04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (1832)

56. mál, launamál o.fl.

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég held, að það megi nú öllum vera orðið ljóst, að það frv., sem hér er til umr., felur í sér stríðsstefnu gagnvart verkalýðshreyfingunni. Eftir þær viðtökur, sem þetta frv. hefur fengið, þau viðbrögð, sem verkalýðshreyfingin hefur haft gagnvart því, þá held ég, að þetta ætti öllum að vera ljóst. Það má svo segja, að verkalýðshreyfingin hafi einhuga risið gegn frv., og afleiðingar þess, ef það yrði að lögum, held ég, að ættu nú að blasa við hverjum manni og vera alveg augljósar. Ég ætla ekki að fara að mála það hér upp, ég veit, að hver maður, sem hér er staddur; og hv. þm. geta vel gert sér grein fyrir því, hvert slíkt muni leiða. Ég held þess vegna, að það sé ekki um að villast, að það eina rétta í málinu, eins og nú er komið, sé það, að frv. verði dregið til baka og tafarlaust verði teknir upp samningar við verkalýðshreyfinguna.

Verkalýðshreyfingin hefur ekki kosið þennan ófrið, síður en svo. En hann er knúinn fram af hæstv. ríkisstj. með því að setja þetta frv. á dagskrá. Við buðum frest, áður en málið kom fyrir þing. Við buðum frest í allt að hálfan mánuð til þess að ræða málin alvarlega. Hæstv. forsrh. sagði hér í framsöguræðu sinni, að slíkan frest hefði hann ekki getað þegið, hann hefði verið of stuttur. En mér er nú spurn: Ef sá tími, sem síðan er liðinn, hefði verið notaður jafnvel og hér hefur verið á Alþingi og raunar utan Alþingis, hvað hefði þá getað áunnizt, ef hann hefði verið notaður til samninga við verkalýðshreyfinguna, en ekki til að efla þetta stríð? Mér er nær að halda, að við hefðum komizt töluvert áleiðis og málin stæðu betur í dag en þau nú standa. Það er ekki aðeins það, að þetta hljóti að leiða til átaka, stórra átaka, sennilega meiri átaka en við höfum þekkt áður, heldur ættu menn líka að reyna að gera sér ljóst, hvers konar andrúmsloft það verður, sem menn ættu svo að setjast í að samningaborði á eftir. Ég held, að þeir, sem mest prédika friðinn og að samningaleiðirnar eigi alltaf að fara, þeir ættu að íhuga þetta vandlega. Verkafólk, sem væri búið að reita til reiði á þann hátt, sem þetta frv. stefnir að og gert væri, ef að lögum verður, það verður áreiðanlega ekki kröfuminna við samningaborðið en það hefur verið áður. Ég mundi vilja segja, að enn væri ekki of seint að snúa við. En verði því ekki sinnt, þá er alveg augljóst, að baráttan, sem nú er fram undan, kostar áreiðanlega bæði atvinnuvegina og þjóðfélagið allt miklu meira en það mundi kosta að verða við kröfum verkalýðsfélaganna í dag.

Ég vildi í upphafi máls míns segja þessi varnaðarorð, og vænti ég þess, að menn hugsi sig vel um, áður en þetta frv. verður gert að lögum á Alþingi.

Áður en ég ræði sjálft efni frv., vildi ég aðeins minnast á þróun launamálanna á undanförnum árum. Þessi mál hafa að vísu verið rakin hér í þessum umr., en ég held engu að síður, að það sé rétt að minna enn á þau.

