldna með ákveðnar tekjur. Hann er dæmi, útreikningur á skiptingu raunverulegra tekna ákveðinna fjölskyldna, en alls enginn dómur, hvorki hagstofunnar né nokkurs annars, um það, hvað menn þurfi að hafa til að fleyta fram lífinu. Þetta er það, sem vísitölugrundvöllurinn hefur átt að sýna og sýnir enn. Það, sem útgjöldin í sept. eða okt. nú sýna, er hvað þær vörur, sem þessar ákveðnu fjölskyldur notuðu tekjur sínar til að kaupa fyrir ákveðinni tölu ára, mundu kosta nú, ef nákvæmlega sama vörumagn væri keypt. En hér er legið á því lúalagi að mistúlka þessar tölur gersamlega. Það er alltaf verið að halda því fram, að hér sé um eitthvert opinbert mat á því að ræða, hvað menn þurfi sér til framfæris, sem aldrei hefur verið meiningin, og því skal ég aldrei trúa, að maður, sem hefur verið fjmrh. jafnlengi og Eysteinn Jónsson, viti þetta ekki. Þess vegna eru öll framíköll hans um þetta efni honum til lítils sóma.

Hitt er svo annað mál, að ef við viljum athuga, hvort verkamaður í Reykjavík geti keypt sér þær vörur, sem nú er gert ráð fyrir, að svokölluð vísitölufjölskylda noti tekjur sinar til að kaupa, þá er auðvitað ekki gáð að því, hvað verkamaðurinn mundi hafa í tekjur, ef hann ynni 8 tíma á dag 300 daga ársins, heldur á að gá að því, hvað verkamaðurinn hefur í tekjur, hafði í tekjur í fyrra og hefur í tekjur í ár. Samkv. skattaframtölum höfðu verkamenn í fyrra 89 þús. kr. í árstekjur, og samkv. þeim töxtum, sem nú gilda í dag, hefur verkamaður í Reykjavík rúmlega 100 þús. kr. í árstekjur, og á því geta menn séð, hversu mikið vit er í þeirri staðhæfingu, að vísitöluútreikningurinn sýni, að verkamaður í Reykjavík geti alls ekki lifað. Tekjur hans í ár eru meira en 10 þús. kr. hærri en núgildandi vísitölugrundvöllur sýnir að séu meðalútgjöld vísitölufjölskyldunnar.

Í þessu sambandi verður líka að hafa það í huga, að vísitölufjölskyldan er ekki dæmi um meðalfjölskyldu verkamanns, útgjöld hennar, heldur er um að ræða meðaltalsútgjöld hjá verkamönnum, iðnaðarmönnum, sjómönnum og opinberum starfsmönnum. Hinar stéttirnar þrjár hafa hærri tekjur og nokkuð aðra útgjaldaskiptingu en verkamaðurinn. En jafnvel þótt miðað sé við meðaltekjur verkamannsins eins, kemur greinilega í ljós, að hans árstekjur í ár verða meira en 10 þús. kr. hærri en sá grundvöllur, sem miðað var við í sept. s.l. Og fyrst svo er sem ég hef sagt, að vísitöluútgjöldin eru miðuð við tekjur launastétta og skiptingu þeirra, en engin áætluð útgjöld þeirra, þá er auðvitað eini samanburðargrundvöllurinn, sem hægt er að hafa, raunverulegar tekjur verkamanna eða helzt launþegastéttanna allra á því sama ári.

