04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (1836)

56. mál, launamál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, vegna þess að tveimur fsp. var til mín beint. Ég skal reyna að haga svari mínu þannig, að það gefi ekki hv. fyrirspyrjanda né heldur neinum öðrum tilefni til að lengja þessar umr., úr því sem orðið er, enda nú orðið áliðið nætur.

Ég verð að segja það, gera þá játningu, að frá því að ég kynntist hv. 3. þm. Vestf., hefur mér persónulega alltaf verið hlýtt til hans, eiginlega sérstaklega hlýtt til hans, ekki hvað sízt vegna þess, að okkar kunningsskapur á rót sína að rekja til þess, er við tveir ásamt fyrrv. formanni Framsfl., Hermanni Jónassyni, lögðum land undir fót sumarið 1956 og lögðum okkur alla fram, allir þrír sameiginlega, um það að tryggja honum kosningu til Alþingis á því sumri. (SE: Ja, nú fer ég að tala aftur.)

Og það tókst að tryggja hv. þm. kosningu. Ég var lengi vel mjög stoltur af þeim þætti, sem ég átti í því að tryggja hv. 3. þm. Vestf. sæti á Alþingi, og hef satt að segja ekki fyrr séð neina ástæðu til að sjá eftir því, fyrr en ég heyrði ræðu hans hér áðan og sá, að hún bar vitni um minni skilning á ýmsum grundvallaratriðum í efnahagsmálum en ég hefði vænzt af manni, sem er búinn að eiga sæti á Alþingi í 7 ár, og ég vil einkum og sér í lagi segja: en ég hefði búizt víð eftir þeim ágætu kynnum, sem ég hafði af okkar hörðu, sameiginlegu kosningabaráttu sumarið 1956, því að það verð ég að segja, að þar stóð hv. þm. sig sérstaklega vel á hverjum kosningafundinum á fætur öðrum, var hinn vígfimasti og gunnreifasti, og mér fannst hann þar yfirleitt bera mikið sigurorð af sínum andstæðingum í í þeirri kosningabaráttu. (Gripið fram í: Var ekkert talað um vísitöluna?) Sem betur fer okkar sameiginlega málstað var ekkert talað um vísitöluna þá. Ég er hræddur um, að ég hefði ekki komið jafnstoltur úr þessum kosningaleiðangri, ef vísitöluna hefði borið á góma, eftir því sem ég nú hef orðið vísari. En sleppum nú þessu öllu saman. Þó að ég hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum af túlkun hv. þm. og lýsingu hans á skilningi sínum á því, hvernig vísitalan er til komin, og skilningi sínum á því, hvernig beri að meta raunverulegar kjarabætur launþegastétta, þá stendur sú skoðun mín á honum alveg óbreytt, sem ég fékk í þessum kosningaleiðangri, að hann er orðhagur maður, sérstaklega á bundið mál, skemmtilegur ræðumaður, og ég held, að hann ætti frekar að halda sér á pólitíska sviðinu en ræða jafnþurr og leiðinleg efnahagsmál og vísitölumál og kjarabætur launþega líklega eru, a.m.k. áreiðanlega í hans augum. — Svo örfáar setningar til svars þeim fsp., sem hann beindi til mín.

Hann spurði: Skildi ég viðskmrh. rétt, að hann hefði haldið því fram, að vísitalan, eins og hún hefði verið reiknuð alveg síðan hér var farið að reikna út vísitölu, eigi ekki að sýna, hvað launþegar þurfi til þess að standa straum af sínum framfærslukostnaði? — Það er alveg rétt hjá hv. þm. Það var og er skoðun mín, að þetta eigi vísitala framfærslukostnaðar ekki að sýna og hafi aldrei átt að sýna. Sú vísitala, sem nú er reiknuð út mánaðarlega, var fyrst reiknuð út í ársbyrjun 1960. Þá var grundvöllur vísitölunnar 66 182 kr. Þessar 68 182 kr. voru meðaltekjur þeirra manna, sem fengnir höfðu verið til að halda búreikninga, og vísitölugrundvöllurinn sýnir, hvernig þessar 66 182 kr. tekjur skiptast samkv. nákvæmum búreikningum milli hinna einstöku útgjaldaliða þessara fjölskyldna að meðaltali. M.ö.o.: þessar 66 182 kr. eru hlutfallsleg skipting á útgjöldum, sem eru sama og tekjur þessara fjölskyldna, sem fengnar voru til þess að halda búreikningana, tekjuskiptingin samkv. búreikningum, M.ö.o.: hér er um að ræða, eins og ég sagði í dag og hef áreiðanlega sagt oftar, hlutfallslega skiptingu á ákveðnum tekjum, sem ákveðinn fjöldi fjölskyldna hefur haft á ákveðnu ári, sem við er miðað.