Í desember 1958 var almennt verkamannakaup 23.86 kr. í febrúarmánuði 1959 var þetta kaup lækkað um 13.4%, að krónutölu í 20.67 kr. Þannig hélzt kaupið óbreytt fram í júnímánuð 1961, en eins og allir muna, þá var í febrúarmánuði 1960 framkvæmd stórfelld gengislækkun og um leið afnumið það ákvæði úr samningum allra verkalýðsfélaga, að vísitölu mætti greiða á kaup. Jafnframt því sem verðlag fór að sjálfsögðu stórhækkandi vegna gengisfellingar, var vísitalan numin úr lögum. Þessi athöfn, að taka vísitöluna úr sambandi, hefur leitt til þess, að samningar hafa verið tíðari en nokkurn tíma hefur gerzt áður í þessu landi og ókyrrðin á vinnumarkaðinum meiri en við munum dæmi um áður. Það gefur auðvitað auga leið, að þegar farið er að semja um kaup og kjör tvisvar, þrisvar á ári og meiri hluta ársins er allt samningalaust, hvers konar ástand það er, ekki aðeins fyrir launþegana, heldur miklu frekar fyrir atvinnureksturinn, hvers konar öryggisleysi allt slíkt hlýtur að skapa í öllum atvinnurekstri. Ég held, að það væri mál til komið, að það mál yrði íhugað í fullri alvöru að taka upp verðbætur á kaupið aftur. Ef menn vilja forðast að einhverju a.m.k. allan þann óróleika, sem verið hefur á vinnumarkaðinum undanfarin ár og sérstaklega kannske s.1. 2—3 ár, þá sé ég ekki, að það sé nein leið önnur til en að tengja aftur saman kaupið og verðlagið.

Í júnímánuði 1961 var kaupið hækkað um 10%, kaup verkamannanna. Þær tölur, sem hér hafa verið nefndar, þó aðallega af hæstv. ráðh., um kauphækkanir, sem hafi átt sér stað, — ég man þær nú ekki nákvæmlega, en það hefur verið talað um, að kauphækkunin 1961 væri 13, 14 til 17%, og ég held, að hæstv. forsrh., ef ég man rétt, segði hér í sinni annarri ræðu, að meðaltalið mundi vera um 15%. Hvernig þessar tölur eru fundnar, veit ég ekki, en hitt er staðreynd, að bein kauphækkun til verkamanna sumarið 1961 var ekki nema 10%. Þá var einnig samið um, að kaup skyldi hækka ári síðar um 4%, og á þennan hátt áttu samningar að geta gilt í 2 ár ost vinnufriður að vera tryggður í 2 ár. Það var engan veginn með góðu, sem þessi kauphækkun náðist fram 1961, mjög fjarri því. Bein afskipti hæstv. ríkisstj. af þeim málum urðu til þess, að þá kom til mjög hatramms verkfalls, einkum hér í Reykjavík, verkfalls, sem stóð nærri 5 vikur, og var þó séð í fyrstu viku verkfallsins, hver endalokin hlutu að verða. Þá voru með samningunum við fyrirtæki samvinnufélaganna markaðir þeir samningar, sem hlutu að koma. Um annað gat ekki verið að ræða. En þrátt fyrir það var verkamönnum hér í Reykjavík haldið í nær 4 vikna verkfalli á eftir. Fyrir því, sem síðan fylgdi á eftir, þ.e.a.s. gengislækkuninni 1961, sem varð hrein hefndarráðstöfun gagnvart verkalýðshreyfingunni, bókstaflega ekkert annað, voru engin rök. Það var sagt strax, og þetta sjá allír í dag að var rétt. Og mér er nær að halda, ef hæstv. ríkisstj. ætti þess kost að lifa upp aftur þá tíma, að henni dytti ekki í hug að fara í gengisfellingu, eins og þá var gert. Þessi kauphækkun, sem þá náðist fram, var engin röksemd fyrir gengisfellingu, mjög langt frá því.

Með kauphækkuninni 1961, 10% kauphækkuninni þá, var kaupið samt sem áður rösklega einni krónu lægra á klst. en það var í desembermánuði 1958. Það var öll kauphækkunin, sem knúin var fram sumarið 1961.