Blekkingarnar, sem hér er beitt, verða enn þá augljósari, þegar þess er gætt, að í sept. s.l. eru bændum ætlaðar árstekjur á grundvelli meðaltekna verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna á s.l. ári. Hvaða tala var sett inn í grundvöll landbúnaðarverðsins sem tekjur bænda á næsta ári, byggð á meðaltekjum launamanna við sjóinn á undangengnu ári? Hvaða tala var það? Ætli þessir menn viti það ekki? 119 þús. kr. er bændum ætlað í meðlatekjur á n.k. ári, byggt á rannsókn á meðaltekjum verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna við sjávarsiðuna á undangengnu ári. Samt sem áður er því enn haldið fram hér, að rétt sé að taka samanburð af 67 þús. kr. árstekjum verkamanna og bera það saman við útgjöld vísitölufjölskyldunnar svokölluðu. Nei, ef 67 þús. kr. væru þær tekjur, sem verkamenn raunverulega yrðu að lifa af, ættu bændur ekki skilið 119 þús. kr. tekjur. Og hvernig gætu framsóknarmenn þá réttlætt það að heimta enn þá meiri tekjur handa bændum en 119 þús. kr.? Sjá ekki allir, að hér er um hrópandi misræmi í málflutningi að ræða. Annaðhvort hlýtur að vera algerlega ósatt og rangt, að verkamenn verði raunverulega að lifa af 67 þús. kr. eða hitt, að bændum nægi ekki 119 þús. kr.

Ég skal svo að síðustu víkja nokkrum orðum, þótt það verði ekki í beinum dellum eða ádeilutón við hv. stjórnarandstöðu, að öðru máli, sem ég tel miklu máli skipta í sambandi við það, hvað nú er eðlilegt að gera í þeim vanda, sem að steðjar, en það er varðandi það, hvort ríkisstj. sé of seint á ferðinni með þær ráðstafanir, sem hún nú hefur lagt fyrir Alþ. En þess hef ég orðið mjög var, að ýmsir aðilar, sem annars mega teljast hafa til að bera fulla ábyrgðartilfinningu og meira að segja góðvild í garð ríkisstj., sem ekki verður sagt um hv. Framsfl. eða hv. Alþb., þeir spyrja sjálfa sig: Hvernig stendur á því, að ríkisstj. greip ekki fyrr til þeirra róttæku ráðstafana, sem hún hefur nú séð sig til neydda að gera tillögu um við hið háa Alþ.? Á þessu vildi ég leyfa mér að freista að gefa stuttar skýringar.

Um það er áreiðanlega ekki ágreiningur milli skynsamra manna, hver er höfuðorsök þess vanda, sem nú steðjar að. Orsökin er í fyrsta lagi fólgin í því, að kaupgjald hækkaði á fyrri hluta þessa árs um 13—15% til viðbótar 9—12% lauphækkun á s.l. ári. Þá kvað kjaradómur upp úrskurð um, að kaup ríkisstarfsmanna skyldi hækka mjög verulega í júlí s.l. Grundvöllur þess úrskurðar var ekki nein ákvörðun ríkisstj., heldur ber Alþ. allt ábyrgð á þeirri lagasetningu, og kröfur ríkisstarfsmannanna fengu stuðning launþegasamtakanna yfirleitt og alveg sérstakan stuðning hv. stjórnarandstöðu, beggja stjórnarandstöðuflokkanna. En í framhaldi af kjaradómnum varð að framkvæma breytingar á kaupgjaldi ýmissa annarra opinberra starfsmanna, bankastarfsmanna, bæjarstarfsmanna, og það tók margar vikur, 2–3 mánuði. Í þriðja lagi varð svo gífurleg hækkun á verðlagi innlendra landbúnaðarafurða í sept. s.l. Sú hækkun var ekki samkv. ákvörðun ríkisstj. Hún var samkv. 20 ára gömlum lögum, sem allt Alþ. bar ábyrgð á á sínum tíma og allt Alþ, ber ábyrgð á enn. í fjórða og síðasta lagi hefur svo á þessu ári orðið gífurleg aukning á framkvæmdum, sérstaklega á framkvæmdum einkaaðila, og á innflutningi, sem valdið hefur mjög versnandi gjaldeyrisstöðu, miðað við það, sem var á árunum 1961—62. Og nú vil ég leyfa mér að spyrja þá menn, sem á annað borð kæra sig um að taka ábyrga og skynsamlega afstöðu til þess vanda, sem nú er á ferð: Gátu menn búizt við, að ríkisstj. gripi til ráðstafana eins og festingar kaupgjalds og verðlags, rétt áður en kjaradómur átti að kveða upp sinn úrskurð, þegar sérstök hliðsjón er höfð af því, að ekki aðeins þurfti að gera margs konar leiðréttingar á kaupgjaldi í landinu, lögmætar breytingar í beinu framhaldi af kjaradómnum, heldur er líka tekið tillit til hins, að mörg verkalýðsfélög höfðu ekki lokið sínum samningum um leiðréttingu í samræmi við 5% kauphækkun í jan. og 71/2% kauphækkun í júní, höfðu ekki lokið þeim fyrr en í lok ágúst, mjög stór verkalýðsfélög, — gátu menn búizt við því, að ríkisstj. gripi inn í með brbl., áður en verkalýðshreyfingin sjálf var búin að framkvæma þær leiðréttingar, sem hún taldi nauðsynlegar í framhaldi af allsherjarsamningunum í júní s.1.?