1. okt. s.l. nam þessi útgjaldaupphæð, kostuðu þessar sömu vörur og þessi sama þjónusta, ef allt er tekið með, 95 496 kr. M.ö.o.: nákvæmlega sömu vörurnar og sama þjónustan, þegar tekið til tillit til alls, sem kostaði 66 182 kr. 1. jan. 1960, kostuðu 1, okt. s.l. 95 496 kr. Í hvorugri tölunni er fólgið nokkurt mat hagstofunnar eða nokkurs annars aðila á því, að nein ákveðin fjölskylda þurfi nákvæmlega þetta sér til lífsviðurværis. Þannig hefur talan aldrei verið hugsuð. Annars staðar í heiminum eru til slíkar vísitölur, þar sem útgjöld fjölskyldunnar eru búin til, reiknuð, þar sem gerð er tilraun til að meta, hvað menn þurfi sér til lífsviðurværis. Mjög víða um lönd eru slíkar vísitölur til. En það hefur aldrei verið gerð tilraun til þess að semja neina slíka vísitölu hér á landi. Þegar slíkar vísitölur eru reiknaðar út, er tekið tillit til neyzluvenjubreytinga, sem verða frá ári til árs eða á hverju 3–5 ára tímabili, vegna þess að miklar breytingar verða á neyzluvenjum manna, og þess vegna telja sumir hagfróðir menn slíkar vísitölur, eins og hv. þm. gerði að umtalsefni, að mörgu leyti réttari og æskilegri til viðmiðunar heldur en þá tegund vísitölu sem við höfum hér, þar sem ekkert tillit er tekið til þeirra breytinga, sem verða á neyzluvenjum, og þar sem ekkert tillit er tekið til þeirra hlutfallslegu breytinga, sem verða á útgjöldum fjölskyldnanna frá ári til árs, eða á 5 eða 10 ára tímabili. Einmitt þetta veldur því, að núv. vísitala er án efa orðin eitthvað röng á því tímabili, sem hún hefur verið í notkun, einmitt vegna þess að, tekjur manna hafa breytzt mjög mikið og í kjölfar þess hafa neyzluvenjur manna breytzt. Þetta eru höfuðrökin fyrir því, að vísitalan er áreiðanlega ekki eins réttur mælikvarði á raunveruleaar verðlagsbreytingar og þess vegna ekki eins réttur mælikvarði til notkunar við mat á rannverulegum tekjum og æskilegt væri.

Í sambandi við þetta stendur einnig það, sem hv. þm. sagði og beindi fsp. til mín um, hvernig háttað væri vísitöluliðum í vísitölunni. Það er auðvitað alveg rétt, að ef menn leggja þann mælikvarða, sem hann vill leggja á vísitöluna, þá er það auðvitað fjarri öllu lagi að reikna húsnæðiskostnaðinn 900 kr. á mánuði í vísitölunni. En einmitt að því er þennan vísitölulið snertir kemur greinilega fram þýðing þess, að vísitalan er ekki og á ekki að sýna. hver útgjöld eru nauðsynleg til framfærslu þeirrar fjölskyldu, sem í hlut á, heldur sýnir hún hlutfallslegu breytinguna, sem verður á kostnaði hvers einstaks liðar í vísitölugrundvellinum. Þess vegna skiptir ekki höfuðmáli, hvort húsaleigan er nú metin á 900 kr., 1000 kr. eða 2000 kr. Það, sem skiptir máli í sambandi við mat á því, hvort vísitalan er rétt eða röng, er það, hver hefur orðið hlutfallslega breytingin á húsaleiguliðnum í framfærsluvísitölunni frá 1960 til dagsins í dag. Þess vegna er það villandi að gera vísitöluna stöðugt tortryggilega á þeim grundvelli, að húsaleiguliðurinn í henni sé í beinum tölum of lágur. Það skiptir ekki höfuðmáli í sambandi við það, hvort vísitalan er rétt eða hvort hún er röng. Hitt skiptir meginmáli, hver breyting hefur orðið á tölunni, sem gilti 1. jan. 1960, og þeim tölum, sem gilda 1. okt. 1963, nú í ár. Ég hef því miður ekki vísitölugrundvöllinn hér hjá mér bæði árin, svo að ég get ekki nefnt þessar tölur, en ég vona, að allir hv. þm., að meðtöldum hv. 3. þm. Vestf., hafi gert sér ljóst, að þetta er mergurinn málsins, en ekki hitt, sem hann og svo margir aðrir hafa áður vitnað til í þessu sambandi.