Kauphækkunin, sem síðan var samið um 1962, var hæst á verkamannakaupinu 9.5 % og þar innifalin þau 4%, sem samið var um á árinu áður, að til framkvæmda skyldi koma í júnímánuði árið eftir. Ég man nú ekki tölur, sem nefndar voru um þá gífurlegu kauphækkun, sem orðið hefði á árinu 1962, en það var einnig langt fyrir ofan það, sem þessar tölur segja. Taxtar verkamannanna hækkuðu mjög misjafnlega. Sumir taxtarnir hækkuðu ekki nema aðeins rösklega um þau 4%, sem hafði verið samið um árinu áður, svo til ekkert fram yfir það. Síðan hafa svo orðið kauphækkanir á þessu ári, 5% í janúarmánuði og 7.5% í júnímánuði.

Þetta eru kauphækkanir, sem verkamenn hafa knúið fram á þessu tímabili, sem liðið er, síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum, og ég held, að það verði að segja, að mjög hóflega og sennilega allt um of hóflega hafi verið farið í sakirnar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Fyrst og fremst fékk ríkisstj. langan umhugsunarfrest, frá því að hún kom til valda og þar til fyrsta kauphækkunin varð, og síðan hafa kauphækkanirnar verið mjög litlar og langt fyrir neðan það, sem verðlagið hefur sagt til á hverjum tíma, að kaupið hefði þurft að hækka um til þess einvörðungu að halda í við þær verðhækkanir, sem orðið hafa. Og þá skulum við aðeins líta á þróun verðlagsmálanna á þessu tímabili.

Frá því í marz 1959 hefur vísitala vöru og þjónustu, sem ég tel að sé sú eina vísitala, sem nokkurt vit sé nú að miða við, hækkað um 63%, og vísitala matvörunnar hefur hækkað meira, hún hefur hækkað um 75%. En það gefur auðvitað auga leið, að með jafnlágu kaupi og verkamenn hér hafa hlýtur mjög stór hluti þess að fara beinlínis til að kaupa brýnustu nauðsynjar. Þess vegna er einmitt vísitala matvörunnar kannske réttasti mælikvarðinn, sem hægt er að leggja á kaupmátt launanna. En sú vísitala hefur sem sagt hækkað um 75%. Á sama tíma hefur verkamannakaupið aðeins hækkað um 35%, og vit ég þá minna á, að það er miðað við 20.67 kr., eins og það lækkaði í febr. 1959, þ.e.a.s. það kaup, sem þá var búið að lækka um 13.4% að krónutölu, það lága kaup hefur aðeins hækkað um 35%, meðan vísitala vöru og þjónustu hefur hækkað um 63% og vísitala matvörunnar um 75%. 1959 í marzmánuði hafði verkamaðurinn 1287 kr. afgangs af árskaupi sínu, þegar miðað er við þá upphæð, sem vísitalan reiknar í a-liðnum, þ.e.a.s. í útgjöld fyrir vöru og þjónustu. Hann hafði þá í afgang 1287 kr. Þennan sama verkamann vantar í dag 11550 kr. tæpar til þess, að árskaup hans hrökkvi fyrir sömu útgjaldaupphæð með vísitölunni. Ég held, að þetta sýni gleggst þann gífurlega mun, sem orðið hefur annars vegar á þróun verðlagsmálanna og hins vegar á kauphækkunum til verkamanna. Síðan í júnímánuði í vor, að samið var síðast, hefur vísitala matvörunnar hækkað um 22 stig og vísitala vöru og þjónustu hefur hækkað — ég man ekki þá tölu svo glöggt, en það er eitthvað örlítið minna, sem hún hefur hækkað um. Það er þess vegna sjáanlegt, að sú kauphækkun, sem varð í vor, er löngu sokkin í verðhækkanirnar. Það er þessi þróun verðlagsmálanna, sem er önnur höfuðröksemdin fyrir kröfum verkalýðshreyfingarinnar núna.