Eins og allir vita, var ein af höfuðniðurstöðum samninganna í júní, að launþegasamtökin og samtök atvinnurekenda skyldu setja á stofn kjararannsóknaráð, sem athuga skyldi greiðslugetu atvinnuveganna. Það ráð tók raunverulega ekki til starfa fyrr en í ágúst. Fannst mönnum kannske, að ríkisstj. hefði með brbl. átt að gripa inn í þróun launamálanna og verðlagsmálanna, áður en kjararannsóknaráðið settist niður, byrjaði að starfa? Hvað hefðu menn sagt þá? Og finnst mönnum, að ríkisstj. hefði hagað sér skynsamlega, ef hún hefði með brbl. gripið inn í þróun verðlags og kaupgjalds, rétt áður en ákveða átti verðlag landbúnaðarafurðanna? Er það kannske það, sem hv. Framsfl. hefði fundizt skynsamlegast í málinu? Nei, af þessu öllu saman er það alveg augljóst, að í raun og veru var algerlega ótímabært fyrir ríkisstj. að grípa til nokkurra heildaraðgerða í kaupgjalds- og verðlagsmálunum fyrr en í allra fyrsta lagi í seinni hluta septembermánaðar. Og þá spyr ég hv. þingmenn, hv. alþm.: Hefðu þeir talið það vera skynsamlegt eða réttmætt, að ríkisstj. gripi með setningu brbl. inn í þróun verðlags og kaupgjalds hálfum mánuði áður en sjálft Alþ., meira að segja nýkjörið þing, átti að koma saman til skrafs og ráðagerða? Nei, ég held, að allir, sem um þetta mál vilja hugsa af skynsemi og velvild, hljóti að sjá, að ríkisstj. átti einskis annars úrkosta, eins og þróun mála var, en að biða samkomudags Alþ., og það gerði hún.

Ríkisstj. gat hins vegar ekki vitað, að fyrir dyrum stæði, að prentarar hæfu verkfall 1. nóv. s.l. og að verzlunarmenn hæfu verkfall í dag. Ríkisstj. hafði fulla og fullskynsamlega ástæðu til þess að ætla, að Alþ. mundi hafa starfsfrið svo sem 3–4 vikur í upphafi Alþ. til að fjalla um þennan vanda og finna á honum lausn. Svo reyndist því miður ekki vera, og þess vegna sá ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar sig til knúin til að leggja fram till. um bráðabirgðalausn, þó ekki lengur en í 8 vikur, meðan verið væri að vinna að þessari heildarlausn, því að um það voru menn sammála í ríkisstj, og stuðningsflokkum hennar, að það væri hvorki meira né minna en þjóðarógæfa, ef ný verkfallsalda risi nú í landinu. Þess vegna hefur þróun málanna gagnvart hinu háa Alþ. verið eins og hún hefur raunverulega verið. Og ég hef fulla trú á, að þegar menn athuga þessa málavexti, sjái menn, að ríkisstj. hefur ekki vanrækt þá skyldu, sem vissulega hvílir á henni, að stjórna landinu, meðan hún á annað borð situr. Þróun málanna hefur verið þannig, að ríkisstj. hefur ekki getað í neinu aðalatriði hegðað sér öðruvísi en hún hefur gert. Því vildi ég vænta, að fyrir þessu gerðu sér allir góðviljaðir menn grein, okkur má einu gilda, hvernig hinir hugsa.