Svo er hin fsp., sem hann beindi til mín, hvernig ég gæti fengið það út, sem ég hafi sagt í tíma og ótíma, að lífskjör launastétta á undanförnum árum hefðu verið að breytast til batnaðar, þegar ég hefði sjálfur sagt frá því nú síðast í grein í Álþýðublaðinu, að því er hann sagði, að kauptaxtar, — hann virtist hafa skilið það þannig, að það væru kauptaxtar Dagsbrúnarmanna að meðaltali, það, sem ég sagði, var auðvitað, að kauptaxtar verkalýðsfélaganna yfirleitt hefðu hækkað um 45% síðan í ársbyrjun 1960, en vísitalan 1. okt. hefði verið 44% hærri en hún hafði verið í ársbyrjun 1960. Þetta hafði ég sagt í grein í Alþýðublaðinu og hef sagt við ýmis tækifæri önnur til þess að undirstrika, að sú hækkun, sem launþegar hafa fengið með taxtahækkun, hefur étizt upp af verðlagshækkununum á sama tímabili. Þetta eru ómótmælanlegar tölulegar staðreyndir. Þessar tölur hef ég ekki reiknað út, heldur liggja þær fyrir í opinberum skýrslum.

Hvernig stendur þá á því, að ég hef leyft mér að staðhæfa, að þrátt fyrir þetta hafi lífskjör launþega batnað síðan í ársbyrjun 1960? Ef hv. þm. hefði lesið svolitið meira í greininni, sem var ekki nema sem svarar tveimur dálkum í Alþýðublaðinu, stendur það, sem ég hef sagt við ýmis tækifæri önnur, að auðvitað eru breytingar á kauptöxtum enginn mælikvarði á tekjur manna, hvorki á peningatekjur manna né heldur á raunverulegar tekjur manna, og hélt ég satt að segja, að óþarfi væri að beina til manns sérstakri fsp. varðandi þetta atriði. Það stendur í greininni, 5 eða 6 línum neðar en tölur þær, sem vitnað er til, að athugun hefði leitt í ljós, að áratekjur verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna samkv. eigin skattaframtölum þessara stétta mundu samkv, gildandi töxtum í ár vera um 65% hærri á árinu 1963 heldur en þær voru á árinu 1959, m.ö.o. peningatekjurnar hafa vaxið mun meira en taxtarnir, og þetta er staðreynd, sem ég hélt að öllum hv. þm. og öllum almenningi í landinu væri yfirleitt alveg fullljós og fullkunn. Það er vegna þessa, að árstekjurnar hafa vaxið um 65% á því sama tímabili, sem taxtarnir hafa ekki hækkað nema um 44%, sem ég hef leyft mér að staðhæfa, að lífskjör þessara launastétta: verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna, hafi batnað mjög verulega á undanförnum 4 árum.

Í þessu vona ég að megi teljast svar við fsp. hv. þm. og að hann þurfi ekki að tortryggja þessar tölur, vegna þess að það á ekki að vera tortryggnisatriði í hans augum, að ég hafi reiknað þessar tölur út, þær liggja allar saman fyrir í opinberum skýrslum og ég hef engan hlut átt að þeim átreikningi, sem þar er um að ræða, heldur er hann gerður af öðrum, sérfróðum mönnum. Það, sem ég hef gert, er það eitt að skýra frá þessum niðurstöðum. Það hef ég gert með því að fara rétt með þær tölur, sem opinberlega liggja fyrir, og það vona ég að verði ekki talin goðgá.