Hæstv. menntmrh. sagði hér í einni ræðu sinni, að þessi þróun málanna væri mesti áfellisdómur á stefnu verkalýðshreyfingarinnar í launamálum, sem hugsazt gæti. Þessi þróun er ekki áfellisdómur á stefnu verkalýðshreyfingarinnar í launamálum. En það má segja, að verkalýðshreyfingin hafi ekki verið viðbúin að fylgja stefnu sinni eftir og því hafi svona farið. Verkalýðshreyfingin hefur á þessum árum yfirleitt borið gæfu til þess að standa harðlega sameinuð að kröfum sínum, en hins vegar hefur allmjög skort á, að hún hefði getað gert það pólitískt, en það er einmitt pólitíska valdið í landinu, sem hefur verið notað til þess að magna verðbólguna, og það má segja, að einmitt þessi verðbólguþróun og gengisfellingarnar séu bókstaflega eini gróðavegur, sem auðmenn og atvinnurekendur þessa lands hafa komið auga á og farið. Það er einmitt vegna þess, að verkalýðshreyfingin hefur ekki staðið pólitískt sameinuð til að fylgja eftir kröfum sínum, hörðum kröfum, og sjá til þess með pólitískum styrk sínum, að þær væru ekki að engu gerðar, eins og reyndin hefur orðið. Fyrir það má áfellast verkalýðshreyfinguna, en ekki hitt að hafa barizt fyrir þessum kauphækkunum, sem orðið hafa, því að hver maður gæti sagt sér, hvar við værum staddir, ef það hefði ekki verið gert.

Hin höfuðröksemdin fyrir kröfum okkar nú í dag er sú, að mjög mikil hækkun hefur orðið á öllum hálaunum í landinu að undanförnu. Ég ætla ekki að fara að rekja það mál hér, en það er auðvitað öllum augljóst mál, hlýtur að vera það. Ég skal fyllilega játa, að það er nauðsynlegt að launa bæði vísindamenn og vel tæknimenntaða menn betur en almennt verkafólk. Það er nauðsynlegt, og það er verkafólkinu sjálfu nauðsynlegt, því að við sjáum það auðvitað mjög vel, að við stöndumst ekki samkeppni annarra þjóða, ef við höfum ekki þennan kvalifíseraða vinnukraft, og kjör verkamanna eru einmitt kannske mjög því háð, að þessi vinnukraftur sé fyrir hendi. En misræmi hefur verið innleitt, ekki bara varðandi kjör þessara manna, heldur annarra, sem eru þjóðfélaginu miklu ónauðsynlegri og ég vil segja langtum ónauðsynlegri en hinn ófaglærði verkamaður, sem ekki kann annað en vinna með sínum höndum, en það eru þó þeir menn, sem nú standa undir því að bjarga milljónaverðmætum nótt með degi. Ef á að innleiða þann stórkostlega launamismun, sem nú stefnir að, á milli þessara manna og ég vil segja mjög ónauðsynlegra hálaunamanna í þjóðfélaginu, þá getur ekki farið vel. Þess vegna er það, að verkafólk með óbrenglaða réttlætiskennd lítur ekki aðeins á þetta frv. sem hatramma árás á helgustu réttindi verkalýðshreyfingarinnar, samningsfrelsið, verkfallsréttinn, heldur telur það líka hafa í sér fólgið misrétti og ranglæti gagnvart kjörum þeirra, sem verst eru settir.

Með þessu frv. á að banna kauphækkanir og verkföll til áramóta, eftir að þeir hálaunuðu hafa fengið sin laun hækkuð jafngífurlega og orðið hefur, eftir að verðhækkanir hafa dunið yfir og að engu gert þær kauphækkanir, sem fram náðust í sumar, og eftir að séð var í raun og veru í sumar, að hverju stefndi. Það var öllum vitanlegt, að verkalýðshreyfingin frestaði þá sínum samningum til haustsins af tveim ástæðum aðallega: í fyrsta tagi, við óttuðumst þróun verðlagsmálanna, og í öðru lagi vildum við úrslit kjaradómsins, áður en samningar yrðu teknir upp aftur. Þetta vissu atvinnurekendur í sumar. Þetta vissi ríkisstj., þegar hún gekkst í því að fá verkalýðshreyfinguna til að fresta aðgerðum sínum. Um það að hafa ekki notað þennan tíma, sem síðan er liðinn, er ekki hægt að hafa önnur orð en þau, að hér hafi algerlega verið látið fljóta sofandi að feigðarósi. Það var öllum vitanlegt, að friðurinn hlyti að verða úti nú, þegar samningar runnu út sjálíkrafa, eins og um var samið. Og eftir það, sem á undan er skeð, að ætla sér þá að koma með frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, sem á að banna þeim, sem verst eru settir, að hækka kaupið um einn eyri, banna að nota þann eina rétt, sem verkalýðshreyfingin hefur yfir að ráða, þegar allt um þrýtur, þ.e.a.s. verkfallsréttinn, það eru hlutir, sem verkalýðshreyfingin litur mjög alvarlegum augum. Menn telja einnig fullvíst, að hér sé aðeins um byrjunina að ræða, því að í frv. sjálfu og grg. þess er það beinlínis tekið fram, að áður en þessi lög gangi úr gildi, þ.e.a.s. fyrir n. k. áramót, eigi að setja ný lög til að ráða þessum málum. Ef ekki vinnst tími til þess, áður en Alþingi fer í jólafríið, þá yrði sennilega gripið til brbl. og málum skipað á þann veg.

Hæstv. forsrh. sagði berlega í sinni framsöguræðu, að það væri ætlunin að bæta kjör hinna lægst launuðu eftir öðrum leiðum en kauphækkunum. Menn telja því af eðlilegum ástæðum, að það sé ekki ætlunin, að þetta bann við kauphækkunum eigi aðeins að gilda til áramóta, heldur og lengur. Það er ekki aðeins hæstv. forsrh., sem hefur látið orð falla á þessa leið, ekki síður einnig hæstv, menntmrh. Það virðist þess vegna sem það eigi áfram að banna kauphækkanir, ef þetta frv. verður gert að lögum og lögin fá staðizt.

Það er látið svo heita, að með þessu frv. eigi einnig að banna verðhækkanir. Hins vegar ber það fyllilega með sér, að verðhækkanir geta orðið nokkurn veginn á sama hátt og þær hafa orðið. Hæstv. forsrh. sagði einnig hér í sinni framsöguræðu berum orðum, að verðhækkanir gætu orðið, í fyrsta lagi vegna þeirra verðlækkana, sem kynnu að verða á erlendum vörum, og í öðru lagi vegna hækkana á tilkostnaði, sem orðið hefði á undanförnum mánuðum. Nú vita allir, að fyrir dyrum hefur staðið að hækka ýmsa vöru í verði, m.a. rafmagn, hitaveitu, strætisvagna o.s.frv. Allt þetta er sjálfsagt vegna hækkunar á tilkostnaði, sem orðíð hefur á undanförnum mánuðum. Það virðist þess vegna vera augljóst, að öllum dyrum á að halda opnum fyrir áframhaldandi verðhækkunum, en kaupið má ekki hækka, þó að tilkostnaður verkamannsins hafi hækkað gífurlega á undanförnum mánuðum.

Þær aðalröksemdir, sem færðar eru fyrir frv., eru kannske í fyrsta lagi þær, að neyzla og fjárfesting hafi aukizt meira en sem því nemur, sem þjóðarbúið gæti staðið undir, verzlunarjöfnuðurinn sé orðinn mjög óhagstæður, um 700 millj., og hæstv. menntmrh. vildi í sinni ræðu halda því fram og sagði berum orðum, að þessi þróun málanna, þessi gífurlega neyzluaukning og fjárfesting væri vegna kauphækkana, sem orðið hefðu í fyrra og á þessu ári. Það er náttúrlega fjarstætt að halda því fram, að kauphækkun, sem verkamenn og verkafólk hefur fengið fram á árinu í fyrra og á þessu ári, hafi orsakað þessa þróun. Það eru visvitandi og hreinar blekkingar. Ætli það sé ekki þetta fólk og kaupmáttur þessa fólks, sem hefur kallað á innflutning 3000 bíla á þessu ári? Ætli það sé ekki þetta fólk og kaupmáttur þess, sem hefur byggt verzlunarhallirnar hér inn með Laugaveginum? Nei, það er ekki kaupmáttur þessa fólks, sem hefur ráðið þróun þessara mála. Þetta fólk hefur þrátt fyrir kauphækkunina haft úr minna að spila í fyrra og á þessu ári en það hafði áður. Það hefur verið séð um það með þróun verðlagsmálanna.

Í öðru lagi er sagt, að útflutningsatvinnuvegirnir beri ekki hærra kaup. Það má vera, að t.d. frystihúsin beri ekki hærra kaup í dag. En þá er líka skylt að geta þess, að kaupið, launaliðurinn, er ekki eini útgjaldaliður þessara fyrirtækja og mjög langt frá því. Launaliðurinn er litill hluti í útgjaldakostnaði frystihúsanna, sennilega ekki nema um fimmti hluti tilkostnaðarins, ef hráefniskostnaðurinn er ekki reiknaður með. Hins vegar mun stærri hluti en launakostnaðurinn er vera háður meira og minna beinum stjórnarráðstöfunum, og stór hluti tilkostnaðarins er auðvitað háður því, hvernig rekstur þessara fyrirtækja er. Mér skilst, að ef útflutningsgjaldið eitt væri afnumið, mætti hækka kaup verkafólksins í frystihúsunum um 38% a.m.k. Þetta sýnir, hve raunverulega lítill liður kaupgjaldið sjálft er. Verkamenn vita ósköp vel, hvernig rekstur margra þessara fyrirtækja er. í sumum frystihúsum hefur reksturinn batnað allverulega á undanförnum árum. Önnur eru enn illa rekin, og öll eru þau rekin áreiðanlega miklu lakar en hægt væri að gera. Og það eru auðvitað fjöldamörg önnur rök, sem hér mætti fram færa í þessu sambandi. Það þýðir þess vegna ekki að segja verkafólki, að framleiðslan geti ekki staðið undir hærra kaupi en nú er greitt. Ef það er staðreyndin með t.d. frystihúsin í dag, þá er ekki um neitt annað að ræða en finna leiðir til þess, að þessi fyrirtæki geti borið hærra kaup, því að án hærra kaups verða þau ekki rekin. Þetta er atriði, sem allir þurfa að gera sér ljóst.

Ég ætla ekki að fara hér í nein maraþon-ræðuhöld. En ég vil enn minna á það, sem ég benti á í upphafi máls míns, að þetta mál er nú komið á það stig, að það hljóta allir alvarlega hugsandi menn að staldra við, og ef menn gera það ekki, þá verða þeir að vera við því búnir að taka afleiðingum gerða sinna. Ef þetta frv. verður keyrt í gegn hér á Alþingi og gert að lögum, þá eru alveg ófyrirsjáanlegar þær afleiðingar, sem það hlýtur að hafa í för með sér. Þess vegna vil ég enda mál mitt núna með því að skora eindregið á ríkisstj. að draga frv. til baka aftur, taka upp í fullri alvöru samninga við verkalýðshreyfinguna tafarlaust, eyða ekki orkunni í lengra þras um málið hér á Alþingi, heldur taka tafarlaust upp samninga við verkalýðshreyfinguna. Það eitt er áreiðanlega það, sem þjónar bæði atvinnuvegunum miklu betur en þetta frv. og stefna þess hlýtur að marka - og þjóðfélaginu í heild.